Geimferð V: Síðasta stráið

Star Trek V: The Final Frontier fjallar um bróður Spock sem er sjónvarpspredikari. Bróðir Spock tekur fanga á einhverri ömurlegri plánetu til að geta rænt geimskipi. Geimskipið þarf hann til að finna guð. Hugsanlega Guð með stóru Géi. Bróðirinn heilaþvær alla nema Kirk sem eru að sjálfsögðu of mikið brill til að falla fyrir svoleiðis. Í því atriði nær William Shatner að sýna enn og aftur að hann er leikari hræðilegur mjög.

Búningarnir er líkir þeim sem voru í fyrri myndum fyrir utan að aðalpersónurnar fá að vera brúnum peysum í byrjun, minna mig svoltið á svörtu peysuna mín en samt ekki jafn þykkar.

Geimferð IV:Heim í heiðardalinn

Spock leikstýrir Star Trek IV:The Voyage Home. Þessi er mynd er að mestu leyti gamanmynd og oft mjög fyndin. Risastór hlutur kemur í átt að Jörðinni og gerir flesta tækni óstarfhæfa. Hluturinn er kominn til að spyrja hvalina hvers vegna þeir hafi ekki hringt, hvalirnir hafa ekki hringt af því þeir eru dauðir. Eina leiðin til að bjarga Jörðina er að ferðast aftur í tíman (með oftreyndri aðferð) og ná í hvali.

Áhöfnin velur að fara til Jarðarinnar á seinnihluta 20. aldar (1986 líklega) í stað þess að fara á eitthvað annað tímabil þar sem auðveldara hefði verið að felast og þar sem hvalategundin sem leitað er að er algengari (en þeir vita viti sínu, það hefði verið miklu dýrari mynd, betra að fara bara á götur San Francisco). Gamanið er mest að sjá áhöfnina bregðast við árinu 1986 (oft reyndar bjánalegir brandarar).

Inn í málið blandast hvalavísindamaður og norskir (eða íslenskir) hvalveiðimenn sem eru að veiða við Alaska (jamm, Alaska). Sem minnir mig á að hugsanlega eru fréttamyndir af því þegar er verið að sundurlima hval frá Íslandi. Myndin er frá þeim tíma þegar það var svalt að hugsa um umhverfismál (ólíkt nútímanum þar sem virðist vera svalt að vera sama um þau) en þarna koma þó fram undarlegar hugmyndir um hvali sem hefði alveg mátt sleppa.

Í lok myndarinnar standa allir upp og klappa en það fellur í skuggan af því hve hræðilegur leikari William Shatner er.

Búningarnir eru svipaðir og í síðustu mynd en búningur Spock stendur uppúr.

Geimferð III:Spock er týndur

Star Trek III:The Search fjallar um leit áhafnar Enterprise að Spock, þau hefðu átt að líta bak við myndavélina því hann leikstýrir myndinni. Myndin er ein af fáum oddatölu Star Trek myndum sem eru góðar, frekar skemmtileg í gegn með frábærum dramtatískum atriðum þar sem William Shatner fær að sýna hve slæmur leikari hann í raun er.

Christopher Lloyd leikur klingona í þessari mynd sem sækist eftir tækninni sem kom fram í síðustu mynd. Kirstie Alley var orðinn of merkileg til að leika í Star Trek þannig að einhver önnur leikur hana.

Búningarnir í þessari eru mjög svipaðir þeim sem voru í The Wrath of Khan enda gerist myndin nær strax á eftir þeirri mynd.

Geimferð II:Khan Verður Fúll

Star Trek II:The Wrath of Khan er í raun framhald af gömlum Star Trek þætti sem ég hef ekki séð. Í stuttu máli er titilpersónan Khan fúll út í Kirk vegna atburða í gömlum þætti. Byrjað er að finna afsakanir til að draga persónurnar inn í atburðarásina þó margir þeirra séu löngu farnir af Enterprise. Kirstie Alley leikur Vúlkana í þessari mynd. Inn í málið fléttist tilraunatækni sem hefur kraft til að eyða heilli stjörnu og konan sem stendur á bak við þær rannsóknir.

Búningarnir í þessari mynd eru svoltið einsog þeir hafi verið hannaðir fyrir hallærislega 80s hljómsveit.

William Shatner er afar vondur leikari.

Geimferð:Hreyfimyndin

Ég hef ákveðið að horfa á allar Star Trek myndirnar. Fyrst í röðinni er fyrsta myndin, hún heitir Star Trek:The Motion Picture. Hún gerist um 10 árum eftir að fyrstu þáttaröðinni lauk, Kirk er orðinn háttsettur innan StarFleet og Spock er að reyna að hreinsa burt allar tilfinningar sínar.

Fyrsti hluti myndarinnar fer í að koma þeim og öðrum persónum inn í atburðarásina. Þetta gerir þann sem var að taka við stjórn Enterprise ekki glaðan en það er leikarinn Stephen Collins sem ég man eftir úr þáttaröðinni Tales of the Gold Monkey. Efast um að nokkur muni eftir þeirri þáttaröð nema ég, það var svalur Japani þarna sem aðalóvinur í þjónustu einhverrar prinsessu, þetta kemur Star Trek ekkert við.

Stórt ský er á leið til Jarðar og það virðist vera fúlt, Enterprise fer af stað til að stoppa það. Eyðilegg söguþráðinn ekki frekar.

Myndin eyðir óhemjutíma í að sýna okkur þessar frábæru tæknibrellur. Það virkaði kannski 1979 en rúmlega 20 árum seinna er búið að gera þetta allt þúsund sinnum betur þannig að það mætti gera stytta útgáfu af myndinni án þeirra.

Búningarnir í þessari mynd eru þröngir og virðast vera gerðir til að sýna að Shatner er svoltið buff á þessum tíma. Sem minnir mig á að William Shatner er arfaslæmur leikari. Reyndar eru fáir leikarar í þessari mynd sem eru góðir.