Að meika það í Finnlandi

Á egósörfi fann ég þennan skemmtilega texta:

Óli Gneisti Sóleyjarson (Islannin yliopisto, Reykjavik) edusti pelitutkimusta esitellessään MMORPG-peliä (Massively Multiplayer Online Roleplaying Game) EvE Online folkloristiikan näkökulmasta. Pelissä tulevaisuuteen sijoittuvat pelaajat taistelevat vallasta, rahasta ja avaruuden hallinnasta. Antoisaa esityksessä olivat havainnollistavat näytteet siitä, miltä peli näyttää, miten hahmot puhuvat ja miten peli toimii. Sóleyjarson keskittyi pohtimaan yhden pelaajan kuolemaa ”tosielämässä”(engl. real life) ja sitä, miten se näkyi itse pelissä ja vaikutti pelaajiin. Osa pelaajista oli esimerkiksi roolihahmoa pelin säännöillä itse pelin sisällä toisten kritisoidessa sitä, ettei peliä ja todellista elämää tulisi sotkea toisiinsa. Selvää kuitenkin oli, että yhteisö merkitsi pelaajille paljon, vaikkeivät he koskaan olisi kasvokkain tavanneetkaan. Esityksen jälkeen ryhmässä pohdittiin tosielämän ja pelin yhteenkietoutumista.

Ég setti þetta í þýðingarvél og fékk þar með staðfestingu á því að þarna er verið að fjalla um fyrirlesturinn sem ég flutti í Derry í fyrra. Ég verð að játa að ég varð alveg rosalega glaður að sjá þetta. Sú sem skrifaði þetta var líka með fyrirlestur á sama tíma og ég og samkvæmt þýðingarvélinnin þá hefur hún verið að hlusta á það sem ég sagði.

Haldið upp á útskrift

Í gær hélt ég ekki upp á útskrift og ætla heldur ekki að gera það í dag. Ég hélt upp á þrítugsafmælið mitt fyrr á árinu og fannst það nóg. Á morgun fæ ég hins vegar nokkra í kvöldmat sem hafa fylgt mér í meistaranáminu og fæ mér Ouzo með þeim.

Þegar ég fékk BA-gráðuna hélt ég upp á það á sunnudeginum en fór bara í veislu hjá öðrum á sjálfan útskriftardaginn. Það var um kvöldið í Friðarhúsinu og það voru Sverrir Aðalsteinn og Auður Lilja sem voru að útskrifast. Mér þótti því skemmtilegt að mér var boðið í veislu í gær í Friðarhúsinu hjá Steinunni Rögnvalds (mágkonu Auðar) og Þórhildi (systur Sverris). Ég ákvað að mæta án þess þó að tilkynna að ég tæki þar á móti gestum og gjöfum.

Það var mikið af skemmtilegu fólki þarna. Aðallega róttæklingar. Hápunktur kvöldsins náðist með skemmtilegum söng anarkistana.

Ég lenti þarna í samræðum við mann sem ég hef oft heyrt um. Þessar samræður byrjuðu af alvöru þegar hann spurði mig hvor ég væri ekki mikill t…. og síðan heyrði ég ekki rest. Ég hugsaði með mér “ónei, einhverjar umræður um trúmál” en síðan endurtók hann þetta og var þá að spyrja hvort ég væri ekki mikill Týsaðdáandi. Það er nú eitthvað sem er mikið skemmtilegra að spjalla um og við eyddum miklum tíma í umræður um þessa uppáhaldshljómsveit mína. Spjallfélaginn var Márus, bróður Sverris og Þórhildar.

Ég fékk líka tækifæri til að sjá minn hluta af myndasýningunni sem hefur verið þarna uppi síðan í apríl. Þarna eru myndir úr Búsáhaldabyltingunni en mínar eru allar af hinum ýmsustu skiltum enda var ég þarna aðallega í hlutverki þjóðfræðings. Mínar myndir eru því alls ekki jafndramatískar og margar aðrar þarna heldur sýna sköpun almennings sem er að ganga í gegnum óvissutíma. Það heillar mig einmitt og það eru einmitt góð rök fyrir því að ég hafi valið mér rétt nám.

Útskrifaður

olima
Óli Gneisti Sóleyjarson meistari

Ég var að fá í hendurnar prófskírteini sem staðfestir að ég er með meistaragráðu í þjóðfræði. Í gríni get ég sagt að ég hafi loks verið að klára MA – tíu árum á eftir áætlun. Ég var ákaflega snemma í röðinni, númer 21, og ákvað að fara skömmu eftir það svo ólétta konan mín gæti komist heim að slaka á (37 vikur í gær). Ég þekkti marga á sviðinu. Einn fyrrverandi kennari, hann Jón Torfi, var þar og síðan ýmsir sem ég hef umgengist í námi, starfi og sem hagsmunafulltrúi nemenda.

Ég ákvað að heiðra tengsl mín við keltneskar þjóðir með klæðaburði mínum. Fyrsti áfanginn sem ég tók á meistarastigi var Menningararfur Skota (þó hann hafi raunar bara kallast Menningararfur) og síðan augljóslega þrír mánuðir á Írlandi.

Ég ákvað að uppfæra strax síðuna mína hér til hliðar (Um Óla) en mig grunar að ég þurfi að uppfæra hana aftur innan skamms.

En já, ég er kátur.

Lokafrágangur

Á morgun fæ ég athugasemdirnar frá Terry og get því farið að ganga endanlega frá ritgerðinni. Ég veit ekki alveg hvað það tekur langan tíma en vonandi frekar stuttan miðað við það sem hann sagði. Þá verð ég bara ekkert lengur meistaranemi heldur óformlegur meistari. Ég verð formlegur meistari 20. júní. Ég held að ég hafi verið að setja hraðamet með því að vera bara þrjú ár í gegnum meistaranámið í þjóðfræði. Eggert segist ætla að slá metið. Sjáum til með það.

Allt í einu er útskriftarfögnuður úrlausnarefni. Þetta er ekki beint heppilegur tími fyrir stóra veislu. Eygló verður með breiðasta móti komin 37 vikur á leið. Eina sem ég var eiginlega búinn að ákveða var að hitta fólkið sem var með mér í Rannsóknir í þjóðfræði, kúrs dauðans. Tommi verður nefnilega á landinu.

En ég er ekki verkefnalaus. Akkúrat núna er ég að slengja saman útdrætti fyrir Þjóðarspegilinn sem verður núna í október. Það ætti að vera fyrirhafnarminna en síðasta grein. Þá skrifaði ég grein fyrst á ensku, þýddi hana síðan á íslensku og innlimaði hana að lokum í ritgerðina sjálfa. Núna er ég að taka kafla úr ritgerðinni og breyta í grein. Ég er líka svo heppinn að núna get ég vitnað í sjálfan mig.

Síðan er framtíðin frekar opin. Ég finn mér augljóslega eitthvað að dunda við. Það er ótal margt á teikniborðinu.

Sent

Ég hef þá sent Terry ritgerðina mína. Hún er 215 blaðsíður með heimildaskránni. Það er engin ofsakæti hjá mér. Ég er aðallega bara þreyttur. Þetta er ekki alveg búið því prófdómari getur komið með athugasemdir sem ég má taka tillit til. En allavega er núna engin ritgerð yfir höfðinu á mér.

Of hugsandi

Það er alltaf erfitt að sofna þegar eitthvað áhugavert herjar á hugann. Ég get valið um að hugsa um kosningar, væntanlegt barn eða ritgerð. Það að ég sé á netinu núna þýðir að ég hef gefist upp í bili. Skelli kannski einum Seinfeld þætti í eða eitthvað.

Ritgerðin er það eina sem ég get raunverulega haft áhrif á núna. Hún gengur vel. Ég skila á mánudag. Fæ síðan athugasemdir frá prófdómara þegar sá hefur lesið þessar tvöhundruð blaðsíður og ég get þá lagað eitthvað til. Síðan eru lokaskil. Einkunn ekki síðar en 29. maí skilst mér.

Það er ótrúlega notaleg tilhugsun að hafa ritgerðina ekki hangandi yfir sér. Hún hefur verið á öxlunum mínum allavega frá því að ég kláraði fyrstu önnina í meistaranáminu. Það að ég vann í ár hægði mikið á mér en um leið og ég hafði tíma dreif ég þetta í gegn.

Von er á barninu í júlí þannig að mig grunar að undirbúningur fyrir það muni verða áberandi þegar ritgerðinni hefur verið lokið. Heilinn fær að skipta um gír.

En þetta er bara raus ósofins manns.

Blaðsíða 145 og væntanlegur prófarkarlestur

Ég held ég sé á blaðsíðu 145, um það bil. Það er ágætt. Ég sé fram á að klára fyrsta uppkastið af heildinni á næstu tveimur vikum eða svo. Það sem tekur við er kannski erfiðara. Ég mun þá fara að endurskrifa fyrri kafla, dýpka þá og laga. Það gæti orðið erfitt en ég stefni á útskrift í júní sem þýðir að ég hef rétt rúman mánuð.

Er einhver þarna úti sem langar að prófarkarlesa cirka 160-180 blaðsíðna þjóðfræðiritgerð um Eve Online? Ég get fullyrt að hún er áhugaverð hvort sem þú spilar leikinn eða ekki. Hafið samband.