Vindaloo á Kitchen

Á þriðjudagskvöldið fórum við Eggert á indversk-nepalska staðinn Kitchen. Ég hafði farið þangað áður. Í þetta skiptið var markmið mitt að prufa vindaloo staðarins. Ég fékk fyrstu viðvörun þegar ég pantaði. Það stemmdi líka. Þetta var sterkt. Starfsfólkið horfði líka á mig mjög reglulega að því er virtist til að sjá viðbrögð mín við matnum. Kokkurinn kom líka og bauðst til að gera þetta mildara sem ég afþakkaði. Ég passaði mig á að geyma nanbrauðið eiginlega alveg þar til síðast. Það hjálpaði við að kæla mig niður. Ég fékk líka smakk af matnum hans Eggerts eftir að ég hafði klárað minn mat til að kæla mig aðeins. Það dugði. Eggert fékk líka bita af vindaloo og skipti litum.

En aðalatriðið er að bera þetta saman við það sem ég fékk fyrir norðan á Indian Curry Hut. Í fyrsta lagi grunar mig að þetta á Kitchen hafi verið sterkara. Hins vegar hafði það minni áhrif á mig en það sem ég fékk í Karrískúrnum. Ég svitnaði til dæmis ekki neitt. Þar réði ekki sterkleiki matarins heldur að ég borðaði hraðar. Aðalatriðið var að vindalooið fyrir norðan var töluvert betra. Ég fann til dæmis enga þörf á að borða sem mest af sósunni. En ég held að ég fái mér ekki vindaloo aftur í bráð. Það er auðvelt að drepa sterka bragðið í munninum og hálsinum en áhrifin á aðra hluta meltingarvegsins eru erfiðari.

Indian Curry Hut

Þegar maður fer aftur í heimabyggð þá fylgir því að fara á veitingastaði sem maður borðaði oft á hér áður fyrr. Þegar við skruppum til Akureyrar um daginn ákváðum við að gera svolítið öðruvísi. Við keyptum mat á Indian Curry Hut.

Staðurinn er í götunni sem ég vil kalla göngugötuna þó bílum hafi verið hleypt á hana aftur. Húsið er gamall söluturn sem var í niðurníðslu í langan tíma. Bara fyrir að hafa lífgað upp á miðbæinn með þessum hætti fá eigendurnir stóran plús.

Við vorum fjögur og keyptum okkur fjóra rétti. Eitt það góða við indverskan mat er að maður getur auðveldlega deilt réttum. Þetta þýddi um leið að við gátum keypt okkur sterkasta réttinn á matseðlinum vitandi að þó maður yrði ekki hrifinn þá væri nægur matur til. Við keyptum því Vindaloo kjúkling sem ég hef oft heyrt um en man ekki eftir að hafa séð áður á íslenskum indverskum veitingastöðum.

Ég féll alveg fyrir þessu. Ég sá bara eftir því að þurfa að deila þessu með hinum. Sem betur fer þótti Hafdísi og Eygló þetta fullsterkt þannig að þær voru mest í hinum réttunum. Tikka Masala kjúklingurinn var líka góður, hugsanlega sá besti sem ég hef smakkað en miðað við Vindaloo var hann frekar óspennandi.

Það er því nokkuð ljóst að ég hef fundið mér nýjan stað til að fara á í gamla bænum. Ég er reyndar nokkuð viss um að ég mun bara stökkva sífellt og endalaust á Vindaloo af því að þetta er satt best að segja besti indverski rétturinn sem ég hef smakkað.

Verðið var líka fínt, kostaði rétt um 2000 á mann með aðalrétt og naan brauðum.

Tveir þumlar upp. Kíkið á þetta.

Matseðlar og verð

Ég er mjög hrifinn af því þegar veitingastaðir hafa matseðla og verð fyrir utan staðinn sjálfan þannig að maður geti rölt á milli og skoðað. Um leið er ég hrifinn af því að veitingastaðir setji slíkt á heimasíður sínar. Mér líkar við ítarlega matseðla sem segja nákvæmlega hvað er í réttinum.

Við Eygló erum að nýta frelsið og förum reglulega út að borða og í bíó. Á þriðjudaginn ætluðum við að prufa veitingastaðinn Volare. Ég fann heimasíðuna en þar er enginn matseðill. Þeir segja að það sé vegna þess að þeir vilji breyta honum reglulega eftir því hvaða hráefni er til. Sjálfur skil ég ekki alveg hvað er svona erfitt við að uppfæra heimasíðu á hverjum degi. Væntanlega eru þetta yfirleitt einhverjir af sömu réttunum þannig að þetta er klippilímivinna.

Við ákváðum að kíkja þarna samt. Það var matseðill fyrir utan. Vandinn var að hann var handskrifaður og illlæsilegur. Þar komu bara fram nöfnin á réttunum sem voru ekkert kunnugleg eða girnileg. Það gæti vel verið að eitthvað hafi verið stórgott þarna en aðstendur Volare virtust ekki spenntir að upplýsa okkur um það.

Við ákváðum því að trítla upp að öðrum stað aðeins fyrir ofan. Á leiðinni rákumst við á Núðluhúsið og matseðilinn þar. Við ákváðum því bara að stökkva þangað og borða. Allt mjög greinilegt og augljóst. Líka myndir með. Ég var sáttur með að hafa ekkert verið að eltast við Volare.

Skroppið á Austurvöll

Ég skrapp niður á Austurvöll í dag. Það var Vantrúarhittingur með stuttum fyrirvara. Það var skemmtilegt að vanda. Ég keypti mér mat á Ali Baba sem er nýr kebab staður. Ég lenti í töluverðum vanda með að velja rétt þar sem innihaldslýsingar vantaði og engar myndir voru af réttunum. Ég og afgreiðslumaðurinn áttum frekar erfitt með samskipti. Ég endaði því með súrar gúrkur í matnum mínum sem er eitthvað sem ég vildi alls ekki. Ég vona að þeir lagi þetta aðeins því mér finnst sárlega vanta almennilegt kebab hérna.

Eldbakan svíkur

Áðan fórum við Eygló á pizzustað sem heitir Eldbakan og er í Ögurhvarfi. Við vorum vopnuð miða frá Einkaklúbbnum um að við ættum að fá tvær pizzur á verði einnar og sýndum miðann þegar við pöntuðum. Pizzurnar voru frekar lengi á leiðinni og allavega var mín frekar óspennandi. Á henni var voðalega subbulegt beikon og af einhverjum ástæðum fékk ég piparost en ekki rjómaost.

Þegar Eygló fór að borga var henni tilkynnt að þar sem eigendaskipti hefðu verið frá því að samið hefði verið við Einkaklúbbinn þá væri tilboðið ekki lengur gilt. Það hefði nú kannski verið í lagi ef okkur hefði verið tilkynnt það þegar við pöntuðum en það er fráleitt að koma með eitthvað svona eftir á.

Ef þið viljið eldbakaðar pizzur farið þá á Rizzo eða Eldsmiðjuna en forðist Eldbökuna, hún svíkur.

Brúnuðu meikaðar

Í gær og í kvöld tókst mér að gera nokkuð sem ég hef ekki áður náð: Góðar brúnaðar kartöflur. Mitt vandamál hefur aldrei verið að karamellan harðni heldur hefur bragðið bara ekki verið spennandi. Í gær ákvað ég að negla bara slatta af sýrópi út í og líka meiri rjóma en áður. Þar að auki sauð Eygló kartöflurnar vel og lengi þannig að þær drukku þetta dáltið í sig. Útkoman var frábær. Ég er glaður með þetta.