Pizza með sveppum og piparosti

Í gær var hittingur bókasafns- og upplýsingafræðinörda heima hjá Halla. Spiluðum Dilbert spilið og borðuðum pizzur.

Við Eygló sáum um að panta og ná í pizzurnar. Eftir að hafa skoðað tilboð hér og þar í veikri von um að finna sambærilegt verð við Dominos sáum við að Pizzahöllinn var með 40% afslátt af sóttum pizzum. Við pöntuðum þrjár pizzur og hvítlauksbrauð með góðum fyrirvara. Á leiðinni út á bílaplan sáum við mann koma út úr öðrum stigagangi með pizzukassa. Við sáum hann aftur niðrí Mjódd þegar hann kom inn í Pizzahöllina. Hann var að skila pizzu með röngum áleggjum. Á staðnum var líka frekar pirrað par að bíða eftir pizzum sem hafði greinilega verið klúðrað. Starfsmönnum til varnar þá var tölvukerfið þeirra í rugli.

Það fyrsta sem við gerðum þegar við fengum pizzurnar í hendur var að kíkja hvort allt væri rétt. Ein var svolítið undarleg. Hún var bara með sveppum og piparost. Mjög spes blanda. Við fengum nýja pizzu og fengum að hirða þá undarlegu sem var víst alveg ágæt. Pizzurnar voru líka bara nokkuð góðar og við munum væntanlega snúa okkur þarna niðureftir í framtíðinni.

Engir turnar

Ég keypti mér bókina In the Shadow of No Towers eftir Art Spiegelman höfund Maus. Í bókinni fjallar hann um persónulega reynslu sína af 11. september og eftirköstum árásanna en hann bjó í næsta nágrenni við Tvíburaturnana. Áhrifaríkast var þegar hann talaði um hvernig hann missti í samsæriskenningum um árásirnar.  Hann áttaði sig loksins á því að í raun skipti engu máli hvað ríkisstjórnin vissi fyrirfram en öllu máli skipti hvernig hún hefði misnotað sér atburðinn til að ráðast að persónufrelsi eigin borgara og hefja stríð.


Áðan gerði ég tilraun með eggjaköku sem fólst í því að nota sæta chilisósu út í blönduna. Mjög nammilegt. Annars er ég bara heima í kvöld á meðan Eygló er í saumaklúbb, áður en hún fór henti hún í mig badmintonreglubók sem ég á væntanlega að lesa yfir fyrir morgundaginn.

Raunverulega lífið og áramótin

Við Eygló skruppum áðan í bíó. Sáum ekki neitt sem okkur fannst beinlínis spennandi. Eygló stakk upp á Dan in Real Life sem ég vissi ekkert um. Hún var fyndin á mannlegan hátt. Mæli alveg með henni.

Áramótin voru voðalega notaleg. Við björguðum Hjördísi frá þessu partíi og kvöddum Eggert sem er núna væntanlega á Löven.

Maturinn heppnaðist ágætlega. Kartöflurnar betri en á aðfangadagskvöld en ekki nógu góðar (meiri rjómi). Við tækifæri þarf ég að yfirheyra Arnheiði um það hvernig hún gerir þetta því hennar brúnuðu kartöflur eru þær bestu. Ísinn var góður en undarlegur. Frábært að nota alvöru vanillufræ út í. Mjög jömmí.

Að elda fyrir 16 manns

Í kvöld eldaði ég mat fyrir 16 manns. Það var reyndar óljóst hve margir kæmu og í raun vissi ég það ekki fyrren maturinn kláraðist. Fjórir Tékkar, þrír Þjóðverjar, þrír Grikkir, tveir Ítalar, einn Slóvaki, ein austurrísk, ein bandarísk og síðan einn Íslendingur. Nokkrir komust ekki sem ætluðu að koma, til dæmis Steinunn og herra sem fóru óvart í öfugan enda bæjarins.

Ég var á þjóðlegu nótunum í kvöld og bauð upp á íslenska sérrétti. Tópas, Brennivín og harðfiskur. Angelica var mjög skotinn í harðfisknum og Marketa hóflega. Almennt var fólk hrifnara af Brennivíni en Tópas. Ég smakkaði sjálfur hið fyrrnefnda í fyrsta skipti og þótti það ógeðslega vont. Tópas er hins vegar gott og ég fékk mér smá af því.

Þegar á leið þá var mér gefið glas af Ouzo, sem ég held að sé skrifað svona, og þótti bara gott. Anísbragðið hitti í mark. Mér var líka gefið Raki sem mér fannst minna á terpentínu og þurfti að fá mér smá Tópas til að drepa bragðið.

Kvöldið byrjaði ekki vel, ég náði ekki Antoniu og þurfti því að undirbúa matinn hérna, skera kjúklinginn og svona. Bar síðan allt draslið þvert yfir bæjinn. Þegar ég var kominn hálfa leið sá ég skilaboð frá Antoniu. Síminn hennar hafði verið batteríslaus. Ég hafði hins vegar einhvern veginn náð að senda henni tóm sms á leiðinni þegar höndin mín rakst í símann minn. Frekar asnalegt. En það gekk allt vel þegar ég loksins kom en þetta var þung byrði.

Ég finn aðeins fyrir áfenginu núna. Grunar að ég hafi aldrei verið nær því að vera drukkinn en þetta er í raun ekkert og ég held að ég leggi þetta ekki í vana minn. Þetta var spes kvöld.

Eldað fyrir ellefu

Ég gerði lítið fyrripart dags. Seinnipartinn afrekaði ég meira. Ég rölti til Antoniu sem hafði lofað íbúð sinni fyrir matreiðsluæfingar mínar. Reyndar vissi ég ekki alveg hvert ég var að fara en ég var svo heppinn að ég hitti Fabian á leiðinni. Hann sýndi mér fara skyldi. Við fórum síðan í Tesco til að versla.

Stóra spurningin var hvað ég myndi elda. Mig langaði að elda mexíkanskan kjúklingarétt en mig vantaði ostaídýfu. Hún var ekki til í þessari búð frekar en öllum hinum en við ákváðum nú að gera smá tilraun. Í stað ostaídýfu keypti ég svona sourcream and onion ídýfu. Ég útskýrði síðan fyrir fólkinu að mér þætti í fínu lagi að borga eina og hálfa evru fyrir hverja kjúklingabringu.

Við vorum fjögur í búðinni þannig að við stálum kerru til að hafa undir draslið á leiðinni heim (Fabian skilar henni vonandi eða einhver krakki sem vill fá Evruna). Með í för var líka Sebastian sem er á hækjum. Antonia bauð honum líka í mat, án þess að spyrja mig reyndar. Ég var frekar nörvös um að hráefnið dyggði en ég mótmælti ekkert. Ég hélt þá að ég myndi elda fyrir átta.

Þegar heim var komið hófst matseldin. Antonia var hjálparkokkur. Hún bauð þá herbergisfélögum sínum að borða með okkur og önnur þáði. Síðan var það þannig að ég gleymdi að reikna Rastio og Angelicu inn í fjöldann þannig að í raun var ég að elda fyrir ellefu.

Matreiðslan gekk vel nema að eitthvað af hrísgrjónunum brunnu aðeins. Það kom í ljós að þetta var að sjálfssögðu nægur matur fyrir alla og ég hefði í raun getað boðið manneskju sem ég var að pæla í að fá með. Eftir á var síðan spjallað, farið í leiki, sagðir brandarar og svo framvegis. Við enduðum með að fara heim leið uppúr eitt. Ég náttúrulega þarf að ganga lang lengst.

En þetta var gott kvöld og það er ágætt að fá að elda þó ellefu manns sé töluvert mikið

Reyklaust kvöld

Venjulega myndi ég vera að plana sturtuferð en í kvöld er engin þörf. Það var Vantrúarkvöldverður og í fyrsta skipti nenntum við Eygló að skreppa á kráarölt með liðinu. Eins og venjulega var gaman og mikill metnaður í gangi.

Við borðuðum á Geysi Bistró. Get ekki sagt að þess staður hafi sigrað hjarta mitt né maga. Maturinn var ekkert slæmur en ekkert frábær. Skammtarnir voru líka frekar litlir. Ég hafði borðað lítið um daginn og hefði verið til að borða vel.  Ég fékk mér forrétt, aðalrétt og eftirrétt án þess að verða sérstaklega saddur. Efast um að ég borði þar aftur.

Reykfýla á Kaffi Kidda Rót

Í gær borðuðum við á Kaffi Kidda Rót í Hveragerði. Ég fékk mér fína pizzu og Eygló fékk sér steik sem henni fannst mjög góð. En vandamálið er að það er engin vitræn skipting þarna í reyk og reyklaust.  Það er bara óþolandi.  Ég hélt að ég hefði séð út að við værum í reyklausa hlutanum því að hinum megin var reykt en nei, einhver fór líka að reykja á næsta borði.

Hádegismaturinn

Eftir að hafa athugað hvaða einkunn mötuneytismaturinn hérna fengi hjá einum vinnufélaga mínum þá ákvað ég að fara ásamt fleirum eitthvað út að borða.  Ég endaði á Burger King en þar hef ég aldrei áður borðað.  Maturinn fær þessa einkunn: Ætt og betra en McDonalds (seinnihlutinn er reyndar óþarfi, ef það er ætt þá er það betra en McDonalds).