Neil Gaiman á Reykjavík Noir

Fyrr á árinu var tilkynnt að Neil Gaiman kæmi á Iceland Noir. Ég velti fyrir mér hvort það væri í alvörunni réttlætanlegt að kaupa miða fyrir rúmar tuttugu þúsund krónur af því ég væri hrifinn af einum rithöfundi. Lausnin var einföld. Ég ákvað að kynna mér sérstaklega verk þeirra höfunda sem voru að koma. Ég yrði vel upplýstur þegar að ráðstefnunni kæmi.

Síðan keyptum við íbúð, fluttum og þurftum að vera í allskonar framkvæmdum (sem er ekki enn lokið að fullu). Þannig að ég bara gleymdi þessu.

Þegar kom að viðburðinum sjálfum þurfti ég að mæta niður í bæ á miðvikudagsmorgun til að fá armband. Strætóferðin olli hausverk (ilmvatn? vagninn sjálfur?) þannig að ég fór út á Hlemmi og labbaði niður í Austurstræti frekar en að halda áfram niður á Lækjartorg.

Það var töluverður straumur af fólki að skrá sig og flestir virtust hafa komið sérstaklega til landsins á ráðstefnuna. Meðan ég beið eftir lyftunni og á leiðinni upp átti ég smávægileg orðaskipti við erlenda konu. Þegar við vorum að fá armböndin okkar spurði konan hvort það ættu allir að fá svört eða hvort fólk sem kæmi fram fengi öðruvísi. Ég fékk svona smá sting að hafa ekki verið duglegri að lesa mér til um höfundana á ráðstefnunni. Hún fékk rautt armband.

Á leiðinni heim í Breiðholtið átti sér stað ótrúlegt kraftaverk. Vagninn kom þegar einungis var rúmlega ein mínúta eftir af gildistíma strætómiðans míns og svo kom í ljós að þessi vagn var ekki fullur af hausverkjavaldandi lofti.

Fyrsti viðburðurinn sem ég mætti á var á föstudagsmorgun, Sara Blædel og Neil Gaiman í spjalli. Ég kom á góðum tíma en það var strax orðið troðið. Ég endaði að finna mér sæti á sófaarmi út við glugga. Ég tók fljótlega eftir því að í kringum mig voru fimm rithöfundar. Ég komst að þessu þegar ég heyrði fólk spjalla um hve óþægileg þessi armbönd væru. Ég sagði þeim að ég hafði flett upp á netinu hvernig ætti að losa þau og lýsti aðferðinni. Þá fór fólkið að skoða armböndin sín … sem voru öll rauð.

Ég fékk samviskusting að þekkja þau ekki en ég fékk allavega að vera áheyrandi að spjalli um útgáfuheiminn. Það sem mér þótti mest spennandi að heyra var saga höfundar sem hóf sjálfsútgáfu eftir vesen með útgefendur. Þessi höfundar sagðist hafa sett inn klausu í útgáfusamninga sem sagði að ef tekjurnar af bókinni næðu ekki ákveðnu lágmarki á ársgrundvelli fengi hún útgáfuréttinn til baka. Ég verð að segja að ég held að þetta ætti að vera sjálfgefið. Ef bókaútgáfur ná ekki að græða nóg á bókum til þess að borga höfundum lágmarksupphæð ættu þeir að geta fengið útgáfuréttinn til baka.

Síðan fór spjallið á “sviðinu” af stað. Neil Gaiman sagði frá nokkrum atriðum sem ég hafði ekki heyrt áður. Þegar kom að spurningum var ég fyrstur upp með höndina. Hann hafði nefnt að mamma hans hefði skyndilega orðið mjög spennt fyrir Viktoríu Bretadrottningu þannig að ég spurði hvort mamma hans hefði lesið söguna A Study in Emerald. Það hlógu einhverjir og í hroka mínum ætla ég að segja að það hafi verið fólkið sem hafði lesið mest eftir hann. Gaiman svaraði að hann vonaði að svo væri ekki. Hann tók líka fram að til þess að skilja söguna þyrfti þekkingu á Sherlock Holmes og H.P. Lovecraft og móðir hans þekkti allavega lítið til hins síðarnefnda.

Eftir að spjallinu lauk var ekki möguleiki að fara beint út og ég endaði í miðju spjalli tveggja rithöfunda. Við vorum að tala um bók Gaiman um norrænar goðsagnir og ég nefndi að ég væri þjóðfræðingur og gæti staðfest að þetta væri góð endursögn. Þá vaknaði allt í einu áhugi á mér og mér þótti það smá vandræðalegt af því ég hefði átt að vita hverja ég var að tala við. Allavega endaði það með að ég sagði frá Stories of Iceland hlaðvarpinu og skrifaði nafnið mitt í síma til að hægt væri að fletta upp upplýsingum um mig og hlaðvarpið.

Þegar ég kom fram hitti ég þar þrjá íslenska rithöfunda sem ég þekki og komu allir of seint til að fá sæti. Reyndar fannst mér þetta svolítið skrýtið af því að það hafði komið fram að það væri nóg af sætum á “aðalstöðunum” en það þyrfti að passa sig að mæta snemma á jaðarviðburði. Þessi var á Vinnustofu Kjarvals sem var mjög áberandi í dagskránni og virtist ekki flokkað með jaðarviðburðunum.

Þegar ég kom heim nefndi Eygló að þessi ráðstefna væri umdeild. Ég var svolítið hissa og þegar hún nefndi Hillary Clinton kom ég af fjöllum. Hvernig gat það farið framhjá mér? Ég sá ekki talað um þetta á Mastodon og ég er voðalega lítið á Facebook (ég hef ekki samþykkt að leyfa þeim að sýna mér auglýsingar). Ég var svo lítið meðvitaður að ég kallaði ráðstefnuna ítrekað “Reykjavík Noir”. Það rifjaðist samt upp fyrir mér að eftir að fá ég keypti fyrst miða fékk ég einhvern tölvupóst um að mér stæði til að boða að kaupa miða á viðburð með Hillary Clinton. Mér fannst það hallærislegt, hunsaði það og gleymdi síðan. Ég upplifði að það væru ekki mikil tengsl milli þeirra viðburða sem ég var á og þessu uppistandi Hillary.

Ég fór ekki aftur fyrren á laugardagskvöld. Það var aðalviðburðurinn með Neil Gaiman og fór fram í Fríkirkjunni. Ég mætti þegar matarhléið átti að hefjast í von um að nappa sæti frá einhverjum sem væri að fara út. Það gekk og ég fékk fínt sæti. Síðan voru öllum smalað aftur út.

Það var voðalega skrýtið að um leið og við fórum út kom önnur alda af fólki sem ætlaði að redda sér sæti. Fólkið sem tilheyrði hátíðinni var ekkert að snúa þeim við heldur virtist það bara gert þegar fólkið var komið inn í kirkjuna. Þetta varð til þess að fólk fór inn og út í svona nokkurn tíma enn á meðan við hin stóðum og biðum í kuldanum á kirkjutröppunum.

Ég heyrði fólk kvarta yfir öllu þessu veseni. Það taldi, nokkuð réttilega, að klukkutíma kvöldmatarhlé væri ekki nægur tími til að fá sér að borða. Það talaði líka um að það hefði verið endalaust vesen á ráðstefnunni. Einn eldri maður sagði að það væri greinilegt að það væri skipuleggjendum þóknandi að hirða peningana þeirra en ekki að vanda sig við umgjörðina.

Að lokum var okkur hleypt inn. Það var svolítið truflandi hve mörg sæti á fremstu bekkjum voru frátekin en ég náði góðu sæti framarlega. Ég tók samt eftir því að fólkið sem kom aðeins seinna inn fór varla fram fyrir miðja kirkju af því það gerði ráð fyrir að allt væri troðið fremst (það var töluvert laust á mörgum bekkjum, þar á meðal mínum).

Á undan Gaiman var það leikarinn Richard Armitage, sem hefur víst líka skrifað bók, og átti samtal við A.J. Finn (sá síðarnefndi hélt að mestu upp stemmingunni með bröndurum). Þetta er frekar erfiður staður í dagskránni. Vissulega var fullt af fólki en töluvert margir höfðu greinilega litla hugmynd um hver þetta væri. Þar á meðal var ég. Ég var þó allavega ekki jafn fjandsamlegur og einn sem spurði hvort Armitage væri ekki bara að græða á nafninu sínu (fór fínna í það).

Síðan var komið að Neil Gaiman. Yfir heildina var þetta bara spjall sem hægt er að finna í tugum myndbanda á YouTube. Það þarf stjórnanda sem þekkir rithöfund vel til þess að geta komið með spurningar sem ýta svona reyndum sögumönnum á ný svæði. Mestu vonbrigðin voru auðvitað að það var farið mjög grunnt í áhrif íslenskra fornbókmennta á Gaiman. Ég hefði endilega viljað fá einhverjar góðar spurningar þar.

Ég lét vera að rétta upp hönd þegar kom að spurningum úr sal. Mér fannst ég hafi fengið mitt pláss daginn áður.

Þegar spjallinu var lokið ákvað ég að hanga í kringum kirkjuna í von um að ná Gaiman á útleið. Ég var ekki einn um það. Þegar ég sá loksins hóp koma út var ég nokkuð snöggur að koma mér til þeirra.

Gaiman tók öllu vel og spurði mig að fyrra bragði hvað ég væri með handa honum. Ég hafði valið smásagnasafnið Fragile Things (sem inniheldur m.a. A Study in Emerald). Ég nefndi að ég hefði séð hann í Stokkhólmi og hann sagði að honum þætti SciFi alltaf góð búð. Auðvitað sagði ég honum að hann ætti að drífa sig í Nexus sem stæðist algjörlega samanburðinn við þá búð og jafnvel Forbidden Planet í London.

Á eftir mér komu fleiri sem, ólíkt mér, höfðu með sér fleiri en eina bók. Mér hefði ekki dottið í hug að koma koma með fleiri bækur í einu. Mér finnst nógu slæmt að sitja fyrir rithöfundi.

Þegar áritun var lokið þakkaði einn aðdáandinn mér fyrir að hlaupa hann uppi sem mér fannst gefa til kynna meiri hraða en ég upplifði.

Þess má að lokum geta að Neil Gaiman er á Mastodon og það hafi verið viðkunnanleg samskipti okkur á milli þar (leitið að efnisorðinu “ReykjavíkNoir” til að finna það sem ég sagði um þessa heimsókn hans).

Óreglulegir Sherlock Holmes þættir

Þegar ég var svona 10-11 ára þá keypti ég Sherlock Holmes bækur á bókamarkaði. Las þær allar. Elskaði þær. Líklega hafði ég þá þegar horft á bæði Sherlock Holmes þættina með Jeremy Brett og kvikmyndina Young Sherlock Holmes. Þá var ég líklega búinn að sjá The Private Life of Sherlock Holmes þar sem Loch Ness skrýmslið kom við sögu.

Ég hef líka verið hrifinn af uppstokkun á Sherlock Holmes. Dæmi um slíkt er Without A Clue þar sem kemur í ljós að Watson er í raun sá klári. Síðan fannst mér Elementary frábær nútímavæðing á persónunum. Ég féll hins vegar aldrei fyrir Sherlock.

En af öllum þessum uppstokkunum á persónunni þá stendur smásagan A Study in Emerald eftir Neil Gaiman uppúr. Þar er blandað saman Sherlock Holmes og H.P. Lovecraft. Frábært alveg. Í sama dúr er skáldsagan The Angel of the Crows eftir Katherine Addison (Sarah Monette). Þar er einkaspæjarinn settur í fantasíuhrylling og útkoman æðisleg.

Þannig að þegar ég sá þættina The Irregulars á Netflix þá varð ég mjög spenntur. Titilinn gaf til kynna að hér væri verið að fjalla um götukrakkana sem Holmes notaði oft til að njósna fyrir sig. Um leið var ljóst að yfirnáttúru og hryllingur blandaðist inn í það.

En þættirnir eru bara “meh”. Ég hef séð þetta gert svo mikið betur. Það eru fullt af góðum hugmyndum en lausnirnar eru oftar ekki einfeldningslegar. Það að blanda fjölskyldu Viktoríu drottningar inn í söguna er ein af þessum góðu hugmyndum sem hefði mátt vinna betur úr.

Það sem stóð uppúr var hins vegar aðalleikkonan Thaddea Graham. Ég kannaðist við hana úr annarri “lala” Netflix seríu The Letter for the King. Það er engin tilviljun að allir dómar sem ég hef lesið um The Irregulars segja það sama, hún er það besta við þættina. Ef Thaddea Graham fær betri efnavið þá verður hún stjarna.

Í þessum þáttum er farin sama leið og t.d. í Bridgerton (sem ég hef reyndar ekki séð). Leikarnir eru af ýmsum uppruna en það er aldrei talað um húðlit. Ég skil alveg kostinn við þessa nálgun. Hingað til þá hefur verið nær alveg lokað á aðra en hvíta leikara í svona sögulegu efni sem er staðsett í Bretlandi. Svona fá þeir tækifæri. En það er samt næstum því eins og það séu allir að leika hvítar persónur.

Þegar þættirnir byrjuðu og ég sá að Thaddea Graham, sem er mjög greinilega af kínverskum uppruna, ætti systur í þáttunum sem leit út fyrir að vera mjög “bresk” þá fór ég að vona að hér yrði kafað ofan í reynsluheim slíkrar fjölskyldu á Viktoríutímabilinu. En það var augljósleg ekki gert.

Vandinn við sögulegt efni er svo oft að það hunsar þann fjölbreytileika sem var til staðar. Við höfum séð endalausar birtingarmyndir London þessa tíma þar sem allir eru hvítir. En það var ekki þannig. Meira að segja Arthur Conan-Doyle notaði persónur af öðrum uppruna í sögum sínum en því miður var hann frekar rasískur í því hvernig hann sýndi þær.

Þegar svartur maður fékk aðalhlutverkið í Les Mis á Broadway þá var fullt af reiðu fólki sem hafði engan skilning á því að það var svart fólk í Frakklandi á þeim tíma sem sagan gerðist. Frægastir þeirra eru auðvitað hershöfðinginn Dumas og rithöfundarnir sonur hans og sonarsonur.

Þannig að mér finnst svona “litblint” leikaraval ekki svara þeirri þörf að segja sögur sem hafa ekki verið sagðar.

Að selja ókeypis bækur

Þegar verkefni í þágu almennings taka að sér að koma efni á rafrænt form þá gerist það gjarnan að aðrir taka efnið og fara að rukka fyrir það. Stundum er einhverju bætt við en ekki alltaf.

Fyrir nokkru síðan rakst ég á að Forlagið selur rafbókaútgáfu af Hómerskviðum. Mig grunaði strax að hér væri á ferðinni textinn sem Rafbókavefurinn gaf út á sínum tíma. Ég nennti samt ekki að rannsaka það.

En núna áðan rakst á þessa bók hjá Google Books. Af þeim síðum sem sjást þar er ljóst að þetta er einfaldlega textinn frá okkur. Það eina sem við hefur verið bætt er ný kápumynd og höfundaréttaupplýsingar sem eru í meira lagi skrýtnar.

Sú hugmynd að Saga Egmont eigi höfundarétt að þessum texta er brandari. Útgáfan á væntanlega rétt á kápumyndinni og engu öðru. Ég játa að mér finnst töluvert fyndið að gefa Hómer höfundarétt. Fyrir utan þá staðreynd að hann var líklega ekki til þá var höfundaréttur alveg örugglega ekki til á þeim tíma sem hann á að hafa verið uppi.

En hvernig get ég verið viss um að þetta sé textinn sem Rafbókavefurinn setti á netið? Aðallega af því að þessi texti sést í sýnishorninu á Google Books.

Rafbókavefurinn tiltekur vissulega að öllum er frjálst að nota þá texta okkar sem eru merktir sem opið efni. Þannig að við bönnum engum að nota þetta. En það er auðvitað ákaflega vafasamt siðferðislega að selja efni sem þú hefur nær ekkert lagt til. Sömuleiðis finnst mér að það ætti að vera ólöglegt að gefa til kynna höfundarétt þar sem hann er ekki til staðar. Þá finnst mér hálfömurlegt að fella burt klausur um framlag Kristins Ármannssonar og Jóns Gíslasonar til útgáfunnar.

Ég er mjög hissa á að Forlagið sé að selja þessa útgáfu. Það væri gaman að sjá hvort þessi klausu um Rafbókavefinn sé líka í þessari útgáfu sem er verið að selja hjá þeim.

Annars þá er Rafbókavefurinn ennþá niðurgreiddur af mér. Það hafa bæst við smá styrkir á Karolina Fund en ekki einu sinni nóg til að borga hýsinguna. Ef fólk gæti gefið eitthvað þá myndi það hjálpa okkur – jafnvel í að koma þessu verkefni aftur á fullt skrið.

Furðusögur kvenna

Fyrir nokkrum árum skoðaði ég kynjahlutfallið í bókahillunni minni (sem er eiginlega ekki alvöru bókahilla heldur Goodreads/Calibre). Það var skelfilegt. Ég las miklu fleiri bækur eftir karla en konur.

Það væri hægt að skýra þetta á mismunandi vegu. Í fyrsta lagi gæti verið að karlar skrifuðu einfaldlega betri bækur á þeim sviðum sem ég les helst (furðusögur af ýmsu tagi). Í öðru lagi gæti verið að skrif kvenna höfði ekki til mín. Í þriðja lagi gæti verið að það séu einfaldlega miklu færri konur sem skrifa slíkar bækur. Í fjórða lagi gæti verið að eitthvað sé athugavert við það hvernig ég finn mér bækur til að lesa.

Mér fannst fyrsta skýringin … ólíkleg. Önnur skýringin er mögulega bara umorðun á þeirri fyrstu. Þriðja skýringin er að vissu leyti líkleg en jafnvel þó færri konur skrifi furðusögur þá gæti þýtt að þær konur sem skrifa bækur í þessum geira hafi þurft að leggja meira á sig til að koma sér á framfæri og þær séu þá jafnvel betri en meðalkarlinn. Fjórða skýringin hafði þann kost að hún varpaði ábyrgðinni á mig. Ég þurfti að leggja mig fram til að lesa fleiri furðusögur eftir konur.

Ég held að það sé ekki endilega þannig að ég hafi forðast bækur eftir konur heldur að markaðsetning bóka – líkt og markaðsetning á til dæmis leikföngum – sé mjög kynskipt.

Þegar ég fór að lesa furðusögur þá leiddu hillurnar í bókabúðunum mig mjög einfaldlega frá Douglas Adams til Terry Pratchet yfir í Neil Gaiman. Ég man ekki eftir konum þarna inn á milli. Ég man allavega ekki eftir að hafa séð til dæmis Ursula K. Le Guin þarna þó hún hefði augljóslega passað við hliðina á Gaiman. Þetta lagaðist ekkert þegar bókabúðirnar sem ég verslaði í færðust á vefinn.

Þannig að ég fór að leita eftir fleiri bókum eftir konur. Reyndar hrasaði ég fljótlega þegar ég ályktaði að Kim Stanley Robinson væri kona (þrátt fyrir að Community hafi verið með góðan brandara um karlinn Kim).

Hérna kemur ófullkominn listi yfir konur í furðusagnageiranum sem ég hef verið að lesa undanfarið (C. L. Polk er ekki á listanum enda er ég nýbyrjaður að lesa bók eftir hana).

  • Naomi Novik
  • Silvia Moreno-Garcia
  • N.K. Jemisin
  • Ann Leckie 
  • Maggie Stiefvater
  • Sarah Monette/Katherine Addison

Eftir þennan lestur get ég allavega afskrifað þá skýringu að karla skrifi almennt betri bækur en konur. Sömuleiðis kveð ég þá hugmynd að bækur eftir konur höfði ekki til mín. Það hefur líklega eitthvað verið athugavert við það hvernig ég hef valið mér lesefni í gegnum tíðina, hvort sem sökin var mín eða bara afleiðing markaðsetningar.

Allar konurnar sem ég listaði þarna hafa skrifað mjög góðar bækur sem allir furðusagnalesendur myndu njóta þessa að lesa. En ég ég breiðleitraði nöfn tveggja kvenna af því að ég mun í framtíðinni reyna að lesa allt sem þær skrifa.

Fyrst skal nefna Ann Leckie. Imperial Radch bækurnar hennar eru stórkostlegar vísindaskáldsögur og nýjasta bókin hennar The Raven Tower er frábærlega óvenjuleg fantasía.

Síðan er það Sarah Monette sem stundum notar höfundanafnið Katherine Addison. Hún er sá höfundur sem ég er glaðastur að hafa fundið. Ég spændi í mig Doctrine of Labyrinths bækurnar. Kyle Murchison sögurnar eru dásamlega Lovecraftlegar en – ólíkt Lovecraft – lausar við þennan óþægilega rasistaundirtón. Smásagnasöfnin hennar eru frábær. En The Goblin Emperor er algjörlega uppáhalds.

Ef þú lest bækur eftir konurnar sem ég hef nefnt og ert ekki hrifinn af neinu þá ertu kannski ekki aðdáandi furðusagna – þú ert aðdáandi karla.

Samsæri nýju menningarbyltingarinnar

Höfundaréttshafi 	Gage Skidmore from Peoria, AZ, United States of America
Höfundaréttshafi Gage Skidmore from Peoria, AZ, United States of America

Ég held að Mike Cernovich sé nafn sem allir ættu að þekkja. Því miður.

Bakgrunnur hans er kjánalegur. Fyrrverandi kona hans er lögfræðingur sem auðgaðist mjög í Kísildal. Þegar þau skildu fékk hann einhverjar milljónir í Bandaríkjadölum. Hann taldi að femínismi hefði eyðilagt hjónabandið þannig að hann eyddi kröftum sínum (og peningum sinnar fyrrverandi) í andfeminískan áróður. Þar má t.d. nefna Gamergate.

En hann er frægari fyrir að dreifa Pizzagate áróðri. Það er heimskuleg samsæriskenning um barnaníðshring Demókrataflokksins sem náði hápunkti sínum þegar vopnaður maður réðst inn á pizzastað í Washington DC.

Það sem ég vildi beina sjónum lesenda að eru árásir Cernovich á fræga menn, aðallega þó sem hafa gagnrýnt öfgahægrið sem er að rísa í Bandaríkjunum.

Það sem hann gerir (að eigin sögn) er að borga einhverjum fyrir að leita að einhverju vafasömu í fortíð þessara manna. Það eru til dæmis gömul tíst. Frægasta dæmið er James Gunn, leikstjóri Guardians of the Galaxy myndanna. Cernovich gróf upp eitthvað vafasamt tíst úr fortíð Gunn og notaði það í herferð til þess að láta Disney reka leikstjórann. Hann var rekinn og ráðinn aftur.

Cernovich gerði það sama við þáttastjórnandann Sam Seder. Hann fann gamalt tíst þar sem Seder var að ráðast með hæðni á stuðningsfólk Roman Polanski. Seder var líka rekinn og ráðinn aftur.

Dan Harmon (höfundur Community og Rick and Morty) lenti líka í Cernovich. Hann fann gamalt grínmyndband sem Harmon hafði gert áður en hann varð frægur. Það var snúið út úr því og reynt að láta reka hann frá Rick and Morty. Það tókst ekki að reka hann en Harmon þurfti að þola allskonar ömurlegheit á meðan þessu stóð.

Fyrir almenning hefði verið auðvelt að skilja öll þessi mál sem eitthvað “political correctness gone mad”. En í raun var það bara öfgahægrimaðurinn Cernovich með hjálp stuðningsmanna sinna (og botta) að búa til deilumál.

Mér verður því hugsað til Cernovich þegar maður heyrir til dæmis fréttir af því að þáttur af Golden Girls hafi verið tekinn af streymisveitum vegna meintrar andlitssvertu. Ég myndi allavega vilja vita hver það var sem kvartaði yfir þessu. Mér finnst mun líklegra að Cernovich eða einhver álíka sé að reyna að búa til deilur frekar en að einhver hafi í raun verið hneykslaður á Klassapíunum.

Jóríkur: Síðasti karlinn

Y: The Last Man er ein af þeim teiknimyndasögum sem eru taldar með þeim bestu sem hafa komið út á öldinni. Í stuttu máli deyja allir karlar á jörðinni. “Hetjan” okkar hann Yorick lifir af og þarf að bjarga sér í sturluðum heim á meðan hann leitar að sinni sönnu ást.

Sagan náði að halda mér við efnið. En mér fannst þetta aldrei vera nógu gott. Persónurnar náðu mér aldrei almennilega. Eftirleikur plágunnar virkaði ósannfærandi á mig. Auðvitað þarf að gefa sér ákveðna hluti til að þjóna sögunni en það hefði bara þurft að gera þetta allt betur.

Skógarhöggsjónurnar

Þar sem ég lék mér með Masters of the Universe á unga aldri ákvað ég að prufa að horfa á endurskotið á systur He-Man, She-Ra (She-Ru?), á Netflix. Ég féll alveg fyrir þeim. Ég las mér til um konuna á við þættina, Noelle Stevenson og komst að því að hún hefði líka verið með teiknimyndasögur sem heita Lumberjanes.

Ég var mjög hrifinn. Kannski ekki alveg jafn hrifinn og af t.d. Giant Days (sem ég las næst á undan) en það skýrist kannski af því að Lumberjanes miðar við aðeins yngri aldurshóp en þær sögur.

Í stuttu máli snúast sögurnar um ævintýri stúlkna í skátasumarbúðum. Það kemur fljótt í ljós að margt dularfullt er á seyði í kring. Það er kannski hægt að líkja þessu við þættina Gravity Falls eða kannski Stranger Things án hryllingsins.

Fyrir utan að berjast og/eða vingast við skrýmsli fjalla sögurnar um vináttu stúlknanna. Tvær þeirra [HÖSKULDUR!!] byrja líka saman. Þá kemur við sögu transeinstaklingur.

Ég mæli hiklaust með Lumberjanes fyrir unglingastig og lengra komna nemendur á miðstigi (enskukunnátta auðvitað nauðsynleg). Kannski yngstu í framhaldsskóla en mögulega finnst þeim þetta of barnalegt. Síðan mega fullorðnir lesa þetta líka.

Annars má geta þess að ég er enn að lesa í svarthvítu og fattaði því t.d. ekki að ein persónan fékk bláan lit í hárið fyrren það var nefnt í textanum.

Risadagar

Ég er enn í teiknimyndasöguham og er áfram að lesa allt í rafbókalesaranum mínum á svarthvítum skjá þó sögurnar séu flestar í lit.

Giant Days er gjörólíkt flestu sem ég hef lesið, hvort sem það eru teiknimyndasögur eða hefðbundnar bækur. Aðalsöguhetjurnar okkar eru þrjár breskar háskólastúdínur (Esther, Susan og Daisy) í Sheffield sem við fylgjum í gegnum námið. Sagan kláraðist í fyrra sem hentar mér vel af því að ég á erfitt með að njóta efnis í smærri skömmtum.

Ég veit ekki beinlínis hvað heillaði mig við sögurnar. Sumt tengi ég reyndar beint við. Susan hellir sér í stúdentapólitíkina og er í raun í uppreisn gegn stöðnuðu kerfi. Það passaði frekar vel við mig. Sumt minnti mig líka á dvölina í Írlandi. Þar endaði ég með ókunnugu fólki í íbúð. Ég náði þó ekki að tengja við sambýlinga mína en eignaðist samt fullt af vinum.

Fæst hafði þó slíka skírskotun í mitt líf. En það heillaði mig samt. Stærsta ástæðan var líklega að mér líkaði svo við persónurnar. Þær virka raunverulegar þó heimurinn sé ýktur. Þannig mætti líkja þessu við sjónvarpsþættina Community.

Mér þótti vænt um Daisy og Susan en ég gjörsamlega dýrkaði Esther. Ég efast um að ég sé einn um það. Hún er svona goth/emo (gotnesk tilfinningavera?) í útliti en aldrei stereótýpa. Kannski er hún smá “Manic Pixie” en hún er það á sínum eigin forsendum en ekki til að uppfylla hlutverk draumastúlku einhvers stráks.

Ef ég væri enn með skólabókasafn þá myndi ég kaupa alla vega eitt bindi af Giant Days fyrir elstu á miðstigi og uppúr. Ég held að margir fyrrverandi safngestir mínir myndu heillast af þessu. Fyrir unglinga er þetta síðan gráupplagt.

Þessi saga er líklega best af því “nýja” efni sem ég hef lesið á árinu. Ef þið viljið ekki lesa þetta af skjá, hvað þá svarthvítum skjá, þá á Nexus auðvitað Giant Days.

Átak í teiknimyndasögulestri

Ég tek reglulega köst í teiknimyndasögulestri. Ástæðan í þetta skiptið var að ég var að fjalla um sjónvarpsþætti byggða á teiknimyndasögum í Botninum. Ég fann ekki spjaldtölvuna mína, Nook HD plus, enda nota ég hana almennt ekkert. Í staðinn ákvað ég að nota rafbókalesarann minn, Boyue T80 Likebook Mars ( sem er með stærri skjá en flestir lesarar), sem ég hef annars bara notað í að lesa svarthvítar sögur (Bone, Scud o. fl.).

Þó lesarinn sýni bara svart hvíta skalann þá var merkilega þægilegt að lesa teiknimyndasögur í lit með honum. Það var svo fínt að þegar ég fann spjaldtölvuna og prufaði þá gafst ég bara upp. Ástæðan er auðvitað að lesarinn er ætlaður til lestur. Þó ég hafi haft kveikt á baklýsingunni þá er ljósið svo miklu betra fyrir augun en spjaldtölvubirtan.

Á maður að tala um tæknina eða listina? Ég er auðvitað gjarn á að blanda þessu tvennu saman.

Locke and Key kom á Netflix fyrr á árinu þannig að ég tók það á lesaranum. Þetta fellur undir hrollvekjuflokkinn. Margt mjög gott þar.

Ég las smá í The Boys og V-Wars fyrir þætti af Botninum og var ekki að falla fyrir því.

Ég hef ekki enn gert þátt um Daybreak sem var á Netflix í fyrra þó ég hafi verið hrifinn (það voru kannski ekki nógu margir hrifnir því þættirnir halda ekki áfram). Sagan var allt öðruvísi. Mjög einfaldur stíll en mjög áhugaverð nálgun.

Deadly Class voru þættir sem ég féll líka fyrir ólíkt lýðnum (það kemur ekki meira) og lengst af var teiknimyndasagan alveg jafn góð – ef ekki betri – en þættirnir. Mér fannst þetta samt vera farið að dala í síðustu sögunum sem ég las. En það kemur meira af þeim. Ádeilan á Reagan-tímann var mjög góð.

Ég hef aldrei séð Hellboy myndirnar sem tengdafaðir minn (eða tvífari hans) leikur í en ég var áhugasamur um sögurnar. Þær voru margar mjög góðar. Kannski ekki alveg jafn góðar og sumir segja en samt.

Brat Pack er oft nefnd á sama tíma og Watchmen sem ádeila á teiknimyndahetjusögurnar. Hér eru hliðarspörkin tekin fyrir. Það var margt gott þarna en mér fannst þetta ekki eldast jafn vel og Watchmen. En það er auðvitað vonlaust að ætla að standast þann samanburð.

Umbrella Academy er annar sjónvarpsþáttur. Ég verð að segja að mér fannst þættirnir meira heillandi – allavega sem komið er – en sagan var líka mjög góð. Þegar ég horfði á þættina hafði ég ekki hugmynd um að höfundurinn væri söngvarinn í My Chemical Romance. Skondið.

Það er öfugt með Rick and Morty. Þarna hafa verið gerðar teiknimyndasögur í sama heimi og þættirnir. Þær eru mistækar. Ég var næstum hættur þegar ég áttaði mig á að Patrick Rothfuss hefði skrifað Dungeons and Dragons Rick vs. Morty sögur. Ég hef reyndar ekki lesið frægu bækur hans af því að ég er að bíða eftir þeirri síðustu. Mig langar ekki að bíða ef ég fell fyrir þeim. Allavega var Rothfuss sagan best af þeim sem ég las.

Þó Lucifer komi úr sagnaheimi The Sandman hafði ekki lesið þær áður en ég horfði á þættina. Það áhorf ýtti mér af stað í að lesa sögurnar og auðvitað er þetta allt annað. Þættirnir eru að mestu leyti grín en sögurnar í hrollvekjudeildinni. Ég var hrifinn af sögunum að mörgu leyti en ég féll ekki fyrir öllu. Það er t.d. augljós að þegar fjallað er um norræna goðafræði þá hefur Mike Carey ekki sama dýpt þekkingar og Neil Gaiman.

Ég las auðvitað líka Gaiman. Ég fann meira að segja söfn af sögum hans úr DC-heiminum sem ég hafði ekki lesið áður. Fínt en ekkert í samanburði við Sandman. Ég dembi mér líka út í endurlestur á The Sandman. Yndisleg tilfinning þegar ég byrjaði aftur. Æði. Best.

Ég hafði lesið mér til um góðar svarthvítar teiknimyndasögur – sem hentuðu skjánum mínum – og þá hitti Berlin beint í mark. Hún er ólík flestu sem ég hef verið að lesa að því að leyti að þarna er farið mjög strangt eftir þessum hefðbundu römmum á síðunni. Það er því voðalega þægilegt að keyra í gegnum þetta. Bara fletta og fletta, ekkert að rýna í lítinn texta eða stækka og minnka til að sjá betur. Áhrifamikil saga þó mér hafi þótt hún örlítið endasleppt.

Chilling Adventures of Sabrina, sami grunnur og í nýju Netflix þáttunum. Ég byrjaði á því en var ekki að falla fyrir því.

Ég las líka fallega hluti um Batman Noir: The Black Mirror. Spes fyrir fólk eins og mig sem hefur lítið lesið annað en Dark Knight Returns og Killing Joke af því að þarna er Batman ekki Bruce Wayne heldur fyrrverandi hliðarsparkið hans Dick Grayson. Ég féll ekki neitt rosalega fyrir þessu.

Ég gerði tilraun til að lesa fleiri sögur en ég náði því varla. Það voru sumsé annars vegar nokkrar nýlegar ofurhetjusögur og hins vegar Crisis on Infinite Earths. Þær héldu bara ekki áhuga mínum. Mér finnst eins og ég sé of mikill snobbari þegar ég les aðallega sögurnar sem hafa fengið frábæra dóma en þekki ekkert til stærsta hluta menningarkimans.

Hvað er næst? Ég er rétt að byrja á Giant Days. Það er allt öðruvísi en allt annað í þessari upptalningu. Söguhetjurnar eru þrjár ungar konur sem eru nýbyrjaðar í háskóla. Ég kláraði fyrsta bindið í gærkvöldi og ætla að halda áfram.

Ef þið þekkið ekki til haldið þið kannski að þetta séu örfá blöð en þetta eru nokkrir tugir safnbinda af sögum. Samkvæmt GoodReads hef ég lesið 67 bækur og rúmlega 14 þúsund blaðsíður það sem komið er af árinu. Auðvitað eru þarna einhverjar textamiðaðar bækur en flestar eru teiknimyndsögur – enda les maður þær hraðar.

Ég vil ekki gleyma að nefna að Jútúbarinn Comic Tropes hefur verið góður í að “hvetja” mig áfram í þessu. Myndböndin hans eru ákaflega skemmtileg með góðum hallærislegum húmor. Ég ákvað að styrkja hann á Patreon. Það hjálpar mikið að hann er greinilega andfasískur sem virðist ekki sjálfgefið á þessum tímum. Mæli með honum.

Líf í Rafbókavefinn?

Ég stofnaði Rafbókavefinn árið 2011. Hann var meginhluti meistaraverkefnis míns í hagnýtri menningarmiðlun. Þarna eru vel á annað hundrað rafbækur í opnum aðgangi. Til að byrja með tók ég aðallega texta frá Netútgáfunni og breytti í rafbækur (epub og mobi). En ég vildi gera meira.

Ég fékk Svavar Kjarrval með mér í lið. Hann hafði byggt bókaskanna með afa sínum. Þannig gátum við myndað bækur sem voru komnar úr höfundarétti. En það er mikil vinna að breyta myndaðri bók yfir í rafrænan texta. Fyrst þarf að ljóslesa textann. Þá fer sérstakt ljóslestursforrit yfir textann og reynir að endurskapa hann í rafrænu formi.

En ekkert ljóslestursforrit er fullkomið þannig að Svavar setti upp vefkerfi (byggt á kóða frá erlendri fyrirmynd) þar sem hver sem er gat skráð sig og hjálpað til við að lesa yfir textana. Við kölluðum það dreifðan prófarkarlestur. Það gekk vel í nokkurn tíma en það var samt erfitt að halda starfinu virku til lengri tíma. Það var alltaf mikil vinna hjá mér.

Að lokum fjaraði þetta út. Bókaskanninn bilaði. Vefkerfið klikkaði og við höfðum ekki tíma til að koma öllu aftur af stað. En mig langaði alltaf að gera meira.

Þegar vírusinn fór af stað hugsaði ég með mér að nú væri gott að geta farið í dreifðan prófarkrlestur. Þar sem ég hafði í millitíðinni lært töluvert um rekstur vefkerfa þá tók ég mig til og leigði sýndarvél og prufaði að setja upp nýjustu útgáfu af vefkerfinu. Það var mikil vinna og að lokum fékk ég hjálp frá forriturunum og saman uppgötvuðum við villu í kóðanum. Ég þurfti þá líka að þýða kerfið upp á nýtt, allavega þann hluta sem snýr að notendum. Ég keyrði það í gegn. Og núna er hægt að skrá sig aftur í dreifðan prófarkarlestur.

En það hefur fleira breyst. Lýðfjármögnun er orðinn raunverulegur möguleiki aftur. Ég er búinn að setja upp söfnunarsíðu á Karolina Fund þar sem fólk getur stutt okkur. Hingað til hef ég borgað nær allt sjálfur (Svavar þurfti kostaði á sínum tíma skannann og hýsinguna en núna get ég beðið um stuðning á einfaldan hátt. Hvort sem það eru fyrirtæki eða að einstaklingar þá getið stutt okkur.

Ég er líka búinn að setja fram hugmyndir um að búa til hljóðbækur. Við getum gert það í upptökuverinu í Kistunni. Þannig að ef við fáum nægan stuðning getum við gert ótrúlega margt.

Þú getur hjálpað með því að skrá þig í dreifðan prófarkarlestur eða með því að gefa okkur pening á Karolina Fund.

Ég er búinn að setja inn fjórar bækur í dreifðan prófarkarlestur. Þetta eru bækur sem búið var að skanna á bækur.is og það var tiltölulega auðvelt að ljóslesa þær og setja inn í kerfið. Ég mun auðvitað bæta við fleiri bókum eftir því sem á líður en þetta er ágæt byrjun.

Íslenskar sögur og sagnir Þorsteinn Erlingsson (1858 – 1914)
Norsk æfintýri (1. bindi) Peter Christen Asbjørnsen 1812 – 1885, Jørgen Engebretsen Moe 1813 – 1882, Jens Steindór Benediktsson 1910 – 1946
Fjalla-Eyvindur Jóhann Sigurjónsson (1880-1919)
Systurnar Guðrún Lárusdóttir 1880 – 1938