Eygló og lesefnið

Eygló er að lesa ævisögu Bryndísar Schram, ég bíð eftir að heyra djúsí sögur um hvað gerðist bak við tjöldin í Stundinni Okkar…

Ekki það að ég muni eftir Bryndísi í Stundinni Okkur, ég hef ekki einu sinni hugmynd um hvenær það var. Bryndís er 65 ára (segir Eygló) sem þýðir að hún fæddist fimm árum á eftir ömmu Eyglóar. Bryndís er að vísu heilum 26 árum yngri en amma mín sem á afmæli í dag (er semsagt 91 árs).

Ég sleppti því að hringja í ömmu í dag enda held ég að hún fái nóg af símtölum í dag og vegna þess að mér finnst hún ekkert heyra í mér þarna á sjúkrahúsinu.

Amma er afmælisbarn dagsins og það færir þessa færslu heillangt frá því sem hún átti að fjalla um.

Harpo has spoken

Í gær kláraði ég bókina Harpo Speaks! sem fjallar um Marxbróðurinn sem aldrei talaði í karakter. Bókin er mjög áhugaverð, reyndar ekki jafn mikið um bræður hans og ég hefði kannski viljað en á móti kemur að hún er uppfull af sögum um samskipti Harpo við margar frægustu rithöfunda, leikara og tónlistarmenn þriðja, fjórða og fimmta áratugar síðustu aldar. Sögur af leikjum Harpo og vina hans á áhyggjulausum þriðja áratugnum þegar þú þurftir bara að kaupa hlutabréf til að eignast meiri peninga eru magnaðar.

Fyrrihluti bókarinnar fjallar um þegar Marxbræðurnir (saman og einir) þvældust um Bandaríkin í óvissu um hvort nokkuð væri að hafa úr þessu. Fimmtán ár í þvælingi áður en þeir komust á toppinn. Ef manni finnst skemmtikraftar nú til dags vera að fórna einhverju til að komast áfram þá kemur allt slíkt út sem barnaleikur miðað við ferðalag Harpo og bræðra hans.

Eftir að hafa lesið bæði bækur eftir Harpo og Groucho bróður hans þá er fyndið að sjá hvernig þeir benda á hvorn annan þegar nefna á gáfumennið í fjölskyldunni. Harpo bendir á að Groucho hafi sífellt verið að lesa frá því þeir voru börn, hafi aldrei hætt því. Groucho bendir á að Harpo hafi verið hluti af hinu fræga Algonquin hringborði og hafi umgengist alla helstu menningarvita síns tíma. Harpo sagði að hlutverk sitt við hringborðið hafi verið að hlusta og því hafi hann aldrei tekið mikið þátt í umræðunni. Reyndar finnst mér það ekki endilega vera merki um greindarskort að hlusta frekar en að tala.

En prufið þessa bók ef þið hafið áhuga á Marxbræðrunum, þessum tíma eða þessu fólki.

Íslandsvinurinn Neil Gaiman

Neil Gaiman er að vonast til að stoppa á Íslandi í einn dag á leið sinni til London. Það er bara ein búð á Íslandi sem hefur viðskiptavini sem almennt meta Gaiman og það er Nexus, vonum að þeir hafi vit á að reyna að fá hann í stutt stopp (þó það gæti verið erfitt að koma því í kring í svona snöggri heimsókn).

Ég nota hér hið ofurmisnotaða orð Íslandsvinur en Neil Gaiman er að sjálfssögðu raunverulegur vinur Íslands. Landið hefur komið fram í bók eftir hann, íslensk menningararfleið heillar hann og hann notaði meiraðsegja íslensku í bókinni sem ég minntist hér á að ofan.

Maðurinn er brilljant. Lesið bækurnar hans.

Rankin fyrir svefninn

Svaf ágætlega í nótt enda píndi ég sjálfan mig til að sofna ekki almennilega fyrr um kvöldið (svaf reyndar í hálftíma en það hefur enginn áhrif), ég hefði samt viljað sofa lengur.

Fyrir svefninn var ég að lesa bókina The Fandom of the Operator eftir Robert Rankin, hún er ein af betri bókum hans að því leyti að maður skilur hana eftirá. Manni leiðist aldrei að lesa Rankin en stundum getur verið að bækurnar séu þannig að maður lokar þeim og spyrji þá sjálfan sig:“Hvað var ég að lesa?“ Það á hins vegar við um allar Rankin bækur að þegar maður opnar bókina þá er ekki von til þess að maður viti hvert hann sé að fara og það er gott.

Í Fandom þá er Rankin líka eins grófur og hann getur verið, ósmekklegheitin leka af henni, nóg til að hneyksla flesta held ég. Ég er bara svona forhertur að ég get lesið þessa bók tvisvar. Í henni kemur líka greining á hagkerfi nútímans og nauðsyn þess að ákveðinn hluti almennings verði að vinna algerlega tilgangslaus störf (þó hugsanlega fæst séu jafn tilgangslaus og starf aðalpersónunnar lítur út fyrir). Athugasemdir hans um hvað einkenndi lífið á hverjum áratugi seinna hluta tuttugustu aldarinnar eru líka snilld.

Rankin er alltaf þess virði, þó snilld hans sé geðveiki stundum.

Samsærið Ónýtt

Hjörvar virðist ekki hafa vitað að í mörg ár hef verið í gangi viðamikið samsæri meðal vinstri manna um að reyna að sannfæra Davíð Oddsson um að hann sé góður rithöfundur. Augljóslega hefur þetta verið gert til þess að fá einræðisherra krúnunnar til að afsala sér völdum með það í huga að nota tímann í skriftirnar. Afleiðing þessa yrði að sjálfsögðu allsherjar stríð meðal kjölturakka hans sem hingað til hafa verið þægir og ánægðir með það sem hrekkur af borði meistarans.

Vonum að Davíð lesi ekki blogg né að Hannes lesi þau ekki fyrir hann.

Rauðhetta

Eftir mikla umhugsun hef ég rekist á nokkrar misfellur í hinu klassíska ævintýri Rauðhetta.

Í fyrsta lagi: Af hverju át Úlfurinn ekki Rauðhettu þegar hún var komin út af stígnum? Af hverju þurfti hann að bíða?
Í öðru lagi: Af hverju spurði Rauðhetta ekki hvers vegna „Amma“ væri svona loðin?
Og í þriðja lagi: Af hverju tugði hann ekki Rauðhettu og Ömmu hennar?
Og ég skal leyfa fólki að skrifa athugasemdir og dást að mínum frábæru athugasemdum.

Óli Menningarviti