Dapurleg örlög Ole Lund Kirkegaard

Svona í ljósi barnabókaumræðu þá er kannski rétt að tala um barnabækur. Ég les eiginlega á hverju kvöldi fyrir Gunnstein. Við klárum Kalla og sælgætisgerðina annað kvöld eða kvöldið þar á eftir.

Ég er kominn með næstu bók. Það er Fúsi froskagleypir eftir Ole Lund Kirkegaard. Ég hlakka dálítið til enda voru þessar bækur mjög góðar í minningunni.

Mér datt í hug að lesa mér aðeins til um hann Ole Lund og varð dapur að lesa um andlát hans. Reyndar lést hann um einum og hálfum mánuði eftir að ég fæddist þannig að flestir hafa samt væntanlega jafnað sig. En hann var víst 38 ára þegar hann dó (sumsé jafngamall mér í dag). Hann varð úti á leiðinni heim af kránni. Mér datt í hug örlög sögupersónu landa hans HC Andersen þegar ég las þetta.

Ég fann í fljótu bragði enga frétt í íslensku blöðum um andlátið árið sem hann lést. Ég veit ekki hvort hann þótti ekki nógu merkilegur á þessum tíma eða fréttirnar hafi bara ekki borist hingað. Rúmu hálfu ári eftir andlát hans var skrifað um hann í Vísi eins og hann væri enn lifandi.

Ég hlakka samt til að lesa bókina.

Get ekki lesið teiknimyndablöð

Neil Gaiman og ég.Fyrir tveimur árum endurlas ég Sandman eftir Neil Gaiman. Ég las bókstaflega allt sem ég komst yfir og gerði útvarpsþátt. En á sama tíma var að fara af stað aukasaga af Sandman sem kallaðist Sandman Overture. Ég ákvað strax að byrja að safna þessum blöðum því það er eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég hef bara lesið svona sögur í stærri söfnum eða bókum.

Hér er annars þátturinn.

Draumur Neil Gaiman
Ég vona að ég hljómi ekki of mikið eins og Marshall McLuhan en ég er alltaf heillaður af því hvernig miðill getur breytt listformi. Takmarkanirnar sem miðillinn setur er ekki bara til ills heldur oft til góðs. Listamenn starfa inni í ákveðnum kassa – þó þeir séu ekki alltaf naktir. Ég hef áður fjallað um hvernig geisladiskar og hljómplötur setja ákveðin mörk en stafræn útgáfa brýtur þau af sér en samt er tónlist ennþá mörkuð af takmörkunum fyrri forma.

Teiknimyndasögur í hinni bandarísku hefð hafa lengst af verið mótuð af „blaðinu“. Það var nær einnota. Það kom út reglulega. Það var ódýrt. Það var stutt. En bæði með því skrifa lengri sögur, sem við getum kallað grafískar skáldsögur, og með því að safna saman sögum í heild þá breyttist formið. Það fylgdi þessu meira að segja virðing. Ég fjallaði um þetta í þætti mínum um Sandman.

Það þurfti ekki nema tvö blöð til þess að ég gæfist upp á að lesa Sandman Overture. Það voru ekki gæði sögunnar sem ollu því heldur að ég höndla bara ekki að hafa þetta svona stutt. Ég bara held ekki athyglinni. Ég er rétt að komast af stað þegar blaðið er búið.

Það má ekki gleyma að framhaldssögur voru eitt aðal bókmenntaformið á nítjándu öld. Dickens skrifaði svona. Stephen King reyndi síðan að endurvekja formið.

Fyrir stuttu fór ég í Nexus og keypti heildarsafnið af Sandman Overture. Þar er blöðunum safnað saman í eina heild, eins og búið var að gera með eldri sögurnar þegar ég las þær. Það var ekki erfitt að lesa þetta. Ég keyrði þetta í gegn. Sagan er væntanlega ekki sú besta sem Gaiman hefur skrifað en hún er alveg ótrúlega falleg. Ég efast auðvitað um eigið mat því hvernig á ég að geta borið saman eitthvað sem ég las fyrst fyrir rúmum áratug og endurlesið reglulega síðan við þessa glænýju sögu?
Það sem ég velti fyrir mér er hvort að það gæti verið að Gaiman sjálfur sé breyttur. Þegar hann skrifaði Sandman var hann að skrifa fyrir um það bil mánaðarlega útgáfu og var ekki að hugsa um að þessu yrði safnað saman. Núna er hann örugglega meðvitaður um að þetta verður lesið oftar sem heild. Er hann að skrifa fyrir þá sem keyptu stöku blöðin eða er hann að hugsa um of um heildina? Hefði ég frekar haldið athyglinni yfir eldri blöðunum ef ég hefði lesið þau svona stök?

Go Set a Watchman (smá spillar)

gosetÉg ætlaði satt best að segja ekki að lesa Go Set a Watchman en einhvern veginn stóðst ég ekki mátið. Ég las To Kill a Mockingbird í framhaldsskóla og var mjög hrifinn, eins og margir. Samkvæmt flestum er þessi bók fyrsta uppkastið að Mockingbird. Það er þó engin lýsing. Watchman gerist þegar Scout er orðin fullorðin og er í raun allt önnur saga þó nokkrar af sömu persónunum komi fyrir.

Það má segja að Mockingbird sé betri en þessi bjóði upp á flóknari, og raunverulegri, sýn á heiminn. Það má deila um hvort persónurnar í þessum bókum séu raunverulega þær sömu. En ég skil þetta þannig að Mockingbird sé sýn barnsins Scout á föður sinn en í Watchman sé Scout að sjá föður sinn sem raunverulega manneskju svipta hetjuljómanum. Þegar hún var ung sýndi hann henni sínar bestu hliðar en þegar hún snýr aftur heim þá er hún breytt og getur séð galla hans.

Eftir að hafa lesið Watchman þá get ég ekki skilið andúðina sem margir virðast hafa á henni. Einhverjir hafa sagt að hún hefði verið betur geymd í einhverju handritasafni í háskóla þar sem fræðimenn gætu skoðað hana. Ég hef varla heyrt betra dæmi um fílabeinsturnsdýrkun en það. Auðvitað eiga almennir lesendur jafnt og fræðimenn að eiga færi á að lesa bókina.

Ég veit ekki hvort nokkrum gæti þótt áhugavert að lesa Watchman án þess að hafa lesið Mockingbird fyrst. Það væri örugglega áhugavert próf. En það er án efa gott að lesa þessa bók til viðbótar við Mockingbird. Hún leggur áherslu á atriði sem sýna okkur að rasismi er flóknari en svo að það sé eitthvað ómenntað hvítt hyski sem aðhyllist slíkt. Það er til fólk, sem er að mörgu öðru leyti ákaflega gott, sem hefur mjög rasískar skoðanir. Reyndar hafa menningarfréttaritarar ekki spillt einu dæminu en það er kannski það mikilvægasta í sögunni.

Bókin kemur líka út á mögnuðum tíma í bandarískri sögu. Það er mikil undiralda gegn ofbeldi og kúgun á svörtu fólki í Bandaríkjunum. Stríðsfána Suðurríkjanna er loksins að víkja. En við höfum heyrt sömu afsakanir og heyrast í Watchman undanfarið. Þrælastríð snerist ekkert um þrælahald heldur „réttindi ríkja“ – þó Suðurríkjamenn hafi á sínum tíma einmitt sagt að þetta snerist um þrælahald.

En já, lesið bókina. Ég sogaðist inn ólíkt mörgum gagnrýnendum sem ég hef heyrt um.

Terry Pratchett allur – Hvað skal lesa?

Kápan af Mort eins og ég fékk hana. Sumir segja að þessar kápumyndir hafi hrakið lesendur frá.
Kápan af Mort eins og ég fékk hana. Sumir segja að þessar kápumyndir hafi hrakið lesendur frá.

Terry Pratchett og Douglas Adams fengu mig á sínum tíma til að fara að lesa aftur skáldsögur eftir nokkurt hlé.

Fyrir örfáum dögum var ég að ræða á Facebook um hvaða bækur eftir Terry Pratchett maður ætti að lesa. Nú er hann dáinn og mig langar að deila þessum hugsunum með ykkur. Ég læt fylgja með tengla á Amazon – beint á rafbókaútgáfuna fyrir utan eina sem vill ekki tengjast þannig.

Það versta sem maður gerir, ef maður ætlar að lesa Discworld, er að byrja á fyrstu bókinni (og því klúðraðist íslenska útgáfan). Í raun eru Discworld bækurnar með ýmis tímabil og undirseríur. Það er líka þannig að Pratchett er eiginlega ekki kominn með röddina almennilega í fyrstu bókunum.

Þess vegna skal byrja á Mort. Hún fjallar um Dauðann og dauðann og Mort.

Fyrir nornir, og Shakespeare, er best að byrja á Wyrd Sisters.


En ef þið viljið minna galdra og meiri löggu- og bófahúmor þá ættuð þið að kíkja á Guards! Guards! og auðvitað Men at Arms sem er næsta bók í þeirri undirseríu.

Mögulega er Small Gods uppáhalds Discworld bókin mín. Hún fjallar um skjaldbökur og trúarbrögð.

Af seinni bókunum verð ég að segja að The Truth sé í uppáhaldi hjá mér.

Af barnabókunum í Discworld er The Amazing Maurice and His Educated Rodents uppáhalds.

Af hinum barnabókunum eru Truckers, Diggers og Wings uppáhalds.

Pratchett kynnti mig fyrir Neil Gaiman og ef þið viljið fara þá leið þá er Good Omens góð og uppfull af Queen-tilvísunum.

Ég veit ekki hvort Nation teljist barnabók en allavega er hún ein allra besta sem Pratchett hefur skrifað.

Síðan er Dodger best fyrir Dickens aðdáendur.

Ilíonskviða er frjáls

coverÍ dreifðum prófarkalestri Rafbókavefsins er búið að ljúka yfirlestri á Ilíonskviðu og rafbókin er tilbúin. Maður er stoltur og montinn. Allir sjálfboðaliðarnir eiga þakkir mínar og sömuleiðis fjölskylda Halldórs Péturssonar sem leyfði mér að nýta teikningar sem voru í prentútgáfunni.

Ég ætla að kalla þetta stærsta bókmenntaviðburð ársins (allavega sem komið er). Einn allra merkasti texti sem komið hefur út á íslensku er núna frjáls og öllum aðgengilegur.

Neverwhere – Aldrei verið þar…

Ég byrjaði í gær að endurlesa Neverwhere eftir Neil Gaiman. Ég held að þetta hafi verið fyrsta skáldsagan sem ég las eftir hann (minnir að Siggi hafi hafi lánað mér hana). Ég hef ekki lesið hana síðan.

Ég fékk voðalega skrýtna tilfinningu þegar ég byrjaði að lesa. Sagan byrjaði að rifjast upp fyrir mér en ég áttaði mig á að ég er ekki samur og ég var síðast. Ástæðan er kannski hálf-yfirborðskennd.

Bókin hefst í Skotlandi en gerist aðallega í London. Þegar ég las hana síðast hafði ég varla farið til útlanda og alls ekki til Bretlandseyja. Síðan þá hef komið til London nokkrum sinnum, ferðast um Skotland og búið á Írlandi (sem, fyrir mér, tilheyrir sama menningarheimi þrátt fyrir að öll löndin hafi sína sérstöðu). Þannig að í stað þess að textinn veki upp hjá mér myndir úr sjónvarpi, kvikmyndum og bókum þá hugsa ég um staði sem ég hef heimsótt. Súla Nelsons er fullkomlega raunveruleg fyrir mér því ég hef setið á stallinum og horft á mannlífið á Trafalgartorgi.

Þegar ég skrifa þetta finn ég vanmátt minn að tjá mig um þessar skrýtnu tilfinningar sem þetta vakti með mér…

Russell Brand – Slaktivistabylting hirðfíflsins

Ég held ég sé búinn að fylgjast með Russell Brand lengur en flestir Íslendingar. Ég hef lesið tvær ævisögur hans og þótti önnur þeirra stórskemmtileg. Ég fór á uppistandið hans í fyrra og skemmti mér vel. Mér þykir Brand líka oft skemmtilegur þegar hann er með uppsteyt, t.d. þegar hann skaut á Hugo Boss.

En Russell Brand er ekki pólitískur hugsuður. Hann er hirðfífl. Hann getur stundum afhjúpað valdamenn og er ekki laus við innsæi. Hann skrifaði t.d. ákaflega vel um óeirðirnar í Bretlandi fyrir nokkrum árum enda þekkir hann vel þær aðstæður sem sköpuðu þær.

Bókin Revolution er ekki laus við góðar hugmyndir – hún er bara laus við góðar nýjar hugmyndir. Og hún er uppfull af slæmum hugmyndum. Góðu hugmyndirnar koma aðallega frá hugsuðum eins og Chomsky og Brand viðurkennir það yfirleitt. Vondu hugmyndirnar koma flestar úr nýaldarspekinni sem Brand aðhyllist svo mjög.

Bókin virðist illa rannsökuð. Til dæmis heldur Brand því fram að Júpíter hafi fjögur tungl sem er alveg afskaplega rangt. Síðan eru líka nokkrar vafasamar tilvitnanir í Einstein og ég hef einmitt þá stefnu að álíta allar slíkar tilvitnanir falsaðar ef ekki fylgir vísun í heimildir. Þegar Brand talar um spænska borgarastríðið þá virðist hann ekki skilja neitt um það, ekki bakgrunn þess eða eftirmál.

Það sem ég hef lesið um bókina til þessa hefur verið á þá leið að Brand komi ekki með neinar hugmyndir um að koma „byltingunni“ af stað. Það er reyndar rangt. Hann er með eina hugmynd um að koma byltingunni af stað og það er að hugleiða.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég hef ekkert á móti hugleiðslu og hef alveg velt fyrir mér að prufa. Hins vegar veit ég vel að þó hugleiðslan myndi kannski koma sér vel fyrir mig þá hefur hún engin áhrif á neitt annað. Það er sama og um aðrar athafnir sem róa hugann, hvort sem það eru bænir eða að horfa á heimskulegar gamanmyndir. Það hefur ekki áhrif nema á og í gegnum mann sjálfan.

Brand vitnar oft í tilraun sem fylgjendur Maharishi Mahesh Yogi gerðu. Þeir hugleiddu tvisvar á dag saman í von um að lækka glæpatíðnina í Washington DC í Bandaríkjunum. Brand heldur að þessi tilraun hafi virkað þannig að glæpatíðnin hafi lækkað um 20%. Vandinn er að það gerðist ekki. Sér í lagi hefur verið bent á að morðtíðni í borginni hækkaði en sá sem gerði tilraunina svaraði þannig að „hrottalegum“ morðum hafi fækkað. Það að tala um gagnsemi hugleiðslu til að hafa áhrif á samfélagið er helsta tilraun Brand til að koma með aðferðir til að bylta samfélaginu. Brand má eiga það að hann hæðist að tilraunum þessa sama hóps, sem hann sjálfur tilheyrir, til jógaflugs. Vonandi er hægt að nota tölfræði til að sýna honum að hugleiðslutilraunin er af sama sauðahúsi.

Brand talar nokkrum sinnum illa um vísindin en á sama tíma er honum mikið í mun að reyna að nota skammtafræði til að réttlæta nýaldarspeki sína. Á þeim köflum gretti ég mig töluvert í framan og í heilanum. Mjög vafasöm túlkun.

Versta hugmyndin í bókinni er auðvitað að fólk ætti ekki að kjósa en hún er ekki ný. Það er barnaleg hugmynd sem dæmir fólk einfaldlega úr leik. Stjórnmálamenn eltast ekki við fólk sem kýs ekki. Auðvelt dæmi á Íslandi er auðvitað hvernig lág kosningaþátttaka ungs fólks varð til þess að Píratar fengu ekki það fylgi sem þeir hefðu getað fengið. Auðvitað eru aðstæður aðrar í Bretlandi en þar væri til dæmis miklu betri hugmynd að kjósa Græna flokkinn þar heldur en að sleppa því að kjósa. UKip fólkið kýs. Gamla fólkið kýs. Ef þú kýst ekki þá ertu ekki með og öllum er sama um þig. Flokkarnir reyna frekar að færa sig til þeirra sem munu kjósa (sem er auðvitað ein helst ástæðan fyrir því að í Bandaríkjunum eru tvær hægri flokkar sem öllu ráða). Það þarf auðvitað meiri pistil til að ræða mikilvægi þess að kjósa en ég vil samt segja að það er mikilvægt að reyna að velja skásta kostinn og sætta sig við að stundum líði manni svoltið eins og maður sé skítugur fyrir að taka þátt í þessu.

Það hefði líka verið sterkara hjá Brand að segja fólki að skila auðu eða gera ógilt heldur en að sitja heima. Enginn sér mun á þeim sem sitja heima af því að þeir eru latir og þeim sem sitja heima af því að þeir eru reiðir.

Auðvitað hefði verið gagnlegast ef Brand hefði hvatt fólk til að taka þátt í pólitísku starfi eða hópum sem eru berjast fyrir samfélagslegum breytingum. En það hefði ekki verið nógu einfalt til að ná til fólks sem vill helst láta réttlæta ákvörðun sína um að kjósa ekki.

Bókin er samhengislítil og frekar ófyndin, dáltið eins og seinni ævisaga hans. Brand fer oft á tíðum út um víða völl þannig að lesendur hljóta að hafa misst þráðinn þegar hann snýr aftur að því sem hann var að tala um. Verst er froðuspekin þar sem Brand talar í löngu og flóknu máli til að fela að hann hefur ekkert að segja.

Russell Brand segist hafa farið að ráðum grínistans Robert Webb og lesið smá Orwell en það hefur ekki gagnast mikið því Brand virðist ekki skilja neitt. Það er annars gagnlegt að bera Brand saman við annan breskan grínista, Frankie Boyle, sem talar mikið um stjórnmál. Sá er alltaf tilbúinn að benda lesendum sínum á að hann sé bara grínisti og að hann sé ekki skarpasti hugsuðurinn þó hann sé auðvitað miklu mun skarpari en Brand.

Bókin er líklega hápunktur „slaktivismans“ því hún hvetur fólk til að breyta samfélaginu með því að sitja heima á kjördag og sitja á rassinum að hugleiða. Kannski virkar Brand best sem hirðfífl vinstrimennskunnar sem minnir okkur á að lýðræði er fyrir þá sem taka þátt.

Bókasöfn og lýðfjármögnun á útgáfu

Það hafa dottið inn undanfarið nokkrar fréttir af lýðfjármögnun á bókum. Ég sjálfum hjálpaði um daginn við að fjármagna prentun á Sögu eftirlifenda hjá Karólína Fund. Síðan hafa Reynir Traustason, Karl Ágúst Úlfsson og fleiri ákveðið að fara þessa leið.

Ég hef í kjölfarið velt fyrir mér hvort bókasöfn séu að taka þátt í svona fjármögnun og, ef ekki, hvort þau ættu ekki að vera virk í því. Það er ljóst að ef stærri almenningsbókasöfn og einhver af þeim minni taka þátt í lýðfjármögnun þá getur það haft úrslitaáhrif á hvort útgáfa tekst eða ekki.

En það er reyndar skondið að þessi lýðfjármögnun er ekki svo ný. Hér á landi hafa sérstaklega afmælisrit verið fjármögnuð með „áskriftum“ þar sem fólk og stofnanir eru skrá á heillaóskalista fyrir þátttökuna. Það skrýtna er að ég hef ekki séð slík boð enn sem komið er í þessum veffjármögnunum.

Það minnir mig líka á að ég verð að kvarta yfir því að ég hef ekki enn séð að neinn bjóða rafbók til þeirra sem styðja svona lýðfjármögnun á bókum. Ég hef haldið að það lægi í augum uppi að þar gæti fólk fengið auðvelda peninga. Er fólk hrætt um að slíkt myndi draga kraftinn úr söfnun fyrir prentun?

Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur

Hafnfirdingabrandarinn-175x275Í gær fór ég í útgáfureif hjá Bryndísi vinkonu minni. Hún var að gefa út þriðju bók sína Hafnfirðingabrandarinn.

Þegar ég kom heim settist ég niður og byrjaði að lesa. Ég hélt síðan áfram að lesa og kláraði bókina.

Bókin gerist árið 1999 í Hafnarfirði og aðalsögupersónan er stelpa í tíunda bekk. Ég er ekki að fara að tala meira um plottið nema að segja að það er bæði unglingadrama og fjölskylduleyndarmál.

Mér þótti bókin stórfyndin og dásamleg. Það er reyndar ekki skrýtið af því að mér þykir Bryndís stórfyndin en ég held líka að öðrum eigi að finnast það líka. Ég átti reyndar voðalega erfitt með að sjá ekki Bryndísi fyrir mér sem aðalsöguhetjuna og þá sérstaklega í einni Strætósögu sem ég mundi vel eftir að hún hafði sagt mér af sjálfri sér.

Ég mæli sumsé sterklega með bókinni. Það eitt að ég las hana í einum rykk segir sitt.

Nýi rafbókalesarinn minn (Boyue T61)

Ég átti í þrjú ár Kindle Keyboard. Hann dó í vor og ég hef verið að leita mér að nýjum í staðinn.

Rafbókalesarinn sem mig hefur dreymt um:

  • Rafblek (það er grundvöllur þess að geta lesið lengi án þess að þreytast í augunum)
  • Alvöru Android stýrikerfi (svo maður sé ekki háður t.d. Amazon og geti um leið sett inn önnur gagnleg forrit)
  • Flettihnappar báðum megin (mér þykir verra að fletta á snertiskjám)
  • Ekki of stór eða þungur
  • Framlýsing sem hægt er að kveikja á eftir þörfum (fann það t.d. á ferðalögum í vor og sumar að maður getur ekki treyst því að hafa vel staðsetta lampa þar sem maður er að gista)
  • Tekur minniskort

Það hafa komið fram nokkrir Android lesarar en flestir hafa fallið á einhverju prófi. Þeir hafa oftast verið hægvirkir. Það er erfitt að setja upp forrit í þeim og sum virka bara ekki (auðvitað mun aldrei virka að nota forrit sem þurfa virka myndvinnslu). Síðan hefur oftast vantað flettihnappana eða þá að það hafa bara verið flettihnappar öðrum megin.

Fyrir um mánuði síðan byrjaði fólk að tala um nýjan rafbókalesara sem gæti allt sem ég bað um. Hann heitir Icarus Illumina e653. Hann fékk ákaflega góða dóma og fólk var voðalega spennt. Síðan kom í ljós að þetta var bara evrópska útgáfan af rafbókalesara sem hefur verið á markaði síðan í júní í Kína. Sá heitir Boyue T61 og er mun ódýrari. Hann fellur hins vegar ekki undir ábyrgðarreglur ESB (en mig grunar að svoleiðis sé hvort eð er vesen þegar enginn þjónustuaðili er á Íslandi).

Ég fann Boyue T61 til sölu á Ali Express á 117$ með ókeypis sendingu til Íslands. Það er hræódýrt. Það átti líka að fylgja með hulstur sem kom raunar ekki. Allavega stökk ég á þetta. Það er rétt að nefna að það er hægt að fá mjög svipaðan lesara, Boyue T62, á svipuðu verði. Sá er með meira geymslupláss (sem skiptir mig engu máli þegar ég er með 32 gb minniskort), stærra batterí (sem gæti skipt máli), er með hljóðúttaki (ég notaði það örsjaldan á Kindlinum) og er örlítið stærri og þyngri (sem mér þykir verra).

Á meðan ég beið las ég mér til um lesarann. Sumir tóku Boyue lesara og settu upp Icarus hugbúnaðan sem þeim þótti af einhverjum ástæðum betra. Ég ætlaði að gera það en áttaði mig fljótlega á að það skipti líklega engu máli. Menn kvörtuðu yfir því að það var ekki hægt að setja inn Google Play en það var auðvelt að setja upp Amazon App Store og Good-E-Reader Store. Síðan fóru menn að ná rótarréttindum á lesaranum til að setja upp Google forritin. Sumir voru mjög ósáttir við endinguna á rafhlöðunni sem er mun minni en á hefðbundnum rafbókalesurum enda þarf tæki sem er að keyra alvöru Android og öflugan örgjörva meiri orku en tæki sem á bara að þjóna einu hlutverki. Það komu góð ráð við þessu vandamáli. Í fyrsta lagi þarf að slökkva alveg á lesaranum í stað þess að láta hann bara „hvílast“ og síðan er hægt að láta inn forrit eins og Deep Sleep sem drepur á forritum sem eru að sjúga til sín orku. En batteríið mun aldrei endast eins og á t.d. Kindle. Við erum væntanlega að tala um að nota tækið án þess að hlaða það í viku í staðinn fyrir vikur.

Tækið var akkúrat þrjár vikur á leiðinni. Maður biður ekki um meira þegar sendingarkostnaðurinn er enginn. Heildarverðið var rétt rúmar 18.000 krónur þegar Tollurinn hafði bætt við skatti og umsýslugjöldum (c. 4100 kr.).

Lesarinn er á kínversku til að byrja með. Með því að bera stillingarvalmyndina saman við þá sem er í símanum mínum gat ég auðveldlega fundið enskuna.

Ég prufaði að setja inn nokkur forrit. Amazon App Store og Good-E-Reader Store fóru vandræðalaust inn og ég gat notað þau. Ég setti líka inn forrit eins og Facebook. Allt sem ég prufaði gekk (mér skilst að það sé jafnvel hægt að setja inn YouTube þó auðvitað sé ekki hægt að spila myndbönd).

Næst ákvað ég að hætta mér út í erfiða verkefnið sem er að ná rótarréttindum (root) á tækinu til þess að geta sett inn Google forritin. Ég fór eftir leiðbeiningum sem eru tilbúnar á Mobile Read spjallborðinu (þurfti reyndar að setja inn Superuser handvirkt). Ég mæli ekki með þessu fyrir hvern sem er en þetta er auðveldari aðferð en þegar maður þarf að nota minniskort. Það er líka ekki beint þörf á þessu nema maður vilji setja inn forrit sem eru annað hvort bara til í Google Play eða ef maður vill setja inn forrit sem maður hefur keypt hjá Google.

Þarna kom ég Google Play inn og gat þá sett inn forrit þaðan. Reyndar var vandamál til að byrja með þegar ég átti að velja einhvern valkost en gat það ekki af því að hnappurinn til að staðfesta valið sást ekki (vegna þess að þetta er ekki hannað fyrir rafbleksskjá). Ég reddaði því með því að pota í skjáinn þar til ég virtist finna ósýnilega hnappinn. Ég byrjaði að setja inn Moon+ Reader Pro sem er, að flestra sögn, besta rafbókarlestrarforritið. Forritið er líka það vel hannað að það vinnur með flettihnöppunum á Boyue lesaranum ólíkt t.d. Kindle appinu. Ég setti líka inn Dropbox sem vinnur með Moon+ Reader Pro í að samhæfa lesturinn milli tækja. Ég get þá farið í símann minn og látið Moon+ Reader lesa fyrir mig þar sem ég var síðast kominn í bókinni.

Heimavalmynd lesarans er stillanleg þannig að ég tók til þar og setti t.a.m. Moon+ Reader sem flýtihnapp.

Ég notaði síðan lesarann til að lesa. Ég þurfti að fikta dálítið í stillingunum þar til ég var ánægður. Ég dekkti stafina og valdi font sem heitir Calluna (en mér skilst að maður geti notað allar stafagerðir sem maður vill). Ég prufaði að lesa með framljósinu og þótti það ekkert rosalega frábært. Það dugar þó alveg. Þeir sem þekkja til líkja þessu við fyrstu kynslóð af Kindle Paperwhite.

Ég get ekki dæmt endanlega strax. Þetta er óneitanlega skemmtilegt tæki með marga möguleika. En þetta er lítið þekktur framleiðandi og engin ábyrgð. Batteríið stoppar örugglega marga. Vesenið við að setja inn Google forrit stoppar aðra. En mér finnst ég í fyrsta skiptið vera með rafbókalesara eins og þeir hljóta að verða í framtíðinni.