Að selja ókeypis bækur

Þegar verkefni í þágu almennings taka að sér að koma efni á rafrænt form þá gerist það gjarnan að aðrir taka efnið og fara að rukka fyrir það. Stundum er einhverju bætt við en ekki alltaf.

Fyrir nokkru síðan rakst ég á að Forlagið selur rafbókaútgáfu af Hómerskviðum. Mig grunaði strax að hér væri á ferðinni textinn sem Rafbókavefurinn gaf út á sínum tíma. Ég nennti samt ekki að rannsaka það.

En núna áðan rakst á þessa bók hjá Google Books. Af þeim síðum sem sjást þar er ljóst að þetta er einfaldlega textinn frá okkur. Það eina sem við hefur verið bætt er ný kápumynd og höfundaréttaupplýsingar sem eru í meira lagi skrýtnar.

Sú hugmynd að Saga Egmont eigi höfundarétt að þessum texta er brandari. Útgáfan á væntanlega rétt á kápumyndinni og engu öðru. Ég játa að mér finnst töluvert fyndið að gefa Hómer höfundarétt. Fyrir utan þá staðreynd að hann var líklega ekki til þá var höfundaréttur alveg örugglega ekki til á þeim tíma sem hann á að hafa verið uppi.

En hvernig get ég verið viss um að þetta sé textinn sem Rafbókavefurinn setti á netið? Aðallega af því að þessi texti sést í sýnishorninu á Google Books.

Rafbókavefurinn tiltekur vissulega að öllum er frjálst að nota þá texta okkar sem eru merktir sem opið efni. Þannig að við bönnum engum að nota þetta. En það er auðvitað ákaflega vafasamt siðferðislega að selja efni sem þú hefur nær ekkert lagt til. Sömuleiðis finnst mér að það ætti að vera ólöglegt að gefa til kynna höfundarétt þar sem hann er ekki til staðar. Þá finnst mér hálfömurlegt að fella burt klausur um framlag Kristins Ármannssonar og Jóns Gíslasonar til útgáfunnar.

Ég er mjög hissa á að Forlagið sé að selja þessa útgáfu. Það væri gaman að sjá hvort þessi klausu um Rafbókavefinn sé líka í þessari útgáfu sem er verið að selja hjá þeim.

Annars þá er Rafbókavefurinn ennþá niðurgreiddur af mér. Það hafa bæst við smá styrkir á Karolina Fund en ekki einu sinni nóg til að borga hýsinguna. Ef fólk gæti gefið eitthvað þá myndi það hjálpa okkur – jafnvel í að koma þessu verkefni aftur á fullt skrið.

Líf í Rafbókavefinn?

Ég stofnaði Rafbókavefinn árið 2011. Hann var meginhluti meistaraverkefnis míns í hagnýtri menningarmiðlun. Þarna eru vel á annað hundrað rafbækur í opnum aðgangi. Til að byrja með tók ég aðallega texta frá Netútgáfunni og breytti í rafbækur (epub og mobi). En ég vildi gera meira.

Ég fékk Svavar Kjarrval með mér í lið. Hann hafði byggt bókaskanna með afa sínum. Þannig gátum við myndað bækur sem voru komnar úr höfundarétti. En það er mikil vinna að breyta myndaðri bók yfir í rafrænan texta. Fyrst þarf að ljóslesa textann. Þá fer sérstakt ljóslestursforrit yfir textann og reynir að endurskapa hann í rafrænu formi.

En ekkert ljóslestursforrit er fullkomið þannig að Svavar setti upp vefkerfi (byggt á kóða frá erlendri fyrirmynd) þar sem hver sem er gat skráð sig og hjálpað til við að lesa yfir textana. Við kölluðum það dreifðan prófarkarlestur. Það gekk vel í nokkurn tíma en það var samt erfitt að halda starfinu virku til lengri tíma. Það var alltaf mikil vinna hjá mér.

Að lokum fjaraði þetta út. Bókaskanninn bilaði. Vefkerfið klikkaði og við höfðum ekki tíma til að koma öllu aftur af stað. En mig langaði alltaf að gera meira.

Þegar vírusinn fór af stað hugsaði ég með mér að nú væri gott að geta farið í dreifðan prófarkrlestur. Þar sem ég hafði í millitíðinni lært töluvert um rekstur vefkerfa þá tók ég mig til og leigði sýndarvél og prufaði að setja upp nýjustu útgáfu af vefkerfinu. Það var mikil vinna og að lokum fékk ég hjálp frá forriturunum og saman uppgötvuðum við villu í kóðanum. Ég þurfti þá líka að þýða kerfið upp á nýtt, allavega þann hluta sem snýr að notendum. Ég keyrði það í gegn. Og núna er hægt að skrá sig aftur í dreifðan prófarkarlestur.

En það hefur fleira breyst. Lýðfjármögnun er orðinn raunverulegur möguleiki aftur. Ég er búinn að setja upp söfnunarsíðu á Karolina Fund þar sem fólk getur stutt okkur. Hingað til hef ég borgað nær allt sjálfur (Svavar þurfti kostaði á sínum tíma skannann og hýsinguna en núna get ég beðið um stuðning á einfaldan hátt. Hvort sem það eru fyrirtæki eða að einstaklingar þá getið stutt okkur.

Ég er líka búinn að setja fram hugmyndir um að búa til hljóðbækur. Við getum gert það í upptökuverinu í Kistunni. Þannig að ef við fáum nægan stuðning getum við gert ótrúlega margt.

Þú getur hjálpað með því að skrá þig í dreifðan prófarkarlestur eða með því að gefa okkur pening á Karolina Fund.

Ég er búinn að setja inn fjórar bækur í dreifðan prófarkarlestur. Þetta eru bækur sem búið var að skanna á bækur.is og það var tiltölulega auðvelt að ljóslesa þær og setja inn í kerfið. Ég mun auðvitað bæta við fleiri bókum eftir því sem á líður en þetta er ágæt byrjun.

Íslenskar sögur og sagnir Þorsteinn Erlingsson (1858 – 1914)
Norsk æfintýri (1. bindi) Peter Christen Asbjørnsen 1812 – 1885, Jørgen Engebretsen Moe 1813 – 1882, Jens Steindór Benediktsson 1910 – 1946
Fjalla-Eyvindur Jóhann Sigurjónsson (1880-1919)
Systurnar Guðrún Lárusdóttir 1880 – 1938

Ilíonskviða er frjáls

coverÍ dreifðum prófarkalestri Rafbókavefsins er búið að ljúka yfirlestri á Ilíonskviðu og rafbókin er tilbúin. Maður er stoltur og montinn. Allir sjálfboðaliðarnir eiga þakkir mínar og sömuleiðis fjölskylda Halldórs Péturssonar sem leyfði mér að nýta teikningar sem voru í prentútgáfunni.

Ég ætla að kalla þetta stærsta bókmenntaviðburð ársins (allavega sem komið er). Einn allra merkasti texti sem komið hefur út á íslensku er núna frjáls og öllum aðgengilegur.

Nýi rafbókalesarinn minn (Boyue T61)

Ég átti í þrjú ár Kindle Keyboard. Hann dó í vor og ég hef verið að leita mér að nýjum í staðinn.

Rafbókalesarinn sem mig hefur dreymt um:

  • Rafblek (það er grundvöllur þess að geta lesið lengi án þess að þreytast í augunum)
  • Alvöru Android stýrikerfi (svo maður sé ekki háður t.d. Amazon og geti um leið sett inn önnur gagnleg forrit)
  • Flettihnappar báðum megin (mér þykir verra að fletta á snertiskjám)
  • Ekki of stór eða þungur
  • Framlýsing sem hægt er að kveikja á eftir þörfum (fann það t.d. á ferðalögum í vor og sumar að maður getur ekki treyst því að hafa vel staðsetta lampa þar sem maður er að gista)
  • Tekur minniskort

Það hafa komið fram nokkrir Android lesarar en flestir hafa fallið á einhverju prófi. Þeir hafa oftast verið hægvirkir. Það er erfitt að setja upp forrit í þeim og sum virka bara ekki (auðvitað mun aldrei virka að nota forrit sem þurfa virka myndvinnslu). Síðan hefur oftast vantað flettihnappana eða þá að það hafa bara verið flettihnappar öðrum megin.

Fyrir um mánuði síðan byrjaði fólk að tala um nýjan rafbókalesara sem gæti allt sem ég bað um. Hann heitir Icarus Illumina e653. Hann fékk ákaflega góða dóma og fólk var voðalega spennt. Síðan kom í ljós að þetta var bara evrópska útgáfan af rafbókalesara sem hefur verið á markaði síðan í júní í Kína. Sá heitir Boyue T61 og er mun ódýrari. Hann fellur hins vegar ekki undir ábyrgðarreglur ESB (en mig grunar að svoleiðis sé hvort eð er vesen þegar enginn þjónustuaðili er á Íslandi).

Ég fann Boyue T61 til sölu á Ali Express á 117$ með ókeypis sendingu til Íslands. Það er hræódýrt. Það átti líka að fylgja með hulstur sem kom raunar ekki. Allavega stökk ég á þetta. Það er rétt að nefna að það er hægt að fá mjög svipaðan lesara, Boyue T62, á svipuðu verði. Sá er með meira geymslupláss (sem skiptir mig engu máli þegar ég er með 32 gb minniskort), stærra batterí (sem gæti skipt máli), er með hljóðúttaki (ég notaði það örsjaldan á Kindlinum) og er örlítið stærri og þyngri (sem mér þykir verra).

Á meðan ég beið las ég mér til um lesarann. Sumir tóku Boyue lesara og settu upp Icarus hugbúnaðan sem þeim þótti af einhverjum ástæðum betra. Ég ætlaði að gera það en áttaði mig fljótlega á að það skipti líklega engu máli. Menn kvörtuðu yfir því að það var ekki hægt að setja inn Google Play en það var auðvelt að setja upp Amazon App Store og Good-E-Reader Store. Síðan fóru menn að ná rótarréttindum á lesaranum til að setja upp Google forritin. Sumir voru mjög ósáttir við endinguna á rafhlöðunni sem er mun minni en á hefðbundnum rafbókalesurum enda þarf tæki sem er að keyra alvöru Android og öflugan örgjörva meiri orku en tæki sem á bara að þjóna einu hlutverki. Það komu góð ráð við þessu vandamáli. Í fyrsta lagi þarf að slökkva alveg á lesaranum í stað þess að láta hann bara “hvílast” og síðan er hægt að láta inn forrit eins og Deep Sleep sem drepur á forritum sem eru að sjúga til sín orku. En batteríið mun aldrei endast eins og á t.d. Kindle. Við erum væntanlega að tala um að nota tækið án þess að hlaða það í viku í staðinn fyrir vikur.

Tækið var akkúrat þrjár vikur á leiðinni. Maður biður ekki um meira þegar sendingarkostnaðurinn er enginn. Heildarverðið var rétt rúmar 18.000 krónur þegar Tollurinn hafði bætt við skatti og umsýslugjöldum (c. 4100 kr.).

Lesarinn er á kínversku til að byrja með. Með því að bera stillingarvalmyndina saman við þá sem er í símanum mínum gat ég auðveldlega fundið enskuna.

Ég prufaði að setja inn nokkur forrit. Amazon App Store og Good-E-Reader Store fóru vandræðalaust inn og ég gat notað þau. Ég setti líka inn forrit eins og Facebook. Allt sem ég prufaði gekk (mér skilst að það sé jafnvel hægt að setja inn YouTube þó auðvitað sé ekki hægt að spila myndbönd).

Næst ákvað ég að hætta mér út í erfiða verkefnið sem er að ná rótarréttindum (root) á tækinu til þess að geta sett inn Google forritin. Ég fór eftir leiðbeiningum sem eru tilbúnar á Mobile Read spjallborðinu (þurfti reyndar að setja inn Superuser handvirkt). Ég mæli ekki með þessu fyrir hvern sem er en þetta er auðveldari aðferð en þegar maður þarf að nota minniskort. Það er líka ekki beint þörf á þessu nema maður vilji setja inn forrit sem eru annað hvort bara til í Google Play eða ef maður vill setja inn forrit sem maður hefur keypt hjá Google.

Þarna kom ég Google Play inn og gat þá sett inn forrit þaðan. Reyndar var vandamál til að byrja með þegar ég átti að velja einhvern valkost en gat það ekki af því að hnappurinn til að staðfesta valið sást ekki (vegna þess að þetta er ekki hannað fyrir rafbleksskjá). Ég reddaði því með því að pota í skjáinn þar til ég virtist finna ósýnilega hnappinn. Ég byrjaði að setja inn Moon+ Reader Pro sem er, að flestra sögn, besta rafbókarlestrarforritið. Forritið er líka það vel hannað að það vinnur með flettihnöppunum á Boyue lesaranum ólíkt t.d. Kindle appinu. Ég setti líka inn Dropbox sem vinnur með Moon+ Reader Pro í að samhæfa lesturinn milli tækja. Ég get þá farið í símann minn og látið Moon+ Reader lesa fyrir mig þar sem ég var síðast kominn í bókinni.

Heimavalmynd lesarans er stillanleg þannig að ég tók til þar og setti t.a.m. Moon+ Reader sem flýtihnapp.

Ég notaði síðan lesarann til að lesa. Ég þurfti að fikta dálítið í stillingunum þar til ég var ánægður. Ég dekkti stafina og valdi font sem heitir Calluna (en mér skilst að maður geti notað allar stafagerðir sem maður vill). Ég prufaði að lesa með framljósinu og þótti það ekkert rosalega frábært. Það dugar þó alveg. Þeir sem þekkja til líkja þessu við fyrstu kynslóð af Kindle Paperwhite.

Ég get ekki dæmt endanlega strax. Þetta er óneitanlega skemmtilegt tæki með marga möguleika. En þetta er lítið þekktur framleiðandi og engin ábyrgð. Batteríið stoppar örugglega marga. Vesenið við að setja inn Google forrit stoppar aðra. En mér finnst ég í fyrsta skiptið vera með rafbókalesara eins og þeir hljóta að verða í framtíðinni.

Flóknasta rafbókin

Í dag gefur Rafbókavefurinn út tvær bækur eftir Ólaf Briem. Ég fékk sérstakt leyfi frá frænkum hans sem eiga höfundaréttinn til að endurgera bækurnar og er mjög þakklátur fyrir. Bækurnar voru lesnar yfir í dreifða prófarkalesturskerfinu. Þessar bækur eru Norræn goðafræði og Heiðinn siður á Íslandi.

Heiðinn siður á Íslandi er flóknasta rafbók sem ég hef búið til. Aðallega er það vegna þess að bókin er með vel á fjórða hundrað endamálsgreina. Til þess að gera lesandanum lífið auðveldara þá þurfti ég að gera tengil á hverja einustu vísun og “akkeri” á hverja einustu endamálsgrein. Ég náði vissulega að gera þetta með “find/replace” aðgerð en eins og með allar slíkar aðgerðir þá er það flókið í löngum texta. En þetta tókst. Ég var voðalega feginn þegar ég sá að heildarfjöldi neðanmálsgreina í Norræn goðafræði er 17. Bækurnar voru síðan báðar myndskreyttar sem er alltaf dálítið fiff en mjög yfirstíganlegt.

Það er rétt að minna á að á þriðjudagskvöldið næsta verður námskeið í dreifðum prófarkalestri á Bókhlöðunni.

Frítt námskeið í dreifðum prófarkalestri

Rafbókavefurinn býr til og dreifir gjaldfrjálst rafbókum á íslensku. Þetta eru bækur sem eru komnar úr höfundarétti og bækur sem dreift er með leyfi höfundarétthafa. Nú þegar eru 125 rafbækur aðgengilegar á vefnum.

Rafbókavefurinn vinnur bæði með léttefni og hámenningu. Af hámenningu má nefna Þjóðsögur Jóns Árnasonar, Hómerskviður, Þúsund og eina nótt og Heiðnu-Biblíuna.

Til að breyta prentaðri bók í rafbók þarf fyrst að mynda hana með sérstökum bókaskanna. Næst breytir forrit myndunum í texta með svokölluðum ljóslestri. Að lokum hjálpa sjálfboðaliðar við að lagfæra villur sem verða alltaf þegar mynd er breytt í texta (sérstaklega þegar um er að ræða sér-íslenska stafi).

Sjálfboðaliðar skrá sig í sérstakt vefkerfi þar sem þeir fá annars vegar mynd af blaðsíðu og hins vegar ljóslesinn texta sem þeir geta leiðrétta til samræmis við frumtextann.

Nú býður Rafbókavefurinn í samvinnu við Landsbókasafnið upp á námskeið þar sem væntanlegum sjálfboðaliðum verður kennt á vefkerfið.

Námskeiðin verða þrjú og eru haldin á Þjóðarbókhlöðunni. Hægt er að skrá sig á námskeiðin á Facebook (en það er þó engin skylda).

Þriðjudagurinn 18. febrúar kl. 20:00
Þriðjudagurinn 25. febrúar kl. 20:00
Þriðjudagurinn 4. mars kl. 20:00

Rafbókavefurinn er málið þessa daganna

Einhvern veginn hefur Rafbókavefurinn fengið að sitja á hakanum full lengi. Fyrst kom sumarið og ég eyddi tíma mínum í að hjóla, sjá um drenginn og síðan stóra drenginn. Síðan fór ég að vinna og þá fór tíminn í að undirbúa fæðingarorlofið svo allt myndi ganga lipurlega þegar ég færi frá. Síðan fór ég í hálft fæðingarorlof og tíminn þar sem ég var heima og fór ekki í að sjá um drenginn fór í að sinna vinnutengdum verkefnum sem hægt var að sinna að heiman. Núna er ég kominn í fullt fæðingarorlof og þegar ég hef lausar stundir, í lúrum og svoleiðis, þá er ég í alvörunni laus.

Ég er því farinn að sinna Rafbókavefnum. Það eru nokkrar bækur sem þarf bara smá átak til að koma í gegn og aðrar sem þarf bara  Ég er búinn að setja inn fjórar bækur og allavega þrjár á leiðinni.

Stóra verkefnið er samt að reyna að koma fleira fólki í yfirlesturinn. Ég hef lengi gælt við að hafa einhvers konar kennslu fyrir áhugasamt fólk. Ég veit að það er sérstaklega margt eldra fólk sem hefur áhuga en þarf aðeins meiri þjálfun. Það vakti því áhuga minn að Wikipediufólk er farið að halda námskeið á Bókhlöðunni. Ég skrapp á slíkt í vikunni (ekki til að læra enda hef ég verið virkur síðan 2005 en ég lagaði og lengdi nokkrar færslur). Mér hafði satt best að segja ekki dottið Bókhlaðan í hug sem vettvangur fyrir svona námskeið og vissi satt best að segja ekki af stofunni sem þetta fór fram í (ég vann aldrei á þriðju hæðinni). En allavega vantar mig ókeypis stað þar sem eru tölvur, skjávarpi og er opið um kvöld og/eða helgar.

Ég gerði annars þetta kennslumyndband fyrir nokkru. Það er augljóslega meingallað að því leyti að þetta er röddin mín en ég held að fólk geti lært meginreglurnar af þessu.

Það er ótrúlega margt spennandi í kerfinu hjá dreifða prófarkalestrinum. Hómerskviður eru þarna í vinnslu, Þjóðsögur Jóns Árnasonar og Þúsund og ein nótt. Eitt af því sem ég hef lært er að yfirlesurum finnst miklu skemmtilegra að lesa yfir styttri verk en lengri. Ég hef því farið að búta niður þessi stóru verk. Núna er Heiðna-Biblían í yfirlestri og þá er bara ein bók í einu í stað þess að setja heildina eða testamentin. Sama verður með annað bindið af Þjóðsögunum hans Jóns. Ég mun setja inn einn sagnaflokk í einu til yfirlestrar og geri ráð fyrir að það muni hraða á öllu ferlinu.

Ég hef annars þreifað fyrir mér að fá styrki fyrir verkefninu. Það væri auðveldara að réttlæta fyrir sjálfan mér tímann sem fer í þetta ef ég fengi eitthvað smá borgað en enginn hefur bitið. Mér þykir það sjálfum skrýtið enda er þetta stórmerkilegt verkefni. Kannski er vandamálið að ég er lélegur að sækja um styrki.

En allavega Rafbókavefurinn og dreifði prófarkarlestursvefurinn verða í sókn á næstunni. Endilega takið þátt.

Rímixuð skáldsaga

Eftir að síðasti þátturinn af Game of Thrones var sýndur um daginn byrjaði ég að lesa bækurnar aftur. Ég er enn í fyrstu bókinni enda er ég ekki að flýta mér og að lesa annað um leið. Þegar kemur að fjórðu bókinni brýtur GRRM sögulínurnar í sundur og við heyrum ekkert meira af sumum persónum fyrr en í fimmtu bókinni. Þetta gerði hann til að bókin yrði ekki allt of löng.

Ég fór að hugsa með sjálfum mér hvort það væri ekki hægt að taka einfaldlega og blanda saman köflunum úr þessum tveimur bókum þannig að maður fengi söguna í tímaröð. Það er auðvitað þannig að ef maður fær rökréttar hugmyndir um svona vinsælt efni þá hefur einhverjum öðrum dottið það í hug. Ég gúgglaði og fann nokkrar síður þar sem var fjallað um hvernig hægt væri að lesa bækurnar í tímaröð. Þar voru bæði leiðbeiningar fyrir þá sem höfðu lesið bækurnar áður og líka fyrir þá sem voru að lesa þær í fyrsta sinn (þá þarf aðeins víkja frá tímaröð til að viðhalda óvæntum atburðum).

Ég ákvað að prufa aðra leit til að sjá hvort einhver hefði nú mögulega gengið alla leið og búið til rafbók þar sem köflunum hefði verið endurraðað. Ég fann þá fljótt og örugglega rafbókina A Ball of Beasts (varúð spoilerar – sérstaklega fyrir þá sem hafa bara séð þættina). Þarna eru miklir fyrirvarar um höfundaréttarmál en eftir að hafa lofað öllu fögru geta menn halað niður rafbók með sameinaðri sögu. Ég hlakka til að lesa þetta og er spenntur að sjá hvort það breyti einhverju um sýn manns á söguna.

Þetta er ekki fyrsta dæmið um að aðdáendur hafi breytt bókum höfunda en í raun fyrsta sem ég hef raunverulega áhuga á. Mér þætti skemmtilegt að vita hvað GRRM sjálfum þyki um þetta. Hann hefur talað gegn aðdáendaskrifum en þetta er allt önnur skepna. Ég vil ekki gera rithöfunda ennþá hræddari við rafbækur en þeir eru nú þegar en þetta er nokkuð sem fylgir þeim. Allar afritunarvarnir eru gagnslausar til annars en að fæla ótæknivædda frá og lesendurnir fá gríðarlegt vald yfir textanum ef þeir hafa áhuga á því. Það að halda sig utan rafbókaútgáfu dugar ekki heldur því skönnun og ljóslestur koma textanum líka á vald lesandans.

Þúsund ókeypis íslenskar rafbækur á leiðinni!

Í fyrra lauk ég við meistaraverkefni mitt í hagnýtri menningarmiðlun. Það er Rafbókavefurinn  sem hýsir aðallega rafbækur sem innihalda texta úr höfundarétti sem fengnir voru frá Netútgáfunni. Ég vil ekki að Rafbókavefurinn deyi. Ég vil að hann verði upphafið að meiru. Ég vil þúsund íslenskar rafbækur sem eru opnar öllum. Til þess þarf ég hjálp ykkar.

Til þess að breyta pappírsbók í texta þarf nokkur skref.

  • Fyrsta skrefið er að mynda bókina. Það geri ég með hjálp Svavars Kjarrvals og bókaskannanum sem hann byggði með hjálp Svavars Jóhannessonar afa síns.
  • Annað skrefið er að breyta mynd í texta. Þá þarf að ljóslesa textann sem er ekki fyrirhafnarmikið.
  • Þriðja skrefið er að leiðrétta ljóslesna textann svo hann verði réttur. Öll ljóslestrarforrit gera mistök – sérstaklega á íslenskum stöfum. Það er stóra vandamálið í ferlinu sem krefst aðkomu margra svo það geti gengið hratt.

Svavar Kjarrval félagi minn hefur hjálpað mér að setja upp vefkerfi frá Gutenberg verkefninu. Kerfið gengur út á að hver sem er geti skráð sig inn og borið saman ljóslesinn texta við mynd af blaðsíðu og leiðrétt það sem hefur farið aflaga. Þetta getur þú gert með því að skrá þig hérna. Ég minni bara á að þetta er ekki prófarkalestur í hefðbundnum skilningi þar sem markmiðið er ekki að fá rétt stafsetningu eða málfar heldur til þess að fá textann eins og hann er á síðunni.

Fólk getur hjálpað með því að lesa yfir eina síðu á dag (þó það sé hægt að lesa yfir tíu síður á dag án þess að eyða of miklum tíma í þetta – sleppið bara Facebook í smástund og lesið yfir í staðinn).

Á þessu stigi málsins er eitt vandamál að ég á eftir að þýða og aðlaga eitthvað af kerfinu og leiðbeiningunum til þess að auðvelda notkun. Þar þarf ég líka aðstoð og þeir sem vilja með í því ættu að skrá sig á vefinn og kynna sig síðan á spjallborðinu þar sem hægt er að ræða þessi mál.

Ég hef þegar skannað inn fjölmargar bækur. En hvaða bækur er ég að skanna? Hér er um að ræða bækur sem eru komnar úr höfundarétti. En ég hef hingað til lagt áherslu á tvenns konar bækur.

Í fyrsta lagi eru bækur sem hafa augljóst menningarlegt gildi. Hómerskviður og Þjóðsögur Jóns Árnasonar eru gott dæmi um þær bækur.

Í öðru lagi eru það bækur sem ég tel að gæti höfðað til stráka (svona tíu ára og eldri – þeirra sem lesa lítið sem ekkert en eru líklegir til að eiga t.d. spjaldtölvur). Ég hef fundið bækur sem ég las sjálfur og aðrar sem mér finnst líklegt að ég hefði lesið ef ég hefði haft aðgang að þeim. Þarna má nefna Námur Salómons konungs og Skytturnar eftir Dumas.

Ef ég verð einn að í yfirlestri get ég kannski klárað nokkrar bækur á ári. Ef nógu margir koma að verk þá er hægt að lesa yfir tugi bækur, jafnvel hundruði. Að lokum myndi það verða til þess að það væri hægt að dreifa þúsund íslenskum rafbókum ókeypis.