Það er ég. Ég hef gert meistaraverkefni um rafbækur og ég hef búið til vel á annað hundrað rafbækur (sjá Rafbókavefinn). Ég hef skrifað greinar um efnið, flutt fyrirlestra og kennt rafbókagerð í Endurmenntun HÍ. Þetta er kannski asnaleg bloggfærsla en ég hef séð svo margar umfjallanir í fjölmiðlum um rafbækur þar sem einungis eru kallaðir til hagsmunaaðilar en enginn kemur fram fyrir hönd almennings. Núna vona ég bara að næst þegar einhver fjölmiðlamaður fer að fjalla um rafbækur þá muni Gúgglið leiða hann hingað.
Category: Rafbækur
Af rándýrri Laxness rafbók
Um daginn gagnrýndi Gísli Ásgeirsson verðlagningu á rafbókum í bloggfærslu. Þar fór af stað lífleg umræða. Framkvæmdarstjóri Forlagsins Egill Örn Jóhannsson varði verðlagninguna og reyndi að skýra. Palli Hilmars benti á að verð á rafbókinni Heimsljósi væri fullmikið miðað við þær forsendur sem kæmu fram hjá Agli. Egill svaraði á þennan veg:
Að koma Heimsljósi á rafrænt form var meiriháttar mál. Þar voru engin tölvugögn fyrirliggjandi og þurfti að síðuskanna bókina og þá í framhaldinu nauðsynlegt að prófarkalesa. Kostnaður við rafbókargerðina nam fleiri hundruð þúsundum vegna þessa (prófarkalestur einn og sér er verulegur). Ég geri ráð fyrir Forlaginu takist seint að ná inn kostnaði vegna þessa, og myndi litlu breyta hvort bókin kostaði 990 krónur eða 3990.
Þetta skildi ég þannig að áður en rafbókin hefði verið gefin út hafi texti Heimsljóss ekki verið til rafrænn og mér þótti það svolítið skrýtið. Ég athugaði og sá að Heimsljós hafi verið gefið út árið 2010 og þótti skrýtið að þar hefði ekki orðið til rafrænn texti. En ég hugsaði ekki meira um það þá.
Í dag var mér bent á svolítið skemmtilegt. Á vefnum Snara er hægt að finna Orðstöðulykil verka Halldórs Laxness. Hann byggir á rafrænum textum af fjórtán verkum Laxness – þ.á.m. er Heimsljós. Verkið er sumsé til rafrænt. Forlagið á sumsé Snöru – allavega útgáfuréttinn á þeim verkum sem eru þar.
Það að koma þessum verkum á rafrænt form var örugglega rándýrt (enda margstyrkt af hinu opinbera) en samkvæmt gamalli frétt Morgunblaðsins var byrjað á því verki cirka árið 1990 og Orðstöðulykillinn kom á netið árið 2002.
Ég get því ekki sagt annað en mér þyki málflutningur framkvæmdarstjóra Forlagsins örlítið villandi.
Kindle er besti rafbókalesarinn – því miður
Kobo mini er svo sætur rafbókalesari að mig langar að kaupa hann. Ég myndi vilja hafa hann með mér í vinnunni og senda í hann lengri greinar sem ég þarf að lesa þar. En það er ekki hægt. Kobo virðist bara ekki bjóða upp á þennan möguleika og sé ekki að aðrir rafbókalesarar geri það heldur.
Þegar ég rekst á langar greinar á netinu sem ég vil lesa – hvað þá fræðigreinar í gagnagrunnum – þá ýti ég á hnapp sem er efst í hægra horninu á vafranum mínum. Þá færist ég yfir á síðu þar sem ég ýtti á annan hnapp til að senda greinina í Kindilinn minn. Næst þegar Kindillinn kemst í netsamband fer greinin þar inn og ég get lesið af þægilegum skjá. Þetta er það sem Kindle hefur fram yfir aðra lesara. Þetta er það sem samkeppnisaðilarnir þurfa að jafna eða toppa.
Kindle er ekki gott tæki á flesta mælikvarða hins opna og frjálsa en hann er ákaflega góður í því sem hann er ætlaður til.
Hvernig rafbókalesara á ég að kaupa – draumarafbókalesarinn minn
Ég er oft spurður hvernig rafbókalesara fólk eigi að kaupa sér og ég hef aldrei skýr svör.
Kindle er frábært tæki. Það hins vegar læsir mann inni í Amazon hagkerfinu og maður getur ekki keypt íslenskar rafbækur frá stóru forlögunum (en maður getur keypt fjölmargar íslenskar rafbækur á Emmu og Skinnu).
Gallarnir hverfa þó ef maður er til í að taka afritunarvarnirnar af, bæði af Amazon rafbókunum og íslensku Epub rafbókunum frá stóru íslensku forlögunum (það væri reyndar það skásta sem gæti komið fyrir þau – en hver nennir að kaupa rafbækur af þeim á því verði sem þeir bjóða upp á). Það er ákaflega auðvelt ef maður vill standa í því. Töluvert auðveldara allavega en að standa í þessu Adobe ID brasi í mörg ár.
Kobo, Nook og fleiri eru mjög fínir lesarar sem geta væntanlega opnað allar íslenskar rafbækur. En maður missir af Amazon sem er besta rafbókabúðin.
Spjaldtölvur eru örugglega fín leikföng en eru, að mínu mati, annars flokks leið til þess að lesa rafbækur.
Draumarafbókalesarinn minn er líklega ekki til. Hann væri líklega drifinn af Android. Hann væri hins vegar með rafblekskjá. Maður gæti sett þar inn forrit til þess að lesa og versla við Amazon, Barnes and Noble og hvaðeina – jafnvel Apple. Hann myndi þó helst vera þannig að maður gæti haft yfirlit yfir allar bækurnar sínar í einu umsýsluforriti sem síðan gæti þá ræst viðeigandi lesaraforrit þegar maður velur bók.
Jú, reyndar væri betra að hafa rafbækur sem eru allar á opnu formi sem hvaða rafbókalesari gæti lesið en ég er að miða við praktíska lausn miðað við ástandið sem er á þessum málum í dag.
Nýir Kindlar – afþreyingarefni til sölu
Ég var að fylgjast með bloggum af blaðamannafundi Amazon um nýju Kindlana.
Ég hafði mestan áhuga á nýja rafbókalesaranum. Hann er kallaður Paperwhite (og verður væntanlega uppnefndur Paperweight). Hann er með hærri upplausn en þeir fyrri og með ákaflega hvítan skjá. Það nýjasta er hins vegar að boðið er upp á upplýstan skjá sem þó er víst ekki baklýstur. Mér þætti gaman að prufa að lesa af slíkum skjá. Ég hef samt alltaf verið mjög ánægður með minn óupplýsta skjá.
Gamli ódýri Kindillinn er enn til sölu en kostar bara 69$ dollara núna
Kindle Fire á greinilega að geta keppt við iPad. Mér sýnist þeir bjóða upp á þrjár nýjar tegundir og þar af einn stóran. Þeir eru að sjálfsögðu mun ódýrari en iPadar. Reyndar var ég spenntastur að sjá að nýju Kindle Fire eru með fídusa fyrir börn.
En verðin á Kindlum sýna enn og aftur að Amazon hefur fyrst og fremst áhuga á að selja afþreyingarefni. Þeir selja tækin hræódýrt til þess að fá fólk til að það versli hjá þeim. Spurningin er hins vegar: Getur Amazon yfirhöfuð selt sjónvarpsefni og kvikmyndir rafrænt til Íslands? Erum við ekki bak við einhvern tuttugustu aldar múr? Er þá nokkuð að græða á þessum spjaldtölvum þeirra?
Viðbót: Gleymdi reyndar að nefna skemmtilega viðbót sem er að nýi Kindle reiknar út frá leshraða manns hve langt er þangað til þess að klára bókina.
Tveir áfangar
Þessa daganna tel ég afrek mín helst vera tengd hjólreiðum (tók 18.6 km hring upp í kringum Elliðavatn í dag). Veðrið hefur líka verið gott til slíks. Vonandi meira um það seinna.
En það eru aðrir áfangar sem ég ætlaði að nefna.
Í síðustu viku fékk ég lokaeinkunn fyrir meistaraverkefni mitt í hagnýtri menningarmiðlun, þ.e. Rafbókavefurinn og greinargerðin um hann. Ég fékk níu og er mjög sáttur. Meðaleinkunnin er þá tæplega 8,6 í náminu. Það er næstum að maður sjái eftir að hafa ekki lagt meira á sig til að keyra þetta upp í ágætiseinkunn. Reyndar lagði ég langmest á mig í námskeiði þar sem var bara gefin einkunnin “staðið”. Ég geri ráð fyrir að skólagöngu minni sé lokið nema ef ég fæ tækifæri til þess að fara í launað doktorsnám.
Í dag fékk ég í hendurnar bókina Shaping Virtual Lives. Í henni eru greinar byggðar á erindum flestra þeirra sem tóku þátt í málstofunni “minni” í Lissabon í fyrra. Það er mikil gleði að vera með í þeirri bók enda er þetta mín “stærsta” birting sem fræðimaður. Þarna er ég að skrifa í ritrýnda bók m.a. með fólki sem ég las greinar eftir í þjóðfræðináminu og vitnaði jafnvel í í lokaritgerðinni minni.
Nýir höfundar, rafbækurnar og gagnrýnendurnir
Ég las einhvern tímann grein um hvernig fer fyrir nýjum handritshöfunum í Hollywood. Þeir koma þangað með handritið sem þeir hafa lagt allt sitt í með vonir um að það verði gerð kvikmynd úr því. Það sem gerist er að handritið gengur á milli manna, ef höfundurinn er heppinn, og í kjölfarið hringir einhver í hann og spyr hvort hann vilji skrifa þriðju myndina í einhverri soralega leiðinlegri seríu. Draumahandritið er aldrei framleitt.
Það er víst ákaflega erfitt fyrir nýja höfunda að fá bók útgefna á Íslandi. Lukkulega hafa rafbækur þann möguleika að steypa útgáfuheiminum á hvolf. Nýir höfundar þurfa ekki einu sinni að leggja í prentkostnað til að koma verkum sínum í umferð (leiðbeiningar um rafbókagerð má finna á Rafbókavefnum). Það er hægt að gefa út rafbók, hafa hana ódýra eða jafnvel ókeypis og sjá hvort hún komist á flug. Fólk er þegar farið að gera þetta (t.d. á Emmu) en mig grunar að það gæti jafnvel orðið flóðbylgja bráðum.
Mér finnst að í dag sé fullkominn tími fyrir einhvers konar höfundasamlög þar sem ungir höfundar hjálpast að með því að gagnrýna í verk hvers annars, síðan prófarkarlesa og koma út. Ég veit ekki hvort það sé rétt að kalla útgáfuna Rúnatýr slíkt samlag en allavega sýnist mér þetta drifið áfram af fólki með höfundametnað. Þeirra stefna virðist vera að virka því þar er verið að selja töluvert af bókum (í gegnum Skinnu).
Kannski að gagnrýnendur (sérstaklega á netinu) ættu núna að vera duglegri að kalla eftir bókum frá þessum ungu höfundum sem er farnir að gefa út. Eru annars einhverjir að gagnrýna þessar bækur sem eru bara að koma út á rafbók frá áður óútgefnum höfundum? Ættu druslur og subbukallar ekki að taka þennan slag (biðst fyrirfram afsökunar á því að kalla gagnrýnendur druslur og subbukalla)? Kallið eftir að fá þessar rafbækur og leitið þær jafnvel uppi. Hjálpið væntanlegum lesendum að finna gullið í þessum nýja útgáfuheimi.
Einkaréttur á verkum utan höfundaréttar
Ég hef verið að lesa höfundaréttarlög sem fyrr. Í þetta sinn er ástæðan sú að ég vildi vita hvort einhver gæti eignast einhvers konar einkarétt á verkum sem eru utan höfundaréttar. Minn skilningur á lögunum er að ekki sé hægt að eignast slíkan rétt án þess að hafa breytt verkinu sjálfu á einhvern hátt (sbr. Vísur Vatnsenda-Rósu).
Ég sé eina undanþágu í lögum:
Hafi verk ekki verið birt almenningi innan verndartímabils skv. 43. og 44. gr. skal sá sem fyrst birtir verkið að því liðnu öðlast hliðstæðan rétt til fjárhagsnytja af verkinu og höfundar hafa samkvæmt ákvæðum laga þessara. Verndin helst uns 25 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir birtingu.
Þetta á væntanlega við t.d. um fuglabók Benedikts Gröndal. Hans höfundaréttur er löngu liðinn en þarna fær útgefandi sanngjarna vernd.
Þegar ég tek texta sem eru komnir úr höfundarétti og geri úr þeim rafbók (og reyndar minniháttar lagfæringar á stafsetningu í einhverjum tilvikum) get ég ekki sé að ég eignist nokkurn einkarétt á rafbókunum.
Það er þó hægt að ímynda sér að, ef ég vildi, þá ætti ég einhverja vernd samkvæmt þessu:
Sá sem framleiðir skrár, töflur, eyðublöð, gagnagrunn eða svipuð verk sem hafa að geyma umtalsvert safn upplýsinga eða eru árangur verulegrar fjárfestingar hefur einkarétt til eintakagerðar eða birtingar verks í heild eða að verulegum hluta. Endurtekinn og kerfisbundinn útdráttur og/eða endurnýting óverulegs hluta af gagnagrunni er óheimil ef þær aðgerðir stríða gegn venjulegri nýtingu hans eða ganga með óeðlilegum hætti gegn réttmætum hagsmunum framleiðenda gagnagrunnsins.
Einkaréttur til þeirrar sérstöku verndar sem kveðið er á um í grein þessari helst í 15 ár frá næstu áramótum eftir að verkið varð til. Ef verkið er birt innan greinds verndartímabils skal verndin þó haldast í 15 ár frá næstu áramótum eftir að gagnagrunnurinn telst birtur almenningi.
Ef Rafbókavefurinn teldist gagnagrunnur og það stríddi gegn eðlilegri notkun hans að endurbirta efnið þá gæti ég kannski kallað eftir vernd (sem ég geri ekki).
Ég hef sama skilning á því þegar ég nýti efni af Tímarit.is. Ég tek þar einstaka sögur sem eru fallnar úr höfundarétti, algerlega ómerkilegan hluta heildarinnar, og geri úr þeim rafbækur. Ég sé ekki að ég brjóti nokkur ákvæði höfundalaga með slíku. En hvað ef maður tekur heilar bækur af Bækur.is? Er hægt að biðja um fimmtán ára vernd skv. þessu ákvæði? Ég er ekki viss.
Nú væri gaman að heyra í lögfræðingi.
Framboð og eftirspurn á rafbókum
Fyrir utan eitt námskeið í Þjóðhagfræði í framhaldsskóla hef ég ekkert lært í hagfræði. Mér skilst þó að hagfræðingar séu sammála um að aukið framboð á vöru eigi að lækka verðið á henni. Síðan ð á aukin eftirspurn að hækka verðið.
Um leið og það er búið að búa til eina rafbók er í raun komið ótæmandi framboð af henni. Þetta vita neytendur þó þeir orði það kannski ekki svona. Eftirspurninni er alltaf fullnægt. Sumir halda að það hafi engin áhrif á verðið.
Þó framboðið af stökum rafbókum sé ótæmandi þá á það ekki við um titlana sem eru í boði. Líklega væri hægt að búa til lista yfir flestallar þær íslensku rafbækur sem standa rafbókalesendum til boða. Listinn yfir bækur sem standa stærsta hóp rafbókalesara – jafnvel meirihluta þeirra – er ennþá styttri. Kindle eigendur geta keypt rafbækur á Emmu (alla titla) og Skinnu (einhverja titla) en ekki bækur frá Forlaginu. Það er óþarfi að taka fram að þeir geta tekið inn allar bækur af Rafbókavefnum fyrir Kindle.
Markaðslögmálin virðast virka ágætlega. Á topplista Skinnu eru bækur frá nýrri bókaútgáfu – sem heitir Rúnatýr – í meirihluta. Þær bækur eru umtalsvert ódýrari en þær sem Forlagið hefur í boði og þær er hægt að fá fyrir Kindle. Stóru íslensku bókaútgáfurnar hafa búið til pláss fyrir nýja aðila á markaðnum með þrjósku sinni og það er verið að fylla upp í það.
Kannski væri best ef stóru íslensku bókaútgefendurnir myndu þrjóskast sem lengst við að bjóða upp á bækur sínar fyrir Kindle og á sómasamlegu verði. Þó geta litlu aðilarnir orðið aðeins stærri.
30.000+ rafbókum dreift á rúmum sólarhring
Það er reyndar engin leið til þess að fylgjast nákvæmlega með þessu en ég get sagt með vissu að pakki með 104 bókum af Rafbókavefnum hafi verið dreift að minnsta kosti 340 sinnum frá því á fimmtudagsmorgun. Vonandi oftar og víðar en ég get ekkert fylgst með því.
Ég setti pakkann sjálfur bæði á eigin vef og sem torrent á The Pirate Bay. Ég valdi síðarnefnda vefinn af þeirri einföldu ástæðu að hann er öllum opinn. Fólk þarf ekki einu sinni að skrá sig inn til þess að ná í pakkann. Mér var síðan sagt að pakkinn hefði fljótlega birst á íslenskri torrent síðu. Þaðan hef ég fengið tölur og er pakkinn kominn með yfir þrjúhundruð niðurhöl.
Augljóslega er þessi dreifing allt annars eðlis en þegar fólk tekur inn stakar bækur á Rafbókavefnum. Þá getur maður verið nokkuð viss um að fólk er að velja sér bækur sem það stefnir að því að lesa. Þegar fólk tekur en svona stóra pakka þá veit maður ekkert um slíkt. Ég vona allavega að þeir sem hafi tekið þessa pakka inn stefni annað hvort að því að lesa sjálft eða gefa þeim sem muni lesa.
Einhverjir kunna að spyrja hvort það hafi verið þörf á því að setja efnið á sjóræningjasíður – gat ég ekki bara dreift þessu í gegnum eigin vef? Niðurhölin sýna það að minnsta kosti fimmtán sinnum fleiri hafa tekið pakkann inn á sjóræningjasíðunum en af mínum vef (niðurhalið er líka tíu sinnum meira en samanlagt niðurhal af Rafbókavefnum fram að þessu). Um leið hefði það vel getað gerst að Rafbókavefurinn hefði farið á hliðina ef allt þetta fólk hefði tekið þennan pakka beint þaðan. Þetta er niðurhal sem er samanlagt vel yfir tíu gígabæt.
Þeir sem ná í torrentskrár hjálpa sjálfir til við niðurhal. Það er líka ástæðan fyrir því að þessi aðferð er vinsæl meðal þeirra sem dreifa frjálsum og opnum hugbúnaði. Um leið eykur þetta hraðann á niðurhalinu mikið.
Núna vona ég bara að þetta sé snjóbolti sem muni bæta áfram við sig. Fleiri og fleiri muni fá þennan pakka í hendurnar og dreifa honum áfram. Það sem væri martröð bókaútgefenda og bóksala er draumsýn mín.
Menningararfur í sjóræningjahöndum – Grein í Fréttatímanum.