Jóríkur: Síðasti karlinn

Y: The Last Man er ein af þeim teiknimyndasögum sem eru taldar með þeim bestu sem hafa komið út á öldinni. Í stuttu máli deyja allir karlar á jörðinni. “Hetjan” okkar hann Yorick lifir af og þarf að bjarga sér í sturluðum heim á meðan hann leitar að sinni sönnu ást.

Sagan náði að halda mér við efnið. En mér fannst þetta aldrei vera nógu gott. Persónurnar náðu mér aldrei almennilega. Eftirleikur plágunnar virkaði ósannfærandi á mig. Auðvitað þarf að gefa sér ákveðna hluti til að þjóna sögunni en það hefði bara þurft að gera þetta allt betur.

Skógarhöggsjónurnar

Þar sem ég lék mér með Masters of the Universe á unga aldri ákvað ég að prufa að horfa á endurskotið á systur He-Man, She-Ra (She-Ru?), á Netflix. Ég féll alveg fyrir þeim. Ég las mér til um konuna á við þættina, Noelle Stevenson og komst að því að hún hefði líka verið með teiknimyndasögur sem heita Lumberjanes.

Ég var mjög hrifinn. Kannski ekki alveg jafn hrifinn og af t.d. Giant Days (sem ég las næst á undan) en það skýrist kannski af því að Lumberjanes miðar við aðeins yngri aldurshóp en þær sögur.

Í stuttu máli snúast sögurnar um ævintýri stúlkna í skátasumarbúðum. Það kemur fljótt í ljós að margt dularfullt er á seyði í kring. Það er kannski hægt að líkja þessu við þættina Gravity Falls eða kannski Stranger Things án hryllingsins.

Fyrir utan að berjast og/eða vingast við skrýmsli fjalla sögurnar um vináttu stúlknanna. Tvær þeirra [HÖSKULDUR!!] byrja líka saman. Þá kemur við sögu transeinstaklingur.

Ég mæli hiklaust með Lumberjanes fyrir unglingastig og lengra komna nemendur á miðstigi (enskukunnátta auðvitað nauðsynleg). Kannski yngstu í framhaldsskóla en mögulega finnst þeim þetta of barnalegt. Síðan mega fullorðnir lesa þetta líka.

Annars má geta þess að ég er enn að lesa í svarthvítu og fattaði því t.d. ekki að ein persónan fékk bláan lit í hárið fyrren það var nefnt í textanum.

Risadagar

Ég er enn í teiknimyndasöguham og er áfram að lesa allt í rafbókalesaranum mínum á svarthvítum skjá þó sögurnar séu flestar í lit.

Giant Days er gjörólíkt flestu sem ég hef lesið, hvort sem það eru teiknimyndasögur eða hefðbundnar bækur. Aðalsöguhetjurnar okkar eru þrjár breskar háskólastúdínur (Esther, Susan og Daisy) í Sheffield sem við fylgjum í gegnum námið. Sagan kláraðist í fyrra sem hentar mér vel af því að ég á erfitt með að njóta efnis í smærri skömmtum.

Ég veit ekki beinlínis hvað heillaði mig við sögurnar. Sumt tengi ég reyndar beint við. Susan hellir sér í stúdentapólitíkina og er í raun í uppreisn gegn stöðnuðu kerfi. Það passaði frekar vel við mig. Sumt minnti mig líka á dvölina í Írlandi. Þar endaði ég með ókunnugu fólki í íbúð. Ég náði þó ekki að tengja við sambýlinga mína en eignaðist samt fullt af vinum.

Fæst hafði þó slíka skírskotun í mitt líf. En það heillaði mig samt. Stærsta ástæðan var líklega að mér líkaði svo við persónurnar. Þær virka raunverulegar þó heimurinn sé ýktur. Þannig mætti líkja þessu við sjónvarpsþættina Community.

Mér þótti vænt um Daisy og Susan en ég gjörsamlega dýrkaði Esther. Ég efast um að ég sé einn um það. Hún er svona goth/emo (gotnesk tilfinningavera?) í útliti en aldrei stereótýpa. Kannski er hún smá “Manic Pixie” en hún er það á sínum eigin forsendum en ekki til að uppfylla hlutverk draumastúlku einhvers stráks.

Ef ég væri enn með skólabókasafn þá myndi ég kaupa alla vega eitt bindi af Giant Days fyrir elstu á miðstigi og uppúr. Ég held að margir fyrrverandi safngestir mínir myndu heillast af þessu. Fyrir unglinga er þetta síðan gráupplagt.

Þessi saga er líklega best af því “nýja” efni sem ég hef lesið á árinu. Ef þið viljið ekki lesa þetta af skjá, hvað þá svarthvítum skjá, þá á Nexus auðvitað Giant Days.

Átak í teiknimyndasögulestri

Ég tek reglulega köst í teiknimyndasögulestri. Ástæðan í þetta skiptið var að ég var að fjalla um sjónvarpsþætti byggða á teiknimyndasögum í Botninum. Ég fann ekki spjaldtölvuna mína, Nook HD plus, enda nota ég hana almennt ekkert. Í staðinn ákvað ég að nota rafbókalesarann minn, Boyue T80 Likebook Mars ( sem er með stærri skjá en flestir lesarar), sem ég hef annars bara notað í að lesa svarthvítar sögur (Bone, Scud o. fl.).

Þó lesarinn sýni bara svart hvíta skalann þá var merkilega þægilegt að lesa teiknimyndasögur í lit með honum. Það var svo fínt að þegar ég fann spjaldtölvuna og prufaði þá gafst ég bara upp. Ástæðan er auðvitað að lesarinn er ætlaður til lestur. Þó ég hafi haft kveikt á baklýsingunni þá er ljósið svo miklu betra fyrir augun en spjaldtölvubirtan.

Á maður að tala um tæknina eða listina? Ég er auðvitað gjarn á að blanda þessu tvennu saman.

Locke and Key kom á Netflix fyrr á árinu þannig að ég tók það á lesaranum. Þetta fellur undir hrollvekjuflokkinn. Margt mjög gott þar.

Ég las smá í The Boys og V-Wars fyrir þætti af Botninum og var ekki að falla fyrir því.

Ég hef ekki enn gert þátt um Daybreak sem var á Netflix í fyrra þó ég hafi verið hrifinn (það voru kannski ekki nógu margir hrifnir því þættirnir halda ekki áfram). Sagan var allt öðruvísi. Mjög einfaldur stíll en mjög áhugaverð nálgun.

Deadly Class voru þættir sem ég féll líka fyrir ólíkt lýðnum (það kemur ekki meira) og lengst af var teiknimyndasagan alveg jafn góð – ef ekki betri – en þættirnir. Mér fannst þetta samt vera farið að dala í síðustu sögunum sem ég las. En það kemur meira af þeim. Ádeilan á Reagan-tímann var mjög góð.

Ég hef aldrei séð Hellboy myndirnar sem tengdafaðir minn (eða tvífari hans) leikur í en ég var áhugasamur um sögurnar. Þær voru margar mjög góðar. Kannski ekki alveg jafn góðar og sumir segja en samt.

Brat Pack er oft nefnd á sama tíma og Watchmen sem ádeila á teiknimyndahetjusögurnar. Hér eru hliðarspörkin tekin fyrir. Það var margt gott þarna en mér fannst þetta ekki eldast jafn vel og Watchmen. En það er auðvitað vonlaust að ætla að standast þann samanburð.

Umbrella Academy er annar sjónvarpsþáttur. Ég verð að segja að mér fannst þættirnir meira heillandi – allavega sem komið er – en sagan var líka mjög góð. Þegar ég horfði á þættina hafði ég ekki hugmynd um að höfundurinn væri söngvarinn í My Chemical Romance. Skondið.

Það er öfugt með Rick and Morty. Þarna hafa verið gerðar teiknimyndasögur í sama heimi og þættirnir. Þær eru mistækar. Ég var næstum hættur þegar ég áttaði mig á að Patrick Rothfuss hefði skrifað Dungeons and Dragons Rick vs. Morty sögur. Ég hef reyndar ekki lesið frægu bækur hans af því að ég er að bíða eftir þeirri síðustu. Mig langar ekki að bíða ef ég fell fyrir þeim. Allavega var Rothfuss sagan best af þeim sem ég las.

Þó Lucifer komi úr sagnaheimi The Sandman hafði ekki lesið þær áður en ég horfði á þættina. Það áhorf ýtti mér af stað í að lesa sögurnar og auðvitað er þetta allt annað. Þættirnir eru að mestu leyti grín en sögurnar í hrollvekjudeildinni. Ég var hrifinn af sögunum að mörgu leyti en ég féll ekki fyrir öllu. Það er t.d. augljós að þegar fjallað er um norræna goðafræði þá hefur Mike Carey ekki sama dýpt þekkingar og Neil Gaiman.

Ég las auðvitað líka Gaiman. Ég fann meira að segja söfn af sögum hans úr DC-heiminum sem ég hafði ekki lesið áður. Fínt en ekkert í samanburði við Sandman. Ég dembi mér líka út í endurlestur á The Sandman. Yndisleg tilfinning þegar ég byrjaði aftur. Æði. Best.

Ég hafði lesið mér til um góðar svarthvítar teiknimyndasögur – sem hentuðu skjánum mínum – og þá hitti Berlin beint í mark. Hún er ólík flestu sem ég hef verið að lesa að því að leyti að þarna er farið mjög strangt eftir þessum hefðbundu römmum á síðunni. Það er því voðalega þægilegt að keyra í gegnum þetta. Bara fletta og fletta, ekkert að rýna í lítinn texta eða stækka og minnka til að sjá betur. Áhrifamikil saga þó mér hafi þótt hún örlítið endasleppt.

Chilling Adventures of Sabrina, sami grunnur og í nýju Netflix þáttunum. Ég byrjaði á því en var ekki að falla fyrir því.

Ég las líka fallega hluti um Batman Noir: The Black Mirror. Spes fyrir fólk eins og mig sem hefur lítið lesið annað en Dark Knight Returns og Killing Joke af því að þarna er Batman ekki Bruce Wayne heldur fyrrverandi hliðarsparkið hans Dick Grayson. Ég féll ekki neitt rosalega fyrir þessu.

Ég gerði tilraun til að lesa fleiri sögur en ég náði því varla. Það voru sumsé annars vegar nokkrar nýlegar ofurhetjusögur og hins vegar Crisis on Infinite Earths. Þær héldu bara ekki áhuga mínum. Mér finnst eins og ég sé of mikill snobbari þegar ég les aðallega sögurnar sem hafa fengið frábæra dóma en þekki ekkert til stærsta hluta menningarkimans.

Hvað er næst? Ég er rétt að byrja á Giant Days. Það er allt öðruvísi en allt annað í þessari upptalningu. Söguhetjurnar eru þrjár ungar konur sem eru nýbyrjaðar í háskóla. Ég kláraði fyrsta bindið í gærkvöldi og ætla að halda áfram.

Ef þið þekkið ekki til haldið þið kannski að þetta séu örfá blöð en þetta eru nokkrir tugir safnbinda af sögum. Samkvæmt GoodReads hef ég lesið 67 bækur og rúmlega 14 þúsund blaðsíður það sem komið er af árinu. Auðvitað eru þarna einhverjar textamiðaðar bækur en flestar eru teiknimyndsögur – enda les maður þær hraðar.

Ég vil ekki gleyma að nefna að Jútúbarinn Comic Tropes hefur verið góður í að “hvetja” mig áfram í þessu. Myndböndin hans eru ákaflega skemmtileg með góðum hallærislegum húmor. Ég ákvað að styrkja hann á Patreon. Það hjálpar mikið að hann er greinilega andfasískur sem virðist ekki sjálfgefið á þessum tímum. Mæli með honum.

Get ekki lesið teiknimyndablöð

Neil Gaiman og ég.Fyrir tveimur árum endurlas ég Sandman eftir Neil Gaiman. Ég las bókstaflega allt sem ég komst yfir og gerði útvarpsþátt. En á sama tíma var að fara af stað aukasaga af Sandman sem kallaðist Sandman Overture. Ég ákvað strax að byrja að safna þessum blöðum því það er eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég hef bara lesið svona sögur í stærri söfnum eða bókum.

Hér er annars þátturinn.

Draumur Neil Gaiman
Ég vona að ég hljómi ekki of mikið eins og Marshall McLuhan en ég er alltaf heillaður af því hvernig miðill getur breytt listformi. Takmarkanirnar sem miðillinn setur er ekki bara til ills heldur oft til góðs. Listamenn starfa inni í ákveðnum kassa – þó þeir séu ekki alltaf naktir. Ég hef áður fjallað um hvernig geisladiskar og hljómplötur setja ákveðin mörk en stafræn útgáfa brýtur þau af sér en samt er tónlist ennþá mörkuð af takmörkunum fyrri forma.

Teiknimyndasögur í hinni bandarísku hefð hafa lengst af verið mótuð af “blaðinu”. Það var nær einnota. Það kom út reglulega. Það var ódýrt. Það var stutt. En bæði með því skrifa lengri sögur, sem við getum kallað grafískar skáldsögur, og með því að safna saman sögum í heild þá breyttist formið. Það fylgdi þessu meira að segja virðing. Ég fjallaði um þetta í þætti mínum um Sandman.

Það þurfti ekki nema tvö blöð til þess að ég gæfist upp á að lesa Sandman Overture. Það voru ekki gæði sögunnar sem ollu því heldur að ég höndla bara ekki að hafa þetta svona stutt. Ég bara held ekki athyglinni. Ég er rétt að komast af stað þegar blaðið er búið.

Það má ekki gleyma að framhaldssögur voru eitt aðal bókmenntaformið á nítjándu öld. Dickens skrifaði svona. Stephen King reyndi síðan að endurvekja formið.

Fyrir stuttu fór ég í Nexus og keypti heildarsafnið af Sandman Overture. Þar er blöðunum safnað saman í eina heild, eins og búið var að gera með eldri sögurnar þegar ég las þær. Það var ekki erfitt að lesa þetta. Ég keyrði þetta í gegn. Sagan er væntanlega ekki sú besta sem Gaiman hefur skrifað en hún er alveg ótrúlega falleg. Ég efast auðvitað um eigið mat því hvernig á ég að geta borið saman eitthvað sem ég las fyrst fyrir rúmum áratug og endurlesið reglulega síðan við þessa glænýju sögu?
Það sem ég velti fyrir mér er hvort að það gæti verið að Gaiman sjálfur sé breyttur. Þegar hann skrifaði Sandman var hann að skrifa fyrir um það bil mánaðarlega útgáfu og var ekki að hugsa um að þessu yrði safnað saman. Núna er hann örugglega meðvitaður um að þetta verður lesið oftar sem heild. Er hann að skrifa fyrir þá sem keyptu stöku blöðin eða er hann að hugsa um of um heildina? Hefði ég frekar haldið athyglinni yfir eldri blöðunum ef ég hefði lesið þau svona stök?

Samdi nokkrar myndasögur

Væri betra að segja “strípur”? Allavega eins og voru í dagblöðunum. Ég samdi þessar teiknimyndasögur með hjálp Bitstrips. Ég bjó til persónu sem heitir Almar og nokkra vini og vandamenn fyrir hann. Síðan nokkra brandara. Ég setti þetta á sér vef sem er hérna. Ég setti inn flestar sögurnar en ekki allar. Ef þið viljið skoða þetta í alvörunni þá byrjið þið að finna fyrstu strípuna og vinnið ykkur áfram.

Grand Budapest Hotel

Ég fékk gefins miða á Grand Budapest Hotel frá Svarthöfða og við Eygló fórum á myndina í gærkvöldi. Við hefðum væntanlega farið hvort eð er enda höfum við gaman af Wes Anderson myndum. Þær eru að minnsta kosti fallegar.

Við tókum reyndar fyrst kvöldmat á TGI Fridays (ákaflega þægilegt þegar maður er að fara í Smárabíó) þó þjónustan hefði mátt vera sneggri. Ég fékk steik (óvanalegt fyrir mig) og var bara sáttur við hana þó hún hafi verið hrárri en ég bað um. Meðlætið var hins vegar frábært, sérstaklega sætu kartöflurnar.

Myndin var auðvitað falleg eins og við var að búast. Það sem mér fannst rosalega áberandi við hana er hve minnti mig á teiknimyndasögu. Lykilatriði voru römmuð inn eins og þau væri á blaðsíðu teiknimyndasögu. Persónurnar voru teiknimyndasögulegar. Fötin þeirra voru í afgerandi litum og útlit þeirra að öðru leyti eins og það væri teiknað.

Auðvitað dugar ekki eitt og sér að mynd sé fallega. Mér fannst t.d. alltaf vanta eitthvað í Life Aquatic. Ég fann ekki fyrir því núna. Ef maður vill aftur tengja við teiknimyndasögur þá fannst mér söguþráðurinn vera eins og Tinnasaga (eða ætti maður að segja Svalur og Valur út frá vikapiltstengingunni?) og, það sem meira er, vel gerð Tinnasaga (mun betri en Tinnamyndin sem mér þótti þó ágæt). Allavega mæli ég með henni.

Teiknimyndasöguárið mitt mikla

Ég hef alltaf haft á tilfinningunni að ég hafi í raun misst af teiknimyndasöguútgáfu á Íslandi. Blómleg útgáfa fyrri ára var að deyja út þegar ég byrjaði að lesa. Sjálfur átti ég aldrei nema nokkrar bækur af Goðheimum og tvær úr flokknum Fræknir landkönnuðir. Mest las ég af teiknimyndasögum í Borgarnesi. Þar las ég Tinnasafnið hans Guðmars, líka Steina Sterka, Sval og Val og Lukku Láka. Eitthvað las ég líka af bókum sem bræðurnir Gunnlaugur Starri og Þórarinn áttu.

Það má ekki gleyma Andrési Önd. Reyndar kom ég líka þar inn á mörkum því ég tilheyri þeirri kynslóð sem aldrei las Andrés á dönsku. Anna systir var áskrifandi af íslenska Andrési frá upphafi, 1983, og ég las það allt sem kom út af því. Afi batt þetta líka inn og þetta endaði hérna hjá mér. Ég sá líka um að skipuleggja bunkana áður en afi batt þá inn. Ég raðaði öllu í tímaröð. Aðalsteinn og Starri náðu þó að eyðileggja skipulagið með því að lesa blöðin og ganga þannig frá einum bunkanum að blöðin í einu bindinu eru í öfugri röð. En ég hætti að lesa Andrés þegar skipt var um þýðendur og persónurnar breyttu allt í einu um nöfn. Það fór voðalega í taugarnar á mér.

Ég átti einhver blöð af Alf en sú útgáfa gekk svo rosalega vel að ennþá dúkka þau upp óseld á bókamörkuðum. Ég held ég hafi líka lesið einhver Tarzan blöð á íslensku en það var ekki eftirminnilegt.

Í framhjáhlaupi má nefna að ég las teiknimyndasögustrípur í blöðum af miklu kappi. Reyndi meira að segja á tímabili að klippa það út og geyma. Ég tilheyri líka þeim hópi sem byrjar að lesa blöð á baksíðunni en það kom einmitt til af því að teiknimyndasögurnar voru yfirleitt í aftari hluta blaðanna. Ég keypti nokkrar Grettisbækur, seinna á ensku, og á líka eitthvað af Calvin & Hobbes og Peanuts.

Þegar ég var svona 16 ára las ég Dark Knight Returns eftir Frank Miller sem Þórarinn frændi lánaði mér. Ég var hrifinn en las aldrei mikið meira. Ég las stöku teiknimyndasögur, Maus, Persepolis og eitthvað fleira. Stóra undantekning er Sandman sem ég las í heild sinni fyrir löngu síðan og á upp í hillu. En mig vantaði alltaf hvata til að ganga lengra.

Síðan kom í ljós á þessu ári að vinnunnar vegna var ákaflega gott að komast inn í teiknimyndasögur. Ég fór því að lesa á fullu. Ég las ýmis grundvallarrit á árinu, V for Vendetta, Watchmen, Killing Joke, Weapon X og Preacher. Ég las líka m.a. Fables (stoppaði í 100 – klára þegar restin er komin), Scott Pilgrim, heilmikið af Daniel Clowes og 6 bækur í viðbót af Goðheimum. Það er oft erfitt að lesa ofurhetjusögur því þær krefjast oft svo mikillar bakgrunnsþekkingar á persónum og tengslum þeirra. En ég las eitthvað af Batman, Superman (Red Son var best), Wolverine og Green Arrow. Ég byrjaði á nokkrum sögum sem ég gafst upp á af því að mér fannst þær ekki góðar (þar af einhverjar sem almennt eru taldar frábærar) eða af því að ég hafði ekki grunninn sem þurfti til. Ég las nokkrar teiknimyndasögur eftir Kevin Smith og ályktaði að þetta form hentaði honum alls ekki. Ég er líka að lesa Lukka Láka á ensku en það er voða dapurt að það sé auðveldara heldur en að fá frábæru íslensku þýðinguna.

Af tilviljun fór Stefán Pálsson af stað með teiknimyndasöguþætti á Rás 1 núna í haust. Eftir spjall við Ásgeir, sem gerði þátt um sögur tengdar Júgóslavíustríðinu, ákvað ég að bjóða fram krafta mína (enda bæði með reynslu og menntun í gerð útvarpsefnis) til að gera þátt um Sandman (sem ég var akkúrat að endurlesa). Sá þáttur fjallaði líka almennt um höfundinn Neil Gaiman (það má spila þáttinn í spilaranum hérna).

Draumur Neil Gaiman
Ég hafði verulega gaman af því að gera þáttinn þó ég hafi þurft að treysta óhóflega á rödd mína, mér þykir skemmtilegra að gera þætti með viðmælendum og klippa efnið þannig að ég þurfi sem minnst að segja. Ég stakk því upp á við Hjördísi vinkonu mína að gera þátt um efni sem er í uppáhaldi hjá henni en það er Daniel Clowes sem gerði m.a. Ghost World. Þetta var allt samþykkt og seinni þátturinn var sendur út núna í desember (það má spila þáttinn í spilaranum hérna).


Í gær frétti ég að Talblöðruþættirnir væru komnir inn á torrentvefinn Deildu. Það er skemmtilegt en flestir eru þeir þó á hlaðvarpi RÚV (vantar samt tvo síðustu).

Þetta var því svoltið skemmtilegt teiknimyndasöguár hjá mér og ég geri ráð fyrir að kafa dýpra á næsta ári.