Mynd af mynd og höfundalög

Ég tók greinilega ranga ákvörðun þegar ég ákvað að taka þátt í umræðum um höfundaréttarmál hjá Vilhjálmi “Fornleifi” á Moggablogginu. Dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson heldur því fram að vefritið Herðubreið hafi brotið höfundalög með því að nota ljósmynd sem hann tók.

Ljósmyndin sem um ræðir er mynd sem hann tók af gamalli blaðaauglýsingu frá Eimskip og hún ætti að sjást hérna fyrir ofan færsluna. Herðubreið tók vissulega hluta af myndinni og notaði án þess að geta þess að Vilhjálmur hefði tekið hana. Vilhjálmur telur þetta vera brot á höfundalögum en ég er ósammála.

Ástæðan fyrir því að ég tel þetta ekki falla undir höfundalög er sú að myndin getur aldrei talist sjálfstætt verk. Hún er bara afrit. Vilhjálmur var ekki að reyna að skapa nýtt verk þegar hann tók mynd gamalli auglýsingu. Markmið hans var þvert á móti, eins og fræðimanni sæmir, að búa til eins nákvæmt eftirrit af blaðsíðunni og hann mögulega gat. Íslensk höfundalög skilgreina eintakagerð og ég sé ekki betur en að umrædd ljósmynd sé einmitt …

sérhver bein eða óbein, tímabundin eða varanleg gerð eintaks af verki, í heild eða af hluta þess, með hvaða aðferðum sem er og í hvaða formi sem er. Það telst m.a. eintakagerð ef verk er flutt yfir á miðil sem nota má til endurmiðlunar.

Eintök eru ekki og verða ekki sérstök verk sem njóta verndar höfundalaga. Ég held reyndar að Herðubreið hefði átt að, kurteisinnar vegna, að vísa á Vilhjálm þegar þeir birtu myndina en ég sé ekki að vefritið hafi brotið nein lög með þessu.

Það sem ég er að tala um er frumleikaskilyrðið svokallaða. Það eru mörg grá svæði í því en hérna held ég að málið sé svart og hvítt. Það er ekkert frumlegt við myndina og það var engri sköpun beitt við myndatökuna sjálfa. Vinnan sem Vilhjálmur lagði á sig var fræðimennska en ekki ljósmyndun. Það var afrek finna auglýsinguna og við getum borið virðingu fyrir þeirri vinnu þó við teljum verkið ekki eiga að njóta verndar höfundalaga.

Í athugasemdarþræðinum, sem þið lesið á eigin ábyrgð, talar Vilhjálmur um að Myndstef telji lagatúlkun hans gilda. Ef það er rétt þá er það afskaplega einföld bókstafstúlkun á lögum sem ég efast um að nokkur dómstóll myndi taka undir.

Gulur, rauður, grænn og blár – höfundaréttur

Það eru fleiri munaðarlaus verk á íslensku en mann myndi gruna. Mörg þeirra eru barnalög. Hér er eitt sem ég man eftir úr æsku minni.

Gulur, rauður, grænn og blár,
svartur, hvítur, fjólublár.

Ég ákvað að leita að dæmum á Tímaritavefnum. Það kom mér á óvart að ekkert dæmi var um vísuna fyrren árið 1999. En ég uppgötvaði eldri vísu, eða gátu, sem hefur kannski lagt grunninn að fyrstu línunni.

Hver er sá veggur víður og hár
veglegum settur röndum:
gulur, rauður, grænn og blár
gjörður af meistarans höndum

Þessi litaupptalning er því frekar gömul og þá um leið munaðarlaus. Gátan fellur væntanlega ekki undir höfundarétt þar sem það eru meira en 70 ár síðan þetta birtist fyrst án höfundaauðkennis.

Þegar Gunnsteinn byrjaði á leikskóla lærði ég líka þennan seinnipart á litavísuna.

Brúnn, bleikur, banani.

Appelsína talandi.

Ég hef alltaf talið líklegast að þetta sé seinni tíma viðbót en hver veit nema að þetta sé upprunalega útgáfan sem hafi síðan orðið styttri þegar hún fór á flakk.

En hér er þessi vísa sem er augljóslega höfundaverk og fellur undir höfundalög. Hún er reglulega flutt á opinberum vettvangi. Hún er birt víða á vefnum. Verkið er jafnvel notuð í gróðaskyni. En höfundurinn fær engin laun. Er þetta ekki þjófnaður? Er það rétt að nota verk einhvers án endurgjalds bara af því að það eru tæknileg vandkvæði á því að greiða fyrir? Hefur fólk einhvern rétt til að nota verkið?
Auðvitað er þetta ekki þjófnaður. Sú hugmynd að við getum neglt listsköpun, hvort sem hún er einföld eða flókin, niður í að alltaf þurfi að greiða fyrir öll not er fráleit. Ég held að það hljóti að vera til einhver réttur almennings til að nota og njóta listar. Ég held að þessi hugmynd hafi fallið undir það sem í höfundalögum er kallað “einkanot” en sá réttur er aðþrengdur hin seinni ár.

Afmælislagið og höfundaréttur

“Happy Birthday” er ekki í höfundarétti í Bandaríkjunum. Í mörg ár hefur fyrirtæki nokkuð rukkað fyrir notkun á laginu án þess að eiga í raun réttinn. Dómur hefur verið kveðinn upp. Þetta er frábært. Reyndar hafa margir brandarar orðið til þegar fólk hefur komið sér undan því að nota lagið í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Uppáhaldsdæmið mitt er þessi klippa úr Community (hún er birt með vísun í 14 gr. höfundalaga en Facebook bannar mér að setja þetta inn þar af því að þeir taka hvorki tillit til “Fair use” eða íslenskra höfundalaga). Horfið. Hún er fyndin. Það sem er best er að innri lógík sögunnar skýrir algjörlega hvers vegna lagið er ekki sungið.

Ef við trúum opinberu sögunni um hver skrifaði texta lagsins þá er textinn ennþá í höfundarétti til ársins 2017 á Íslandi og öðrum löndum sem fylgja líf+70 reglunni. Meintur höfundur textans, Patty Hill, lést 1946 og því er rétturinn enn í gildi. Ástæðan fyrir því að rétturinn er ekki í gildi í Bandaríkjunum er að formsatriðum um skráningu höfundaréttar var ekki fylgt
En dæmið er ennþá skemmtilegra. Væntanlega er íslenska þýðingin af textanum líka enn í höfundarétti. Þýðingin er samt munaðarlaus því enginn virðist hafa eignað sér hana. Líklega er þetta frægasta munaðarlausa verk á íslensku sem er enn í vernd. Til þess að þýðingin væri komin úr höfundarétti þyrfti þýðandinn að hafa látist í síðasta lagi árið 1944. Elsta vísunin sem ég hef fundið í textann er frá sjöunda áratugnum. Það er því mjög ólíklegt að þýðandinn hafi verið látinn svona löngu fyrr.

En áfram er þetta flókið. Þýðandinn hefur væntanlega ekki fengið leyfi fyrir þýðingunni á sínum tíma. Þýðingin hefur því væntanlega verið óheimil. Nema reyndar að það hafi gerst áður en Ísland gekkst undir Bernarsáttmálann. Ég veit samt ekki til þess að ólögmæti þýðingar ógildi höfundarétt þýðandans.

Ef við tölum mál höfundarétthafa þá þýðir það að í hvert skipti sem maður syngur íslenska textann þá er maður að stela af rétthöfum og þýðandanum! Það að það séu einhverjir tæknilegir erfiðleikar við að borga þeim gerir það bara alls ekki í lagi að stela svona. Skilst mér.

Auðvitað er hægt að segja að flutningur textans sé sjaldnast í gróðaskyni (nema auðvitað barnsins sem vill fá gjafir og gestanna sem vilja kökur) eða að þetta sé einkanotkun en síðustu ár hefur einmitt verið harkalega ráðist að réttinn sem fólk hefur til að gera hluti án ágóða og þrengd skilgreiningin á einkanotkun.

Aftur að klippunni úr Community. Ég er að nota hana til að sýna hve sniðugir þessir þættir eru í samhengi umfjöllunarefnis míns. Þetta er innan við hálf mínúta af rúmlega 20 mínútna þætti. Það er enginn að tapa á þessu. Samt stoppaði Facebook mig í að hlaða þessu upp. Það er fullkomlega galið.

Það þarf án efa að laga til höfundalögin og svokallaðir rétthafar mega ekki bara ráða öllu bara af því að þeir eiga peninga og geta ráðið lögfræðinga.

Höfundaréttarráð: “Wine and dine” og annar lobbýismi.

Annar fundur minn sem fulltrúi í höfundaréttarráði var áhugaverður. Þar er ég fulltrúi Upplýsingar – félags bókasafns- og upplýsingafræða en þessir punktar eru meira persónulegt álit mitt frekar en félagsins.

Í fyrsta lagi var farið yfir þau frumvörp sem ekki komust í gegnum þingið núna. Pírötum var kennt harkalega um að þau komust ekki í gegn. Reyndar var því mótmælt aðeins, t.a.m. af Óttari Proppé sem sagði að það væri ekki hægt að fría hina 60 þingmennina ábyrgð. Almennt var talað um þessi frumvörp á þann hátt að þau væru til að bæta aðgang almennings að efni. Ég var nú ekki alveg sammála því.

Það frumvarp sem kom næst mér, og ég las í gegn á sínum tíma, varðaði munaðarlaus verk. Satt best að segja þótti mér frumvarpið máttlaust og sá ekki að það hefði breytt sérstaklega miklu á Íslandi.

Cliff Richards frumvarpið varðaði lengingu höfundaréttar tónlistarflytjenda úr 50 árum í 70 ár. Það frumvarp var reyndar margmisskilið. Í raun skiptir það ekki miklu máli en ef maður er ekki á því að meiri höfundaréttur sé betri þá sér maður ekki tilganginn með því.

Þriðja frumvarpið var um samningskvaðir. Ég er í sjálfu sér nokkuð hlynntur því. Það gæti gert nokkuð góða hluti. Hins vegar verð ég að játa að ég skil það ekki algjörlega og þyrfti að kafa miklu dýpra í það til að skilja.

Næst var rætt um frumvarp sem ekki var lagt fram. Það varðaði breytingar á hinum svokallaði STEF-skatti (sem er auðvitað ekki skattur, þetta er uppnefni). Þar sá maður helst mun á sér og flestum öðrum á fundinum. Þó gjaldið hafi verið umdeilt á sínum tíma þá litu fulltrúar þeirra samtaka sem græddu á því á það sem réttmætar tekjur. Þar sem þessi tekjustofn þeirra hefði dregist gríðarlega saman síðustu ár þá ætti ríkið að útfæra gjöldin upp á nýtt til að tekjurnar yrðu aftur jafn miklar og áður.

Ég held að í salnum hafi ekki verið neinn skilningur á því hve gríðarlega neikvæð áhrif hinn svokallaði STEF-skattur hafði á ímynd höfundarétthafa á Íslandi. Sú ósanngirni sem felst í því að fólk hafi þurft að borga höfundarétthöfum gjald fyrir að kaupa tölvu eða skrifa gögn á geisladisk. Þetta setti stórt skotmark á íslenskt höfundaefni. Ef það á að bæta við gjöldum á fleiri tæki og tól þá er ólíklegt annað en að ímynd höfundarétthafa skaðist enn meira.

Sjálfur nefndi ég atriði sem mér fannst líka mikilvægt á þeim tíma. Það er að það er engin leið til að útdeila þessum peningum raunverulega til þeirra listamanna sem verða fyrir því að verkum þeirra er deilt á netinu. Siðferðislegur grunnur gjalds á borð við þetta ætti að vera sá að fólkið sem verður mögulega fyrir tekjuskerðingu sem fær peningana. Sérstaklega er það vafasamt ef einhverjir milliliðir eru að hirða eitthvað af þessum peningum.

En það sem fór verst í mig á fundinum var tal sumra á fundinum, t.d. fulltrúa STEFs og BÍL, um lobbíisma. Sérstaklega athugasemd fulltrúa STEFs um “Wine and Dine” aðferðina til að hafa áhrif á þingmenn. Meðal þess sem var rætt um Pírata var að þeir skildu ekki ekki kerfið. Ég held að það sé misskilningur. Píratar skilja kerfið ágætlega en eru ósáttir við það. Lukkulega voru aðrir þarna sem töluðu um samræður við Pírata. Síðan var fulltrúi Stafræns frelsis aðeins að reyna að koma þeirra sjónarmiðum á framfæri. Þá var gaman að einn var fulltrúi höfundarétthafa þó hann skilgreindi sig sem Pírata. Það sýnir að þessi mál eru flóknari en þau eru máluð.

Samsetningin á pallborðinu var frekar einsleit. Nær allir á þeirri skoðun að meiri höfundaréttur væri betri. Fulltrúi RÚV var reyndar aðeins að tala um aðgengi almennings. En það var enginn fulltrúi almennings þarna. En þarna var fulltrúi Símans. Ég sá ekki neinn hnjóta á sama hátt og mig um það þegar hann talaði um að Síminn væri beggja vegna borðsins í málunum. Þeir seldu netþjónustu og seldu aðgengi að efni. Sjálfum finnst mér það vafasamt. Stórfyrirtækin ættu að hafa sem minnst að segja um þessi mál.

Við sem komum frá Upplýsingu vorum nokkuð sammála um að rödd aðgengis, rödd almennings, heyrðist ákaflega lítið á fundinum. Á tíma var talað um að fundurinn sendi frá sér ályktun en ég tel ólíklegt að við í Upplýsingu myndum skrifa undir slíka ályktun. Ef höfundaréttarráð á að vera alvöru vettvangur til umræðu þá þarf að opna hann fyrir fleiri röddum. Síðan væri auðvitað gott að fleiri sem eiga aðild að ráðinu myndu yfirhöfuð mæta.

Fundur hjá höfundaréttarráði

Ég er meðlimur í höfundaréttarráði. Það kemur til vegna þess að ég er formaður höfundaréttarhóps Upplýsingar – félags um bókasafns- og upplýsingafræði og þar með fulltrúi félagsins í þessum málum. Áhugi minn á þessum málum er ekki nýtilkominn enda skrifaði ég strax í BA-námi mínu ritgerð um höfundarétt og bókasöfn.

En fyrst, hvað er höfundaréttaráð?

Höfundaréttarráð er vettvangur fyrir kynningu og umræðu um höfundaréttarmálefni sem efst eru á baugi á hverjum tíma, einkum tillögur um breytingar á höfundalögum og áhrif höfundalaga á samfélagið.

Ekki má rugla höfundaréttarráði saman við höfundaréttarnefnd sem er ráðherra til ráðuneytis um höfundaréttarmál. Ef ég skil það rétt þýðir það að nefndin undirbýr breytingar á höfundalögum. Í höfundaréttarráði eru aðallega fulltrúar listamanna (hér er listi – reyndar er Ólöf ennþá titluð sem fulltrúi Upplýsingar en það verður vonandi uppfært bráðum). Af þessum stóra hóp tel ég þrjá sem geta talist fulltrúar sjónarmiða almennings, það er ég (mér var snemma innrætt að bókasöfn ættu í höfundaréttarmálum að verja hagsmuni almennings), fulltrúi Neytendasamtakanna og (að mér finnst) fulltrúi Félags um stafrænt frelsi á Íslandi. Rétt er að taka fram að enginn slíkur fulltrúi er í höfundaréttarnefnd sjálfri.

Fundurinn var haldinn í sal Þjóðminjasafnsins. Ég mætti í fyrsta skipti á svona fund með spjaldtölvu (og þráðlaust lyklaborð – ég get ekki vélritað á skjá) og skrifaði hjá mér minnispunkta. Með mér voru tveir aðrir meðlimir í höfundaréttarhópi Upplýsingar, þær Siggerður Ólöf og fyrrnefnd Ólöf Ben. Ég tók líka strax eftir að margir Píratar voru á svæðinu enda var Birgitta með kynningu á fundinum.

Magnús Ragnarsson aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra var fundarstjóri. Fyrst talaði Rán Tryggvadóttir sem er formaður höfundaréttarnefndar. Hún fjallaði um væntanlegar breytingar á höfundaréttarlögum, og var víst að endurtaka sig töluvert frá fundi ráðsins í fyrra þar sem breytingarnar höfðu ekki komist í gegn á síðasta þingi. Ég mun væntanlega skoða það frumvarp og skrifa betur um það með textann fyrir framan mig. Fyrir bókasöfn heyrðist mér helst skipta máli að það yrði meiri réttur að semja við rétthafasamtök um notkun á efni. Rán nefndi líka, það sem mér þótti ágætt, að í höfundaréttarmálum þyrfti að vera jafnvægi milli notenda og höfunda. Næst voru kynntar breytingar á verndartíma hljóðrita sem ég mun sömuleiðis ræða betur seinna.

Þar á eftir kom fulltrúi frá STEF að ræða um breytingar á stöðu rétthafasamtaka vegna ESB. Mikil áhersla virðist vera frá sambandinu um að góða upplýsingagjöf frá rétthafasamtökum og gegnsæi í starfi þeirra. Þetta þóttu mér góðar fréttir enda hefur maður oft heyrt þá gagnrýni frá listamönnum og almenningi að það viti enginn hvernig fjármál þessara samtaka virka. Fulltrúa STEF þótti reyndar að margt í tillögunum væri íþyngjandi skrifræði fyrir lítil samtök. Fyrir íslenskan almenning eru það líka almennt góðar fréttir að reynt verður að gera Evrópu að einu markaðsvæði sem þýðir væntanlega að erfiðara sé að skilja Ísland útundan. Frá sjónarhóli STEF var þó ýmislegt sem gæti verið slæmt þar sem hagsmunir stóru aðilana yrðu almennt ofan á.

Í þessu er mjög áhugaverður vinkill því hætta er á því að í svona samfloti fái smærri listamenn jafnvel ekkert greitt þar sem það í raun borgar sig ekki að greiða út smærri fjárhæðir og í samhengi Evrópu verða sölutölur íslenskra listamanna ákaflega smáar. Þetta er í raun sama kerfi og mér skilst að sé í gangi í bókasafnssjóði listamanna þar sem við sem höfum bara örfá útlán á okkar bókum fáum ekki aur (og þeir stóru fá í raun ekkert rosalega mikið). Sjálfur myndi ég augljóslega kjósa greiðslur þar sem litlir listamenn fá hlutfallslega meira en þeir stóru fyrir hverja spilun eða útlán – allavega ef markmið okkar er að tryggja að listamenn geti lifað á listinni.

Annars þótti mér stundum eins og fulltrúinn frá STEF hefði meiri áhyggjur af því hvaða áhrif allar þessar breytingar hefðu á samtökin frekar en listamennina sem þeim tilheyra.

Eftir hlé kom Birgitta og talaði. Hún talaði fyrir breytingu á höfundavernd sem yrði 20 ár í stað líf+70. Hún sagði að dreifing sem ekki væri í hagnaðarskyni ætti að vera lögleg. Hún skaut á rétthafasamtökin með því að segja að henni hafi, sem ljóðskáldi, ekki hafa þótt Rithöfundasambandið gert neitt fyrir sig. Hún nefndi líka nýlega taxtalækkun í samningi milli sambandsins og útgefenda. Það sem snertir bókasöfn kannski helst er að hún talaði fyrir Creative Commons höfundaleyfum, gegn afritunarvörnum og með opnum aðgangi. Í samhengi afritunarvarna má nefna áherslu hennar á hve mikla stjórn aðilar eins og Amazon hafa yfir efni sem þeir “selja” notendum sínum og þá ógn við persónuvernd sem felst í því að hægt sér að rekja það sem fólk er að lesa.

Í lokin var umræða í pallborði. Það var fátt nýtt þar en mögulega lærðu fulltrúar rétthafasamtakanna eitthvað um sjónarhól þeirra sem vilja umbætur á höfundalögum. Jakob Frímann Magnússon kallaði þessar tillögur sósíalisma (ætli þingmenn VG sperri upp eyrun þegar þeir heyra það?). Það varð umdeilt hvort raunverulegt fjárhagslegt tjón væri af dreifingu höfundaréttarvarins efnis. Fulltrúi STEF kallaði það mýtu að listamenn græddu í raun á slíkri dreifingu – þá var vitnað í rannsókn hjá London School of Economics um það gagnstæða (hvort JFM telur þá sósíalista veit ég ekki). Birgitta nefndi að stundum væri pappír ekki nóg til að tryggja höfundum laun og benti á að námsbækur seldust yfirleitt ekki nema í stuttan tíma því eftir það tækju skiptibókamarkaðir við. Tryggvi Björgvinsson frá Félagi um stafrænt frelsi kom með spurning um Creative commons leyfi sem ég hefði viljað fá betri svör við. Hvernig samrýmast þau leyfi íslenskum lögum? Skemmtilegast þótti mér að heyra í Knúti Bruun sem talaði úr sal (það voru fleiri ræður en fyrirspurnir þar) sem nefndi sérstaklega að það þyrfti að hlusta á nýjar hugmyndir og taldi sérstaklega að það væri gott að fá kerfi sem tryggði listamönnum frekar hærri laun til skemmri tíma í stað lengri verndar.

Þetta hefði nú getað verið lengra hjá mér og sumir punktarnir sem ég skrifaði hjá mér verða væntanlega sérstakar bloggfærslur.

Það er rétt að taka fram að lokum að þetta eru skoðanir mínar sem einstaklings en ekki Upplýsingar. Ég geri ráð fyrir að semja ásamt félögum í höfundaréttarhópinum umsögn á væntanlegum lagabreytingum þar sem mínar skoðanir verða ekki allsráðandi.

Framkvæmdastjóri Senu og Netflix

Björn Sigurðsson framkvæmdastjóri Senu var í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2. Ég byrja á einfalda punktinum og samþykki það að það er vissulega slæmt að erlendar efnisveitur þurfi ekki að borga skatta hér á landi.

Það var rætt um muninn á Netflix og Spotify. Spotify kom hingað og samdi við rétthafa en Netflix vildi það ekki. Stóri munurinn er að þegar kemur að tónlist þá hafa íslenskir rétthafar eitthvað einstakt fram að færa. Þeir hafa töluvert magn af tónlist. Það á ekki við um kvikmynda- og sjónvarpsefni. Mig grunar líka að þegar íslenskir dreifingarétthafar séu búnir að taka sinn skerf þá verði áskriftin orðin frekar dýr.

Björn sagði að það sé “fáfræði” að segja dreifikerfi kvikmynda sé úrelt. Hann sagði líka að þetta væri flóknir samningar og allt það. Ég er einmitt á því að það séu þessir flóknu samningar sem séu úreltir. Heimurinn á að vera eitt markaðssvæði þegar kemur að dreifingu efnis á netinu. Það er galið að hægt sé að stjórna aðgengi fólks að efni og mismuna því í verði eftir því hvar þar býr.

Það var síðan svolítið skondin umræða um House of Cards og Björn talaði um að Netflix hefði ekkert leyfi til þess að sýna House of Cards á Íslandi og þar með fengu framleiðendur ekkert fyrir áhorfið hér á landi. Af samhenginu að dæma heyrði ég ekki annað en að um væri að ræða bandaríska House of Cards sem Netflix framleiðir (og græðir því vissulega á hvar sem fólk kaupir).

Björn hvatti fólk að vinsamlegast hugsa um börnin. Annars vegar hvað kvikmyndaskoðun varðar og talaði um að það væri engin leið fyrir foreldra að stjórna hvað börnin þeirra sæu á Netflix. Það er bara ósatt. Foreldrar geta víst stjórnað þessu og væntanlega á einfaldari hátt en varðandi venjulegt sjónvarpsefni. Hins vegar á fólk að hugsa um börnin af því að Netflix er ekki skyldað til þess að texta og talsetja eins og íslenskir dreifingar- og sýningaraðilar. Björn hefur væntanlega aldrei heyrt um Fjölvarpið eða neitt af öðrum sjónvarpsstöðvum sem sýna hér ótextað og ótalsett barnaefni án þess að nokkur stoppi það (náði Stöð 2 ekki fyrir löngu að afnema þessar takmarkanir?).

Það var nokkuð fyndinn punktur varðandi það að Björn hefði heyrt að mikil notkun á Netflix hefði orðið til þess að það hefði þurft að borga 3-5 þúsund krónur aukalega fyrir niðurhal. Ég hugsaði með sjálfum mér að þá væri Netflix dæmið væntanlega farið að kosta næstum jafn mikið og áskrift að Stöð 2.

Undarlegasta innlegg Björns var að höfundaréttur væri verndaður í stjórnarskrá Íslands. Ég hef aldrei rekist á það ákvæði og ef það er til staðar þá er það vel falið.

Auðhringir – SMÁÍS og Netflix

Nýjasta útspilið í umræðunni um höfundaréttarmál er sérstaklega galið. Í gegnum tíðina hefur umkvörtunin verið sú að neytendur séu ekki að borga framleiðendum og höfundum fyrir efnið sem þeir eru að horfa og hlusta á. Í dag er hins vegar barist harkalega gegn neytendum sem eru að borga fyrir aðgang að efni í gegnum kerfi eins og Netflix. Á þessum tímapunkti er rétt að spyrja hvort það sé ekki hægt að kalla SMÁÍS auðhring (cartel). Það er samstarf aðila sem ættu að vera í samkeppni við hvern annan til þess að koma í veg fyrir að aðrir geti komist á markað þeirra.

Ég hef oft sagt þetta áður en það má segja það aftur. Hér áður fyrr þurfti milliliði til þess að dreifa sjónvarpi og tónlist heimshorna á milli. Það er engin þörf á þeim í dag. Umkvörtun SMÁÍS er fyrst og fremst að þessir óþörfu milliliðir séu hættir að fá borgað. Þetta eru einokunartilburðir
Videoleigur eru búnar að vera, þetta segi ég þó ég sakni þeirra upp að vissu marki. Þær eru bara orðnar óþarfar. Sjónvarpsstöðvar sem treysta aðallega á að sýna erlent afþreyingarefni eru búnar að vera. Sjónvarpsstöðvarnar hafa þó allavega þann kost að leggja áherslu á innlenda framleiðslu. Þannig geta þær lifað áfram. Satt best að segja þá finnst manni helst eins og að ÍNN og N4 séu þær sjónvarpsstöðvar sem eru best búnar fyrir framtíðina. Reyndar vantar þeim sárlega að bæta stafræna dreifingu á stökum þáttum í stað þess að treysta svo mjög á útsendingar.

Satt best að segja myndi ég telja einna auðveldast í dag að nota YouTube sem mest. Þeir sem búa til sjónvarpstölvur og stýrikerfi fyrir sjónvarpstölvur hafa oftast lausnir til þess að spila YouTube efni. Nýlega kom líka frétt þess efnis að hægt yrði að láta borga fyrir efni á YouTube. Það er þó vissulega vont að treysta um of á þá og betra að hafa fleiri lausnir.

Framtíðin er núna. Satt best að segja grunar mig að það sé tiltölulega stutt í að það verði algjör sprengja í framleiðslu á íslensku efni.

Rímixuð skáldsaga

Eftir að síðasti þátturinn af Game of Thrones var sýndur um daginn byrjaði ég að lesa bækurnar aftur. Ég er enn í fyrstu bókinni enda er ég ekki að flýta mér og að lesa annað um leið. Þegar kemur að fjórðu bókinni brýtur GRRM sögulínurnar í sundur og við heyrum ekkert meira af sumum persónum fyrr en í fimmtu bókinni. Þetta gerði hann til að bókin yrði ekki allt of löng.

Ég fór að hugsa með sjálfum mér hvort það væri ekki hægt að taka einfaldlega og blanda saman köflunum úr þessum tveimur bókum þannig að maður fengi söguna í tímaröð. Það er auðvitað þannig að ef maður fær rökréttar hugmyndir um svona vinsælt efni þá hefur einhverjum öðrum dottið það í hug. Ég gúgglaði og fann nokkrar síður þar sem var fjallað um hvernig hægt væri að lesa bækurnar í tímaröð. Þar voru bæði leiðbeiningar fyrir þá sem höfðu lesið bækurnar áður og líka fyrir þá sem voru að lesa þær í fyrsta sinn (þá þarf aðeins víkja frá tímaröð til að viðhalda óvæntum atburðum).

Ég ákvað að prufa aðra leit til að sjá hvort einhver hefði nú mögulega gengið alla leið og búið til rafbók þar sem köflunum hefði verið endurraðað. Ég fann þá fljótt og örugglega rafbókina A Ball of Beasts (varúð spoilerar – sérstaklega fyrir þá sem hafa bara séð þættina). Þarna eru miklir fyrirvarar um höfundaréttarmál en eftir að hafa lofað öllu fögru geta menn halað niður rafbók með sameinaðri sögu. Ég hlakka til að lesa þetta og er spenntur að sjá hvort það breyti einhverju um sýn manns á söguna.

Þetta er ekki fyrsta dæmið um að aðdáendur hafi breytt bókum höfunda en í raun fyrsta sem ég hef raunverulega áhuga á. Mér þætti skemmtilegt að vita hvað GRRM sjálfum þyki um þetta. Hann hefur talað gegn aðdáendaskrifum en þetta er allt önnur skepna. Ég vil ekki gera rithöfunda ennþá hræddari við rafbækur en þeir eru nú þegar en þetta er nokkuð sem fylgir þeim. Allar afritunarvarnir eru gagnslausar til annars en að fæla ótæknivædda frá og lesendurnir fá gríðarlegt vald yfir textanum ef þeir hafa áhuga á því. Það að halda sig utan rafbókaútgáfu dugar ekki heldur því skönnun og ljóslestur koma textanum líka á vald lesandans.

SMÁÍS afneitar nútímanum

Ég sá þessa mynd á Flickmylife. Hún er óljós en textinn er á þessa leið (símanúmerið og tölvupóstfangið var sérstaklega illlesanlegt):

Ekki er leyfilegt að koma með myndavél eða upptökubúnað af neinu tagi inn í þetta kvikmyndahús. Litið verður á það sem tilraun til að brjóta gegn höfundarétti. Reka má á dyr hvern þann sem það gerir og lögreglan getur gert viðkomandi búnað upptækann. Við biðjum áhorfendur um að vera á verði gagnvart þannig starfsemi og tilkynna hvert tilfelli sem vekur grunsemdir til starfsfólks kvikmyndahússins eða til SMÁÍS í síma 861-0140 eða tölvupóst smais@mi.is
SMÁÍS

Hugsið um þetta augnablik. Það eru ár og dagar síðan ég hef farið inn í kvikmyndahús án þess að vera með myndavél og upptökubúnað – símann minn. Sama gildir væntanlega um nær alla aðra bíógesti. Samkvæmt þessu má reka okkur út og lögreglan mætti gera búnaðinn upptækann. Ég efast stórlega um að þetta sé satt og það væri áhugavert að sjá hvernig þetta er rökstutt með vísan í lög. Allavega er orðalagið fullkomin vitleysa. Það væri alveg hægt að orða þetta betur, sumsé að segja að hver sem verði uppvís að notkun upptökutækja eða myndavélar í bíóinu megi eiga von á hörðu. Bjarta hliðin er sú að næst þegar ég sé einhvern sem svarar í snjall- eða myndavélasíma þá get ég hringt í Snæbjörn hjá SMÁÍS og hann lætur gera símann upptækann. Það væri réttlát refsing fyrir símnotkun í bíói.

En hve líklegt er það í alvöru að einhver mæti í íslenskt bíó og reyni að taka upp mynd? Fyrir allar erlendar myndir þá væri hugmyndin fullkomlega sturluð því það væri engin leið til þess að græða á slíku. Hver úti í hinum stóra heimi hefur áhuga á að fá mynd með íslenskum texta? Og hvernig ætti nokkur að ná að græða nógu mikið á sölu á slíkum sjóræningjaupptökum á íslenskum markaði til þess að áhættan borgi sig? Eru í alvörunni nógu margir sem vilja borga nógu mikið fyrir íslenskan texta á lélegri kvikmyndahússupptöku til þess að nokkur myndi vilja standa í þessu. Augljóslega ekki. Sömuleiðis væri markaðurinn frekar lítill fyrir íslenskar myndir teknir á þennan hátt. Hefur eitthvað svona komið nokkurn tímann upp á Íslandi?
Þetta minnir mig á þegar SMÁÍS höfðu eftirfarandi skilaboð á heimasíðu sinni:

Allar upplýsingar sem fram koma á vef SMÁÍS er eign SMÁÍS, nema annað sé sérstaklega tekið fram eða leiða megi af eðli máls. Óheimilt er að setja krækju (link) á vef SMÁÍS af annarri vefsíðu nema með skriflegu samþykki samtakanna. Skriflegt samþykki SMÁÍS þarf til að endurbirta, afrita eða dreifa upplýsingum sem fram koma á heimasíðu SMÁÍS

Þarna er fullkomin afneitun á eðli vefsins. Það er ekki hægt að ímynda sér meiri vitleysu en að ætla að banna fólki að setja hlekki á vefsíður.

Þess má geta að í dag er forsíða heimasíðu vefs SMÁÍS teygð og asnaleg jpg mynd. Þar áður hafði síðan verið óbreytt í einhver ár og ég var á ráðstefnu í hittifyrra þar sem Snæbjörn hélt því fram að ástæðan fyrir uppfærsluleysinu væri sú að síðan hefði verið hökkuð (án þess þó að nokkur breyting hefði verið gerð á síðunni). Það var réttilega hlegið að honum enda var hann í sal fullum af tölvumönnum sem vita vel hve fráleit hugmynd það er að vefur sé hakkaður þannig að ekki sé hægt að laga hann á nokkrum árum.

Þetta eru samtök sem eiga í ákaflega lausum tengslum við tækni nútímans og þá er ekki skrýtið að þeirra leið til að fást við þessa tækni er að berjast gegn henni. Það vottar fyrir því í dag að aðilar samtakanna séu farnir að reyna að græða á tækninni en þeir eru langt á eftir tímanum og reyna enn að tjóðra hana með úreltu viðskiptamódeli sem snýst um að viðhalda landfræðilegum takmörkunum sem eru fullkomlega órökrétt í dag og að rukka fyrir vörurnar eins og enginn sparnaður hafi orðið með stórbættu dreifikerfi.

Ég var í gær að klára að lesa grein um hinn svokallaða Betamax-dóm (Intellectual Property Stories). Það vita þetta kannski ekki allir en þegar myndbandsupptökutæki komu fyrst á markað barðist sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðurinn harkalega gegn þeim. Lukkulega töpuðu þeir málinu fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna og þingið þar fór ekki þá vitlausu leið sem Íslendingar fóru með því að leggja gjöld á spólurnar. Síðasta áratug eða svo hefur sami iðnaður barist harkalega fyrir því að verja þann stóra markað sem myndbandsupptökutækin sköpuðu í stað þess að sjá þau stórkostlegu tækifæri sem fólust í nýju tækninni.

SMÁÍS blekkir

Það þyrfti heila grein til að fjalla um hvernig SMÁÍS reyndi um helgina að nýta sér, og um leið kynda undir, fordóma Íslendinga gegn Austur-Evrópubúum með auglýsingu sinni. Ég vildi hins vegar koma með einfalda athugasemd um staðhæfingarnar um tengsl óheimilaðrar dreifingar á höfundarvörðu efni við (hættuleg) glæpasamtök.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég hef skoðað þessi mál í fjölmörg ár og stefni á að skrifa einhvern tímann fræðigrein um málið. Ég hef þegar haldið einn fyrirlestur um þessi mál í tengslum við rafbækur.

Hér áður fyrr var sjóræningjastarfsemi mikið til tengd því sem við getum kallað alvöru glæpasamtök. Sumsé fólk sem framleiddi og dreifði efni í hagnaðarskyni. Í dag hefur þetta að miklu leyti snúist við. Þeir sem eru að dreifa efni, til dæmis í gegnum torrent síður, eru að miklu leyti aðdáendur þeirra listamanna sem eiga verkin sem um ræðir. Það eru hins vegar mörg dæmi um fólk sem hefur reynt að græða á (eða allavega vinna upp kostnað) að búa til umhverfi þar sem svona dreifing fer fram. Ýktasta dæmið er væntanlega Megaupload maðurinn Kim Dotcom (sem er dáltið langt frá því að vera hættulegur).

Ég ætla að giska að mest af því höfundavarða efni sem er dreift á óheimilan hátt á Íslandi í dag sé fengið í gegnum íslenskar torrent síður. Þar eru í versta falli einhverjir íslenskir tölvunördar að græða pening (í gegnum framlög eða auglýsingasölu).

Þá spyr fólk: Hvað með fólkið sem setur þetta á netið erlendis? Eru það ekki hættulegir glæpamenn? Ég held ekki. Þeir sem dreifa til dæmis sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, tölvuleikjum og tónlist eru fyrst og fremst tölvunördar sem vilja fyrir og fremst “heiðurinn” sem felst í að dreifa efni. Heiðurinn er þá fyrst og fremst metinn út frá því hver varð fyrstur að dreifa efninu og hvernig gæðin á því voru. Það mætti segja að þeir sem dreifa efni löglega mættu taka sér þetta til fyrirmyndar og reyna að koma efninu fljótt til notenda og í sem mestum gæðum.

Vandamálið við SMÁÍS auglýsinguna er því ekki bara að hún er rasísk heldur líka að hún er röng. Það að heyja þessa baráttu á öðrum forsendum en þeim að þeir sem búa til verk eigi skilið að fá borgað fyrir það er dæmt til að mistakast.