Djúranið

Ég var ekki í miklu stuði í gær. Ég var þreyttur. Aumur í fótunum. Rétt áður en tónleikarnir byrjuðu þá langaði mig helst að fara heim að sofa. En síðan byrjaði þetta. Ég þekkti ekki fyrsta lagið en það hljómaði ágætlega.

En síðan kom Wild Boys og Hungry Like the Wolf. Ég fattaði allt í einu að ég var farinn að brosa út að eyrum. Þetta var frábært. Þegar lögin komu bara hvert af öðru þá áttaði maður sig á að þeir gætu  samt aldrei spilað öll lögin sem ég vildi heyra. Þeir eiga svo mörg.

Ég saknaði helst The Chauffeur (sem er óumdeilanlega þeirra besta lag) og Is There Something I should Know (sem var uppáhaldið mitt þegar ég var krakki). Mig langaði líka svoltið að heyra Electric Barbarella sem ég hugsa alltaf um sem eitt af þeirra nýrri lögum en er í raun 22 ára. Ef lagið væri barn væri það komið í háskólanám. Lagið er eldra en ég var þegar það kom út.

Hápunktur tónleikana var líklega Planet Earth þar sem þeir saumuðu inn Space Oddity þannig að það virkaði eins og það ætti bara heima þar. En auðvitað var Save A Prayer líka eins frábært og það getur verið. Síðan er Ordinary World alltaf fyrir okkur Eygló. Samkvæmt Spotify er það næstmest spilaða lagið þeirra.

Duran Duran er kannski hallærisleg hljómsveit að mati einhverra en hún er án efa dásamleg. Ég vorkenni fólki sem er of töff að geta fílað þetta. Ég sá ekkert eftir að hafa farið þó ég sé miðaldra og þreyttur.

Hverjum er ekki sama hvað mér finnst um Júróvisjón?

Í fyrra þegar Ísrael vann og keppandinn sagði “að ári í Jerúsalem” þá fékk ég sting. Ég var sáttari við Tel Aviv en leið samt ekki vel.

Ég er hlynntur viðskiptalegri sniðgöngu, sér í lagi þegar um er að ræða fyrirtæki sem eru með starfsemi á hernumdu svæðunum. Ég á örlítið erfiðara með menningarlega sniðgöngu. Ég held að menningarlegt samskipti geti í einhverjum tilfellum gert gott.

Hins vegar kaupi ég ekki þá möntru að Júróvisjón sé pólitískt hlutlaust. Hatari afhjúpaði það algjörlega. Það er auðvitað pólitísk afstaða að banna keppendum að tjá sig um Palestínu og að sýna fána Palestínu. Keppnin er auðvitað rammpólitísk kynningarherferð fyrir Ísrael. Hið ímyndaða pólitíska hlutleysi keppninnar var miðað við ákveðið norm, við ákveðna flokkslínu.

Það er samt ekkert nýtt að Júróvisjón sé pólitískt fyrirbæri. Keppnin hefur áður verið haldin í löndum þar sem mannréttindabrot líðast. Keppendur hafa líka oft verið pólitískir, hið augljósa dæmi er þegar Úkraína vann fyrir örfáum árum með lagi sem fjallaði um Krímskaga. Það mátti einhvern veginn.

Auðvitað var lag Hatara rammpólitískt. Textinn var bomban. Það að veifa fánalitum Palestínu var ekki jafn pólitískt en undirstrikaði boðskapinn fyrir þá sem ekki vita um hvað lagið fjallar. Ríkisútvarpið hafði ekki getu til þess að sniðganga keppnina. Það að senda Hatara var það besta í stöðunni. Ég var samt smá að vona að þeir myndu verða reknir úr keppni en gjörningur þeirra var mun öflugri en sniðganga Íslands eða þeirra sjálfra hefði verið.

Ætli þetta hafi ekki í raun helst snúist um að bannhelgi þess að móðga gestgjafann? Íslendingar þekkja vel þá speki. En við vitum líka að það er vinur sem segir til vamms.

Það er varla hægt að hafa rétta afstöðu til menningarlegrar sniðgöngu á Ísrael þegar það er engin samstaða um málið meðal íbúa Palestínu eða Ísrael. Það er hægt að finna allar mögulegar skoðanir á málinu meðal Palestínumanna og Ísraela, þvert á afstöðu þeirra til átaka Palestínu og Ísraels. Við höfum séð það á viðbrögðum Palestínumanna sem eru ekki á einhvern einn veg. Það sama gildir um Ísraela sem margir hverjir leyfa sér mun harkalegri gagnrýni á stefnu ríkisstjórnar sinnar heldur en við hérna á Íslandi mundum gera.

Að lokum legg ég til að Palestína fái að taka þátt í Júróvisjón – verði sérstaklega boðið að vera með í klúbbnum. Það væri eitthvað meira í líkingu við pólitískt hlutleysi að hafa Palestínu og Ísrael saman í keppni frekar en að reyna að skapa einhvern hliðarveruleika þar sem tilvist Palestínu er ritskoðuð.

Mynd af mynd og höfundalög

Ég tók greinilega ranga ákvörðun þegar ég ákvað að taka þátt í umræðum um höfundaréttarmál hjá Vilhjálmi “Fornleifi” á Moggablogginu. Dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson heldur því fram að vefritið Herðubreið hafi brotið höfundalög með því að nota ljósmynd sem hann tók.

Ljósmyndin sem um ræðir er mynd sem hann tók af gamalli blaðaauglýsingu frá Eimskip og hún ætti að sjást hérna fyrir ofan færsluna. Herðubreið tók vissulega hluta af myndinni og notaði án þess að geta þess að Vilhjálmur hefði tekið hana. Vilhjálmur telur þetta vera brot á höfundalögum en ég er ósammála.

Ástæðan fyrir því að ég tel þetta ekki falla undir höfundalög er sú að myndin getur aldrei talist sjálfstætt verk. Hún er bara afrit. Vilhjálmur var ekki að reyna að skapa nýtt verk þegar hann tók mynd gamalli auglýsingu. Markmið hans var þvert á móti, eins og fræðimanni sæmir, að búa til eins nákvæmt eftirrit af blaðsíðunni og hann mögulega gat. Íslensk höfundalög skilgreina eintakagerð og ég sé ekki betur en að umrædd ljósmynd sé einmitt …

sérhver bein eða óbein, tímabundin eða varanleg gerð eintaks af verki, í heild eða af hluta þess, með hvaða aðferðum sem er og í hvaða formi sem er. Það telst m.a. eintakagerð ef verk er flutt yfir á miðil sem nota má til endurmiðlunar.

Eintök eru ekki og verða ekki sérstök verk sem njóta verndar höfundalaga. Ég held reyndar að Herðubreið hefði átt að, kurteisinnar vegna, að vísa á Vilhjálm þegar þeir birtu myndina en ég sé ekki að vefritið hafi brotið nein lög með þessu.

Það sem ég er að tala um er frumleikaskilyrðið svokallaða. Það eru mörg grá svæði í því en hérna held ég að málið sé svart og hvítt. Það er ekkert frumlegt við myndina og það var engri sköpun beitt við myndatökuna sjálfa. Vinnan sem Vilhjálmur lagði á sig var fræðimennska en ekki ljósmyndun. Það var afrek finna auglýsinguna og við getum borið virðingu fyrir þeirri vinnu þó við teljum verkið ekki eiga að njóta verndar höfundalaga.

Í athugasemdarþræðinum, sem þið lesið á eigin ábyrgð, talar Vilhjálmur um að Myndstef telji lagatúlkun hans gilda. Ef það er rétt þá er það afskaplega einföld bókstafstúlkun á lögum sem ég efast um að nokkur dómstóll myndi taka undir.

Michael Bolton aðdáandinn ég

Á Spotify sjá vinir manns hvað maður er að hlusta á. Gallinn er sá að þeir sjá líka síðasta lagið sem maður hlustaði á. Þannig að lög sem maður hlustar á í gegn hverfa um leið og þau klárast en lag sem var í gangi þegar maður stoppaði Spotify sést þar til maður setur eitthvað næst af stað. Þannig að þetta “stopplag” sést lengur en hin.

Í gær þá stoppaði ég Spotify þegar lagið How I am Supposed to Live Without You með Michael Bolton var í gangi. Þannig að Spotify-vinir mínir höfðu um tólf klukkutíma til að komast að þeirri niðurstöðu að ég væri stærsti Michael Bolton aðdáandi í heimi.

Ég gæti haldið því fram að ég hafi bara óvart lent á lagi með Michael Bolton og orðið svo miður mín að ég fleygði tölvunni í vegginn til þess að tónlistin myndi stoppa. En staðreyndin er reyndar sú að ég var alveg viljandi að hlusta á þetta lag. Ég er ekki mikill Bolton aðdáandi en það að sjá hann gera grín að sjálfum sér í Never mind the Buzzcocks og Valentínusarþættinum á Netflix hefur gert mig frekar jákvæðan gagnvart honum persónulega þannig að ég þoli alveg að hlusta á hann.

Myndskreytt af tölvu

Vegna umræðu um barnabækur þá hef ég verið að velta fyrir mér myndskreytingum. Í dag er hræódýrt að finna sér listamenn á netinu og láta þá sjá um að teikna myndir í bækur.

Ég held að myndir í barnabókum séu mikilvægar, alveg eins og sagan og textinn. Ef myndskreytingar í íslenskum barnabókum endurspegla ekki raunveruleika sem börnin geta tengt við þá er eiginlega alveg eins hægt að þýða og staðfæra bækurnar.

Ég ætla ekki að halda því fram að þetta sé einfalt val í bókaútgáfu. Það eru ekki miklir peningar í að gefa út bækur, hvað þá barnabækur, og ef þú getur fengið ódýra myndskreytingu í útlöndum þá hækka launin allavega eitthvað.

En ef myndskreyting er bara útvistað verkefni til einhvers sem skilur ekki einu sinni textann þá verður listamaðurinn ekki slíkur meðhöfundur sem svona verkefni krefst.

Síðan er líka málið að ef þú borgar bara 15-25 dollara fyrir mynd þá ertu ekkert endilega að fá neitt annað en mynd sem er meira og minna búinn til af forriti sem býr til persónur á sama hátt og tölvuleikir. Það er bara valið um mismunandi hár, augu, húðlit, föt og svo framvegis og síðan skellt inn á staðlaðan bakgrunn. Það læðist að manni sá grunnur að slíkum dúkkulísuleik þá sé auðvelt að velja hjúkrunarkonubúning eins og voru víst algengir löngu fyrir mína tíð.

Ég held að í þessu gildi, eins og í flestu, að frjáls markaður sé ekki líklegastur til að gefa góðar lausnir heldur ódýrar lausnir. Við getum aldrei treyst frjálsum markaði að leysa nokkuð sem skiptir máli.

Jupiter Hollow – misheyrður texti

Lagið Higher Love með Steve Winwood er voðalegt níunda áratugs lag. Það fór á toppinn á milli Madonnu og Bananarama. Það festist í hausnum á manni. Ég hélt samt alltaf að þar væri sungið “Jupiter Hollow” en ekki “Bring me a higher love”.

Það er ekki langt síðan að ég heyrði þetta lag aftur og var að reyna að syngja með. Mér fannst það ganga illa og leitaði að textanum og sá að það var kolvitlaust hjá mér. Það er ekkert verið að syngja um Jupiter Hollow. En ég mundi hvar ég lærði textann.

Big Business er gamanmynd sem er líka síns áratugs, þess níunda. Bette Midler og Lily Tomlin leika þar systur – eins og sést í þessu atriði.

Í myndinni er smábærinn Jupiter Hollow í aðalhlutverki og ég mundi sterkt eftir því að hafa heyrt lagið þarna og hugsað með sjálfum mér, “já, það er verið að syngja um þennan bæ”. Í kjölfarið festist textinn í hausnum á mér. Ég var voðalega glaður að ég mundi allavega nafnið á bænum rétt.

Góða skemmtun gjöra skal

Ég er ennþá að glugga í Íslenzk þjóðlög eftir Bjarna Þorsteinsson. Þar varð fyrir valinu Góða skemmtun gjöra skal sem er oftar sungið sem Góða veislu gjöra skal.


Það vakti athygli mína að það sé til færeysk útgáfa af þessu lagi þannig að ég potaði í félaga Heri Joensen (Týr) og spurði hvaða kvæði það væri. Það stóð ekki á svörum.

Òluvu kvæði
1.

Góða skemtun gera skàl,
hvàr eg gengi í dans:
kvøði um kong Pipping
og Óluvu dottur hans.

Viðgangur:
Stígum fast á várt golv, spàrum ei vár skó!
Gud mann ráða, hvàr vær drekkum onnur jól.

2.

Pipping kongur àf Fraklandi
Gertruð heitir hans frúgv,
væn er Óluva dottir teirra,
higgin og so trúgv.

3.

Karlamagnus Pippingsson
bróðir er hann àt fljóði,
væl eru tey af ættum komin,
Jóhannis hinn góði.

Þetta heldur áfram upp í 178. erindi. Það sem mér fannst áhugaverðast var að þarna er talað um að drekka næstu jól en ekki dansa um næstu jól. Það að drekka jól er auðvitað mjög gamalt orðalag þannig að hvort sem kvæðið hafi verið til í heild sinni á íslensku eða það hafi komið hingað í gegnum Færeyjar þá myndi ég veðja á að “drekka” væri upprunalegra.

En spurningin er auðvitað hver þessi feðgin eru, Pípin og Ólöf. Fyrsta giskið mitt var, áður en ég sá færeyska kvæðið, að þetta væri Pipin faðir Karlamagnúsar og það var rétt. Kvæðið virðist hafa verið ort upp úr riddarasögunni Af frú Olif ok Landres syni hennar sem er hluti af Karlamagnús saga ok kappa hans. Þetta er þýðing af enskri riddarasögu sem er nú glötuð. Ég játa að ég hef ekki farið nægilega vel í gegnum söguna og kvæðið til að þekkja efnið nægilega vel (mér leiðast riddarasögur alveg hrikalega) en bæði sagan og kvæðið endar á að Ólöf gengur í klaustur. Út frá þessu er freistandi að tengja Ólöfu við Gisele systur Karlamagnúsar sem endaði í klaustri.

Mér finnst í raun alveg rosalega skemmtilegt að Íslendingar og Færeyingar skuli syngja um franska konungsdóttur frá áttundu öld. Ég hafði ekkert pælt almennilega í þessu áður.

En ekkert í rannsóknum mínum veitti mér innsýn í það hvers vegna þetta er jólalag.

Íslendingar syngja síðan auðvitað kvæðið Álfadans eftir Jón Ólafsson við sama lag.

Álfadans
Máninn hátt á himni skín,
hrímfölur og grár.

Líf og tími líður
og liðið er nú ár.

Bregðum blysum á loft
bleika lýsum grund.

Glottir tungl og hrín við hrönn
og hratt flýr stund.

Kyndla vora hefjum hátt,
horfið kveðjum ár.

Dátt hér dansinn stígum,
dunar ísinn grár.

Komi hver sem koma vill
komdu nýja ár.

Dönsum dátt á svelli,
dunar ísinn blár.

Ég tók mig til og setti upp nóturnar frá Bjarna í Musescore til að ég gæti spilað fyrir sjálfan mig og jafnvel notað í podcastinu mínu. Ég lét síðan Musescore spila það með flautuhermi til þess að ég gæti látið það fylgja með færslunni án þess að það væri bara í ískrandi midi-formi.


Ég þarf greinilega að láta wordpress samþykkja að setja inn svona staðlaða nótnaskrá en hérna er mynd af þessu sem ég setti upp – sem ég hefði ekki getað gert án Telmu. Nóturnar eru líka á Musescore þar sem hver sem er ætti að geta halað þeim niður og notað að vild.


 

Fram á regin fjallaslóð

Helsti gallinn við að hlusta á tónlist á Spotify er að maður fær engar upplýsingar um lögin, ekki texta og ekki nöfn höfunda. Ég var að hlusta á Þjóðlög Ragnheiðar Gröndal og lagið Fram á Reginfjallaslóð stendur upp úr.

Ég gúgglaði og fékk litlar upplýsingar en fann þessa útgáfu á Ísmús. Í Gegni stendur að þetta sé þjóðvísa og þjóðlag (þær upplýsingar eru væntanlega fengnar úr bæklingnum með disknum).


Kristján Árnason syngur Fram á reginfjallaslóð
Ég tók aðeins dýpri leit og fann að vísuna í handriti leikritsins Skugga-Sveins. Þar eru þrjú erindi en bæði á Ísmús og hjá Ragnheiði er bara eitt.

Fram á regin-fjallaslóð
firðar ljótir búa;
þeirra bygð er þeygi góð,
þyrstir mjög í sauðablóð
eru þeir og engan guð á trúa.

Kunna þeir með kænsku sið
kvikfé ná í haga,
kveykja eld við kletta-rið,
kjötið steikja logann við,
síðan stolnar sauðahnútur naga.

Þegar bóndi burtu frá
býli fer og vífi,
koma fram úr fylgsnum þá
fólin leið og bæjum á
æra fljóð og ota löngum hnífi.

Samdi Matthías öll erindin eða bætti hann tveimur við eldra kvæði? Hvaðan kemur lagið?
Þegar maður hefur áttað sig á að “Reginfjallaslóð” er oft ritað “regin fjallaslóð” eða “regin-fjallaslóð” þá nær maður að kafa dýpra og þá fann ég lagið í Íslenskum þjóðlögum Bjarna Þorsteinssonar.


Bjarni Þorsteinsson fæddist sama ár og Skugga-Sveinn var frumfluttur, árið 1861, og safnaði þjóðlögum sínum á árunum 1880-1905. Það er ólíklegt að hann hafi ekki vitað af tengslum lagsins við Matthías.

En hér sést auðvitað ástæðan fyrir því að ég kafaði aldrei djúpt í þjóðlög. Ég get ekki lesið nótur. Er annað hvort lagið sem Bjarni birtir hér það sama og Ragnheiður og Kristján Árnason syngja? Fjallar kvæðið upprunalega um útilegumenn eða kannski bara tröll?
Viðbót 6. desember
Ég ákvað að læra aðeins á nótur og setti þetta upp í forritinu Musescore (með hjálp frá Telmu). Hérna er lagið með einföldum hörpuhermi.


Hérna eru nóturnar. Ég sett #1 við þær af því að Bjarni hafði líka annað lag við þær.

Fram á regin fjallaslóð nótur

Ég setti nóturnar líka inn á opna gagnagrunn Musescore þar sem er hægt að hala því niður og breyta að vild.

Tónleikasaga mín

Í tilefni þess að ég fór á Rammstein í gær skráði ég hjá setlist.fm hvaða tónleika ég hefði farið á í gegnum tíðina. Týr er á toppnum með 12 tónleika en verst er að ég hef ekki séð þá í nærri átta ár. Ég þurfti að bæta við nokkrum tónleikum þeirra þarna (og um leið nokkrum tónleikastöðum á Íslandi).

Ég ákvað að telja fræga íslenska tónlistarmenn með þannig að Emilíana og Sigur Rós eru þarna. Það vantar reyndar þegar ég laumaðist inn á Emilíönu og Fjallkonuna 1995/6 í Sjallanum og eina tónleika með henni í Háskólabíó. En tónleikar Sigur Rósar árið 1999 á Vopnafirði voru þegar skráðir inn en ég var fyrstur til að skrá að ég hefði verið þar. Ég er ekki hissa enda voru bara svona tuttugu manns þar.

Eyðurnar í tónleikasókn eru greinilegar þarna uppúr 2009 og síðan aftur uppúr 2013. Þið getið giskað hvað veldur.

Maí 20, 2017: Rammstein, Korinn, Kópavogur
Nóv 11, 2016: Nik Kershaw, Harpa – Eldborg, Reykjavík
Okt 14, 2016: Placebo, Store Vega, Copenhagen, Danmörk
Ágú 6, 2016: Muse, Laugardalshöll, Reykjavík
Maí 19, 2016: Emilíana Torrini, Harpa – Eldborg, Reykjavík
Nóv 4, 2012: Sigur Rós Airwaves 2012
Okt 11, 2008: Queen + Paul Rodgers, S.E.C.C., Glasgow, Skotland
Okt 4, 2008: Týr, Nasa, Reykjavík
Okt 3, 2008: Týr, Græni Hatturinn, Akureyri
Okt 2, 2008: Týr, Paddy’s Irish Pub, Keflavík
Júl 9, 2008: Týr, Bryggen, Copenhagen, Danmörk
Maí 27, 2007: Uriah Heep, Laugardalshöll, Reykjavík
Maí 27, 2007: Deep Purple, Laugardalshöll, Reykjavík
Okt 4, 2006: Týr, The Rock, Copenhagen, Danmörk
Júl 30, 2006: Sigur Rós, Klambratún Park, Reykjavík
Júl 27, 2006: Emilíana Torrini, Nasa, Reykjavík
Júl 27, 2006: Belle and Sebastian, Nasa, Reykjavík
Nóv 27, 2005: Sigur Rós, Laugardalshöll, Reykjavík
Júl 23, 2005: Europe, G! Festival 2005
Júl 23, 2005: Týr, G! Festival, Norðragøta, Færeyjar
Júl 5, 2005: Foo Fighters, Reykjavík Rocks 2005
Jún 30, 2005: Duran Duran, Reykjavík Rocks 2005
Jún 7, 2005: Iron Maiden, Egilshollin, Reykjavík
Mar 28, 2005: Queen + Paul Rodgers, Carling Academy Brixton, London, England
Júl 7, 2004: Placebo, Laugardalshöll, Reykjavík
Jún 26, 2004: Týr, Grand Rokk, Reykjavík
Des 11, 2003: Týr, Nasa, Reykjavík
Nóv 23, 2003: Týr, Tjarnarbíó, Reykjavík
Nóv 22, 2003: Týr, Hvíta húsið, Selfoss
Nóv 21, 2003: Týr, Grand Rokk, Reykjavík
Ágú 26, 2003: Foo Fighters, Laugardalshöll, Reykjavík
Apr 6, 2002: Týr, Smáralind, Kópavogur
Jún 15, 2001: Rammstein, Laugardalshöll, Reykjavík
Ágú 14, 1999: Sigur Rós, Mikligarður, Vopnafjörður