Dapurleg örlög Ole Lund Kirkegaard

Svona í ljósi barnabókaumræðu þá er kannski rétt að tala um barnabækur. Ég les eiginlega á hverju kvöldi fyrir Gunnstein. Við klárum Kalla og sælgætisgerðina annað kvöld eða kvöldið þar á eftir.

Ég er kominn með næstu bók. Það er Fúsi froskagleypir eftir Ole Lund Kirkegaard. Ég hlakka dálítið til enda voru þessar bækur mjög góðar í minningunni.

Mér datt í hug að lesa mér aðeins til um hann Ole Lund og varð dapur að lesa um andlát hans. Reyndar lést hann um einum og hálfum mánuði eftir að ég fæddist þannig að flestir hafa samt væntanlega jafnað sig. En hann var víst 38 ára þegar hann dó (sumsé jafngamall mér í dag). Hann varð úti á leiðinni heim af kránni. Mér datt í hug örlög sögupersónu landa hans HC Andersen þegar ég las þetta.

Ég fann í fljótu bragði enga frétt í íslensku blöðum um andlátið árið sem hann lést. Ég veit ekki hvort hann þótti ekki nógu merkilegur á þessum tíma eða fréttirnar hafi bara ekki borist hingað. Rúmu hálfu ári eftir andlát hans var skrifað um hann í Vísi eins og hann væri enn lifandi.

Ég hlakka samt til að lesa bókina.

Get ekki lesið teiknimyndablöð

Neil Gaiman og ég.Fyrir tveimur árum endurlas ég Sandman eftir Neil Gaiman. Ég las bókstaflega allt sem ég komst yfir og gerði útvarpsþátt. En á sama tíma var að fara af stað aukasaga af Sandman sem kallaðist Sandman Overture. Ég ákvað strax að byrja að safna þessum blöðum því það er eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég hef bara lesið svona sögur í stærri söfnum eða bókum.

Hér er annars þátturinn.

Draumur Neil Gaiman
Ég vona að ég hljómi ekki of mikið eins og Marshall McLuhan en ég er alltaf heillaður af því hvernig miðill getur breytt listformi. Takmarkanirnar sem miðillinn setur er ekki bara til ills heldur oft til góðs. Listamenn starfa inni í ákveðnum kassa – þó þeir séu ekki alltaf naktir. Ég hef áður fjallað um hvernig geisladiskar og hljómplötur setja ákveðin mörk en stafræn útgáfa brýtur þau af sér en samt er tónlist ennþá mörkuð af takmörkunum fyrri forma.

Teiknimyndasögur í hinni bandarísku hefð hafa lengst af verið mótuð af „blaðinu“. Það var nær einnota. Það kom út reglulega. Það var ódýrt. Það var stutt. En bæði með því skrifa lengri sögur, sem við getum kallað grafískar skáldsögur, og með því að safna saman sögum í heild þá breyttist formið. Það fylgdi þessu meira að segja virðing. Ég fjallaði um þetta í þætti mínum um Sandman.

Það þurfti ekki nema tvö blöð til þess að ég gæfist upp á að lesa Sandman Overture. Það voru ekki gæði sögunnar sem ollu því heldur að ég höndla bara ekki að hafa þetta svona stutt. Ég bara held ekki athyglinni. Ég er rétt að komast af stað þegar blaðið er búið.

Það má ekki gleyma að framhaldssögur voru eitt aðal bókmenntaformið á nítjándu öld. Dickens skrifaði svona. Stephen King reyndi síðan að endurvekja formið.

Fyrir stuttu fór ég í Nexus og keypti heildarsafnið af Sandman Overture. Þar er blöðunum safnað saman í eina heild, eins og búið var að gera með eldri sögurnar þegar ég las þær. Það var ekki erfitt að lesa þetta. Ég keyrði þetta í gegn. Sagan er væntanlega ekki sú besta sem Gaiman hefur skrifað en hún er alveg ótrúlega falleg. Ég efast auðvitað um eigið mat því hvernig á ég að geta borið saman eitthvað sem ég las fyrst fyrir rúmum áratug og endurlesið reglulega síðan við þessa glænýju sögu?
Það sem ég velti fyrir mér er hvort að það gæti verið að Gaiman sjálfur sé breyttur. Þegar hann skrifaði Sandman var hann að skrifa fyrir um það bil mánaðarlega útgáfu og var ekki að hugsa um að þessu yrði safnað saman. Núna er hann örugglega meðvitaður um að þetta verður lesið oftar sem heild. Er hann að skrifa fyrir þá sem keyptu stöku blöðin eða er hann að hugsa um of um heildina? Hefði ég frekar haldið athyglinni yfir eldri blöðunum ef ég hefði lesið þau svona stök?

Gulur, rauður, grænn og blár – höfundaréttur

Það eru fleiri munaðarlaus verk á íslensku en mann myndi gruna. Mörg þeirra eru barnalög. Hér er eitt sem ég man eftir úr æsku minni.

Gulur, rauður, grænn og blár,
svartur, hvítur, fjólublár.

Ég ákvað að leita að dæmum á Tímaritavefnum. Það kom mér á óvart að ekkert dæmi var um vísuna fyrren árið 1999. En ég uppgötvaði eldri vísu, eða gátu, sem hefur kannski lagt grunninn að fyrstu línunni.

Hver er sá veggur víður og hár
veglegum settur röndum:
gulur, rauður, grænn og blár
gjörður af meistarans höndum

Þessi litaupptalning er því frekar gömul og þá um leið munaðarlaus. Gátan fellur væntanlega ekki undir höfundarétt þar sem það eru meira en 70 ár síðan þetta birtist fyrst án höfundaauðkennis.

Þegar Gunnsteinn byrjaði á leikskóla lærði ég líka þennan seinnipart á litavísuna.

Brúnn, bleikur, banani.

Appelsína talandi.

Ég hef alltaf talið líklegast að þetta sé seinni tíma viðbót en hver veit nema að þetta sé upprunalega útgáfan sem hafi síðan orðið styttri þegar hún fór á flakk.

En hér er þessi vísa sem er augljóslega höfundaverk og fellur undir höfundalög. Hún er reglulega flutt á opinberum vettvangi. Hún er birt víða á vefnum. Verkið er jafnvel notuð í gróðaskyni. En höfundurinn fær engin laun. Er þetta ekki þjófnaður? Er það rétt að nota verk einhvers án endurgjalds bara af því að það eru tæknileg vandkvæði á því að greiða fyrir? Hefur fólk einhvern rétt til að nota verkið?
Auðvitað er þetta ekki þjófnaður. Sú hugmynd að við getum neglt listsköpun, hvort sem hún er einföld eða flókin, niður í að alltaf þurfi að greiða fyrir öll not er fráleit. Ég held að það hljóti að vera til einhver réttur almennings til að nota og njóta listar. Ég held að þessi hugmynd hafi fallið undir það sem í höfundalögum er kallað „einkanot“ en sá réttur er aðþrengdur hin seinni ár.

Afmælislagið og höfundaréttur

„Happy Birthday“ er ekki í höfundarétti í Bandaríkjunum. Í mörg ár hefur fyrirtæki nokkuð rukkað fyrir notkun á laginu án þess að eiga í raun réttinn. Dómur hefur verið kveðinn upp. Þetta er frábært. Reyndar hafa margir brandarar orðið til þegar fólk hefur komið sér undan því að nota lagið í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Uppáhaldsdæmið mitt er þessi klippa úr Community (hún er birt með vísun í 14 gr. höfundalaga en Facebook bannar mér að setja þetta inn þar af því að þeir taka hvorki tillit til „Fair use“ eða íslenskra höfundalaga). Horfið. Hún er fyndin. Það sem er best er að innri lógík sögunnar skýrir algjörlega hvers vegna lagið er ekki sungið.

Ef við trúum opinberu sögunni um hver skrifaði texta lagsins þá er textinn ennþá í höfundarétti til ársins 2017 á Íslandi og öðrum löndum sem fylgja líf+70 reglunni. Meintur höfundur textans, Patty Hill, lést 1946 og því er rétturinn enn í gildi. Ástæðan fyrir því að rétturinn er ekki í gildi í Bandaríkjunum er að formsatriðum um skráningu höfundaréttar var ekki fylgt
En dæmið er ennþá skemmtilegra. Væntanlega er íslenska þýðingin af textanum líka enn í höfundarétti. Þýðingin er samt munaðarlaus því enginn virðist hafa eignað sér hana. Líklega er þetta frægasta munaðarlausa verk á íslensku sem er enn í vernd. Til þess að þýðingin væri komin úr höfundarétti þyrfti þýðandinn að hafa látist í síðasta lagi árið 1944. Elsta vísunin sem ég hef fundið í textann er frá sjöunda áratugnum. Það er því mjög ólíklegt að þýðandinn hafi verið látinn svona löngu fyrr.

En áfram er þetta flókið. Þýðandinn hefur væntanlega ekki fengið leyfi fyrir þýðingunni á sínum tíma. Þýðingin hefur því væntanlega verið óheimil. Nema reyndar að það hafi gerst áður en Ísland gekkst undir Bernarsáttmálann. Ég veit samt ekki til þess að ólögmæti þýðingar ógildi höfundarétt þýðandans.

Ef við tölum mál höfundarétthafa þá þýðir það að í hvert skipti sem maður syngur íslenska textann þá er maður að stela af rétthöfum og þýðandanum! Það að það séu einhverjir tæknilegir erfiðleikar við að borga þeim gerir það bara alls ekki í lagi að stela svona. Skilst mér.

Auðvitað er hægt að segja að flutningur textans sé sjaldnast í gróðaskyni (nema auðvitað barnsins sem vill fá gjafir og gestanna sem vilja kökur) eða að þetta sé einkanotkun en síðustu ár hefur einmitt verið harkalega ráðist að réttinn sem fólk hefur til að gera hluti án ágóða og þrengd skilgreiningin á einkanotkun.

Aftur að klippunni úr Community. Ég er að nota hana til að sýna hve sniðugir þessir þættir eru í samhengi umfjöllunarefnis míns. Þetta er innan við hálf mínúta af rúmlega 20 mínútna þætti. Það er enginn að tapa á þessu. Samt stoppaði Facebook mig í að hlaða þessu upp. Það er fullkomlega galið.

Það þarf án efa að laga til höfundalögin og svokallaðir rétthafar mega ekki bara ráða öllu bara af því að þeir eiga peninga og geta ráðið lögfræðinga.

Höfundaréttarráð: „Wine and dine“ og annar lobbýismi.

Annar fundur minn sem fulltrúi í höfundaréttarráði var áhugaverður. Þar er ég fulltrúi Upplýsingar – félags bókasafns- og upplýsingafræða en þessir punktar eru meira persónulegt álit mitt frekar en félagsins.

Í fyrsta lagi var farið yfir þau frumvörp sem ekki komust í gegnum þingið núna. Pírötum var kennt harkalega um að þau komust ekki í gegn. Reyndar var því mótmælt aðeins, t.a.m. af Óttari Proppé sem sagði að það væri ekki hægt að fría hina 60 þingmennina ábyrgð. Almennt var talað um þessi frumvörp á þann hátt að þau væru til að bæta aðgang almennings að efni. Ég var nú ekki alveg sammála því.

Það frumvarp sem kom næst mér, og ég las í gegn á sínum tíma, varðaði munaðarlaus verk. Satt best að segja þótti mér frumvarpið máttlaust og sá ekki að það hefði breytt sérstaklega miklu á Íslandi.

Cliff Richards frumvarpið varðaði lengingu höfundaréttar tónlistarflytjenda úr 50 árum í 70 ár. Það frumvarp var reyndar margmisskilið. Í raun skiptir það ekki miklu máli en ef maður er ekki á því að meiri höfundaréttur sé betri þá sér maður ekki tilganginn með því.

Þriðja frumvarpið var um samningskvaðir. Ég er í sjálfu sér nokkuð hlynntur því. Það gæti gert nokkuð góða hluti. Hins vegar verð ég að játa að ég skil það ekki algjörlega og þyrfti að kafa miklu dýpra í það til að skilja.

Næst var rætt um frumvarp sem ekki var lagt fram. Það varðaði breytingar á hinum svokallaði STEF-skatti (sem er auðvitað ekki skattur, þetta er uppnefni). Þar sá maður helst mun á sér og flestum öðrum á fundinum. Þó gjaldið hafi verið umdeilt á sínum tíma þá litu fulltrúar þeirra samtaka sem græddu á því á það sem réttmætar tekjur. Þar sem þessi tekjustofn þeirra hefði dregist gríðarlega saman síðustu ár þá ætti ríkið að útfæra gjöldin upp á nýtt til að tekjurnar yrðu aftur jafn miklar og áður.

Ég held að í salnum hafi ekki verið neinn skilningur á því hve gríðarlega neikvæð áhrif hinn svokallaði STEF-skattur hafði á ímynd höfundarétthafa á Íslandi. Sú ósanngirni sem felst í því að fólk hafi þurft að borga höfundarétthöfum gjald fyrir að kaupa tölvu eða skrifa gögn á geisladisk. Þetta setti stórt skotmark á íslenskt höfundaefni. Ef það á að bæta við gjöldum á fleiri tæki og tól þá er ólíklegt annað en að ímynd höfundarétthafa skaðist enn meira.

Sjálfur nefndi ég atriði sem mér fannst líka mikilvægt á þeim tíma. Það er að það er engin leið til að útdeila þessum peningum raunverulega til þeirra listamanna sem verða fyrir því að verkum þeirra er deilt á netinu. Siðferðislegur grunnur gjalds á borð við þetta ætti að vera sá að fólkið sem verður mögulega fyrir tekjuskerðingu sem fær peningana. Sérstaklega er það vafasamt ef einhverjir milliliðir eru að hirða eitthvað af þessum peningum.

En það sem fór verst í mig á fundinum var tal sumra á fundinum, t.d. fulltrúa STEFs og BÍL, um lobbíisma. Sérstaklega athugasemd fulltrúa STEFs um „Wine and Dine“ aðferðina til að hafa áhrif á þingmenn. Meðal þess sem var rætt um Pírata var að þeir skildu ekki ekki kerfið. Ég held að það sé misskilningur. Píratar skilja kerfið ágætlega en eru ósáttir við það. Lukkulega voru aðrir þarna sem töluðu um samræður við Pírata. Síðan var fulltrúi Stafræns frelsis aðeins að reyna að koma þeirra sjónarmiðum á framfæri. Þá var gaman að einn var fulltrúi höfundarétthafa þó hann skilgreindi sig sem Pírata. Það sýnir að þessi mál eru flóknari en þau eru máluð.

Samsetningin á pallborðinu var frekar einsleit. Nær allir á þeirri skoðun að meiri höfundaréttur væri betri. Fulltrúi RÚV var reyndar aðeins að tala um aðgengi almennings. En það var enginn fulltrúi almennings þarna. En þarna var fulltrúi Símans. Ég sá ekki neinn hnjóta á sama hátt og mig um það þegar hann talaði um að Síminn væri beggja vegna borðsins í málunum. Þeir seldu netþjónustu og seldu aðgengi að efni. Sjálfum finnst mér það vafasamt. Stórfyrirtækin ættu að hafa sem minnst að segja um þessi mál.

Við sem komum frá Upplýsingu vorum nokkuð sammála um að rödd aðgengis, rödd almennings, heyrðist ákaflega lítið á fundinum. Á tíma var talað um að fundurinn sendi frá sér ályktun en ég tel ólíklegt að við í Upplýsingu myndum skrifa undir slíka ályktun. Ef höfundaréttarráð á að vera alvöru vettvangur til umræðu þá þarf að opna hann fyrir fleiri röddum. Síðan væri auðvitað gott að fleiri sem eiga aðild að ráðinu myndu yfirhöfuð mæta.

Go Set a Watchman (smá spillar)

gosetÉg ætlaði satt best að segja ekki að lesa Go Set a Watchman en einhvern veginn stóðst ég ekki mátið. Ég las To Kill a Mockingbird í framhaldsskóla og var mjög hrifinn, eins og margir. Samkvæmt flestum er þessi bók fyrsta uppkastið að Mockingbird. Það er þó engin lýsing. Watchman gerist þegar Scout er orðin fullorðin og er í raun allt önnur saga þó nokkrar af sömu persónunum komi fyrir.

Það má segja að Mockingbird sé betri en þessi bjóði upp á flóknari, og raunverulegri, sýn á heiminn. Það má deila um hvort persónurnar í þessum bókum séu raunverulega þær sömu. En ég skil þetta þannig að Mockingbird sé sýn barnsins Scout á föður sinn en í Watchman sé Scout að sjá föður sinn sem raunverulega manneskju svipta hetjuljómanum. Þegar hún var ung sýndi hann henni sínar bestu hliðar en þegar hún snýr aftur heim þá er hún breytt og getur séð galla hans.

Eftir að hafa lesið Watchman þá get ég ekki skilið andúðina sem margir virðast hafa á henni. Einhverjir hafa sagt að hún hefði verið betur geymd í einhverju handritasafni í háskóla þar sem fræðimenn gætu skoðað hana. Ég hef varla heyrt betra dæmi um fílabeinsturnsdýrkun en það. Auðvitað eiga almennir lesendur jafnt og fræðimenn að eiga færi á að lesa bókina.

Ég veit ekki hvort nokkrum gæti þótt áhugavert að lesa Watchman án þess að hafa lesið Mockingbird fyrst. Það væri örugglega áhugavert próf. En það er án efa gott að lesa þessa bók til viðbótar við Mockingbird. Hún leggur áherslu á atriði sem sýna okkur að rasismi er flóknari en svo að það sé eitthvað ómenntað hvítt hyski sem aðhyllist slíkt. Það er til fólk, sem er að mörgu öðru leyti ákaflega gott, sem hefur mjög rasískar skoðanir. Reyndar hafa menningarfréttaritarar ekki spillt einu dæminu en það er kannski það mikilvægasta í sögunni.

Bókin kemur líka út á mögnuðum tíma í bandarískri sögu. Það er mikil undiralda gegn ofbeldi og kúgun á svörtu fólki í Bandaríkjunum. Stríðsfána Suðurríkjanna er loksins að víkja. En við höfum heyrt sömu afsakanir og heyrast í Watchman undanfarið. Þrælastríð snerist ekkert um þrælahald heldur „réttindi ríkja“ – þó Suðurríkjamenn hafi á sínum tíma einmitt sagt að þetta snerist um þrælahald.

En já, lesið bókina. Ég sogaðist inn ólíkt mörgum gagnrýnendum sem ég hef heyrt um.

Terry Pratchett allur – Hvað skal lesa?

Kápan af Mort eins og ég fékk hana. Sumir segja að þessar kápumyndir hafi hrakið lesendur frá.
Kápan af Mort eins og ég fékk hana. Sumir segja að þessar kápumyndir hafi hrakið lesendur frá.

Terry Pratchett og Douglas Adams fengu mig á sínum tíma til að fara að lesa aftur skáldsögur eftir nokkurt hlé.

Fyrir örfáum dögum var ég að ræða á Facebook um hvaða bækur eftir Terry Pratchett maður ætti að lesa. Nú er hann dáinn og mig langar að deila þessum hugsunum með ykkur. Ég læt fylgja með tengla á Amazon – beint á rafbókaútgáfuna fyrir utan eina sem vill ekki tengjast þannig.

Það versta sem maður gerir, ef maður ætlar að lesa Discworld, er að byrja á fyrstu bókinni (og því klúðraðist íslenska útgáfan). Í raun eru Discworld bækurnar með ýmis tímabil og undirseríur. Það er líka þannig að Pratchett er eiginlega ekki kominn með röddina almennilega í fyrstu bókunum.

Þess vegna skal byrja á Mort. Hún fjallar um Dauðann og dauðann og Mort.

Fyrir nornir, og Shakespeare, er best að byrja á Wyrd Sisters.


En ef þið viljið minna galdra og meiri löggu- og bófahúmor þá ættuð þið að kíkja á Guards! Guards! og auðvitað Men at Arms sem er næsta bók í þeirri undirseríu.

Mögulega er Small Gods uppáhalds Discworld bókin mín. Hún fjallar um skjaldbökur og trúarbrögð.

Af seinni bókunum verð ég að segja að The Truth sé í uppáhaldi hjá mér.

Af barnabókunum í Discworld er The Amazing Maurice and His Educated Rodents uppáhalds.

Af hinum barnabókunum eru Truckers, Diggers og Wings uppáhalds.

Pratchett kynnti mig fyrir Neil Gaiman og ef þið viljið fara þá leið þá er Good Omens góð og uppfull af Queen-tilvísunum.

Ég veit ekki hvort Nation teljist barnabók en allavega er hún ein allra besta sem Pratchett hefur skrifað.

Síðan er Dodger best fyrir Dickens aðdáendur.

Ilíonskviða er frjáls

coverÍ dreifðum prófarkalestri Rafbókavefsins er búið að ljúka yfirlestri á Ilíonskviðu og rafbókin er tilbúin. Maður er stoltur og montinn. Allir sjálfboðaliðarnir eiga þakkir mínar og sömuleiðis fjölskylda Halldórs Péturssonar sem leyfði mér að nýta teikningar sem voru í prentútgáfunni.

Ég ætla að kalla þetta stærsta bókmenntaviðburð ársins (allavega sem komið er). Einn allra merkasti texti sem komið hefur út á íslensku er núna frjáls og öllum aðgengilegur.

Neverwhere – Aldrei verið þar…

Ég byrjaði í gær að endurlesa Neverwhere eftir Neil Gaiman. Ég held að þetta hafi verið fyrsta skáldsagan sem ég las eftir hann (minnir að Siggi hafi hafi lánað mér hana). Ég hef ekki lesið hana síðan.

Ég fékk voðalega skrýtna tilfinningu þegar ég byrjaði að lesa. Sagan byrjaði að rifjast upp fyrir mér en ég áttaði mig á að ég er ekki samur og ég var síðast. Ástæðan er kannski hálf-yfirborðskennd.

Bókin hefst í Skotlandi en gerist aðallega í London. Þegar ég las hana síðast hafði ég varla farið til útlanda og alls ekki til Bretlandseyja. Síðan þá hef komið til London nokkrum sinnum, ferðast um Skotland og búið á Írlandi (sem, fyrir mér, tilheyrir sama menningarheimi þrátt fyrir að öll löndin hafi sína sérstöðu). Þannig að í stað þess að textinn veki upp hjá mér myndir úr sjónvarpi, kvikmyndum og bókum þá hugsa ég um staði sem ég hef heimsótt. Súla Nelsons er fullkomlega raunveruleg fyrir mér því ég hef setið á stallinum og horft á mannlífið á Trafalgartorgi.

Þegar ég skrifa þetta finn ég vanmátt minn að tjá mig um þessar skrýtnu tilfinningar sem þetta vakti með mér…

Russell Brand – Slaktivistabylting hirðfíflsins

Ég held ég sé búinn að fylgjast með Russell Brand lengur en flestir Íslendingar. Ég hef lesið tvær ævisögur hans og þótti önnur þeirra stórskemmtileg. Ég fór á uppistandið hans í fyrra og skemmti mér vel. Mér þykir Brand líka oft skemmtilegur þegar hann er með uppsteyt, t.d. þegar hann skaut á Hugo Boss.

En Russell Brand er ekki pólitískur hugsuður. Hann er hirðfífl. Hann getur stundum afhjúpað valdamenn og er ekki laus við innsæi. Hann skrifaði t.d. ákaflega vel um óeirðirnar í Bretlandi fyrir nokkrum árum enda þekkir hann vel þær aðstæður sem sköpuðu þær.

Bókin Revolution er ekki laus við góðar hugmyndir – hún er bara laus við góðar nýjar hugmyndir. Og hún er uppfull af slæmum hugmyndum. Góðu hugmyndirnar koma aðallega frá hugsuðum eins og Chomsky og Brand viðurkennir það yfirleitt. Vondu hugmyndirnar koma flestar úr nýaldarspekinni sem Brand aðhyllist svo mjög.

Bókin virðist illa rannsökuð. Til dæmis heldur Brand því fram að Júpíter hafi fjögur tungl sem er alveg afskaplega rangt. Síðan eru líka nokkrar vafasamar tilvitnanir í Einstein og ég hef einmitt þá stefnu að álíta allar slíkar tilvitnanir falsaðar ef ekki fylgir vísun í heimildir. Þegar Brand talar um spænska borgarastríðið þá virðist hann ekki skilja neitt um það, ekki bakgrunn þess eða eftirmál.

Það sem ég hef lesið um bókina til þessa hefur verið á þá leið að Brand komi ekki með neinar hugmyndir um að koma „byltingunni“ af stað. Það er reyndar rangt. Hann er með eina hugmynd um að koma byltingunni af stað og það er að hugleiða.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég hef ekkert á móti hugleiðslu og hef alveg velt fyrir mér að prufa. Hins vegar veit ég vel að þó hugleiðslan myndi kannski koma sér vel fyrir mig þá hefur hún engin áhrif á neitt annað. Það er sama og um aðrar athafnir sem róa hugann, hvort sem það eru bænir eða að horfa á heimskulegar gamanmyndir. Það hefur ekki áhrif nema á og í gegnum mann sjálfan.

Brand vitnar oft í tilraun sem fylgjendur Maharishi Mahesh Yogi gerðu. Þeir hugleiddu tvisvar á dag saman í von um að lækka glæpatíðnina í Washington DC í Bandaríkjunum. Brand heldur að þessi tilraun hafi virkað þannig að glæpatíðnin hafi lækkað um 20%. Vandinn er að það gerðist ekki. Sér í lagi hefur verið bent á að morðtíðni í borginni hækkaði en sá sem gerði tilraunina svaraði þannig að „hrottalegum“ morðum hafi fækkað. Það að tala um gagnsemi hugleiðslu til að hafa áhrif á samfélagið er helsta tilraun Brand til að koma með aðferðir til að bylta samfélaginu. Brand má eiga það að hann hæðist að tilraunum þessa sama hóps, sem hann sjálfur tilheyrir, til jógaflugs. Vonandi er hægt að nota tölfræði til að sýna honum að hugleiðslutilraunin er af sama sauðahúsi.

Brand talar nokkrum sinnum illa um vísindin en á sama tíma er honum mikið í mun að reyna að nota skammtafræði til að réttlæta nýaldarspeki sína. Á þeim köflum gretti ég mig töluvert í framan og í heilanum. Mjög vafasöm túlkun.

Versta hugmyndin í bókinni er auðvitað að fólk ætti ekki að kjósa en hún er ekki ný. Það er barnaleg hugmynd sem dæmir fólk einfaldlega úr leik. Stjórnmálamenn eltast ekki við fólk sem kýs ekki. Auðvelt dæmi á Íslandi er auðvitað hvernig lág kosningaþátttaka ungs fólks varð til þess að Píratar fengu ekki það fylgi sem þeir hefðu getað fengið. Auðvitað eru aðstæður aðrar í Bretlandi en þar væri til dæmis miklu betri hugmynd að kjósa Græna flokkinn þar heldur en að sleppa því að kjósa. UKip fólkið kýs. Gamla fólkið kýs. Ef þú kýst ekki þá ertu ekki með og öllum er sama um þig. Flokkarnir reyna frekar að færa sig til þeirra sem munu kjósa (sem er auðvitað ein helst ástæðan fyrir því að í Bandaríkjunum eru tvær hægri flokkar sem öllu ráða). Það þarf auðvitað meiri pistil til að ræða mikilvægi þess að kjósa en ég vil samt segja að það er mikilvægt að reyna að velja skásta kostinn og sætta sig við að stundum líði manni svoltið eins og maður sé skítugur fyrir að taka þátt í þessu.

Það hefði líka verið sterkara hjá Brand að segja fólki að skila auðu eða gera ógilt heldur en að sitja heima. Enginn sér mun á þeim sem sitja heima af því að þeir eru latir og þeim sem sitja heima af því að þeir eru reiðir.

Auðvitað hefði verið gagnlegast ef Brand hefði hvatt fólk til að taka þátt í pólitísku starfi eða hópum sem eru berjast fyrir samfélagslegum breytingum. En það hefði ekki verið nógu einfalt til að ná til fólks sem vill helst láta réttlæta ákvörðun sína um að kjósa ekki.

Bókin er samhengislítil og frekar ófyndin, dáltið eins og seinni ævisaga hans. Brand fer oft á tíðum út um víða völl þannig að lesendur hljóta að hafa misst þráðinn þegar hann snýr aftur að því sem hann var að tala um. Verst er froðuspekin þar sem Brand talar í löngu og flóknu máli til að fela að hann hefur ekkert að segja.

Russell Brand segist hafa farið að ráðum grínistans Robert Webb og lesið smá Orwell en það hefur ekki gagnast mikið því Brand virðist ekki skilja neitt. Það er annars gagnlegt að bera Brand saman við annan breskan grínista, Frankie Boyle, sem talar mikið um stjórnmál. Sá er alltaf tilbúinn að benda lesendum sínum á að hann sé bara grínisti og að hann sé ekki skarpasti hugsuðurinn þó hann sé auðvitað miklu mun skarpari en Brand.

Bókin er líklega hápunktur „slaktivismans“ því hún hvetur fólk til að breyta samfélaginu með því að sitja heima á kjördag og sitja á rassinum að hugleiða. Kannski virkar Brand best sem hirðfífl vinstrimennskunnar sem minnir okkur á að lýðræði er fyrir þá sem taka þátt.