Meistari Freddie

Þetta fer í taugarnar á einhverjum, meistari Freddie, segjum það enn einu sinni, meistari Freddie. Ég fékk semsagt Live at Wembley á dvd í dag, 11 ár síðan ég fékk þetta á geisladisk. DVD-diskurinn tafðist svoltið en það borgaði sig samt alveg að kaupa hann hjá Sigga í 2001, munaði 1500 á verðinu þar og í Skífunni (reyndar var Skífan síðan með hann á tilboði sem var þó dýrara en í 2001).

Meistari Freddie af því hve brilljant hann er á sviði, meistari Freddie fyrir það hvernig hann getur tekið áhorfendur í efstu hæðir, seinna komið tárum í augun á þeim og komið þeim aftur til himna. Meistari Freddie fyrir 75.000 manns á Wembley klappandi höndunum saman þegar hann vildi. Það er enginn einsog Freddie. Þegar hann lítur á áhorfendurnar þegar hann hefur farið með línuna „You’ve brought me fame and fortune and everything that goes with it, I thank you all“, allir vita að hann meinar það og taka það til sín. Svo maður tali ekki þegar hann kemur með ræðu áður en hann syngur „Who wants to live Forever“. Enginn vissi hvaða dýpri merking var bak við þetta nema Freddie sjálfur.

Þó Freddie sé maðurinn sem stjórnar áhorfendunum þá má maður ekki gleyma hinum því allir eru þeir frábærir. Brian kemur með nærri tíu mínútna gítarsóló sem er aldrei leiðinlegt. Roger trommar og syngur Freddie til stuðnings. John hoppar á einum fæti og reynir að vera ekki fyrir. Það er ótrúlegt að sjá hljómsveitina vinna saman því maður veit að engir tónleikar voru eins, alltaf breytist eitthvað, Freddie fór að bæta við línum og hinir komu með ný innskot. Alltaf er þetta brill.

Í viðtali við Roger sem er á aukadisknum þá kemur hann með skemmtilegt skot. Hann var að tala um hve gaman þeir hefðu af þátttöku áhorfenda og gerði síðan grín að tónlistarmönnum sem þola ekki að það sé sungið með í einhverju „This is my art“ egótrippi.

Brian talaði síðan um það hvernig honum datt í hug að bæta In the lap of the Gods…Revisited aftur inn á prógramið eftir langan tíma, það lag er ótrúlega flott og stórkostlegt að sjá Freddie flytja það.

Þetta er allt saman óendaleg snilld…

Mánuði seinna spiluðu þeir síðan í Knebworth fyrir ótrúlegan mannfjölda, líklega er það met í Bretlandi en þeir hættu að telja selda miða við 120.000 því þeir höfðu ekki leyfi fyrir fleiri. Allavega olli þetta stærsta umferðhnúti sem orðið hafði í Bretlandi. Eftir það fór Queen ekki í fleiri tónleikaferðalög og 5 árum seinna var Freddie dáinn.

Geimferð VII: Niðjar

Star Trek VII: Generations byrjar á því að Kirk sogast inn í ákveðna búð í Reykjavík, 80 árum seinna sogast Picard (sem er þá skipherra á Enterprise) inn í sömu búð. Þeir hittast þar og saman stoppa þeir Alex úr A Clockwork Orange frá því að drepa milljónir manna (þetta þarf hann að gera til að komast inn í þess reykvísku búð).

Ekki var þessi mynd á háu stigi, söguþráðurinn afskaplega holóttur. Atriði þar sem eldflaug fer frá yfirborði reikistjörnu að sól á 11 sekúndum er stórskemmtilegt í því hvernig er gengið framhjá augljósum hindrunum sem raunveruleikinn myndi leggja í veginn.

Af skemmtilegri atriðum má nefna að Whoopi Goldberg leikur hér barþjónn sem segir Picard frá því þegar hún fór í títtnefnda reykvíska búð (hún hefur einmitt leikið í sjónvarpsþáttunum sem Picard var í).

William Shatner kemur fram í síðasta sinn og kveður seríuna með leik sem hlægir mann.

Kirk er enn og aftur í 80s búningi en Picard er í þessum frekar þrönga búningi (þó ekki Spandex). Reyndar kemur Picard fyrst fram í búningi sem hefði passað vel við Shatner.

Geimferð VI: Ófundna landið

Star Trek VI: The Undiscovered Country er síðasta myndin í flokknum sem hefur áhersluna á „gömlu kynslóðina“. Stjörnusambandið og Klingonarnir eru að reyna að semja frið, Kirk er vantrúaður. Einhver reynir að spilla friðinum og Kirk lærir dýrmæta lexíu, í lok myndarinnar klappa allir.

Myndin er frá 1991 og inniheldur ótal vísanir í fall Sovétríkjanna (Klingonarnir). Þetta er líka síðasta myndin sem Gene Roddenberry sá því hann dó innan tveggja sólahringa (og það var ekki af því honum þótti myndin svona vond). Myndin er mjög fín á Star Trek mælikvarða.

Fjöldinn allur af skemmtilegum leikurum kemur þarna fram, Kim Cattrall úr Beðmál í Borginni kemur þarna fram (og var víst mynduð fáklædd á sviðsmyndinni), Christopher Plummer leikur óþokka og Christian Slater kemur örstutt fram. Hlutverk Kim Cattrall náði meiraðsegja að réttlæta fyrir Eygló að horfa á smá bút úr myndinni, kannski að aðrir aðdáendur Beðmálanna vilji sjá þessa mynd því hvergi annars staðar geturðu séð Sam sem Vúlkana (nema hugsanlega í einhverju af þeim afbrigðulegu kynlífsatriðum sem koma fram í Beðmálunum).

Þetta minnir mig reyndar á skemmtilega sögu um Slater. Einsog þið munið kannski eftir hefur hann hálfskrýtnar augabrýr, ástæðan fyrir þeim er ást hans á Star Trek. Þegar hann var lítill lék hann Spock á Hrekkjavökunni bandarísku og rakaði augabrýrnar sínar til að líkjast hetjunni, þær hafa aldrei náð sér eftir það.

Búningarnir eru þessir klassísku lélegu 80s hljómsveitabúningar.

William Shatner á stjörnuleik í einu atriðinu með hjálp tæknibrellufólksins, rassinn á honum var minnkaður að hans ósk og því lítur hann einu sinni í myndinni út fyrir að vera eins böff og í Star Trek I. Í öðru atriðinu kemur Shatner tvöfalt fram og því leikur hann tvöfalt verr en vanalega.

School’s back in session

Var að hlusta á útvarpið í vikunni og þá kom hið klasslíska lag Alice Cooper School’s Out. Ég söng með af ánægju en áttaði mig síðan á því hvað þetta væri í raun kjánalegt, ég væri á leið aftur í skóla eftir innan við tvo mánuði og mig hlakkaði í raun afskaplega til. Ég ætti því líklega að syngja lagið einsog Skinner í Simpsons: School’s back in session
Þessi sunnudagur er mjög fínn, þar sem ég er á kvöldvakt á morgun þá er ekkert af hinum týpíska sunnudagsfíling „ég þarf að vakna í fyrramálið og fara í vinnu“. Indælt, kvöldvaktarvikurnar eru alltaf indælar.

Enn einu sinni Týr

Eric the Red er frábær diskur, fær án efa að vera álíka mikið í spilaranum í bílnum og How Far to Asgaard? hefur verið. The Edge stendur ennþá uppúr þó ég sjái fyrir mér að eitthvað annað lag muni slá því úr toppsætinu þegar ég hef hlustað aðeins meira á diskinn. Regin Smiður er til að mynda stórgóð útsetning á gömlu færeysku kvæði, fjallar um Sigurð Fáfnisbana eða Sjúrð einsog Færeyjingar kalla hann. Rainbow Warrior er síðan nokkuð gott, fjallar um hvalfriðunnarsinna og afskipti þeirra af Færeyjingum: „may your ship sink, Rainbow Warrior floats no more“. Dreams er eitt en lagið sem gæti toppað listann minn.

Þetta virðist eiginlega vera diskur einsog How far to Asgaard? sem maður getur einfaldlega hlustað á frá upphafi til enda. Kíkið á www.tyr.net til að taka inn lagið The Edge á mp3 formi.

Freddie bækur

Kláraði bókina sem ég var að lesa, Freddie Mercury: The Definitive Biography eftir Lesley-Ann Jones. Þriðja ævisaga Freddie sem ég hef lesið, líklega sú besta. Bókin hefur það fyrsta markmið að sjá hvernig Freddie fór frá litla feimna Freddie Bulsara sem var kallaður „Bucky“ í skóla yfir í það að vera Freddie Mercury stórstjarna og sjá í leiðinni hvað var á bak við stórstjörnuna.

Í fyrrihluta bókarinnar er sérstaklega áhugaverð viðtöl við ættingja og vini frá Zanzibar og skólafélaga frá Indlandi. Þegar hann var orðinn frægur þá hafði Freddie enga löngun til að heimsækja gamlar slóðir, vini og ættingja utan Englands, hunsaði þá eiginlega. Reyndar gerðist þetta kannski ekki þegar hann varð frægur heldur fyrr þegar hann flutti til Englands.

Í miðri bókinni er farið nokkuð yfir kynhneigð hans sem hefði getað verið gert á ósmekklegan hátt en virkar vegna þess að það er verið að kafa í hluti sem gefa innsýn í manninn. Undarlegast af öllu þessu er ávallt samband hans við Mary Austin sem hann bjó með á fyrrihluta áttunda áratugarins en varð síðan einn nánasti vinur Freddie þegar hann kom sagði henni að hann væri samkynhneigður.

Ástæðan fyrir því að Freddie kom aldrei almennilega útúr skápnum er að öllum líkindum sú að hann þorði ekki að segja foreldrum sínum það, þau eru strangtrúuð og hann vildi ekki styggja þau. Þeir sem þekkja til segja að allavega mömmu hans hafi verið alveg ljóst að hann væri hommi en aldrei gefið það í skyn við hann. Freddie kom ávallt með Mary heim til þeirra í heimsóknir (og kom oft fram með honum á almannafæri til að reyna að stöðva slúður).

Nú verður þetta enn undarlegra því Freddie var í sambandi við aðra konu (þýskri leikkonu sem heitir Barbara Valentin) á níunda áratugnum, var nærri því fluttur inn til hennar en hætti við á síðustu stundu. Eftir að Freddie hætti með Valentin þá flutti hann heim til Englands og síðustu árin þá bjó hann með Jim Hutton sem hann kallaði eiginmann sinn þegar fólk sem hann treysti var viðstatt.

Þrátt fyrir að búa með Jim Hutton og að hann væri trúr honum (ekkert annað kom svosem til greina á síðustu árunum) þá bjó Mary í næsta húsi og Barbara var fastur gestur þarna, kokkurinn hans Freddie var líka fyrrverandi elskhugi hans.

Næst þegar einhver spyr mig um kynhneigð Freddie (sem gerist reglulega) þá get ég vísað í þessa færslu. Í stuttu máli var hann miklu hrifnari af karlmönnum en ekki eingöngu.

Margt áhugavert er að finna í bókinni, þar á meðal fannst mér gaman að lesa hvað ungir söngvarar voru hrifnir af því hvað Freddie tók sér tíma í það að útskýra fyrir þeim hitt og þetta varðandi framkomu og söng. Hrifning Freddie á Jimi Hendrix og lýsingin á því hvernig Freddie ákvað bara að verða stórstjarna veita skemmtilega innsýn í manninn.

Nú á ég bara eftir að lesa bókina hans Jim Huttons um samband hans við Freddie. Sú bók varð til þess að Jim var hent útúr Queenklíkunni, að vísu er bókin oft talin í of miklum æsifréttastíl enda var skrásetjarinn úr þeim geira.

Geimferð V: Síðasta stráið

Star Trek V: The Final Frontier fjallar um bróður Spock sem er sjónvarpspredikari. Bróðir Spock tekur fanga á einhverri ömurlegri plánetu til að geta rænt geimskipi. Geimskipið þarf hann til að finna guð. Hugsanlega Guð með stóru Géi. Bróðirinn heilaþvær alla nema Kirk sem eru að sjálfsögðu of mikið brill til að falla fyrir svoleiðis. Í því atriði nær William Shatner að sýna enn og aftur að hann er leikari hræðilegur mjög.

Búningarnir er líkir þeim sem voru í fyrri myndum fyrir utan að aðalpersónurnar fá að vera brúnum peysum í byrjun, minna mig svoltið á svörtu peysuna mín en samt ekki jafn þykkar.

Týr rokkar og það feitt ef ég myndi nota það orð

Nota Færeyjingar ekki þetta orð samt þannig að ég mætti nota það. Jamm einsog minnst hefur verið á fékk ég disk og bol í dag. Eiríkur Rauði rokkar, alveg eðalrokk með löngum og flottum lögum, það stysta er 4:12 en það lengsta er nærri átta mínútur.

Vantar aðeins upp á að geta dæmt lögin hvert fyrir sig en þau fá mann allavega til að iða einsog almennilegt rokk gerir. Brotthvarf gamla söngvarans hefur ekkert skaðað þá.

Lögin sem ég kannaðist við (Ramund hin Unge, Ólavur Riddararós og Stýrisvølurin) voru öll eitthvað breytt frá fyrri útgáfum, tvö þeirra er án efa flottari eftir breytinguna en Ramund á ég eftir að dæma endalega (aða vísu hef ég bara tónleikaútgáfuna til viðmiðunar og það hlítur að vera munur þar á).

Þetta er án efa hljómsveit sem á erindi á toppinn á alheimsmælikvarða. Að hugsa sér að ég hnussaði bara fyrst þegar Eygló sagði mér frá þessari frábæru færeysku hljómsveit. Ég bjóst ekki við neinu af henni. Svona er maður stundum fordómafullur auli.

Cat Stevens

Hjálpi mér hvað þetta Flaming Lips lag er stolið. Ég hafði heyrt þetta lag áður en ég heyrði af málaferlunum og ég hélt að þetta væri eitthvað remix af Father and Son, það að þeir teldu þetta vera heiðarlegar lagasmíðar kom mér aldrei til hugar. En hvað um það.

Ég skrapp aðeins á All Music Guide til að lesa um Cat Stevens. Þar komst ég að því að hann hefur haft fjölmörg nöfn um ævina, ekki bara þau tvö sem ég vissi um. Hann fæddist Steven Demetre Georgiou, tók síðan upp nafnið Steve Adams áður en Cat Stevens varð til, nú heitir hann hins vegar Yusuf Islam og hefur eitthvað gefið út undir því nafni.

Barnaplatan A Is for Allah kom út árið 2001, lítið hefur heyrst af þeim frábæru lögum sem var þar að finna. Líklegt til vinsælda eru til að mynda titillagið A: Allah, B: Bismillah (sem er hugsanlega lengd útgáfa af kafla úr Bohemian Rhapsody), Q: Qur’an og náttúrulega hið seyðandi M: Muhammad Rasul-Allah.

Cat er fínn.