Eygló og lesefnið

Eygló er að lesa ævisögu Bryndísar Schram, ég bíð eftir að heyra djúsí sögur um hvað gerðist bak við tjöldin í Stundinni Okkar…

Ekki það að ég muni eftir Bryndísi í Stundinni Okkur, ég hef ekki einu sinni hugmynd um hvenær það var. Bryndís er 65 ára (segir Eygló) sem þýðir að hún fæddist fimm árum á eftir ömmu Eyglóar. Bryndís er að vísu heilum 26 árum yngri en amma mín sem á afmæli í dag (er semsagt 91 árs).

Ég sleppti því að hringja í ömmu í dag enda held ég að hún fái nóg af símtölum í dag og vegna þess að mér finnst hún ekkert heyra í mér þarna á sjúkrahúsinu.

Amma er afmælisbarn dagsins og það færir þessa færslu heillangt frá því sem hún átti að fjalla um.

Ólavur Riddararós

Í dag kom nýja útgáfan af Ólavi Riddararós með Tý á Rás 2 og ég verð að segja að þetta er líklega flottasta útgáfan af laginu sem ég hef heyrt. Ég hef heyrt þrjá söngvara taka það. Pól Arni Holm tók það á Broadway og Smáralindinni (það rokkaði), Allan Streymoy tók það á samnefndri smáskífu (það var ekki nærri jafn gott) og nú síðast er það Heri Joensen sem syngur.

Ég hlakka til að fá Eric the Red, hann er vonandi á leið til mín í pósti.

Geimferð IV:Heim í heiðardalinn

Spock leikstýrir Star Trek IV:The Voyage Home. Þessi er mynd er að mestu leyti gamanmynd og oft mjög fyndin. Risastór hlutur kemur í átt að Jörðinni og gerir flesta tækni óstarfhæfa. Hluturinn er kominn til að spyrja hvalina hvers vegna þeir hafi ekki hringt, hvalirnir hafa ekki hringt af því þeir eru dauðir. Eina leiðin til að bjarga Jörðina er að ferðast aftur í tíman (með oftreyndri aðferð) og ná í hvali.

Áhöfnin velur að fara til Jarðarinnar á seinnihluta 20. aldar (1986 líklega) í stað þess að fara á eitthvað annað tímabil þar sem auðveldara hefði verið að felast og þar sem hvalategundin sem leitað er að er algengari (en þeir vita viti sínu, það hefði verið miklu dýrari mynd, betra að fara bara á götur San Francisco). Gamanið er mest að sjá áhöfnina bregðast við árinu 1986 (oft reyndar bjánalegir brandarar).

Inn í málið blandast hvalavísindamaður og norskir (eða íslenskir) hvalveiðimenn sem eru að veiða við Alaska (jamm, Alaska). Sem minnir mig á að hugsanlega eru fréttamyndir af því þegar er verið að sundurlima hval frá Íslandi. Myndin er frá þeim tíma þegar það var svalt að hugsa um umhverfismál (ólíkt nútímanum þar sem virðist vera svalt að vera sama um þau) en þarna koma þó fram undarlegar hugmyndir um hvali sem hefði alveg mátt sleppa.

Í lok myndarinnar standa allir upp og klappa en það fellur í skuggan af því hve hræðilegur leikari William Shatner er.

Búningarnir eru svipaðir og í síðustu mynd en búningur Spock stendur uppúr.

Geimferð III:Spock er týndur

Star Trek III:The Search fjallar um leit áhafnar Enterprise að Spock, þau hefðu átt að líta bak við myndavélina því hann leikstýrir myndinni. Myndin er ein af fáum oddatölu Star Trek myndum sem eru góðar, frekar skemmtileg í gegn með frábærum dramtatískum atriðum þar sem William Shatner fær að sýna hve slæmur leikari hann í raun er.

Christopher Lloyd leikur klingona í þessari mynd sem sækist eftir tækninni sem kom fram í síðustu mynd. Kirstie Alley var orðinn of merkileg til að leika í Star Trek þannig að einhver önnur leikur hana.

Búningarnir í þessari eru mjög svipaðir þeim sem voru í The Wrath of Khan enda gerist myndin nær strax á eftir þeirri mynd.

Hárið

Í morgun var ég eldsnemma í vinnunni að taka vakt fyrir félaga minn, afskaplega hress. Ég var að hlusta á Létt FM sem var jafn hresst og ég. Í útvarpinu kom síðan lag úr Hárinu, íslensku útgáfunni frá því fyrir hátt í tíu árum síðan semsagt. Í fyrra fór ég á Hárið hjá LMA (Leikfélag Menntaskólans á Akureyri (sem ég var einu sinni í)), þar lék Hildur vinkona Eyglóar (frænka Evu og Heiðu sem eru sífellt títtnefndari) aðalhlutverkið. Ég var ekkert sérstaklega hrifinn af uppfærslunni í heild sinni en ég verð að segja að Hildur stóð sig afskaplega vel og það var það sem rifjaðist upp fyrir mér. Mig langaði eiginlega meira að heyra Hildi syngja þetta lag heldur en þessa sem söng það í útvarpinu.

Ég tek fram að ég er ekkert sérstaklega mikið fyrir að hrósa fólki að óþörfu og það að minnast á svona hlut ári seinna segir mikið um hve hátt álit ég hef á frammistöðu hennar.

Geimferð II:Khan Verður Fúll

Star Trek II:The Wrath of Khan er í raun framhald af gömlum Star Trek þætti sem ég hef ekki séð. Í stuttu máli er titilpersónan Khan fúll út í Kirk vegna atburða í gömlum þætti. Byrjað er að finna afsakanir til að draga persónurnar inn í atburðarásina þó margir þeirra séu löngu farnir af Enterprise. Kirstie Alley leikur Vúlkana í þessari mynd. Inn í málið fléttist tilraunatækni sem hefur kraft til að eyða heilli stjörnu og konan sem stendur á bak við þær rannsóknir.

Búningarnir í þessari mynd eru svoltið einsog þeir hafi verið hannaðir fyrir hallærislega 80s hljómsveit.

William Shatner er afar vondur leikari.

Geimferð:Hreyfimyndin

Ég hef ákveðið að horfa á allar Star Trek myndirnar. Fyrst í röðinni er fyrsta myndin, hún heitir Star Trek:The Motion Picture. Hún gerist um 10 árum eftir að fyrstu þáttaröðinni lauk, Kirk er orðinn háttsettur innan StarFleet og Spock er að reyna að hreinsa burt allar tilfinningar sínar.

Fyrsti hluti myndarinnar fer í að koma þeim og öðrum persónum inn í atburðarásina. Þetta gerir þann sem var að taka við stjórn Enterprise ekki glaðan en það er leikarinn Stephen Collins sem ég man eftir úr þáttaröðinni Tales of the Gold Monkey. Efast um að nokkur muni eftir þeirri þáttaröð nema ég, það var svalur Japani þarna sem aðalóvinur í þjónustu einhverrar prinsessu, þetta kemur Star Trek ekkert við.

Stórt ský er á leið til Jarðar og það virðist vera fúlt, Enterprise fer af stað til að stoppa það. Eyðilegg söguþráðinn ekki frekar.

Myndin eyðir óhemjutíma í að sýna okkur þessar frábæru tæknibrellur. Það virkaði kannski 1979 en rúmlega 20 árum seinna er búið að gera þetta allt þúsund sinnum betur þannig að það mætti gera stytta útgáfu af myndinni án þeirra.

Búningarnir í þessari mynd eru þröngir og virðast vera gerðir til að sýna að Shatner er svoltið buff á þessum tíma. Sem minnir mig á að William Shatner er arfaslæmur leikari. Reyndar eru fáir leikarar í þessari mynd sem eru góðir.

Foo Fighters

Það er ljóst að maður verður að fara á Foo Fighters í ágúst.

Snögg yfirferð leiðir þó í ljós að ég virðist eiga að vera á kvöldvakt þá vikuna. Á morgun mun ég byrja leit mína að einhverjum vinnufélaga sem hefur ekki áhuga á FF og vill skipta á vakt. Kaupi miða hvort sem ég verð búinn að redda þessu eða ekki. Klukkan hvað ætli tónleikarnir byrji? Ef tónleikarnir byrja seint þá er alltaf séns á að komast úr vinnunni á tónleikana, maður er alltaf svo hress eftir vakt í kælinum að það ætti ekki að vera mál.

Vegna fyrri reynslu munu miðar verða keyptir í stúku ef hægt er, það að hafa kærustu sem er innan við 160 cm á hæð með sér í þrönginni er ekki gott.

Harpo has spoken

Í gær kláraði ég bókina Harpo Speaks! sem fjallar um Marxbróðurinn sem aldrei talaði í karakter. Bókin er mjög áhugaverð, reyndar ekki jafn mikið um bræður hans og ég hefði kannski viljað en á móti kemur að hún er uppfull af sögum um samskipti Harpo við margar frægustu rithöfunda, leikara og tónlistarmenn þriðja, fjórða og fimmta áratugar síðustu aldar. Sögur af leikjum Harpo og vina hans á áhyggjulausum þriðja áratugnum þegar þú þurftir bara að kaupa hlutabréf til að eignast meiri peninga eru magnaðar.

Fyrrihluti bókarinnar fjallar um þegar Marxbræðurnir (saman og einir) þvældust um Bandaríkin í óvissu um hvort nokkuð væri að hafa úr þessu. Fimmtán ár í þvælingi áður en þeir komust á toppinn. Ef manni finnst skemmtikraftar nú til dags vera að fórna einhverju til að komast áfram þá kemur allt slíkt út sem barnaleikur miðað við ferðalag Harpo og bræðra hans.

Eftir að hafa lesið bæði bækur eftir Harpo og Groucho bróður hans þá er fyndið að sjá hvernig þeir benda á hvorn annan þegar nefna á gáfumennið í fjölskyldunni. Harpo bendir á að Groucho hafi sífellt verið að lesa frá því þeir voru börn, hafi aldrei hætt því. Groucho bendir á að Harpo hafi verið hluti af hinu fræga Algonquin hringborði og hafi umgengist alla helstu menningarvita síns tíma. Harpo sagði að hlutverk sitt við hringborðið hafi verið að hlusta og því hafi hann aldrei tekið mikið þátt í umræðunni. Reyndar finnst mér það ekki endilega vera merki um greindarskort að hlusta frekar en að tala.

En prufið þessa bók ef þið hafið áhuga á Marxbræðrunum, þessum tíma eða þessu fólki.