Hárið

Í morgun var ég eldsnemma í vinnunni að taka vakt fyrir félaga minn, afskaplega hress. Ég var að hlusta á Létt FM sem var jafn hresst og ég. Í útvarpinu kom síðan lag úr Hárinu, íslensku útgáfunni frá því fyrir hátt í tíu árum síðan semsagt. Í fyrra fór ég á Hárið hjá LMA (Leikfélag Menntaskólans á Akureyri (sem ég var einu sinni í)), þar lék Hildur vinkona Eyglóar (frænka Evu og Heiðu sem eru sífellt títtnefndari) aðalhlutverkið. Ég var ekkert sérstaklega hrifinn af uppfærslunni í heild sinni en ég verð að segja að Hildur stóð sig afskaplega vel og það var það sem rifjaðist upp fyrir mér. Mig langaði eiginlega meira að heyra Hildi syngja þetta lag heldur en þessa sem söng það í útvarpinu.

Ég tek fram að ég er ekkert sérstaklega mikið fyrir að hrósa fólki að óþörfu og það að minnast á svona hlut ári seinna segir mikið um hve hátt álit ég hef á frammistöðu hennar.

Foo Fighters

Það er ljóst að maður verður að fara á Foo Fighters í ágúst.

Snögg yfirferð leiðir þó í ljós að ég virðist eiga að vera á kvöldvakt þá vikuna. Á morgun mun ég byrja leit mína að einhverjum vinnufélaga sem hefur ekki áhuga á FF og vill skipta á vakt. Kaupi miða hvort sem ég verð búinn að redda þessu eða ekki. Klukkan hvað ætli tónleikarnir byrji? Ef tónleikarnir byrja seint þá er alltaf séns á að komast úr vinnunni á tónleikana, maður er alltaf svo hress eftir vakt í kælinum að það ætti ekki að vera mál.

Vegna fyrri reynslu munu miðar verða keyptir í stúku ef hægt er, það að hafa kærustu sem er innan við 160 cm á hæð með sér í þrönginni er ekki gott.

Tilhlökkun

Um mánaðarmótin fæ ég Live at Wembley dvd.

Rétt eftir mánaðarmótin kemur út nýji diskurinn með Tý. Nýja lagið þeirra vinnur sífellt á. Heri er alveg úrvalsrokksöngvari. Þeir voru líka að láta textann að laginu á heimasíðu sína, hann er flottur.

Plötuumslagið nýja er sýrt, verð að sjá það betur til að vita hvort mér líkar það.

Vendipunkturinn

Ég hef stundum verið að spá í vendipunktum hjá Metallica og Queen.

Það sem ég sé endurtaka sig í sögu þessara hljómsveita er vendipunkturinn. Það er stóra platan, ákveðinn hápunktur sem hljómsveitin náði og síðan breytist ýmislegt.

Hjá Queen er platan A Night at the Opera (með Bohemian Rhapsody) en Svarta Albúmið (Nothing Else Matters) hjá Metallica. Báðar eiga þessar plötur það sameiginlegt að almenningur telur þær það besta sem hljómsveitirnar hafa látið frá sér.

Eldri aðdáendur eru hins vegar þannig að þeir telja eldri plötur betri, Sheer Heart Attack (plata 3) er yfirleitt hæst á vinsældarlista gömlu Queenaðdáendanna á meðan ég hef það á tilfinningunni að Master of Puppets sé hliðstæð meðal eldri Metallicaaðdáenda (gæti verið rangt hjá mér). Eldri aðdáendurnir eru ekki sérstaklega hrifnir af stóru plötunni, hún er of „commercial“ eða eitthvað álíka.

Til eru nýrri hópar aðdáenda sem kunna jafnvel best að meta plötur sem koma á eftir stóru plötunni, ég hef hitt fólk sem er stórhrifið af Load, Reload og Garage Inc og Queenaðdáendur sem eru á því að A kind of Magic, The Miracle og Innuendo séu bestar.

Með Queenaðdáendur þá hef ég séð að þeir sem eru hrifnir af öllum tímabilum (þó hugsanlega mismikið) þá er Queen II (plata númer 2) vinsælust, sem er skrýtið miðað við að hún er ekki hæst á lista eldri aðdáendanna. Ég veit ekki hvaða mat svipaðs hóps aðdáenda Metallica verði enda er slíkur hópur ekki til.

Mitt álit á þessu ferli er að þetta sé nauðsynlegur liður í þróun hljómsveitarinnar, þú getur ekki endalaust gert það sama, verður að breyta til og það á það til að ergja gamla aðdáendur sem telja sig svikna að einhverju leyti. Þetta er allt nauðsynlegt.

Þetta eru samt bara mínar pælingar, ekki mjög vísindalega unnar enda ekki mikill Metallicaaðdáandi (bara almennur borgari sem kann best við Svarta Albúmið). Deilið áliti ykkar.

Live at Wembley

Út er kominn (kominn út úti en ekki kominn inn í þetta land held ég) er Live at Wembley dvd diskur. Þetta voru ekki síðustu tónleikar Queen, einir 10 tónleikar sem þeir spiluðu á eftir þessa í Magic-túrnum. Þetta eru hins vegar síðustu tónleikarnir í borginni sem Queen var stofnuð í. Tveir tónleikar í röð, seldist upp á báða um leið, 150.000 miðar fóru einsog skot. Að vissu leyti má segja að það sé erfitt að velja milli þessara tónleika og tónleikanna í Búdapest sama ár. Ég á Búdapest á video þannig að ég er sáttur við valið.

Þessi dvd diskur er líka fyrsta tækifærið sem maður hefur til að sjá óklippta Queentónleika, yfir tveir tímar að lengd. Aukaefnið er líka áhugavert og vel þess virði, heimildarmynd, viðtöl og hápunktar hinna tónleikanna á Wembley.

Merkilegt hvað þetta lítur vel út enda hafa þeir sem sjá um þessi mál fyrir Queen staðið sig einsog algerir hálfvitar í dvd útgáfu (og flestu öðru reyndar). Minningartónleikarnir um Freddie slepptu öllum hljómsveitunum sem spiluðu einar (án þess að Queenmeðlimir spiluðu með), G’n’R var sleppt, Metallica líka og síðast en ekki síst var Extreme sleppt. Extreme eru einir um að keppa við George Michael um atriði kvöldsins, þeir voru alveg frábærir.

Greatest Video Hits diskurinn var svosem ágætur, ægilega aumt „easter egg“ á honum (örlítið öðruvísi útgáfa af Bo Rhap myndbandinu) og í raun færri myndbönd en voru til dæmis í Greatest Flix boxinu. GVH diskurinn var hins vegar með frábært aukaatriði þar sem Brian May sýnir hvernig lagskiptingin í Bo Rhap er samansett, ef maður efaðist um að Freddie væri snillingur áður en maður sá það þá hvarf allur vafi eftir á.

Ég veit hins vegar að þessir menn geta gert hlutina rétt og vel. Freddie „boxið“ er merki um það. Ég efast um að glæsilegr minjagripur um nokkurn tónlistarmann hafi komið út. Tíu geisladiskar með nær öllu efni sem hægt var að komast yfir, viðtölum, ólíkar útgáfur laga eftir því hvernig þau þróuðust, heil bók um Freddie með glæsilegum myndum og síðast en ekki síst tveir dvd diskar með myndböndum og heimildarmynd. Það var allra mörgu krónanna virði.

Ég bind vonir við betri tíð, ég veit að það er verið að vinna í Queen „boxum“ sem verða svipuð því sem kom út um Freddie, mikið efni er til óútgefið eða sjaldgæft (hef heyrt mikið af því og það er vel þess virði að gefa út).

The Edge

Ekki gítarleikari U2 heldur nýjasta lag Týs (sem hægt er að nálgast á www.tyr.net). Í stuttu máli má segja að það rokkar, ef ég væri maður til að segja að það rokkaði feitt þá myndi ég gera það en þar sem ég nota ekki orðið feitur í þessari merkingu mun ég ekki gera það. Textinn virðist vera mjög góður og heillandi saga á bak við hann. Best að gera líma hér inn óþýddri lýsingu af heimasíðu Týs:
„The Edge“ tells the tale of Floksmennirnir or the Gangmen – four men who in medival times tried to conquer all eighteen Islands of the Faroes.

Sjúrður við Gellingará was forced to be part of this quest. When Floksmennirnir failed their quest and were captured, all except Sjúrður had been sentenced to death by the Thing. They were to be thrown of the cliffs Valaknúkar.

Because of guilt, Sjúrður chose to follow Floksmennirnir, over The Edge“
Heri er mjög fínn söngvari, betri en Allan var (ég heyrði bara tvö lög með honum) en ekki eins góður og Pól (hann er líka alveg eðal) þó ég muni líklega endurskoða það mat mitt þegar ég heyri meira af nýju plötunni. Það er allavega alveg ljóst að brotthvarf Pól verður ekki til þess að hljómsveitin deyr einsog ég hef heyrt suma spá.

Ég hlakka mjög til að heyra restina af plötunni Eric the Red.