Queenplötur dæmdar – 1. A Day at the Races (1976)

A Day at the RacesA Day at the Races (1976). Besta plata Queen. Ég byrjaði þessa yfirferð eftir Facebook rökræður um hver væri besta plata Queen. Ég tók allar plöturnar til skoðunnar og reyndi að nálgast þær upp á nýtt. Það sem hefur einkennt þetta ferli er að ég hlusta aftur og aftur á A Day at the Races.

Öll lögin eru frábær. Það er ekkert sem ég sleppi þegar ég er að hlusta á hana.

Platan kom í kjölfarið á A Night at the Opera og fékk líka nafn eftir mynd Marx bræðranna. Hún var almennt álitin síðri en sú fyrri, jafnvel léleg eftirlíking. En hún hefur staðist tímans tönn.

Tie Your Mother Down er bara stórfyndið og stórgott rokklag. Stór spurning hvort intróið ætti ekki að teljast sér lag.

You Take My Breath Away var lengi eitt uppáhaldslagið mitt og er enn ofarlega á listanum. Það byrjar á Freddie að syngja aðeins með sjálfum sér en verður síðan frekar einfalt (á Queen mælikvarðan) í framsetningu. Textinn er annað hvort rómantískur eða eltihrellislegur. Það fjallar allavega um ástarsorg.

Long Away kunni ég fyrst ekki að meta. En það breyttist.

The Millionaire Waltz er, allavega að mestu, bókstaflega vals. En líka rokk, þrumandi rokk. Það er ágætt að leyfa sér að elta bassann í laginu svo maður gleymi ekki að John er snillingur. Bara æði. Snilld.

You and I slær botninn í þessa hlið plötunnar. Hálftýpískur John texti en með frábærum dökkum millikafla sem færir lagið upp á snilldarplanið. Frábært.

Somebody to Love er gospel og rokk. Það er alveg hægt að gleyma því hve mikil snilld það er en þá er bara að hlusta og heyra hvernig lag og texti smella yndislega saman. Það er miklu meira í gangi en sést á yfirborðinu. Og gítarsólóið hans Brian er bara frábært.

White Man er áfkaflega gott og ákaflega þungt lag (eftir rólegan inngang). Textinn fjallar um frumbyggja Ameríku. Svoltið á “göfugi villimaðurinn” línunni en ekkert óhóflega. Alltaf í uppáhaldi. Hávaði og hvísl. Roger í sérstaklega góðu formi.

On the Bible you swore // Fought your battle with lies
Good Old-Fashioned Lover Boy er létta og fyndna lagið á plötunni. Og það er mjög fyndið og það er mjög gott. Á maður að kalla þetta “revíulög”? Eitthvað í þá áttina.

Drowse er Roger í rólega gírnum í fyrsta skipti og það tekst frábærlega. Ég segi oft að þetta sé eftirlætis Queenlagið mitt og það er líklega satt. Textinn er sá besti sem Roger hefur samið þrátt fyrir, og kannski vegna þess, að hann endar í ringluðum hugsunum sem leggja áherslu á þema lagsins sem er að vera hálfsofandi og ringlaður. Það kallast svolítið á við These are the Days of Our Lives.

It’s the fantastic drowse of the afternoon Sundays that bored you to rages of tears
Teo Torriatte (Let Us Cling Together). “We’ll sing to you in japanese”. Alltaf í uppáhaldi. Rólegt en dramatískt í lokin. Síðan útspil sem rímar við innspilið.

Let us never lose the lessons we have learned.

Queenplötur dæmdar – 2. Queen II (1974)

Queen IIQueen II frá 1974 nær öðru sætinu og fær ekki mínusstig fyrir ófrumlegt nafn. Allavega vinnur platan það upp með því að hafa hliðarnar þemaskiptar í svart og hvítt. Svart vinnur. Þó ég sé auðvitað í raun búinn að gefa út hvaða plata lenti í efsta sæti þá byrjum við á að tala um þessa sem var lengst af efst hjá mér.

Procession er forspil plötunnar. Það er víst jarðarfararmars. En já, vel gert.

Father to Son er gott lag en ekki í miklu uppáhaldi. Enn og aftur er Brian í fjölskyldupælingunum.

White Queen (As It Began) er besta lagið á hvítu hliðinni. Textinn fjallar um ást úr fjarlægð sem verður auðvitað til þess að konan, hvíta drottningin er tignuð. Ég held að titilinn á laginu hafi skapað undarlega sögu sem ég hef bara heyrt á Íslandi um að Queen hafi upphaflega heitið White Queen. Hreint yndislegt lag.

Some Day One Day finnst mér alltaf vera framhald af White Queen. Fyrsta lagið sem Brian syngur alveg. Síðan er hann aðallega að spila gítar með sjálfum sér þarna. Flott lag en fellur í skuggann af White Queen.

The Loser in the End er almennt álitið veikasti hlekkurinn á plötunni. Eina framlag Roger í lagasmíðum á plötunni. Ætli það sé ekki að lokum viðhorfið til textans sem veldur því hvort maður fílar það eða ekki? Lagið sjálft er bara flott.

Ogre Battle byrjar svörtu hliðina af krafti. Líkt og þota sé að koma til lendingar. Eitt þyngsta lag Queen með fantasíutexta.

Fairy Feller’s Master Stroke er ekki hægt að gera skil í nokkrum orðum. Sembalspilið í byrjun er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Annars er textinn lýsing á samnefndu málverki eftir Richard Dadd. Snilld og snilld. Alveg snilld. Og það byrjar alveg stórkostlegan kafla á plötunni. Það leiðir inn í…
Nevermore sem er yndislega fallegt og æðislegt. Enn og aftur fantasíutexti. Og leiðir inn í kannski mestu snilldina…
The March of the Black Queen er forrennari BoRhap. Gríðarlega flókið og margskipt lag. Textinn er áfram í fantasíunni og betri sem samansafn af flottum línum heldur en heild. Snilld og aftur snilld. En tengist síðan í…

Funny How Love is sem er ótrúlega jarðbundið ástarlag, ást er að koma heim á réttum tíma. Mér finnst það stórflott en það passar eiginlega ekki við það sem á undan er komið en myndar hins vegar brú yfir í …
Seven Seas of Rhye er ekki besta lagið á plötunni en samt kom það út á smáskífu og er langþekktast. Ágætt en ekki alveg af sama standard og það sem myndaði hápunkta plötunnar.

Queenplötur dæmdar – 3. Sheer Heart Attack (1974)

Sheer Heart AttackSheer Heart Attack er önnur platan sem hljómsveitin gaf út árið 1974. Hún er þriðja platan og nær þriðja sætinu.

Brighton Rock byrjar á tívolíhljóðum. Viðeigandi. Það tók mig mörg ár að byrja að fíla þetta lag. Textinn er stuttur og fyndinn en meginpartur lagsins er Brian að leika sér á gítar.

Killer Queen, hvernig hljómsveit er það sem semur og flytur svona lag? Og þetta sló í gegn. Mjög gott.

Tenement Funster er Roger á hefðbundnum slóðum að fjalla um rokk og hraðskreiða bíla (textinn er góður þrátt fyrir hálf-hallærislegt umfjöllunarefni). En lagið er sjálft frekar óvenjulegt og er fyrsta lagið í þrennu og leiðir út í…

Flick of the Wrist er hálfgerð frumtýpa af Death on Two Legs. Kæmi mér ekki á óvart. Flott og síðan leiðir það inn í hið fallega lag…
The Lily of the Valley sem er aftur Freddie að yrkja um ævintýraland æsku sinnar Rhye. Það nær góðum dramatískum hápunkti og klárar þennan kafla á plötunni.

Now I’m Here er eiginlega sjálfsævisögulegt úr lífi hljómsveitarinnar eftir að hafa fylgt Mott the Hoople í hljómleikaferð til Bandaríkjanna. Down in the city just Hoople ‘n’ me. En eitt af þessum lögum sem ég veit ekki hvers vegna er ekki í uppáhaldi hjá mér.

In the Lap of the Gods opnar seinni hlið plötunnar. Freddie sagði það vera forrennara BoRhap en hjá mér fellur það alltaf í skuggann á síðasta laginu á þessari hlið plötunnar.

Stone Cold Crazy er mögulega “thrash metal” áður en það varð til. Gríðarlega hratt lag. Textinn með grín glæpasögu. Segir sitt að Metallica breyttu vatnsbyssu í sjálfvirka byssu í sinni útgáfu (upp á húmorinn sko). Frábært lag.

Dear Friends er einskonar vögguvísa og ég hef sungið það fyrir báða syni mína.

Misfire er skrýtið lítið popplag, fyrsta lag John Deacon á plötu.

Big Bad Leroy Brown er til heiðurs Jim Croce sem var nýlátinn og lagi hans Bad Bad Leroy Brown. Fyndið lag.

She Makes Me (Stormtrooper In Stilettos) var lagið sem ég skippaði oft þegar ég hlustaði á plötuna hér áður fyrr en það er frábært.

In The Lap Of The Gods… Revisited er svo auðvelt en ég get það ekki, svo áhættusamt en ég verð að hætta á það, fyndið en það er ekkert til að hlæja að. Æðislegt lag.

No beginning, there’s no ending // There’s no meaning in my pretending

Queenplötur dæmdar – 4. sæti A Night at the Opera (1975)

A Night at the OperaA Night at the Opera frá 1975 er frægasta plata Queen. Með henni slógu þeir í gegn. Hún er, fyrir þá sem hafa aldrei kynnt sér hljómsveitina, þeirra merkasta verk.

Death on Two Legs er tileinkað framkvæmdastjóra plötufyrirtækisins sem Queen var nýbúið að losa sig frá. Það er uppfullt af hatri. Manninum er gjörsamlega slátrað í textanum. Lagið sjálft er líka brilljant. Píanóintróið sérstaklega.

Lazing on a Sunday Afternoon er síðan létt lag með fáránlegum og fyndnum texta. Breytir stemmingunni töluvert.

I’m in Love With My Car er ástaróður Roger til bíla. Alltaf skemmtilegt. Roger lokaði sig víst inni í skáp því hann vildi svo innilega að það yrði B-hliðin á Bohemian Rhapsody.

You’re My Best Friend er svo augljóslega John. Létt og ljúft popplag. En ekki í sérstöku uppáhaldi hjá mér.

‘39 er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Það fjallar um geimferðir og það hvernig afstæðiskenningin segir til um að tíminn sé afstæður á slíkum ferðum. Fallegt, frábært. Síðan mun ég aldrei gleyma því 2005 í Brixton þegar Brian kom fram á sviðið og við fórum að kalla eftir laginu og hann spilaði það og ruglaðist í textanum af því að það var óæft. Líka frábært 2008 í Glasgow.

Your mother’s eyes from your eyes cry to me.

Sweet Lady er veiki hlekkurinn. Ekki merkilegur texti, ekki merkilegt lag.

Seaside Rendezvous er aftur í ætt við Lazing on a Sunday Afternoon, létt og fáránlegt. Eiginlega betra samt. Þeir leyfa sér allt, leika blásturshljóðfærin og feika steppdans með fingurbjörgum.

The Prophet’s Song er með bestu lögum Queen. Það er vel og vandlega proggað. Það er þungt og æðislegt. Textinn er fantasíukenndur og fjallar hálfvegis um Nóaflóðið (eða draum Brian um flóðið). Ég man innilega eftir að hafa setið á skrifborðinu mínu í Hrísalundi þannig að höfuðið mitt var á milli hátalarana á ferðatækinu sem ég fékk í fermingargjöf. Steríó sko. En eitt það flottasta sem Queen gerði var að leyfa þessu lagi að flæða út í ….

Love of My Life. Það kemur reyndar ekki vel út í nútímaspilurum sem taka sér hlé milli laga. Og í Brixton vorum við öll skíthrædd þegar það komu fram tveir kollar og Brian settist á annan þeirra. Ekki átti að leyfa Paul Rodgers að syngja þetta lag! En kollurinn fékk bara vera ónotaður meðan Brian söng og spilaði lagið einn. Ef þér finnst þetta ekki eitt besta lag sem samið hefur verið þá vantar í þig hjartað.

Good Company er í ætt við hin tvö léttu lögin á plötunni en er í raun með dökkum texta.

Bohemian Rhapsody. Þarf nokkuð að segja?
God Save the Queen. Ótrúlega vel valið til að loka plötunni. Þetta er sumsé ekki Sex Pistols útgáfan.

Queenplötur dæmdar – 5. News of the World (1977)

News of the WorldNews of the World frá 1977 nær fimmta sætinu. Gefin út þegar pönkið var farið að springa út.

We Will Rock You er bara lag sem þið þekkið. Uppáhaldsútgáfan mín er þó BBC upptaka þar sem er líka hraður kafli eins og sá sem var spilaður á tónleikum.

We Are The Champions er bara hið fullkomna popprokklag þrátt fyrir ofspilun. Vísindalega sannað!
Sheer Heart Attack átti víst að vera á samnefndri plötu en var klárað fyrir þessa og hljómar eins og það sé samið til að falla í pönkstemminguna (þó það sé ekki þannig). Ekki lag sem ég elskaði við fyrstu hlustun en er stórskemmtilegt.

All Dead, All Dead fjallar um köttinn hans Brian May. Enn og aftur sést að kattavinir ættu að hlusta á Queen. Einfalt og fallegt lag. Eitt af þeim lögum sem tryggja að platan kemst á topp fimm.

Spread Your Wings er með bestu lögum John Deacon. Það er líka í miklum metum hjá Queenaðdáendum almennt. Stórkostlegt í raun.

Fight from the Inside er næstum sólólag Roger Taylor. Textinn virkar alltaf á mig eins og hann sé ádeila á pönkið. Maður mætti hlusta oftar á þetta lag. Flott rokk.

Get Down, Make Love er kynferðislegt í hljómi og texta. Það eru engir hljóðgervlar hérna þó maður gæti haldið annað, bara Brian að leika sér. Það er næstum vandræðalegt að játa að mér finnst þetta lag skemmtilegt því það er næstum hallærislegt. En húmorinn sko. Annars gerði Nine Inch Nails merkilega skemmtilega útgáfu af laginu.

Sleeping on the Sidewalk er ekki hægt annað en að elska. Saga af tónlistarmanni sem fer af götunni, á toppinn og aftur á götuna. Fyrir utan sönginn var þetta tekið í einni töku. Hér er enginn Freddie. Frábær texti.

Who Needs You er alltaf í svoltlu uppáhaldi. Steríóið vel notað. Klassískur John texti.

It’s Late er eitt af þessu lögum sem er hátt skrifað hjá Queenaðdáendum þó aðrir kannist varla við það. Ein ástæða er mörgum finnst mikið til þess koma að Brian notar “tapping” (hvernig þýðir maður það?) aðferð áður en Eddie van Halen gerði það að sínu einkennismerki. Textinn er ástarsaga. Frábært lag.

My Melancholy Blues er eiginlega djass en ekki blús. Voðalega eru þeir mikið í að rugla mann. En þetta var gjörsamlega eftirlætislagið mitt á plötunni í mörg ár. Það er líka frábært. Píanóið í aðalhlutverki.

Ég var eiginlega búinn að gleyma hve frábær þessi plata er. Það er eiginlega enginn veikur punktur. Vandinn er að hin lögin falla í skugg We-tvíbbanna.

Queenplötur dæmdar – 6. Innuendo (1991)

InnuendoInnuendo frá 1991 lendir í sjötta sæti sem þýðir að þó ég hafi hneykslað einhverja með röðun minni á hinum tíu plötunum þá fara fimm af fyrstu sex plötunum í efstu fimm sætin. Það er ekki byltingarkennt.

En Innuendo var síðasta platan sem kom út meðan Freddie lifði. Hún minnir mjög á fyrri plötur, ekki það að lögin séu einhvern veginn eins heldur vegna þess að maður finnur sama hljóminn og stílinn.

Titillagið er án efa besta dæmið um þetta. Dramatískt, yfir toppinn og með frábærum texta Roger (sem er samfélagsgagnrýni að hans stíl sem er ekki hinn almenni stíll hljómsveitarinnar). Lagið Innuendo er snilld í gegn. Til að byrja með er eins og það sé verið að halda aftur af kraftinum sem er undir niðri, og þá kemur fyrra gítarsólóið er flamenkó (spilað af Steve Howe sem leit bara í heimsókn), síðan rólegur og draumkenndur millikafli og þegar maður heldur að lagið muni ekki ná kraftinum sem maður bjóst við kemur Brian með rafmagnsgítarsóló og dramað tekur aftur í textanum þegar Freddie veltir fyrir sér tilgangi lífsins.

I’m Going Slightly Mad er í uppáhaldi hjá mörgum. Það er líka svo fyndið, súrt og fáránlegt. Myndbandið er líka snilld. Þið vitið það sjálf.

Headlong er svona hefðbundið Queen rokklag. Flott.

I Can’t Live with You er svoltið skemmtilegt rokklag en ekki frábært.

Don’t Try So Hard er í uppáhaldi. Rólegt og svo kraftur. Rólegt og svo kraftur. Ó, þú fagra veröld.

Ride the Wild Wind er eftir Roger og er eitt af lögunum sem er skemmtilegast að hlusta á á fullum hraða á hjólinu.

All God’s People er auðvitað og augljóslega ættað úr Barcelona upptökunum, Mike Moran er meira að segja titlaður meðhöfundur. Á köflum er þetta líka bara eins og Freddie sé að prufa hvað hann getur gert með röddina. Blúskaflinn er í uppáhaldi.

These are the Days of Our Lives er kveðjulag en þó eftir Roger. Það kallast innilega á við Love of My Life. Þarna er hann eldri ennþá tilbúinn að segja að hann elski okkur (og leggur áherslu á það með því að segja það í myndbandinu og ganga síðan út úr rammanum). Nostalgía í mjög einföldum búningi. Bara yndislegt.

Síðan kemur lagið Delilah sem fjallar um samnefndan kött Freddie. Síðan mjálmar Freddie í laginu. Er tungan komin út úr kinninni? En fyndið er það. Væntanlega þarf maður að vera kattaaðdáandi.

The Hitman er þyngsta lag plötunnar. Fínt.

Bijou er aftur á móti yndislegt. Lag á röngunni þar sem gítarinn er söngurinn og söngurinn er sólóið. Innilega yndislegt.

The Show Must Go On er enn og aftur kveðjulag, núna eftir Brian en það er um Freddie, augljóslega. Textinn er frábært. Lagið er dramatískt og kraftmikið. Eitt af þeim bestu.

Queenplötur dæmdar – 7. Made in Heaven (1995)

Made in HeavenÍ sjöunda sæti kemur Made in Heaven frá 1995. Ég fékk allar hingar plöturnar beint í æð 1991-92 en þessi kom seinna þegar ég var orðinn rólegri í Queenaðdáun minni. Ég vissi ekki einu sinni að hún væri komin út fyrren bekkjarfélagi í MA sagði mér það (þarna var ég ekki orðinn aktívur netnotandi sumsé). Auðvitað fór ég beint í Hljómdeild KEA og fjárfesti í henni.

It’s a Beautiful Day er innilega lagið maður ætti alltaf að vakna við. Lagið var búið til úr bút sem Freddie hafði upphaflega tekið upp árið 1980. Þrátt fyrir það er lagið frábært. John á víst aðalheiðurinn á að klára lagið.

Made in Heaven er auðvitað sólólag frá Freddie af Mr. Bad Guy og er hér sett í fágaðri Queen útgáfu. Það er fyrirgefanlegt að taka lagið og endurskapa það af því að hljómurinn á Mr. Bad Guy var aldrei nógu góður. Auðvitað bætist við smá gítar frá Brian.

Let Me Live hefur vandræðasögu. Viðlagið þótti of líkt öðru lagi og það þurfti breyta því. Mögulega er til útgáfa með gestastjörnunum Jeff Beck og Rod Stewart (!) frá cirka 1984. En mér finnst það bara alltaf svoltið fallegt og skemmtilegt.

Mother Love er tilfinningalegur hápunktur plötunnar, maður þarf ekki að vita að þetta er (samkvæmt flestum) síðasta lagið sem Freddie tók upp til að skynja hvað liggur þarna að baki. Það er bókstaflega þannig að hann gat ekki klárað lagið og því klárar Brianlagið. Endirinn á lagi er líka frábærlega Queenlegur þar sem öllu er tjaldað til, Freddie að syngjast á við áhorfendur, bútur úr fyrsta laginu sem Freddie söng á plötu og síðan barnsgrátur.

“The last thing he ever sang was Mother Love. He was going for it harder and higher and more passionate than ever. He got to the penultimate verse and said, ‘I can’t do any more. I’ll come back and finish it another day when I feel good.’ But he never did.

My Life Has Been Saved var upprunalega B-hlið á Scandal en hefur hér verið uppfært. Það verður aldrei talið besta lagið á plötunni en rennur voðalega ljúflega í gegn.

I Was Born To Love You er annað Mr. Bad Guy lag og varla meira um það að segja en það sem áður var sagt um Made in Heaven. Svoltið skemmtilegt lag.

Heaven for Everyone er upprunalega af plötunni Shove It með The Cross – sumsé lag eftir Roger. Það er líka til útgáfa þar sem Roger syngur og hún er eiginlega í meira uppáhaldi hjá mér. Hún nær háðsk á köflum en útgáfa Freddie er einlægari. En gott er lagið. Mjög gott.

Too Much Love Will Kill You er upphaflega Queenlag þó það hafi fyrst komið út á sólóplötu Brian. Aftur er útgáfa Brian í meira uppáhaldi hjá mér. Það er líka tengt því að hann söng þetta á minningartónleikunum. Þetta eru líka lýsingar á tilfinningum Brian og því ekkert skrýtið að maður tengist því frekar. En útgáfa Freddie er frábær líka.

You Don’t Fool Me er búið til úr nær engu af upptökustjóranum Dave Richards (en með viðbótum frá eftirlifandi meðlimum). Það passar alveg ágætlega við klúbbatónlist 1995. Ágætt.

A Winter’s Tale er síðasti textinn sem Freddie samdi. Draumkennt lag um fegurðina sem var í kringum hann í Sviss á þessum síðustu dögum sem hann tók nokkuð upp. Líklega besta lagið á plötunni.

It’s a Beautiful Day (Reprise) er rokkaðri útgáfa af fyrsta laginu.

Í lok plötunnar eru ónefnd “lög”. Fyrst “yeah” sem er bara Freddie að syngja “yeah”. Síðan er lag 13 sem er 22 mínútna langt. Hér er Dave Richards aftur að leika sér og það má vel hlusta á þetta en ég veit ekki alveg hvort maður á að telja þetta með sem lag.

Queenplötur dæmar – 8. Queen (1973)

QueenÁ miðjum listanum, í áttunda sætinu, fær fyrsta platan Queen frá 1973 með Queen að dúsa.

Keep Yourself er fyrsta smáskífa Queen og fyrsta lagið á fyrstu plötunni. Það er ekki hægt að segja annað en að það gefi fögur fyrirheit (sem staðið var við). Kraftmikið rokklag.

Doing Alright er fyrsta, og lengst af, eina lagið sem var ekki eingöngu eftir Queenmeðlima. Þetta er líka eina lagið sem kemur frá tíma Roger og Brian í Smile. Það er sumsé eftir Brian og Tim Staffell. Það er líka til upptaka af þessu með Smile. En já, rólegheit og dynjandi rokk. Alveg Queenhljómurinn.

Ég ætti næstum að færa plötuna ofar á listann til heiðurs Great King Rat og afmælisdegi hans. En Great King Rat er frábært rokklag. Það skiptir oft um gír og væri besta lag Freddie á plötunni ef ekki væri fyrir….

My Fairy King er besta lag plötunnar. Þarna sýnir Freddie það sem hann gat gert. Lagið er kaflaskipt proggrokk. Það minnir eiginlega helst á Uriah Heep. En ég elska það gjörsamlega. Þarna tekur Freddie líka og býr til umgjörð utan um nafnaskipti sín.

Og Liar er já frábært líka. Maður getur bara stoppað skriftirnar og notið þess að hlusta, sérstaklega um rétt rúmlega fimm mínútna markið. Var Queen þungarokkshljómsveit sem spilaði líka popp?
The Night Comes Down er með texa sem ég náði að misheyra svoltið oft, það vantaði mjög innilega textana með disknum. En ég fattaði alltaf “Lucy was high, and so was I”. Mjög týpískur Brian texti að öðru leyti. Hljómar eins og maður sé í öðrum heima. Elsta upptakan sem lenti á stúdíóalbúmi því þarna var notast við upptökurnar sem Queen gerði þegar þeim var boðið a prufukeyra De Lane Lea upptökuverið.

Modern Time Rock ’n’ Roll er allt önnur skepna. Samið af Roger og er að mestu laust við dúlleríið sem Freddie og Brian voru í, bara blátt áfram rokklag. Texti er stórskemmtilegur:
Get you high heeled guitar boots and some groovy clothes
Get a hair piece on your chest
And a ring through your nose
Find a nice little man who says
He’s gonna make you a real big star
Stars in your eyes and ants in your pants
Think you should go far
Son and Daughter er svoltið blússkotið, næstum Sabbathlegt á köflum. Textinn er skrýtinn og, eins og í nokkrum öðrum lögum, hugsar maður hvort uppeldi Brian hafi verið eitthvað undarlegt.

Jesus fjallar um Jesús en er samið af Freddie sem var alinn upp í parsatrú. Reyndar gæti hann þegar þarna hafa orðið veikur í trúnni enda búinn að vera í enskum heimavistarskóla í mörg ár líklega með tilheyrandi trúarinnrætingu.

Seven Seas of Rhye er ekki fræga útgáfan. Hin lögin á plötunni voru frekar dæmi um það sem Queen hafði verið en þetta átti að gefa hugmynd um hvaða leiðir hljómsveitin væri að fara á næstunni. Það er sumsé ekkert sungið í þessari útgáfu.

Queenplötur dæmdar – 9. Jazz (1978)

JazzÍ níunda sæti er það Jazz. Frægt er að húmorslaus gagnrýnandi Rolling Stone dæmdi plötuna á þá leið að Queen væri fasísk hljómsveit. Húmorsleysi er auðvitað gulltryggð leið til að fatta ekki Queen. Það á líka innilega við um Jazz sem er svo frábærlega fyndin á köflum.

Mustapha byrjar plötuna af þvílíkum krafti með hálfgerðu bænakalli. Ég man ekki eftir öðru lagi þar sem Freddie sýnir rætur sínar jafn ljóst. Allavega er ljóst að þarna er hljómur sem hann kannaðist við frá æsku sinni á Zanzibar. Textinn er á arabísku, ensku og líklega þar að auki á tungumáli Parsa. Ég reynt að lesa mér til og hef svona samanlagt fengið þýðingu á því og hef ályktað að textinn hafi í raun enga beina merkingu. Líklega er hann frekar ætlaður til að skapa stemmingu heldur en nokkuð annað. En flott er lagið.

Fat Bottomed Girls er eftir Brian May, sem kemur á óvart því svona ósvífni í textagerð hefði maður eiginlega frekar tengt við Roger eða Freddie. En lagið er fyndið og skemmtilegt rokklag. Spinal Tap hæddist auðvitað að þessu lagi og fengu síðan að koma frá á minningartónleikunum hans Freddie sem sýnir kannski best húmorinn sem Queen hefur fyrir tónlist sinni.

Jealousy er lag um ástarsorg og afbrýðissemi. Í lagi er hálfgerðu sítartónn sem er auðvitað bara Brian að leika sér á gítar. Yndislegt.

Bicycle Race er æðislegt og æðislegt. En þegar ég er að hjóla kemur það aldrei á frábæru köflunum þar sem ég þýt niður brekkurnar heldur þegar ég er að fara upp þær og er ekki jafn hvetjandi og maður myndi ætla. Uppáhaldskaflinn minn er þegar reiðhjólabjöllurnar hljóma. Það er svo undarleg hugmynd að fá og framkvæma. Lagið kallast síðan á við FBG og FGB kallar á móti enda enduðu lögin saman á smáskífu.

If You Can’t Beat Them er enn og aftur hratt og skemmtilegt rokklag.

Let Me Entertain You er Queen að hæðast að sér. Rokk af matseðlinum. Ákall um að taka tónlistina ekki of alvarlega. En um leið er þetta stefnuyfirlýsing um að þeirra helsta hugðarefni sé að skemmta áhorfendunum. Þar sáu þeir sig sem uppreisn gegn þeim sem helst spiluðu án þess að líta í augun á þeim sem hlustuðu. En er til betri leið til að byrja tónleika en á þessu lag? Ég held bara ekki.

Dead on Time er áfram hratt rokk. Það er ákafi í þessu lagi.

In Only Seven Days skiptir um gír og er hálferkitýpískt og ljúft Deacon lag.

Það vottar fyrir djassi í The Dreamer’s Ball. Eini djassinn á Jazz. En það er líka draumkennt. Saga af ást sem ekki rætist nema í draumi.

Fun it er fyrsta diskó/fönk tilraun Queen og er merkilegt nokk eftir Roger Taylor. Skemmtilegt en mögulega slakasta lagið á plötunni. Roger á bæði einstaklega góða og einstaklega slaka texta. Þessi er ekki sérstaklega góður.

Leaving Home Ain’t Easy er aftur gírskipti. Kannski er platan eins og Tour de France þar sem þarf að skipta reglulega upp og niður til að klífa upp og niður hæðir. Ljúft lag sem er í uppáhaldi. Sungið af Brian.

Og ef þú þarft að komast í stuð þá er Don’t Stop Me Now auðvitað málið. Ég hélt að það héti Mr. Fahrenheit og var eitt af Queenlögunum sem var þegar í uppáhaldi hjá mér áður en ég varð aðdáandi.

More of that Jazz er lag sem maður hlustar kannski ekki nóg á. Það er kannski af því að það notar klippur úr öðrum lögum plötunnar og er því frekar eins og einhver eftir-á hugsun. En þetta er einn af góðum textunum hans Roger og hann syngur sjálfur og sýnir hvað hann getur.

Only football gives us thrills
Rock ‘n roll just pays the bills
Only our team is the real team
Jazz átti að fara í tólfta sætið en ég þarf að endurskoða þau plön. Þetta er betri plata en mig minnti.

Queenplötur dæmdar – 10. The Works (1984)

The WorksÍ tíunda sæti er The Works frá 1984. Þar eru fyrstu Queenlögin sem ég man eftir. Það eru Radio Ga Ga og I Want to Break Free. Ég var rétt rúmlega fimm ára þegar platan kom út og á þeim tíma sá maður tónlistarmyndbönd í sjónvarpsþættinum Skonrokk. Auðvitað man maður eftir I Want to Break Free, sem mér þótti auðvitað stórfyndið, og óljóst eftir Radio Ga Ga.

Radio Ga Ga var lagið sem innsiglaði sérstöðu Queen sem hljómsveitar þar sem allir meðlimirnir höfðu samið metsölulag. Vegna þess hve kjánalegt viðlagið er þá er auðvelt að líta framhjá því að textinn hans Roger er mjög góður. Hann er nostalgía og gagnrýni í senn. Betra lag en flestir myndu telja.

Tear it up er skemmtilegt rokklag með skemmtilegum texta. Þetta er bein tilraun Brian May til að fá aftur í lið með sér aðdáendurnar sem þoldu ekki diskódaðrið.

It’s a Hard Life byrjar á vísun í óperuna Pagliacci. Textinn fjallar um ástarsorg og er bara frábær yndislegur, eins og lagið allt. Stórgott. Eitt af þeim allra bestu.

Man On The Prowl er Freddie að snúa aftur í rokkabillífílinginn sem virkaði svo vel í Crazy Little Thing Called Love. Textinn er hressilegur og fyndinn.

Well I keep dreaming about my baby // But it ain’t gonna get me nowhere // I wanna teach my baby dancin’ // But I ain’t no Fred Astaire.

Machines (Or ‘Back to Humans’) er mjög fyndið og betra en mig minnti. Það tilheyrir alveg flokki laga sem fjalla um ótta við tölvur og tækni. Mögulega má túlka þetta sem gagnrýni Roger og Brian á stefnubreytingu Queen þegar þeir sneru baki við hljóðgervlabanninu. Hápunktur lagsins er stórkostleg upptalning Freddie á tölvudjargoni.

I Want to Break Free er óvenjulegt fyrir að lagið á plötunni er í allt annarri útsetningu en á smáskífunni (eina annað svona lagið sem ég man eftir er Flash). Þessi útgáfa byrjar á kassagítarhljómi en smáskífan er með hljóðgervlaintró. Myndbandið er eiginlega frægara en lagið en það má ekki gleyma lagið er gott.

Keep Passing the Open Windows var samið fyrir myndina Hotel New Hampshire sem Jim Beach, umboðsmannsígildi Queen, framleiddi. Af einhverjum ástæðum endaði lagið ekki í myndinni (myndin er ekki beint léleg en rosalega sérstök). Textinn er byggður á frasa úr myndinni/bókinni og fjallar um baráttu við sjálfsmorðshugsanir, sumsé að ganga framhjá opnum gluggum í stað þess að fleygja sér út um þá. Lagið er alltaf í uppáhaldi hjá mér.

Hammer to Fall er klassískt rokklag og fjallar um það að alast upp í hræðslunni við kjarnorkustyrjöld eins og við gerðum flest.

Is This the World We Created…? er eftir Brian og Freddie og þeir taka lagið bara tveir, kassagítar og söngur. Einfalt með dapurlegum texta. Þeir tóku það á Live Aid árið eftir. Mjög gott.