Djúranið

Ég var ekki í miklu stuði í gær. Ég var þreyttur. Aumur í fótunum. Rétt áður en tónleikarnir byrjuðu þá langaði mig helst að fara heim að sofa. En síðan byrjaði þetta. Ég þekkti ekki fyrsta lagið en það hljómaði ágætlega.

En síðan kom Wild Boys og Hungry Like the Wolf. Ég fattaði allt í einu að ég var farinn að brosa út að eyrum. Þetta var frábært. Þegar lögin komu bara hvert af öðru þá áttaði maður sig á að þeir gætu  samt aldrei spilað öll lögin sem ég vildi heyra. Þeir eiga svo mörg.

Ég saknaði helst The Chauffeur (sem er óumdeilanlega þeirra besta lag) og Is There Something I should Know (sem var uppáhaldið mitt þegar ég var krakki). Mig langaði líka svoltið að heyra Electric Barbarella sem ég hugsa alltaf um sem eitt af þeirra nýrri lögum en er í raun 22 ára. Ef lagið væri barn væri það komið í háskólanám. Lagið er eldra en ég var þegar það kom út.

Hápunktur tónleikana var líklega Planet Earth þar sem þeir saumuðu inn Space Oddity þannig að það virkaði eins og það ætti bara heima þar. En auðvitað var Save A Prayer líka eins frábært og það getur verið. Síðan er Ordinary World alltaf fyrir okkur Eygló. Samkvæmt Spotify er það næstmest spilaða lagið þeirra.

Duran Duran er kannski hallærisleg hljómsveit að mati einhverra en hún er án efa dásamleg. Ég vorkenni fólki sem er of töff að geta fílað þetta. Ég sá ekkert eftir að hafa farið þó ég sé miðaldra og þreyttur.

Tónleikasaga mín

Í tilefni þess að ég fór á Rammstein í gær skráði ég hjá setlist.fm hvaða tónleika ég hefði farið á í gegnum tíðina. Týr er á toppnum með 12 tónleika en verst er að ég hef ekki séð þá í nærri átta ár. Ég þurfti að bæta við nokkrum tónleikum þeirra þarna (og um leið nokkrum tónleikastöðum á Íslandi).

Ég ákvað að telja fræga íslenska tónlistarmenn með þannig að Emilíana og Sigur Rós eru þarna. Það vantar reyndar þegar ég laumaðist inn á Emilíönu og Fjallkonuna 1995/6 í Sjallanum og eina tónleika með henni í Háskólabíó. En tónleikar Sigur Rósar árið 1999 á Vopnafirði voru þegar skráðir inn en ég var fyrstur til að skrá að ég hefði verið þar. Ég er ekki hissa enda voru bara svona tuttugu manns þar.

Eyðurnar í tónleikasókn eru greinilegar þarna uppúr 2009 og síðan aftur uppúr 2013. Þið getið giskað hvað veldur.

Maí 20, 2017: Rammstein, Korinn, Kópavogur
Nóv 11, 2016: Nik Kershaw, Harpa – Eldborg, Reykjavík
Okt 14, 2016: Placebo, Store Vega, Copenhagen, Danmörk
Ágú 6, 2016: Muse, Laugardalshöll, Reykjavík
Maí 19, 2016: Emilíana Torrini, Harpa – Eldborg, Reykjavík
Nóv 4, 2012: Sigur Rós Airwaves 2012
Okt 11, 2008: Queen + Paul Rodgers, S.E.C.C., Glasgow, Skotland
Okt 4, 2008: Týr, Nasa, Reykjavík
Okt 3, 2008: Týr, Græni Hatturinn, Akureyri
Okt 2, 2008: Týr, Paddy’s Irish Pub, Keflavík
Júl 9, 2008: Týr, Bryggen, Copenhagen, Danmörk
Maí 27, 2007: Uriah Heep, Laugardalshöll, Reykjavík
Maí 27, 2007: Deep Purple, Laugardalshöll, Reykjavík
Okt 4, 2006: Týr, The Rock, Copenhagen, Danmörk
Júl 30, 2006: Sigur Rós, Klambratún Park, Reykjavík
Júl 27, 2006: Emilíana Torrini, Nasa, Reykjavík
Júl 27, 2006: Belle and Sebastian, Nasa, Reykjavík
Nóv 27, 2005: Sigur Rós, Laugardalshöll, Reykjavík
Júl 23, 2005: Europe, G! Festival 2005
Júl 23, 2005: Týr, G! Festival, Norðragøta, Færeyjar
Júl 5, 2005: Foo Fighters, Reykjavík Rocks 2005
Jún 30, 2005: Duran Duran, Reykjavík Rocks 2005
Jún 7, 2005: Iron Maiden, Egilshollin, Reykjavík
Mar 28, 2005: Queen + Paul Rodgers, Carling Academy Brixton, London, England
Júl 7, 2004: Placebo, Laugardalshöll, Reykjavík
Jún 26, 2004: Týr, Grand Rokk, Reykjavík
Des 11, 2003: Týr, Nasa, Reykjavík
Nóv 23, 2003: Týr, Tjarnarbíó, Reykjavík
Nóv 22, 2003: Týr, Hvíta húsið, Selfoss
Nóv 21, 2003: Týr, Grand Rokk, Reykjavík
Ágú 26, 2003: Foo Fighters, Laugardalshöll, Reykjavík
Apr 6, 2002: Týr, Smáralind, Kópavogur
Jún 15, 2001: Rammstein, Laugardalshöll, Reykjavík
Ágú 14, 1999: Sigur Rós, Mikligarður, Vopnafjörður

Færeyska tónleikanafnið

Félagar mínir í hljómsveitinni Týr voru í kvöld að vinna verðlaun sem besta tónleikasveitin í Færeyjum. Við Eygló höfðum greinilega rétt fyrir okkur þegar við ákváðum að sjá þá fimm sinnum á sama árinu.

Annars finn ég lyktina af heiðarlega hógværðarleysinu hjá Heri í þessu kommenti:

Og sum onkur teirra tók til, so hava teir alla tíðina arbeitt fyri sínum gjøgnumbroti uttanlands, so tað var nú ikki so galið, at føroyingar nú eisini staðfestu, at okkum øllum dámar gomlu kvæðini í nýggju rokk-útsetingunum.

Tónleikarnir á Akureyri

Þegar við fórum á tónleikana á fimmtudag í Keflavík bað Steini, sem sá um að flytja inn hljómsveitina, okkur um að taka að okkur að taka með okkur farþega norður og aftur suður. Við mættum heim til Steina milli 1-2 eftir hádegi á föstudag. Þar sat Týr í heild sinni hálfsofandi í bílnum hans Steina. Við heilsuðum aðeins upp á þá þegar þeir vöknuðu. Á meðan við vorum að bíða eftir Steina skelltu þeir líka disk í bílaspilarann. Þar var um að ræða upptöku sem var gerð fyrir Rás 2 um morguninn. Þeir voru meira og minna að ergja sig á því hvernig til hafði tekist en slíkt er ekkert nýtt, þeir ergja sig alltaf á öllu sem fer úrskeiðis. Eygló heyrði reyndar bara að þeir voru að hlusta á sjálfa sig og var svolítið hissa þar til þetta var skýrt.

En Steini og Fríða komu að lokum og við fengum Heri yfir í bílinn til okkar. Við vissum ekki alveg hvaða tónlist skyldi spila fyrir hann í bílnum. Uriah Heep var í tækinu og það virkaði vel. Við spjölluðum heilmikið á leiðinni norður, trúmál voru þar ofarlega á baugi enda Heri harður skoðanabróðir okkar. Honum þótti mikið til koma að ég hefði hitt Richard Dawkins og við ræddum heilmikið um hann og alla hina. Við ræddum líka augljóslega um tónlist. Hápunkturinn á bíltúrnum var samt þegar Heri dró upp skrifaðan disk sem innihélt tvö demólög af væntanlegri plötu. Við skelltum honum í og ég tilkynnti honum að hann fengi diskinn aldrei aftur (en stóð reyndar ekki við það). Diskurinn var reyndar slakur og virkaði illa í spilaranum, stoppaði á einnar og hálfs mínútu fresti. Það var svolítið skrýtið að hlusta á þetta með Heri aftur í, væntanlega að reyna að lesa í öll svipbrigði okkar. En bæði lögin voru góð, þó hrá væru, og annað var alveg ákaflega flott.

Þegar við nálguðumst Akureyri þurftum við að fara heillanga hjáleið en við komum Heri af okkur á góðum tíma á Græna hattinn þar sem félagar hans voru nýkomnir. Við fórum til Hafdísar og Mumma þar sem við fengum mat. Þau höfðu þegar keypt sér miða á tónleikana og komu með okkur. Þegar komið var á Hattinn kom í ljós að það var uppselt og þar að auki hafði Steini gleymt að láta okkur Eygló á gestalista. Við þurftum því að hanga þarna heillengi bíðandi eftir að hópurinn kæmi úr kvöldmat. En þeir komu og við komumst inn að lokum. Það var allt troðið þarna þannig að við gerðum ráð fyrir að þurfa að standa í gegnum allar hljómsveitirnar. En Steini benti okkur á að það væri borð fremst merkt hljómveit og þar mættum við vera. Við Eygló, Hafdís og Mummi fórum þangað og hittum fyrir Sigga Hólm. Við tveir höfðum einmitt verið saman í útvarpsviðtali, sitt hvorum megin á landinu, tveimur dögum áður.

Það er greinilega ennþá fólk sem mér líkar við fyrir norðan. Við hittum Brynju vinkonu okkar sem við höfum ekki séð síðan við fluttum frá Akureyri. Einnig var þarna Árni Pétur skáfrændi sem er orðinn nógu gamall til að fara á skemmtistaði! Villi Stebba var líka á staðnum. Það hituðu fjórar hljómsveitir upp og þær voru allar öskrandi metall, ekki alveg minn stíll. Það var líka mikið af eldra fólki á staðnum sem flúði ítrekað aftast til að heyra sem minnst. Þegar Týr byrjaði sást að gæðalevelið varð allt annað og yndislegra. Eftir á sagði Hafdís að þetta hefði verið þess virði að þurfa að heyra fjórar lélegar hljómsveitir fyrst. Ég sat aðeins við borðið en stökk síðan í þvöguna. Undir lokin þurfti ég aðeins að sinna gæslustörfum þegar unglingarnir voru farnir að ryðja hljóðnemastatífi Heri um koll. Við fórum fljótt heim vegna þess að við þurftum að vakna snemma.

Við komum okkur á fætur og fórum að hitta liðið. Þar hittum við pabba Fríðu og spjölluðum aðeins við hann. Þegar við ákváðum hvert skyldi fara til að kaupa nesti fyrir ferðina notaði ég tækifærið og leiddi alla upp í Hrísalund/Kristjánsbakarí. Ég þurfti að kaupa anísstykki. Þegar þangað var komið var allt morandi í VG liði (btw. til hamingju Steinunn frænka!). Síðan lögðum við af stað. Ferðin var tíðindalítil. Við stoppuðum á leið upp á Öxnadalsheiði þar sem bíll hafði farið útaf. Enginn hafði slasast og þegar komið fólk til aðstoðar þannig að við stoppuðum ekki lengi. Í Varmahlíð var stoppað og Eygló keypti tíu piparsleikjóa. Á leiðinni sungum við meðal annars með lögunum Take on me og Sweet Child of Mine. Heri steinsofnaði á kafla og las einnig í Snorra Eddu. Við komum rétt um fjögur til Reykjavík og settum Heri inn á Nasa og biðum eftir að Steini og félagar kæmu líka. Síðan fórum við heim og hvíldum okkur. Þetta var skemmtileg ferð.

Týr í Hellinum

Síðustu tónleikarnir voru í Hellinum. Ekkert aldurstakmark sem þýddi að ég var helmingi eldri en margir þarna. Við hittum Örvar og frú þarna og síðan var fornleifafræðingurinn Manni á staðnum enda að spila með Hostile. Við rétt hittum Týssara fyrir tónleika og fengum áritun á Land bæklinginn. Það þýðir að allir diskarnir nema Ólavur eru með krot.

Tónleikarnir voru góðir. Gamli maðurinn (ég) hafði samt óþol fyrir mosspit stælunum í sumum. Ég tók reyndar af skarið og stoppaði þá alveg um stund en þeir fóru aftur af stað undir lokin og við fórum aftast. Við kvöddum síðan bandið og þökkuðum fyrir okkur og þeir fyrir sig. Þetta var fjör. Ég veit ekki hvort ég legg aftur í fjóra tónleika í röð þegar þeir koma næst en þetta var þess virði. Og það er rétt að taka fram að við vorum bæði samstíga í að eltast við þá núna.

Ég á enn eftir að skrifa um Akureyrarferðina sem var náttúrulega áhugaverðasti parturinn af þessu öllu. En núna fer maður aftur í eðlilegheitin í bili.

Týr á Nasa

Týr var á Nasa í gærkvöldi og við augljóslega á staðnum. Við tókum að okkur miðasölu fyrsta klukkutímann en vorum síðan laus.

Við hlustuðum voðalega lítið á fyrsta bandið sem var Perla. Virtist vera bara svipuð og aðrar af þessum ungu hljómsveitum sem hafa verið að hitta upp. Síðan kom Dark Harvest sem mér finnst mjög góð og sérstaklega reyndar þegar þeir eru eins og þeir voru í upphafi – án söngs (og ég er ekki að reyna að dissa söngvarann þeirra, ég bara vandist þeim svoleiðis og fíla þá þannig). Mammút var númer þrjú á svið. Við höfðum hlakkað til að sjá þau loksins og það voru engin vonbrigði. Við eigum örugglega eftir að kíkja meira á Mammút. Síðast upphitunarhljómsveitin var Severed Crotch – fremsta dauðarokkhljómsveit landsins skv. Vésteini sem var á staðnum. Hún höfðaði eiginlega ekki til mín. Við færðum okkur upp í afdrep hljómsveitanna á meðan þeir voru á sviðinu.

Þegar dauðametallinn var búinn komum við okkur fyrir hjá Sverri mág Heri (sem lóðsaði mig um Þórshöfn og keyrði út á Kirkjubæ á sínum tíma). Þegar Steini sá hvað við höfðum í raun slakt útsýni sendi hann okkur inn á svæði hljóðmannsins þar sem við fengum óheft útsýni yfir sviði. Þetta var því töluvert öðruvísi en hin kvöldin þar sem ég var í þvögunni. Það var góð tilbreyting fyrir þá að fá sviðið á Nasa. Þeir gátu hreyft sig um og þannig skemmt áheyrendum. Þegar ég horfði á þá svona þá hugsaði ég hvað þeir væru nú frábært samsetning. Terji, Heri og Gunnar mynda framlínuna. Heri stjórnandi öllu á miðjunni með allt á hreinu. Gunnar hægra megin skemmtandi sjálfum sér og öðrum og hvetjandi fólk til að vera með. Terji hinum megin sem hin últra svali gítarleikari sem er skítsama um allt. Að þessu leyti mæðir kannski minnst á Kára á bak við trommurnar enda sést hann ekki vel. En hann tekur samt reglulega þátt í showinu. En já, þó mér hafi þótt gaman að sjá allt þá held ég að njóti þess meira að vera í skaranum.

Tónleikarnir voru aðeins lengri en fyrri kvöld. Þeir bættu við Ragnarök og The Rune sem ég man ekki hvort ég hef heyrt þá spila áður. Það var allavega hápunktur kvöldsins hjá mér, þessi tvö lög. En augljóslega trylltust áheyrendur þegar Ormurin var spilaður. Ég skrifa annars betur um Akureyrartónleikana fljótlega.

What will keep us warm in the Winter?

Ride across the sky,
thunder roll and lightning fly,
gone is the summer.

What will keep us warm in the winter?
Tales of those who died,
sword in hand,
in times gone by.

Hail to the hammer.

Þeir eru bara svo djöfull góðir. Tónleikarnir í Keflavík byrjuðu ágætlega en mér fannst mixið var eitthvað off en það gæti líka bara hafa verið staðsetning mín miðað við hátalara. Þegar á leið small allt saman. Kári, trommarinn, var held ég að spila með þeim í fyrsta skipti í nokkurn tíma og var smá óöruggur en negldi þetta síðan. Hinir voru pottþéttir. Þegar þeir voru búnir að ná hápunktinum hugsaði með mér: Þetta er ástæðan fyrir því að mér Týr vera besta hljómsveit í heimi. Djöfull eru þeir góðir.

Staðurinn var líka troðinn. Allir með á nótunum. Ég var hræddur um að það væri orðinn minni áhugi á Tý en þetta var frábært lið. Engir leiðinlegir (sem er gott því Steini skipaði mig gæslumann).

Við vorum annars vel stödd þegar við lögðum af stað. Steina, mamma Eyglóar, hafði varað okkur við því að veðrið gæti orðið erfitt strax í upphafi viku og við skiptum því yfir á nagla eftir að við komum heim úr vinnu. Reykjanesbrautin var erfið en okkar fjallabíll tók fram úr öllu sumardekkjafólkinu. Venjulega er hins vegar tekið fram úr okkur. Gott kvöld.

Týr: Dagsetningar komnar

Eins og ég skúbbaði langt á undan öðrum er von á færeyskum rokkgoðum til landsins á næstunni. Týr kemur og spilar á þremur stöðum.

Blái Hatturinn Akureyri: 3. okt
Nasa: 4. okt
Hellirinn: 5. okt.

Við Eygló látum okkur ekki vanta og biðjum því systur og mág um gistingu þetta kvöld sem þeir spila á Akureyri. Þetta verður gaman. Ég veit að þeir tóku Orminn aftur inn á efnisskránna á síðustu tónleikum í Færeyjum. Þar áður höfðu þeir ekki spilað það lengi enda er það ekki á þeim þremur plötum sem flestir nýju aðdáendur þeirra eiga. En já, fjör, grúví fjör.