Frægu tónlistarmennirnir

Heri Joensen og félagar í Tý eru á leiðinni að verða frægir menn og ég hef hitt nær alla sem hafa verið meðlimir í hljómsveitinni (kjarninn hefur reyndar verið nokkuð stöðugur). Á næsta ári er sagt að þeir fari á túr um Bandaríkin sem aðalnúmerið.

Á meðan Týr hefur verið að sigra heiminn þá hefur minna farið fyrir vinsældum þeirra hérna heima. Það er alveg tímabært að gera eitthvað í því og fyrsta skrefið er að fá þá hingað til lands sem mun víst gerast á næstu mánuðum. Það ætti að vera fjör.

Dylan in the Wind

Í síðustu viku fékk ég 2 fyrir 1 tilboð á Dylan. Ég hafði samband við Sigga og við ákváðum að fara.

Tónleikarnir voru semsagt í kvöld. Ég var þannig séð hrifinn af fyrstu lögunum. En þetta varð svolítið endurtekningasamt. Ég er til dæmis hrifinn af blúsdjammi en mér fannst það vera í nær hverju lagi. Í lokin tók Dylan síðan Blowin in the Wind í eiginlega nákvæmlega sama stíl og öll hin lögin á tónleikunum. Hann snerti sjálfur aldrei gítar.

En jæja, allavega hefur maður séð goðsögnina og getur síðan bara hlustað á klassísku lögin hans heima hjá sér.

Ný dönsk í kvöld

Það var kannski fyrirsjáanlegt en tónleikarnir í kvöld voru frábærir. Það var mjög fyndið þegar þeir voru að tala um leynigestinn. Byrjuðu á að lækka míkrafónstatífið voðalega mikið til að gefa í skyn að Daníel væri væntanlegur. Síðan hækkuðu þeir hann aftur og sögðu „þá heldur enginn að Danni sé að koma“. Og leynigesturinn var… Stebbi Hilmars sem söng eitt lag.

Síðan komu nokkur lög og allt í einu kom Daníel fram. Maðurinn er óneitanlega stórskemmtilegur á sviðinu. Eygló var að sjá hann í fyrsta skipti og var mjög hress með hann.

Hápunktur tónleikana fyrir mig var þegar þeir tóku Allt. Það var flott.

Við keyptum nýja safndiskinn aðallega fyrir dvd diskinn með myndböndunum. Um leið og við komum heim skelltum við honum síðan inn og ég sýndi Eygló uppáhaldsmyndbandið mitt, Landslag skýjanna.

Miðar á Nýdönsk

Í síðustu viku keyptum við Eygló bæði miða á tónleika með Nýdönsk þannig að við eigum tvo miða aukalega. Miðarnir eru í 7du röð, sæti 2 og 3 á tónleikunum klukkan 22 á morgun, verð 5800 krónur. Ég held að það sé ekki uppselt á tónleikana ennþá en það er ekki hægt að redda tveimur sætum hlið við hlið.

Látið mig vita ef þið hafið áhuga.

Ný dönsk, naglbítar, 20 ár og miðar til sölu

Það er fyndið að Björn Jörundur og Villi naglbítur verði saman í sjónvarpsþætti núna á næstunni. Það eru nefnilega tíu ár síðan að ég sá 200.000 naglbíta hita upp fyrir Nýdönsk í Kvosinni í MA á tíu ára afmæli hljómsveitarinnar. Naglbítarnir voru þá ekki búnir að gefa út Hæð í húsi en spiluðu það á tónleikunum. Þetta var í fyrsta skipti sem mér fannst þeir raunverulega góðir (hafði séð þá nokkrum sinnum áður undir öðrum nöfnum). En á tónleikunum þá var Villi sífellt að gera grín að Nýdönsk. Þegar Nýdönsk kom á svið þá var Björn Jörundur sár, eða þóttist vera það, yfir þessum bröndurum
Það er hins vegar gaman að sjá Björn Jörund staðfesta upprunasögu nafnsins sem ég hef endurtekið nokkuð oft í gegnum árin án þess að fólk trúi mér. Ég man ég heyrði BJF tala um þetta í viðtalsþætti á Stöð 2 fyrir hátt í 20 árum. Ég held ég hafi meiraðsegja leitað að þeim þætti þegar ég vann á filmusafninu en án árangurs. En allavega er langt síðan að ég hef séð auglýsingu um „Ný dönsk blöð“ í bókabúð.

En sorglegu fréttirnar eru að ég missi af 20 ára afmælistónleikunum þrátt fyrir að hafa keypt miða (á tímabili benti allt til þess að ég kæmi fyrr til landsins). Miðarnir eru í 7du röð, sæti 2 og 3 á tónleikunum klukkan 22, verð 5800 krónur. Látið mig vita ef þið hafið áhuga.

Deep Heep

Við fórum á tónleika í kvöld. Fyrirfram var ég búinn að gefa mér að Uriah Heep, fyrri hljómsveit kvöldsins, yrði betri. Ég hafði rétt fyrir mér. Þeir höfðu ekki nema klukkutíma en þeir náðu að skila sínu vel. Ég saknaði augljóslega nokkurra laga en ekkert alvarlegt.

Ég hef lengi haft þá kenningu að Uriah Heep sé fyrirmyndin að Spinal Tap að því leyti hve mikið flökt er á hljómsveitarmeðlimum (um þrjátíu manns hafa verið meðlimir, sumir oftar en einu sinni).  Nýjasti meðlimurinn byrjaði í hljómsveitinni í síðasta mánuði og það var trommari. Hann varð ekki sjálfskviknun að bráð í þetta sinn. Mick Box gítarleikari er sá eini sem hefur verið í hljómsveitinni frá upphafi. Hann var líka voðalega skemmtilegur á sviði. Söngvarinn hefur reyndar verið með í 21 ár sem er nú alveg meiripartur starfsævi hljómsveitarinnar
Ég hélt eiginlega að Deep Purple yrði skemmtilegri. Mig minnti að þeir ættu fleiri góð lög. Þeir voru ekkert lélegir en í sannleika sagt þá minnti þetta mig dáltið á tónleikana sem ég fór á með Europe. Hljómsveitin var fullmikið í því sem ég myndi flokka sem rúnk. Nú tek ég fram að ég er alveg hrifinn af slíku í hófi (hjá hljómsveitum) en mér þótti þetta bara óhóflegt og ekkert sérstaklega vel útfært. Það er rétt að taka fram að mér sýndist flestir þarna vera hrifnari en ég.

Ef Heep kemur aftur þá förum við aftur.

Hraunað

Ég fór á útgáfutónleika Hrauns í gær. Það var vissulega gaman. Mikið af góðu fólki á svæðinu. Gamalt Háskólalistafólk áberandi. Stefán Bogi var mættur og við buðum hann velkominn í stjórnarandstöðu. Bragi montaðist hins vegar af því að vera kominn í stjórn, held að þetta sé nú bara á yfirborðinu hjá honum.

Þó að útgáfutónleikarnir hafi verið í kvöld þá var ég búinn að kaupa mér þennan disk í fyrra í forsölu þannig að ég náði í mitt eintak þarna.  Ég er að rúlla honum í gegn núna. Ég bíð eftir að Hraun slái almennilega í gegn en miðað við hve margir mættu í gær þá er ekki mjög langt í það.

Sigur Rós á Túninu

Í gær fórum við Eygló í þriðja sinn á Sigur Rós.  Við komum reyndar ekki fyrren um fimmtán mínútur í tíu en fengum samt bílastæði rétt hjá.  Löggan hafði útbúið bílastæði með því að fækka akreynum.

Tónleikarnir voru frábærir.  Reyndar þá varð maður að finna sér gott stæði því ef maður stóð of nærri vissum hátölurum þá fékk maður of mikið af aukahljóðum sem áttu að blandast tónlistinni en gerðu það ekki nema að maður væri lengra frá þeim.

Mér varð hugsað til 6-6-6 tónleika Bubba þarna og hve fáránlegir þeir væru í samanburði við þetta.  Hjá Bubba var auglýsingamennskan í hámarki og ömurleikinn eftir því.  Ekkert svoleiðis þarna.  Þetta var eins og þegar Rolling Stones og Queen héldu ókeypis tónleika í Hyde Park á hátindi ferilsins (hvorir í sínu lagi).

Verst hvað fólk var mikið að spjalla, bæði við hvort annað og í farsíma.  Þess vegna naut maður þess mjög vel þegar lögin náðu hápunktum sínum, þá þurftu allir að halda kjafti.  Reykingafólk náði líka að ergja okkur, færðum okkur nokkrum sinnum til að losna frá því.

Það var ekki heldur neitt mál að komast  burt, þurftum bara að passa okkur á gangandi vegfarendum.