Símabær, óheiðarleikinn og ofsókninar

Ég er formaður félags sem er ekkert sérstaklega vinsælt. Mér finnst allt í lagi að vera óvinsæll. Ég er sáttur við málflutning minn og félagsins míns og held að það hafi nú þegar gert mikið fyrir þessa þjóð. Án þess að vera vinsæl fyrir vikið.

Ég er hins vegar ósáttur við þegar fólk lýgur og dylgjar um félagið mitt. Það er ótrúlega algengt. Andstæðingum okkar hefur tekist ágætlega að skapa frekar afbakaða mynd af okkur í hugum margra. Ég er tilbúinn að standa á bak við það sem ég, og yfirleitt við, höfum sagt og gert hjá þessu félagi. Mér leiðist þegar ég þarf að eyða tíma í að svara dylgjum og lygum óheiðarlegra manna.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég er svona náungi sem vill endilega versla við litla manninn jafnvel þó það sé aðeins dýrara. Símabær er eitt af þeim fyrirtækjum sem ég hef beint viðskiptum mínum til. Þangað til í gær.

Í gær benti Matti í athugasemd á að náungi sem hafði verið að rugla um félagið okkar á Moggabloggi væri eigandi Símabæar. Ég ákvað þá að hætta að versla við hann. Matti skrifaði síðan færslu þar sem hann segist hættur að versla við fyrirtækið, hvetur vini sína til að gera hið sama og leikur sér aðeins á því að skjóta á eigandann á svipuðum, en þó ekki jafn grófum nótum, og hann gerði um okkur.

Merkilegt nokk þá telur eigandinn þetta ofsóknir gegn sér. Það að hann ljúgi og dylgi um okkur er ekki einu sinni athugavert en að skjóta á hann eru ofsóknir. Hann vill að það gildi aðrar reglur um sig en okkur.

Mér er alveg sama þó fólk sé ósammála mér og mínu félagi og ósátt við málflutning okkar en ég geri þá einföldu kröfu að það sé heiðarlegt í gagnrýni sinni eða allavega rökstyðji hana einhvern veginn. Hvers vegna ætti ég að versla við lygara?

Tollstjóri enn í ruglinu

Eygló fékk í dag desemberuppbót. Nema hvað. Hún var frekar lág. Þegar útreikningarnir voru skoðaðir kom í ljós að af þessu hafði verið dregin Þing- og sveitarsjóðsgjöld sem Eygló borgaði í síðustu viku eftir allt ruglið sem ég fjallaði um hér. Við erum ekki glöð. Eygló hringdi, beið í hellingstíma og kvartaði. Svörin voru sú að fullt af fólki væri að lenda í þessu og hún þyrfti að hringja aftur á morgun. Jey. Þegar hún fær þetta aftur þá hljótum við að gera kröfu um að fá reiknaða dráttavexti á þetta eins og á það sem við þurftum að greiða.

Eygló sendi kvörtunarbréf í síðustu viku til Tollstjóra (með afrit til Fæðingarorlofssjóðs og Fjármálaráðuneytis) þar sem hún benti á að það væri hvergi að finna upplýsingar um þessa sérstöku ráðstöfun að þeir sem eru í fæðingarorlofi þurfi að borga þetta sérstaklega ólíkt nær öllum öðrum. Hún benti líka á að á heimasíðu Tollstjóra stendur:

Hjá launþegum eru þing- og sveitarsjóðsgjöld (AB) innheimt með launaafdrætti. Aðrir fá sendan greiðsluseðil á gjalddögum.#

Eygló fékk engan greiðsluseðil á gjalddaga og því algjörlega fáránlegt að senda svona harkalegt bréf til hennar og heimta dráttarvexti. Hún hefur ekki fengið nein svör við bréfinu.

Risafrelsi gleypir peningana mína

Ég virðist hafa tvisvar í röð fyllt inn á gsm-símann minn í einhverju Risafrelsi án þess að átta mig á því. Þetta er vegna þess að þegar ég vel Vodafone í netbankanum mínum þá breytist valda upphæðin mín úr 2000 krónum í 1999 króna Risafrelsi.

Þetta væri nú allt í lagi ef Risafrelsi væri ekki með því undarlega fyrirkomulagi að það étur peningana manns eftir mánuð. Ég hugsaði ekkert um þetta fyrst en fannst þetta grunsamlegt í seinna skiptið og skoðaði málið. Ætli þetta rusl hafi ekki étið vel á fjórða þúsund króna af mér. Ég er ekki mikill farsímanotandi og þetta hentar mér ekki. Þetta er óttalegt svindl að lauma þessu svona inn á mann.

Þing- og sveitarsjóðsgjöld í fæðingarorlofi

Eygló fékk áðan bréf frá “Innheimtumönnum ríkisins” þar sem kom fram að skuld hennar væri gjaldfallinn. Annars var lítið um upplýsingar og bréfið frekar kryptískt og illskiljanlegt. Okkur brá svoltið við þetta enda erum við mjög passasöm upp á alla reikninga. Við fórum í gegnum alla miða sem hafa borist síðustu mánuði, alla reikninga í heimabanka og gúggluðum til að reyna að finna upplýsingar en ekkert gekk. Okkur grunaði að þetta gæti tengst því að Eygló er í fæðingarorlofi en fundum ekkert um slíkt þegar við leituðum. Ég fann hins vegar bloggfærslu þar sem einhver sem er í fæðingarorlofi er að tala um að hafa fengið svona seðil óvænt en tengir það tvennt ekki sjálfur saman.

Ég hringdi næst í Tollstjóra, fyrst hringdi reyndar út og síðan þurfti ég að bíða heillengi eftir þjónustufulltrúa. Ég spyr konuna út í þessi mál og þá sérstaklega hvort að þetta tengist því að Eygló sé í fæðingarorlofi. Þá fæ ég þau svör að þessi gjöld væru jú dregin af launum venjulega en ekki af greiðslum úr fæðingarorlofi. Hún hafði bara engan skilning á því að við skyldum ekki bara vita þetta. Ef maður áttar sig ekki á þessu þá fær maður enga fyrstu viðvörun eða rukkun í heimabankann heldur fær maður bara að vita að maður sé kominn með skuld.

Til viðbótar finnst mér furðulegt að við fengum endurgreitt frá skattinum en þurfum núna að borga einhvern hluta af því til baka. Ég bara skil þetta ekki.

Af bannmerkingum og hringidónum

Ég stend í mínu stríði við Tryggingamiðlun Íslands. Það virðist vel til fundið að nota tryggingafélagið mitt sem millilið því skv. þeim þá hefur númerið mitt verið tekið af skrá hjá þeim – loksins. En þeir notuðu þá afsökun að gsm símanúmerið mitt væri ekki bannmerkt. Það stemmir ekki við skráninguna í Símaskrá en mér dettur í hug að þeir hafi kannski verið að nota einhvern lista frá Voðafón. Þar veit ég ekki til að manni standi til boða að bannmerkja sig.

En ég held að það eigi ekki að skipta máli því í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga stendur:

28. gr. [[Um andmælarétt hins skráða og um bannskrá Þjóðskrár.]1)
[…]
[Þjóðskrá skal halda skrá yfir þá sem andmæla því að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningarstarfsemi. Dómsmálaráðherra setur, í samráði við Persónuvernd, nánari reglur2) um gerð og notkun slíkrar skrár og hvaða upplýsingar skuli koma þar fram.]1) Ábyrgðaraðilar sem starfa í beinni markaðssókn og þeir sem nota skrá með nöfnum, heimilisföngum, netföngum, símanúmerum og þess háttar eða miðla þeim til þriðja aðila í tengslum við slíka starfsemi skulu, áður en slík skrá er notuð í slíkum tilgangi, bera hana saman við skrá [Þjóðskrár]1) til að koma í veg fyrir að markpóstur verði sendur eða hringt verði til einstaklinga sem hafa andmælt slíku.

Ég hef skráð sjálfan mig á þessa bannskrá. Það þýðir að fyrirtæki sem er með lista frá til dæmis símafyrirtæki á að bera þann lista saman við þennan lista Þjóðskrár áður en haft er samband við fólk. Það þýðir að þó ég hafi óafvitandi lent á þeirra lista þá var það á þeirra ábyrgð að athuga hvort ég hefði afþakkað svona símtöl.

Samkvæmt umræddum lögum er Persónuvernd sá aðili sem ég á að kæra til og ég mun að öllum líkindum gera það. Ég held líka að svona lög fúnkeri ekki nema að til séu þrjóskir og pirrandi einstaklingar sem kæri þegar það á við.

Tryggingamiðlun Íslands – Helvítis pakk

Ég er bannmerktur í símaskrá og ég er bannmerktur í þjóðskrá. Þrátt fyrir þetta hef ég þrisvar lent í því að það er hringt í mig frá Tryggingamiðlun Íslands og mér boðinn einhver tryggingaráðgjöf. Ég hef í öll skiptin kvartað en samt er bara hringt aftur.

Helvítis pakk.

Ég fékk nafn yfirmanns konunnar sem hringdi í mig og ég ætlaði að hringja í hann beint en hann svaraði ekki í síma. Mér datt því í hug að hringja í framkvæmdarstjórann, heima, en hann heitir af algengu nafni. Ég skoðaði aðeins heimasíðu fyrirtækisins og sá að eftirfarandi fyrirtæki eru skráð sem samstarfsaðilar TMÍ:

  • Allianz
  • Vörður tryggingar
  • Vörður líf
  • Hagall
  • Sjóvá Almennar
  • Sjóvá Líf

Þarna á meðal er tryggingafélagið mitt. Ég sendi þeim því póst með upplýsingum um hvernig væri komið fram við mig af þessum samstarfsaðila þeirra og spurði þá hvað þeim findist. Ég ætla að fara fram á þeir kvarti fyrir mína hönd.

Ég vona annars að þeir sem þetta lesa geri sér far um að skipta ekki við Tryggingamiðlun Íslands eða samstarfsaðila þeirra. Ef þið hafið lent í einhverju álíka og eruð með viðskipti hjá einhverju af þessum fyrirtækjum þá væri fyrirtak ef þið mynduð kvarta til þeirra.

Hvernig kvartar maður annars formlega yfir svona?

Af Þjóðskrá

Ég skrapp niður á Þjóðskrá núna áðan til að fá fæðingarvottorð fyrir drenginn. Égfattaði ekki að það væri eyðublað fyrir slíkt (enda frekar undarlegt í sjálfu sér þar sem maður er ekki að breyta neinum upplýsingum). Mér var sagt að fara og fylla út slíkt blað sem ég gerði. Ég fór síðan aftur í röðina sem hafði lengst dáltið. Náunginn fyrir framan mig hafði síðan ekki fylllt út eyðublað og fékk að fylla það út við afgreiðsluborðið sem pirraði mig svoltið.

Þegar ég var búinn að borga fyrir fæðingarvottorðið bað ég um að fá að vita í hvernig trúfélagsskráning drengsins væri. Mér var sagt að hann væri skráður í trúfélag móður. Ég svaraði að ég vissi hvar hann ætti að vera skráður en fólk hefði reglulega villst í röng trúfélög. Hún svaraði að það gerðist aldrei. Ég ætlaði að benda henni á dæmi en hún sagðist þá bara ekki vilja rífast við mig á hranalegan hátt. Það er augljóslega ekki gaman að rífast þegar maður hefur rangt fyrir sér. Annars hefði hún bara átt að svara fyrirspurn minni strax ef hún vildi ekki rökræða.

Dæmið sem ég man helst eftir varðandi þetta er að sjálfssögðu Karólína hin hollenska sem var skráð í kaþólsku kirkjuna á sínum tíma af því að Þjóðskrá taldi að Hollendingar væru sjálfkrafa kaþólskir. Hún komst ekki að þessu fyrr en löngu seinna enda fær maður ekkert að vita um slíkt nema að mðaur spyrji og fæstir fatta að spyrja. Síðan var það fyrir nokkrum árum sem fólk virtist hoppa í ríkiskirkjuna þegar það skipti um lögheimili.

Ég tek fram að ég er nokkuð viss um að þetta er ekki vandamál lengur en ástæðan er sú að fólk hefur haft hátt og rifist um þetta. Ég treysti þessu hins vegar ekki og athuga því hvernig skráning mín er reglulega. Ég hvet alla til þess að gera hið sama, sérstaklega ef þeir breyttu skráningu sinni fyrir fimm, tíu árum eða meira. Hringið og athugið.

Tal í rugli

Við Eygló höfum verið að fá endalaus símtöl frá einhverju grey fólk sem er í vandamáli með símann sinn sem tengist eitthvað einhverri íbúð í stigaganginum. Í dag var síðan hringt í mig frá símafyrirtækinu Tal. Það fyrirtæki virðast hafa verið að benda fólkinu á að tala við okkur. Alveg glatað. Ekki miklar líkur á að ég fari í viðskipti þar.