Gagnsleysi hugrekkisins

Ef ég hef einhvern tímann á ævinni verið hugrakkur þá var það þegar ég var í tíunda bekk. Þá sat ég, eins og svo oft, í „skákstofunni“ í frímínútum. Ég heyrði að það var eitthvað um að vera frammi og fór þangað. Ég sá á að það var búið að lemja strák þannig að hann var kominn með blóðnasir og sá sem það gerði ætlaði greinilega að lemja hann meira.

Ég stökk á milli og ýtti þessum árásargjarna í burtu. Einhvern veginn tókst mér þetta án þess að vera laminn sjálfur og þrátt fyrir að vera kannski bara örlítilli skör hærra í samfélagi nemenda en drengurinn var verið að lemja. Hann hafði í mörg ár orðið fyrir heiftarlegu einelti. Ég tók líka eftir á og þurrkaði blóðið sem hafði farið á gólfið svo krakkarnir hefðu ekkert til þess að stara á.

Seinna um daginn gekk drengurinn sem var verið að ráðast á framhjá mér og hvíslaði eitursnöggt, án þess að líta í augun á mér: „Takk“.

Ég var lengi stoltur af þessu þó ég hafi ekki sagt nema örfáum frá þessum. Stoltið hvarf þegar drengurinn framdi sjálfsmorð 23 ára því þá sá ég hvað þetta var lítils virði fyrir hann í raun. Hann náði sér aldrei eftir það helvíti sem grunnskólinn var honum.

Ákaflega gamall í dag

Eygló benti mér á svolítið sem ég var raunar búinn að spá í áður. Í dag er ég nefnilega 29 ára og 10 mánaða gamall. Fyrir flesta er þetta ákaflega merkingarlaust en það gæti verið að svona tveir lesendur mínir skilji hvað liggur hér að baki. Í huga mínum eru þetta í raun miklu stærri tímamót en þau sem mælast í heilum árum.  Aðallega er þetta samt bara skrýtin tilhugsun.

Plássfrek kona

Í fyrrinótt þá spurði Eygló mig hvað ég hefði verið að gera fyrir átta árum.  Þá töluðum við semsagt fyrst saman.  Seinna um nóttina þá var ég alveg að ná að sofna en þá var slengt í mig handlegg og Eygló sagði, mjög sofandi, „Færðu þig, ég þarf pláss“.  Ég lá þá á brúninni mín megin.  Hún hefur verið of góðu vön þarna á tímabili.

Hætt saman…

Jæja, þá er Eygló búinn að upplýsa það opinberlega að við erum hætt saman. Ég held að ég vísi bara að mestu í hennar orð.

En ef þið vitið af herbergi til leigu í námundan við Háskólann þá megið þið láta mig vita (olis hjá hi.is). Helst ódýrt augljóslega og internetsamband (eða möguleiki á því) er nauðsyn. Ég er augljóslega mjög rólegur, reyki hvorki né drekk.

Saying goodbye, why is it sad?
Makes us remember the good times we’ve had
Much more to say, foolish to try
It’s time for saying goodbye.

Samúð

Ef það er eitthvað sem ég vildi breyta í fari mínu þá væri það að gera mig hæfari í að tjá samúð með orðum.  Ég svolítið erfitt með það.  Ég á voðalega erfitt með að segja „ég samhryggist“ þegar einhver sem ég þekki missir einhvern nákominn sér, aðallega af því að mér finnst þetta vera svo lítils virði þegar ég segi það, hálfformúlukennt.  Sem er reyndar hálfasnalegt af því að ég hugsa ekki þannig þegar fólk segir þetta við mig þegar ég er í sömu sporum.  Mér finnst orðið samhryggjast eiginlega ekki lýsa almennilega því sem ég er hugsa.

Mér þætti í raun betra ef maður segði eitthvað á við „ég finn til með þér“.  Þetta er samt í raun það sem maður er að reyna að segja með orðinu samhryggjast.  Betra þegar maður er nægilega náinn fólki til að taka bara einfaldlega utan um það.  Segir meira en orðin.  Best að blogga núna um eitthvað annað svo að þessi færsla færist neðar á síðuna og lesendur mínir taki ekki eftir henni.