Óreglulegir Sherlock Holmes þættir

Þegar ég var svona 10-11 ára þá keypti ég Sherlock Holmes bækur á bókamarkaði. Las þær allar. Elskaði þær. Líklega hafði ég þá þegar horft á bæði Sherlock Holmes þættina með Jeremy Brett og kvikmyndina Young Sherlock Holmes. Þá var ég líklega búinn að sjá The Private Life of Sherlock Holmes þar sem Loch Ness skrýmslið kom við sögu.

Ég hef líka verið hrifinn af uppstokkun á Sherlock Holmes. Dæmi um slíkt er Without A Clue þar sem kemur í ljós að Watson er í raun sá klári. Síðan fannst mér Elementary frábær nútímavæðing á persónunum. Ég féll hins vegar aldrei fyrir Sherlock.

En af öllum þessum uppstokkunum á persónunni þá stendur smásagan A Study in Emerald eftir Neil Gaiman uppúr. Þar er blandað saman Sherlock Holmes og H.P. Lovecraft. Frábært alveg. Í sama dúr er skáldsagan The Angel of the Crows eftir Katherine Addison (Sarah Monette). Þar er einkaspæjarinn settur í fantasíuhrylling og útkoman æðisleg.

Þannig að þegar ég sá þættina The Irregulars á Netflix þá varð ég mjög spenntur. Titilinn gaf til kynna að hér væri verið að fjalla um götukrakkana sem Holmes notaði oft til að njósna fyrir sig. Um leið var ljóst að yfirnáttúru og hryllingur blandaðist inn í það.

En þættirnir eru bara “meh”. Ég hef séð þetta gert svo mikið betur. Það eru fullt af góðum hugmyndum en lausnirnar eru oftar ekki einfeldningslegar. Það að blanda fjölskyldu Viktoríu drottningar inn í söguna er ein af þessum góðu hugmyndum sem hefði mátt vinna betur úr.

Það sem stóð uppúr var hins vegar aðalleikkonan Thaddea Graham. Ég kannaðist við hana úr annarri “lala” Netflix seríu The Letter for the King. Það er engin tilviljun að allir dómar sem ég hef lesið um The Irregulars segja það sama, hún er það besta við þættina. Ef Thaddea Graham fær betri efnavið þá verður hún stjarna.

Í þessum þáttum er farin sama leið og t.d. í Bridgerton (sem ég hef reyndar ekki séð). Leikarnir eru af ýmsum uppruna en það er aldrei talað um húðlit. Ég skil alveg kostinn við þessa nálgun. Hingað til þá hefur verið nær alveg lokað á aðra en hvíta leikara í svona sögulegu efni sem er staðsett í Bretlandi. Svona fá þeir tækifæri. En það er samt næstum því eins og það séu allir að leika hvítar persónur.

Þegar þættirnir byrjuðu og ég sá að Thaddea Graham, sem er mjög greinilega af kínverskum uppruna, ætti systur í þáttunum sem leit út fyrir að vera mjög “bresk” þá fór ég að vona að hér yrði kafað ofan í reynsluheim slíkrar fjölskyldu á Viktoríutímabilinu. En það var augljósleg ekki gert.

Vandinn við sögulegt efni er svo oft að það hunsar þann fjölbreytileika sem var til staðar. Við höfum séð endalausar birtingarmyndir London þessa tíma þar sem allir eru hvítir. En það var ekki þannig. Meira að segja Arthur Conan-Doyle notaði persónur af öðrum uppruna í sögum sínum en því miður var hann frekar rasískur í því hvernig hann sýndi þær.

Þegar svartur maður fékk aðalhlutverkið í Les Mis á Broadway þá var fullt af reiðu fólki sem hafði engan skilning á því að það var svart fólk í Frakklandi á þeim tíma sem sagan gerðist. Frægastir þeirra eru auðvitað hershöfðinginn Dumas og rithöfundarnir sonur hans og sonarsonur.

Þannig að mér finnst svona “litblint” leikaraval ekki svara þeirri þörf að segja sögur sem hafa ekki verið sagðar.

Stjörnustríðsjól

Árið 1978 var Star Wars Holiday Special frumsýnd. Þetta var ári eftir að fyrsta myndin var frumsýnd. Þessi jólamynd hlaut ekki góða dóma.

Þannig að þetta varð hálfgoðssagnakennt. Aldrei gefið út aftur. En fólk hafði tekið þetta upp á myndbandsspólum og þær voru afritaðar í áratugi. Síðan lak þetta á netið.

Ég veit ekki hvenær ég fann afrit af þessu. Gæðin voru vægast sagt slök. Lélegt afrit af lélegri upptöku í lágum gæðastöðlum. DivX fyrir þá sem þekkja slíkt.

Ég ætlaði að horfa og hlæja. Myndin gerist að mestu á heimaplánetu Chewbacca þar sem verið að er að fagna “Lífsdeginum” sem eru þeirra jól. Fyrsta atriðið er bara Vákafjölskylda að spjalla saman á sínu tungumáli, án texta. Það er mjög langt atriði. Ég gafst bara upp.

Í desember fann Gunnsteinn þetta á sjónvarpstölvunni okkar og stakk upp á að horfa á. Ég var ekki í stuði þá.

Í dag ákváðum við strákarnir að horfa saman á Lego Star Wars Holiday Special. Það var gaman. En það leiddi af sér hugmyndina að horfa á upprunalegu myndina. Allavega að sjá hvað við myndum endast lengi.

Það að horfa á þetta með strákunum gerði þetta bærilegt, jafnvel skemmtilegt. Gerðum endalaust grín að þessu öllu.

Það er margt asnalegt í myndinni. Skrýtnast fannst mér eiginlega að atriði þar sem keisaraveldið neyðir þegna sína að horfa á óklippta útsendingu frá barnum í Mos Eisley. Þessum þar sem óþokkar heimsins safnast saman. Barþjónninn er Bea Arthur sem mín kynslóð man helst eftir úr Klassapíum. Hún skiptist á gríni við viðskipavinina og syngur lag með hljómsveitinni frægu. Þetta er fólkið á heimaplánetu Vákanna neytt til að horfa á.

Það er eitt atriði sem hefur fengið jákvæða dóma. Það er teiknimynd sem kynnti fyrst persónuna Boba Fett. Hún var þolanleg miðað við restina. En samhengið í þessari mynd var mjög undarlegt. Sonur Chewbaccea, Lumpy, var að horfa á teiknimynd þar sem pabbi hans var í aðalhlutverki með Hans Óla og vélmennunum. Hver gerði þetta teiknimynd í heiminum þeirra?

Það var margt fleira í myndinni. Mörg mjög óþörf tónlistaratriði. Við spóluðum yfir atriðið sem Jefferson Starship spilar sem heilmynd. Í samhenginu myndarinnar þá eru einhver keisaraliðsforingi að horfa á tónlistarmyndbandið.

Í lok myndarinnar syngur Lilja prinsessa Lífsdagslag. Það er voðalegt. Viðeigandi endir á mjög slæmri mynd.

Þegar myndin var búin nefndi ég að það væri örugglega hægt að finna hana í hærri gæðum til að horfa á á næsta ári. Drengirnir voru ekki spenntir fyrir þeirri hugmynd.

 

Chromecast og Netflix

NetflixFyrir löngu síðan keypti ég Chromecast (gömlu útgáfuna – nýja er víst með betri þráðlausri tengingu en ég hef ekki lent í veseni með það gamla). Það er svona stykki sem tengist í HDMI tengi á sjónvarpi (ekki kaupa nema að þið hafið laust HDMI tengi). Það fæst á Heimkaup (þar sem er líka hægt að kaupa #Kommentakerfið).

Chromecast þarf reyndar að fá rafmagn í gegnum micro-usb snúru. Chromecast tengist þráðlausa netinu (maður stillir það með því að tengja það fyrst við tölvu). Þegar Chromecast er tengt þá er hægt að stjórna því með Chromecast forriti í snjalltækjum eða með viðbót í Chrome vafranum.

Næst er hægt að setja upp Netflix-forrit í snjallsíma (ég þurfti að endurræsa símann til að láta það virka) eða fara bara á Netflix vefinn. Það er auðvelt að skrá sig. Ég fékk frían aðgang í mánuð og stefni á að halda áfram.

Þegar maður er kominn með áskrift að Netflix þá getur maður sent efni úr síma eða vafra með því að smella á Chromecast merkið sem birtist ef allt hefur verið rétt sett upp.

Making a Murderer – sekt og sakleysi

NetflixÁður en lengra er haldið þá ætla ég að segja að ég mun segja frá ýmsu sem gerist í þáttunum Making a Murderer. Ef þú vilt halda spennunni við áhorfið þá ættirðu alls ekki að lesa. Ég held bara líka að það sem ég skrifa sé ekkert áhugavert nema að maður hafi séð þættina.

Making a Murderer er alveg ákaflega heillandi heimildaþáttasería frá Netflix. Umræðurnar um þetta á netinu voru orðnar slíkar að ég stökk til og “reddaði” mér þáttunum. Síðan gerðist það í gær, meðan ég var að byrja á næst síðasta þættinum að Netflix varð aðgengilegt á Íslandi. Ég skráði mig strax og kláraði að horfa á þetta með fullri heimild. Sem var voða góð tilfinning.

Ég reyndi að passa mig á að falla ekki alveg flatur fyrir öllu sem kom fram því maður veit að framsetningin skiptir rosalega miklu máli sem og notkun á tónlist sem getur bókstaflega spilað með mann.

Það sem stendur eftir eru nokkur atriði.

Aðkoma lögreglumanna sem höfðu tengst fyrra máli Avery var út í hött og hefði átt að stoppa strax.

Málið gegn frændanum var mjög vafasamt. Játningin hans var ákaflega skrýtin. Það að yfirheyra strákinn án þess að foreldri væri viðstatt var slæmt. Yfirlýsingar fyrsta lögmannsins voru út í hött. Framkoma rannsóknarmannsins var stórskrýtin. Tal þessa sama rannsóknarmanns um djöfulinn var snarklikkað.

Kviðdómakerfið er fáránlegt og fjölmiðlaumfjöllun getur gjörspillt því. Það að hafa kviðdóm úr sama sveitarfélagi var vafasamt.

Saksóknarinn virtist óheiðarlegur í framsetningu sinni. Í lokaræðu sinni gegn Avery kom hann líka með fræga rökvillu sem ég kalla “falska valklemmu”.

Nálargatið á lokinu á glasinu var mjög áhugavert.

Svar saksóknara um að gögnum hefði verið sleppt í þáttunum er ekki jafn sannfærandi maður gæti haldið. Ef maður er til dæmis á því að blóði hafi verið komið fyrir inni í bílnum þá er ekkert ósannfærandi að halda að gömlum svitabol hafi verið nuddað undir húddið til að koma DNA þangað.

Helsta stefið í þáttunum, fyrir utan glæpi, sekt og sakleysi, er stéttaskipting og klíkuskapur. Það sem hafði kannski mest áhrif á mig var hve kunnugleg Avery-fjölskyldan var. Foreldrarnir minntu mig á hjón sem ég þekkti í æsku. Ekki mælskt fólk. Ekki sérlega gáfað. En viðkunnanlegt. En hér er ég örugglega að yfirfæra tilfinningar mínar. Frændinn minnti mig síðan á suma sem ég umgekkst í fyrra starfi.

Stéttaskiptingin kemur í ljós þegar öllum er sama um hvað Avery-fólkið er ásakað en það má ekkert segja um löggurnar og saksóknara. Avery-fjölskyldan er einfaldlega hvítt hyski að flestra mati.

Þó maður hafi horft á næstum því tíu klukkutíma af sjónvarpsefni þá getur maður ekkert ályktað um sekt og sakleysi. Að viti. En kannski er sekt og sakleysi ekki stóra spurningin. Kannski er spurningin um hvort málsmeðferðin hafi verið góð. Ég held að hún hafi ekki verið það. Ef við ætlum að tryggja, ef það er yfirhöfuð mögulegt, að saklaust fólk fari ekki í fangelsi þá þurfum við að passa að málsmeðferð sé alltaf góð.

Ef ég  ætti að álykta um sekt eða sakleysi þá held ég að það séu meiri líkur en minni á að frændinn sé saklaus. Ég get eiginlega ekkert sagt um Avery sjálfan.

Ég held að það sé rangt að ætla að krefjast þess að fólk sé látið laust þó heimildarmynd sé sannfærandi. Ég held ég skrifi ekki undir neinar svoleiðis áskoranir. En ég myndi styðja áskorun um að málið sé tekið upp eða skoðað betur. Síðan er réttarkerfið í Bandaríkjunum þannig að maður ætti kannski helst að gefa peninga til að þessir menn geti ráðið sér lögmenn – ef maður vill að málið verði skoðað betur.

Ein kaldhæðnislegasta niðurstaðan við að horfa á heimildaþáttaröð um morðmál er sú að svona mál ætti ekki að há í fjölmiðlum, hvort sem maður vill dæma fólk sekt eða saklaus.

Nýju Prúðuleikararnir

Það eru komnir nýir Prúðuleikaraþættir í Bandaríkjunum. Þeir eru strax umdeildir – aðallega fyrir fullorðinshúmor. Þar fer fremst fólk sem virðist ekki skilja muninn á Prúðuleikurunum og Sesamístræti. Annar þátturinn er fyrir börn og hinn var þannig að börn höfðu gaman af honum en misstu þó af miklu í húmornum.

Margir þykjast vita hvað Jim Henson hefði viljað án þess þó að vita nokkuð um hann. Jim Henson bjó ekki til Prúðuleikarana fyrir börn. Hann vildi alltaf ná til fullorðina líka. Hann tók meiraðsegja þátt í fyrstu seríunni af SNL. Það eru líka nokkuð dökkir brandarar í The Jim Henson Hour.

Það eru 25 ár síðan Jim Henson dó. Prúðuleikararnir hafa gert margt síðan þá. Best af því er Jólasaga Prúðuleikarana en margt annað ágætt hefur sést. Sjálfur var ég nokkuð hrifinn af Muppets Tonight. Brandarinn um Nine Inch Nails fær mig ennþá til að hlæja þegar ég hugsa um hann.

Prúðuleikararnir hafa alltaf innihaldið vísanir í kynlíf og fíkniefnanotkun. Þær eru öðruvísi í dag en fyrir 40 árum enda er þjóðfélagið öðruvísi. Þjóðfélagið hlýtur að speglast í persónum sem eru að reyna að ná til samtímans.

Nýju þættirnir eru eftir mann sem heitir Bill Prady. Hann vann með Jim Henson áður en hann dó. Hann ber líklega ábyrgð á því að fyrstu seríurnar af The Big Bang Theory voru ágætar.

Ég er búinn að horfa á alla þrjá þættina sem hafa verið sýndir. Ég hló oft upphátt. Prúðuleikaranir lifa og þeir eru ekki, og hafa aldrei verið, krúsídúllur fyrir krakka.

Nýjar net-sjónvarpsstöðvar

Það er ýmislegt að gerjast á sjónvarpsmarkaðinum. Spyr.is er búið að ráða sjónvarpsstjóra og eitthvað sem heitir iSTV er líka að fara af stað.

Spyr virðist ætla bara að vera á netinu og að leggja áherslu á styttri þætti. Ég myndi ráðleggja þeim að útiloka ekki lengri þætti því netið veitir frelsi til “öfga” í báðar átti í lengd.

iSTV virðist ætla að reyna að fá efni utan frá í stað þess að framleiða sjálft. Ég hefði haldið að besta leiðin til að ná í hæfileikafólk væri einmitt að veita þeim aðstöðu sem ekki hafa hana fyrir. Það þarf varla stórt stúdíó eða dýran búnað til að geta búið til efni í boðlegum gæðum.

Ef þessar stöðvar eru að stefna að því að hafa efnið bara eigin vef en ekki t.d. á YouTube þá verð ég að benda á möguleikann á að búa til viðbót fyrir XBMC margmiðlunarstýrikerfið þannig að fólk sem hefur þannig búnað geti fengið þættina beint í sjónvarpið sitt. Það á ekki að vera flókið. Ef það á að nýta YouTube þá er það nú þegar með tilbúna XBMC viðbót.

Það væri líka áhugavert að vita hvernig fólk ætlar að græða. Er það auglýsingasala? Áskrift?

Leyndardómar Gullborganna – í alvörunni

Eftirfarandi klausa úr bókinni 1493: Uncovering the New World Columbus Created eftir Charles Mann er áhugaverð fyrir okkur sem munum eftir teiknimyndaþáttunum Leyndardómar Gullborganna:

The three Spaniards were feted and honored. Esteban was re-enslaved and sold. His new owner was Antonio de Mendoza, viceroy of New Spain. Mendoza soon assigned him as the guide to a reconnaissance party going north—Esteban was back on the road. The party was searching for the Seven Cities of Gold. Supposedly these had been established in the eighth century by Portuguese clerics escaping from Muslim invasions. For decades, people from Spain and Portugal had been hunting for them—the Seven Cities were an Iberian version of the Sasquatch or Yeti. Why anyone should imagine these cities were in the U.S. Southwest is unexplained and perhaps unexplainable.

Þetta er varla tilviljun.

Hvers vegna útsendingarsjónvarp?

Simmi og Jói eru að taka yfir minn gamla vinnustað á Krókhálsi og setja upp tvær sjónvarpsstöðvar. Ef ég skil þetta rétt á þetta að verða útsendingarsjónvarp og ég skil ekki þá pælingu í dag. Slíkt krefst miklu meiri yfirbyggingar heldur en er raunverulega þörf á.

Í dag trylltust unglingar í Smáralind yfir einhverjum gaur sem ég get ekki ímyndað mér að margir yfir 25 ára hafi heyrt um. Allavega ekki ég. Hann gerir einhvers konar örmyndbönd – Twitter í videoformi. Það segir okkur eitthvað en flest erum við ekki 15 ára.

Mörkin milli sjónvarps og tölvu eru að hverfa. Ef sjónvarpið er ekki tölva nú þegar þá er hægt að fá smátæki sem gerir það að tölvu. Þá er YouTube komið í sjónvarpið þitt. Smá fiff og þú ert kominn með Netflix. Meira fiff og þú ert kominn með BBC. Og svo framvegis. Það þarf engan snilling til að sjá að Simmi og Jói eru að meta framtíð íslensks sjónvarps rétt með því að búa til íslenskt sjónvarpsefni en þeir gætu gert það án þess að fara í gamla dreifingarpakkann.

Í dag er hægt að búa til sjónvarp með tölvu og myndavél. Það er margt betra til en í raun duga forrit sem fylgja með Windows. YouTube getur síðan verið dreifingaraðilinn þinn. Það gilda sömu forsendur og með efni í opinni dagskrá þannig að þú þarft að hafa auglýsingarnar með ef þú vilt einhverja peninga. Lýðfjármögnun er líka valkostur.

Ef það þarf minni yfirbyggingu og allt kostar minna þá er líka hægt að þrengja áhorfendahópinn. Það þarf ekki lengur að höfða til fjöldans heldur er hægt að hafa efni sem tiltölulega fáir hafa mikinn áhuga á.

Dauði dagskrársjónvarps þýðir líka frelsi frá hefðbundnum tímatakmörkunum. Það þarf ekki lengur að láta efnið passa í eitthvað hólf. Það er hægt að leyfa efninu að njóta sín, það þarf hvorki að teygja það né þarf að klippa burtu gullin andartök til þess að dagskráin riðlist ekki.

Það er pláss fyrir meira íslenskt sjónvarpsefni en ekki ef því er íþyngt með gamla dagskrárútsendingarsjónvarpsmódelinu.

Væl yfir kynjakvóta í Gettu betur

Það var fullkomlega fyrirséð að fólk færi af stað væl yfir væntanlegum kynjakvóta í Gettu betur. M.a. er fullyrt að stelpur hafi einfaldlega ekki áhuga á því að taka þátt. Ef það er rétt þá getum við spurt hver sé ástæðan fyrir áhugaleysinu. Í fyrra lagi er hægt að svara því að þetta sé ekki stelpum eðlislægt á einhvern hátt. Í seinna lagi þá getum við svarað því að það sé eitthvað í menningu okkar sem fælir stelpur frá. Ég tel að við getum ekki litið til fyrra valkostarins fyrr en við höfum útilokað þann seinni og það höfum við alls ekki gert.

Fólk segir að það sé ekkert við valferlið í lið sem gerir stelpum erfiðara að komast í liðið. Ég er ekki fyllilega sannfærður. Maður gæti t.d. spurt hverjir eru það semja prófin og þá hvort það sé möguleiki á að prófið sé tengdara áhugamálum stráka en stelpna. En ég efast um að það skipti miklu máli.

Ef við lítum á menningarhlutann, annars vegar Gettu betur menninguna og hins vegar okkar eigin samfélagsmenningu, getum við kannski fengið einhver svör. Stefán Pálsson benti snemma á árinu á að Gettu betur hópar framhaldsskólanna væru strákaklíkur. Það er góð byrjun að lesa hans grein. Það er ekkert endilega spennandi fyrir stelpur að eyða vetrinum í að æfa fyrir spurningakeppni í hópi þar sem eru bara strákar. Mér finnst sumsé mun líklegra að stelpum þyki æfingarferlið lítið spennandi frekar en að þeim þyki keppnin lítið spennandi. En eins og Stefán bendir á þá hefur einn skóli oft skorið sig úr og það er MH. Þar myndaðist hefð fyrir því að stelpur væru með. Ég veit ekki hvort sú hefð er enn til staðar enda hef ég ekki nennt að horfa á Gettu betur í nokkur ár.

Ef maður vildi prufa strákaklíkukenninguna þá væri áhugavert að stofna tvo kynjaskipta Gettu betur hópa í hverjum skóla og síðan velja úr þeim þegar nær dregur keppni. Einfaldara væri væntanlega að fara þá leið að hafa einn hóp með nokkurn veginn jöfnum kynjahlutföllum.

En þetta er að sjálfsögðu flóknara. Þetta snýst líka um fyrirmyndir. Þegar stelpur mæta í framhaldsskóla þá hafa þær væntanlega alist upp við það að sjá að Gettu betur er strákakeppni. Það eru örfáar stelpur sem keppa og því ekkert skrýtið að aðrar stelpur dragi ómeðvitað þá ályktun að þetta sé nú bara fyrir stráka nema að rosalega klárar stelpur geti verið með.

Þetta er svo sem reglan í samfélaginu í heild. Karlkynið er normatívt. Karlkynið er sjálfgefið. Konur sem leggja í að fara í fjölmiðlun eða stjórnmál eða hvaðeina þar sem karlmenn hafa verið í meirihluta þurfa ekki bara að leggja í þessa karlaveldi heldur þurfa þær að gera það vitandi að þær eru stimplaðar sem fulltrúar síns kyns á meðan karlmennirnir þurfa nær aldrei að hugsa á slíkan hátt.

Ef á má orða þetta aðeins öðruvísi þá er það þannig að það er erfiðara að fá konur til að mæta í fjölmiðla eða bjóða sig fram (nema raunverulega jafnréttissinnuðum flokki). Ástæðan fyrir því er m.a. sú að konur eru hlutfallslega miklu færri í stjórnmálum og í fjölmiðlum. Þetta er sumsé vítahringur. Og þó það sé ósanngjarnt þá verða konur stundum að hugsa að þær skuli bjóða sig fram til að vera fyrirmynd og þær skuli mæta í viðtöl til að vera fyrirmynd.

Við getum spurt hvort samfélagið sé eins og kassar af Playmo leikföngum eða hvort Playmo endurspegli samfélagið. Kassar af Playmo leikföngum eru þannig samsett að það koma yfirleitt engar konur með fyrr en sem þriðja fígúran. Undantekning er þegar kassarnir eru frekar ætlaðir stelpum. Þá eru það ævintýrapersónur, fjölskyldur og allt sem tengist dýrum. Þarna læra stelpur og strákar að setja konurnar í aukahlutverk. Þetta getum við líka öll lært af fjölmiðlum og þ.á.m. Gettu betur.

Nú ætla ég að vona að þeir sem sjái um Gettu betur undirbúning í skólum taki verkefnið alvarlega. Fyrsti prófsteinninn er hvort þeir taki bara eina stelpu í hópinn eða hvort það verði tekið meðvitið ákvörðun um að hafa þær fleiri til þess að vinna gegn strákaklíku menningunni sem þar hefur ríkt og þar með gera keppnina meira heillandi fyrir þær stelpur sem geta orðið til þess að koma liði þeirra í úrslit.