Væl yfir kynjakvóta í Gettu betur

Það var fullkomlega fyrirséð að fólk færi af stað væl yfir væntanlegum kynjakvóta í Gettu betur. M.a. er fullyrt að stelpur hafi einfaldlega ekki áhuga á því að taka þátt. Ef það er rétt þá getum við spurt hver sé ástæðan fyrir áhugaleysinu. Í fyrra lagi er hægt að svara því að þetta sé ekki stelpum eðlislægt á einhvern hátt. Í seinna lagi þá getum við svarað því að það sé eitthvað í menningu okkar sem fælir stelpur frá. Ég tel að við getum ekki litið til fyrra valkostarins fyrr en við höfum útilokað þann seinni og það höfum við alls ekki gert.

Fólk segir að það sé ekkert við valferlið í lið sem gerir stelpum erfiðara að komast í liðið. Ég er ekki fyllilega sannfærður. Maður gæti t.d. spurt hverjir eru það semja prófin og þá hvort það sé möguleiki á að prófið sé tengdara áhugamálum stráka en stelpna. En ég efast um að það skipti miklu máli.

Ef við lítum á menningarhlutann, annars vegar Gettu betur menninguna og hins vegar okkar eigin samfélagsmenningu, getum við kannski fengið einhver svör. Stefán Pálsson benti snemma á árinu á að Gettu betur hópar framhaldsskólanna væru strákaklíkur. Það er góð byrjun að lesa hans grein. Það er ekkert endilega spennandi fyrir stelpur að eyða vetrinum í að æfa fyrir spurningakeppni í hópi þar sem eru bara strákar. Mér finnst sumsé mun líklegra að stelpum þyki æfingarferlið lítið spennandi frekar en að þeim þyki keppnin lítið spennandi. En eins og Stefán bendir á þá hefur einn skóli oft skorið sig úr og það er MH. Þar myndaðist hefð fyrir því að stelpur væru með. Ég veit ekki hvort sú hefð er enn til staðar enda hef ég ekki nennt að horfa á Gettu betur í nokkur ár.

Ef maður vildi prufa strákaklíkukenninguna þá væri áhugavert að stofna tvo kynjaskipta Gettu betur hópa í hverjum skóla og síðan velja úr þeim þegar nær dregur keppni. Einfaldara væri væntanlega að fara þá leið að hafa einn hóp með nokkurn veginn jöfnum kynjahlutföllum.

En þetta er að sjálfsögðu flóknara. Þetta snýst líka um fyrirmyndir. Þegar stelpur mæta í framhaldsskóla þá hafa þær væntanlega alist upp við það að sjá að Gettu betur er strákakeppni. Það eru örfáar stelpur sem keppa og því ekkert skrýtið að aðrar stelpur dragi ómeðvitað þá ályktun að þetta sé nú bara fyrir stráka nema að rosalega klárar stelpur geti verið með.

Þetta er svo sem reglan í samfélaginu í heild. Karlkynið er normatívt. Karlkynið er sjálfgefið. Konur sem leggja í að fara í fjölmiðlun eða stjórnmál eða hvaðeina þar sem karlmenn hafa verið í meirihluta þurfa ekki bara að leggja í þessa karlaveldi heldur þurfa þær að gera það vitandi að þær eru stimplaðar sem fulltrúar síns kyns á meðan karlmennirnir þurfa nær aldrei að hugsa á slíkan hátt.

Ef á má orða þetta aðeins öðruvísi þá er það þannig að það er erfiðara að fá konur til að mæta í fjölmiðla eða bjóða sig fram (nema raunverulega jafnréttissinnuðum flokki). Ástæðan fyrir því er m.a. sú að konur eru hlutfallslega miklu færri í stjórnmálum og í fjölmiðlum. Þetta er sumsé vítahringur. Og þó það sé ósanngjarnt þá verða konur stundum að hugsa að þær skuli bjóða sig fram til að vera fyrirmynd og þær skuli mæta í viðtöl til að vera fyrirmynd.

Við getum spurt hvort samfélagið sé eins og kassar af Playmo leikföngum eða hvort Playmo endurspegli samfélagið. Kassar af Playmo leikföngum eru þannig samsett að það koma yfirleitt engar konur með fyrr en sem þriðja fígúran. Undantekning er þegar kassarnir eru frekar ætlaðir stelpum. Þá eru það ævintýrapersónur, fjölskyldur og allt sem tengist dýrum. Þarna læra stelpur og strákar að setja konurnar í aukahlutverk. Þetta getum við líka öll lært af fjölmiðlum og þ.á.m. Gettu betur.

Nú ætla ég að vona að þeir sem sjái um Gettu betur undirbúning í skólum taki verkefnið alvarlega. Fyrsti prófsteinninn er hvort þeir taki bara eina stelpu í hópinn eða hvort það verði tekið meðvitið ákvörðun um að hafa þær fleiri til þess að vinna gegn strákaklíku menningunni sem þar hefur ríkt og þar með gera keppnina meira heillandi fyrir þær stelpur sem geta orðið til þess að koma liði þeirra í úrslit.

Spurningakeppnisdrama

Það hefur óneitanlega verið drama í spurningakeppnum Sjónvarpsins. Í gær réðust úrslit Útsvars á mjög vafasömu vali liðs á að taka 10 stiga spurningu þegar 5 stig hefðu dugað. Einn meðlimur liðsins var mjög ósáttur við það val.

Annars get ég ekki skilið hvers vegna áhorfendur fá að sjá svarið í látbragðsleiknum í Útsvari. Sá sem ákvað það skilur greinilega ekki að eiitt aðalgamanið er að giska sjálfur heima í stofu.

Í Gettu Betur áðan var hörkuspennandi keppni og sá sem svaraði rangt undir lokin var mjög ósáttur. Það er gaman að sjá menn með skap í svona. Ekkert stóískt kjaftæði.

Ég var glaður að heyra minnst á Cork í Gettu Betur áðan en ég var ekki sáttur við spurninguna. Cork er ekki næst stærsta borg Írlands heldur írska lýðveldisins. Menn hafa verið skotnir fyrir minni sök á Írlandi. Fyrsta lögmálið þar er að passa öll svona hugtök. Menn móðgast mjög auðveldlega. Belfast er næst stærsta borg Írlands, Dublin stærst og Cork í þriðja sæti. Derry kemur þar á eftir. Mig vantar Belfast í safnið.

Úrslitin

Jæja, MA tapaði. Ég var reyndar farinn að hafa áhyggjur af því að þau myndu vinna með þetta kall utan úr sal hangandi yfir sér. Held að það hefði verið réttast að koma með aðra spurningu þegar þetta gerðist. En MA gekk vel þrátt fyrir allt. Og náttúrulega frábært að hafa tvær stelpur í liði sem kemst í úrslit. Vonandi að þetta brjóti ísinn og stelpur sjái að þær eiga fullt erindi í keppnina.

Það er líka rétt að taka fram að mér fannst Páll Ásgeir góður dómari með skemmtilegar spurningar. Allir dómarar hafa lent í einhverjum vafaatriðum og hann var bara óheppinn að það skyldi hafa komið í tæpri keppni.

Gettu Betur og bókavörðurinn ógurlegi

Það var ágætt sjónvarpskvöld í gær. Fyrst kom Gettu Betur. Ég studdi að sjálfssögðu MA. Það er líka óendanlega flott að tveggja stelpu lið sé að standa sig svona vel. Síðan er strákurinn Vopnfirðingur. Ég var nokkuð ánægður með þyngd og breidd spurninganna. Bara skemmtilegar.

Hjá Stebba er umræða í gangi sem byrjar með svona smávægilegum nördalegum athugasemdum um ónákvæmni í spurningum og fer síðan út í eitthvað skítkast út í Pál Ásgeir sem mér finnst ekkert eiga rétt á sér. Allir spurningahöfundar í Gettu Betur gera svona mistök og það er hluti af sportinu hjá nördum eins og mér að nappa þá. Allt í góðu gamni.

Á eftir Gettu Betur var mynd um bókavörð sem fór í svona Indiana Jones ævintýri. Hún var alveg skemmtilega hallærisleg en mér fannst að það hefði átt að vera meira af atriðum á bókasafninu. Annars þá sýndist mér þetta bókasafn ekki vera að fara eftir lögmálum Ranganathans. Vona að RÚV kaupi framhaldsmyndirnar.

Frá föstudegi til laugardags (Jón Hnefill, bústaður, Gettu Betur, álver, lærdómur og videospólur)

Mig vantar flatan tölvuskjá til eigu og gott videotæki til láns, sjá neðst.

Þetta er efni í nokkrar færslur en ég læt vera að deila þessu niður.

Á föstudaginn var þá fór ég á áttræðisþing til heiðurs Jóni Hnefli Aðalsteinssyni. Það var virkilega skemmtilegt. Get ekki nefnt neitt eitt sem stóð meira upp úr en annað. Þó var nú sérstaklega gaman að Cottingley álfarnir hafi komið við sögu. Ég var settur í myndbandsupptökuhlutverk og var frekar aumur eftir á enda var þessi vél aðeins þyngri en mín. Ég var síðan í því að taka upp síðasta hluta þingsins fyrir Rás 2.

Eftir að hafa minglað svoltið á Þjóðminjasafninu þá fórum við heim að undirbúa okkur fyrir bústaðaferð. Eftir að hafa tekið til draslið okkar lögðum við af stað. Það gekk ekki vel. Misstum af einni beygju þegar við vorum að reyna að stilla útvarpið á Gettu Betur. Það fór svo að við náðum ekki að hlusta né horfa á Gettu Betur. Þegar ég kom inn í bústaðinn eftir að hafa ferjað dótið okkur yfir sundurskorinn stíginn þá kveikti ég á sjónvarpinu og sá úrslitin. Bömmer. Daginn eftir sáum við reyndar endursýninguna.

Ég held að MK hafi hiklaust verið betra liðið í keppninni. Það kom töluvert á óvart. Ég nefndi það ekki fyrirfram en ég hélt að MR myndi valta yfir þá. Mér þóttu bráðabanaspurningarnar full léttar, það er ekki gott að úrslit ráðist á því hver er fljótari á bjölluna. Annars þá var Davíð bara góður spurningahöfundur, ætti að halda áfram í því. Hins vegar er eiginlega óþolandi hvernig Sigmar dregur að segja hvort svör séu rétt að röng. Hann ofnotar það svo gríðarlega.

Ég var hálfpirraður þegar ég kom í bústaðinn eftir allt vesenið. Ég var pirraður þegar ég fór ofan í pottinn en þegar ég kom upp úr var ég orðinn afslappaður. Missti mig eiginlega í því að tala um rannsóknarverkefnið mitt og það hressti mig.

Eins og síðast þegar við fórum í bústað þá náði ég að læra helling. Ég skrifaði upp eitt og hálft viðtal, gekk alveg frá því fyrra og ég ætti að geta skilað hinu í fyrramálið. Fyrir einni og hálfri viku var ég búinn að taka eitt viðtal fyrir Eigindlegar og núna er ég búinn með fjögur og þar að auki búinn að gera vettvangsathugun. Efnið er líka að taka yfir höfuðið á mér.

Við glöddumst mjög yfir álverskosningunni. Ólíkt flugvallarkosningunni um árið þá var nægileg þátttaka til að þetta væri almennilegt. Það hjálpaði kannski að í þetta sinn var enginn sem sá hag sinn í því að láta eins og að kosningarnar skiptu engu máli. Gaman að hugsa um alla peningana sem var svo greinilega sóað í að reyna að kaupa Hafnfirðinga. Annars þá finnst mér undarlegt að íbúar á Völlunum hafi ekki haft meira vægi í þessum kosningum heldur en þeir sem búa lengst frá álverinu. Ég fór annars í Hafnarfjörð um daginn og sá aðeins brot af áróðrinum sem var þar í gangi. Það virðist vera munur á því hvernig þetta fór fram þar miðað við annars staðar.

Þegar við komum heim þá enduðum við einhvern veginn í tiltekt. Ég gekk frá öllu tölvudraslinu sem hefur fylgt björgun efnis af biluðum hörðum diski. Þegar því lauk fórum við í gegnum videospólur og hentum fjölmörgum en þó ekki öllum. Videotækið mitt var einmitt að drepast en ég tók ekki eftir því fyrren áðan. Núna vantar mig að fá lánað gott myndbandstæki hjá einhverjum sem er ekki að nota það (sem eru væntanlega flestir sem eiga slíkt tæki).

Þar að auki væri gaman ef einhver sem á flatan tölvuskjá sem hann er hættur að nota gæti látið mig fá hann, jafnvel fyrir einhvern smápening. Ég þarf nefnilega alltaf að ná í stóra 17 tommu hlunkinn minn þegar ég er í einhverju meiriháttar veseni með borðtölvunni minni (sem þjónar aðallega því hlutverki að vera afar stór iPod).