Tveir áfangar

Þessa daganna tel ég afrek mín helst vera tengd hjólreiðum (tók 18.6 km hring upp í kringum Elliðavatn í dag). Veðrið hefur líka verið gott til slíks. Vonandi meira um það seinna.

En það eru aðrir áfangar sem ég ætlaði að nefna.

Í síðustu viku fékk ég lokaeinkunn fyrir meistaraverkefni mitt í hagnýtri menningarmiðlun, þ.e. Rafbókavefurinn og greinargerðin um hann. Ég fékk níu og er mjög sáttur. Meðaleinkunnin er þá tæplega 8,6 í náminu. Það er næstum að maður sjái eftir að hafa ekki lagt meira á sig til að keyra þetta upp í ágætiseinkunn. Reyndar lagði ég langmest á mig í námskeiði þar sem var bara gefin einkunnin “staðið”. Ég geri ráð fyrir að skólagöngu minni sé lokið nema ef ég fæ tækifæri til þess að fara í launað doktorsnám.

Í dag fékk ég í hendurnar bókina Shaping Virtual Lives. Í henni eru greinar byggðar á erindum flestra þeirra sem tóku þátt í málstofunni “minni” í Lissabon í fyrra. Það er mikil gleði að vera með í þeirri bók enda er þetta mín “stærsta” birting sem fræðimaður. Þarna er ég að skrifa í ritrýnda bók m.a. með fólki sem ég las greinar eftir í þjóðfræðináminu og vitnaði jafnvel í í lokaritgerðinni minni.

Útskriftardagur

Í dag er útskrift – eða brautskráning – hjá mér. Reyndar bara lítil. Ég var að klára diplómunám í opinberri stjórnsýslu sem ég ákvað að taka meðfram hagnýtu menningarmiðluninni. Mér þótti það passa vel við annað nám mitt.

Ég á ekki erfitt með að ákvarða hvað mér þótti áhugaverðast í náminu en það var stjórnsýslurétturinn. Ég er líka nokkuð viss um að það var líka eitthvert gagnlegasta námskeið sem hef tekið. Ég hafði vissulega einhvern grunn og reynslu í þessum málum en þarna jók ég skilning minn bæði og dýpkaði. Það þýðir reyndar að maður andvarpar mjög innilega þegar maður heyrir fólk tala af meira kappi en viti um hluti eins og andmælarétt og vinnuskjöl.

Ég mun ekki mæta á svæðið í dag. Ég hef gert það tvisvar áður og þótti það ekki svo æðislegt að mig langi að gera það aftur. Reyndar hefði verið tiltölulega auðvelt að mæta, fara upp á svið og ganga beint út þar sem Stjórnmálafræðideild er frekar snemma í röðinni. En þá móðgar maður reyndar kórinn.

Ég má ná í skírteinið mitt á mánudag. Það ætti að duga.

Upptökur og sviðsmynd

Í dag vorum við að taka upp fyrirlestra sem eiga að fara á netið. Minn hópur var með Svein Yngva Egilsson og hinn hópurinn með Jón Karl Helgason.

Þegar við vorum að ákveða hvar við ættum að taka upp kom fram sú hugmynd að hafa stórt Íslandskort í bakgrunninum til þess að þar væri ekki bara ljótt hvít tafla. Kom þá í ljós að Edda átti eitt slíkt kort sem hún mætti með í dag. Þegar ég segi stórt þá á ég við svona tveggja metra breytt. Allt í lagi með það. Stuttu seinna erum við að leita að fjöltengi og þá opnar Edda skáp í stofunni sem er fullur af stórum landakortum. Það var svoltið “d’oh” móment.

Þegar ég var í hlutverki áheyranda á meðan Jón Karl talaði kitlaði mig svo gríðarlega í hálsinn að ég hélt að ég myndi fríka út. Ég þurfti tvisvar að hósta og hef örugglega verið rauður í framan af áreynslu. Ég held að ég þurfi að horfa á fyrirlesturinn aftur þegar hann verður tilbúinn því ég missti af efninu á stórum köflum af því ég var svo einbeittur að hósta ekki.

Við lok annar

Jæja, engir tímar eftir. Bara eitt heimapróf sem er bölvanlega erfitt af því að ég þarf að semja mína eigin spurningu.

Þetta hefur verið mjög áhugavert. Það stendur vissulega uppúr að hafa gert útvarpsþátt og litla heimildarmynd. Hópavinnan gekk líka vel – eins og raunar öll hópavinna sem ég hef lent í Háskólanum.

Ég er því eins og er bara nokkuð sáttur við að hafa farið í Hagnýta menningarmiðlun.

Hannes aftur

Þeir sem halda að Hannesarmálið snúist einungis um dóminn sem hann fékk ættu að kíkja á úttekt Helgu Kress. Þar koma fram dæmi þar sem Hannes virðist hafa haft texta frá öðrum fræðimönnum fyrir framan og umorðað bara örlítið án þess að geta heimilda. Þetta virðist ekki geta verið óviljaverk nema textinn hafi greipst inn í minni Hannesar.

Ég neita alfarið að hér sé verið að ofsækja manninn. Að mínu mati er Páll Skúlason helsti vandræðagripurinn í þessu máli öllu saman af því að hann gerði ekkert þegar hann var rektor. Ég held að það sem valdi mestum urgi sé hve langan tíma þetta hafi allt saman tekið. Það hefði komið sér best fyrir Hannes að ljúka þessu fljótt af.

Ég get engan veginn tekið undir þau orð félaga Arngríms í kommentum í annarri færslu að ævisaga sé aldrei fræðirit. Sjálfsævisaga er ekki fræðirit. Ævisaga byggð á viðtölum er ekki fræðirit. En margar ævisögur eru einmitt fræðirit og mig grunar að það hafi verið upphaflegur tilgangur Hannesar. Mig minnir að hann hafi haldið fyrirlestur um efnið á einhverju þinginu í Háskólanum sem gefur það sterklega til kynna. Það væri náttúrulega sérstaklega áhugavert að vita hvort að hann hafi fengið einhver rannsóknarstig út á þessi. Eða þá styrki.

En hins vegar skiptir það ekki öllu máli hvort um fræðirit sé að ræða. Háskólakennarar hafa skyldum að gegna gagnvart sínum skóla. Háskólinn verður að bregðast við með einhverjum hætti. Ég held að það væri rétt að senda málið til siðanefndar og það hefði átt að gera fyrir löngu síðan.  Ég veit ekki hvað kemur til greina. Brottvikning hefur verið nefnd en Gísli Gunnars segir hana ekki geta átt við. Stöðulækkun hugsanlega. Mig grunar að áminning ein og sér þætti of væg refsing.

Þægileg tala

Ég var að fara yfir námsferil minn og meðaleinkunn mín er 8,5 í meistaranáminu. Það er þægileg tala. Reyndar eru bara 23 einingar inn í tölunni og þær eru á bilinu 8-9,5. Einkunnir fyrir námskeiðin sem ég tók úti koma bara inn sem staðið en byggt á allt öðru einkunnakerfi. Sama gildir um námskeiðið hjá hákarlinum í vor. Síðan skilst mér að ég muni bara fá staðið fyrir meistararitgerðina. Ef svo er þá verður þetta lokaeinkunnin. Alveg ásættanlegt.

Ég bíð reyndar ennþá eftir einkunnum að utan. Ég sendi síðustu ritgerðina út milli jóla og nýárs með pósti þannig að ég er ekki bjartsýnn á að þetta komi alveg strax.

Annars er það að frétta af námsmálum hjá mér að ég er að plægja í gegnum kenningar og rannsóknir annarra sem hafa skrifað á þessu sviði. Stundum krassa ég “ekki satt” á spássíur bókanna. Það er meira skemmtilegt heldur en þegar fólk er sammála mér. Ég á eftir að taka tvö viðtöl. Ég er að bíða eftir svari varðandi annað en ég ætla að fara að eltast við hitt rétt bráðum. Gaman gaman.