Kasína – reglur

Eftir að hafa hlustað á hlaðvarpsþátt um sögu mannspila – hins hefðbundna spilastokks (The History of the English LanguageHouse of Cards) fór ég að rifja upp hvernig maður spilar kasínu. Við barnabörnin spiluðum það oft við afa og ömmu. Ég hafði hins vegar aldrei spilað það við strákana sem er synd og skömm.

Ég leitaði og fann allskonar reglur. Flestar voru gjörólíkar því sem við spiluðum í Stekkjargerðinu. Þetta ætti ekki að koma á óvart þar sem kasína hefur verið spiluð á Íslandi frá hið minnsta 19du öld. Það sést í öðru bindi af bók Jóns Árnasonar Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur sem gefin var út árið 1887. Spilið hefur síðan gengið manna á millum og breyst.

Ég spjallaði líka við fjölskylduna, bæði Hafdís systir og Eyþór Gylfa hjálpuðu. Að lokum fann ég góðar reglur, kunnuglegar að mestu. Það að þær komu frá Dalvíkurskóla kom ekki á óvart. Ekki var heldur neitt óvænt við niðurstöðurnar þegar ég rakti konuna sem er skráð fyrir þeim, Dóróþeu Reimarsdóttur, saman við mig í Íslendingabók og sá að hún á djúpar svarfdælskar rætur.

Það sem var ólíkt var helst tvennt. Annars vegar að hún talar um að 20 stig þurfi til að sigra en í Stekkjargerðinu voru þau 21. Hins vegar segir hún að spilarar fái fimm spil á hönd en ég er vanur fjórum spilum. Það tel ég reyndar vera mikilvægari reglu af því að fjórir ganga upp í 52. Ef þú ert hins vegar með fjögur spil í borði og hvor spilari fær alltaf fimm spil þá gengur það ekki upp (52) sem þýðir að lokagjöfin verður bara fjögur spil á mann. Þannig að ég held fjögur spil á hendi sé hiklaust réttara þó flest annað geti verið álitamál.

Reglurnar hérna eru byggðar á grunni Dóróþeu.

Gildi spilanna

Spilin hafa öll tölugildi sem notuð eru til að reikna hvernig má taka slagi. Tvistur er 2, þristur er 3 og svo framvegis. Kóngurinn er 13, drottningin 12 og gosinn 11. Ásinn gildir bæði 1 og 14.

Að taka slagi

Þú getur tekið sexu með sexu, ás með ási. Þú getur líka tekið ás með því að leggja tölugildi hans og við tölugildi annars spils. Þannig að þú getur tekið ás (1) og drottningu (12) með kóngi (13). Ef það eru tvistur, þristur og fimma í borði þá gætirðu tekið hvoru tveggja (2+3 & 5) með einni fimmu.

Gangur spilsins

Stokkið spilin. Gjafari gefur hinum fyrst 2 spil, sjálfum sér 2 spil, leggur 2 upp í loft á borðið, hinum 2 spil, sjálfum sér 2 spil og leggur aftur 2 upp í loft á borðið. Þá er hvor með 4 spil og 4 spil snúa upp í loft á borðinu. Afgangurinn af spilunum er geymdur og gefið aftur þegar báðir eru búnir með spilin sem þeir fengu á hendina.

Sá sem ekki gaf á að gera fyrstur og svo er skipst á að gera. Hann má taka eins mörg spil úr borðinu og hægt er með einu spili sem hann hefur á hendi. Ef hann getur ekki tekið slag þarf hann að leggja niður spil.

Þegar öll spilin eru búin af hendi er gefið aftur eins og áður nema að engum spilum er bætt við í borðið (jafnvel þó engin spil séu eftir þar).

Þegar síðasta umferðin er búin (þegar spilin úr stokknum hafa öll verið gefin) og sá sem fékk síðasta slaginn hefur hirt síðustu spilin af borðinu, er farið í stigatalningu. Ef enginn hefur náð 21 þá eru spilin stokkuð upp á nýtt og sá sem ekki gaf síðast skal vera gjafari núna.

Stigatalning

Spaða tvisturinn kallast litla kasína og tígul tían kallast stóra kasína.

  • Litla-kasína gefur 2 stig
  • Stóra-kasína gefur 5 stig
  • Að hreinsa borðið á meðan spilað er („svippur„) gefur 1 stig
  • Sá sem átti síðasta slaginn hirðir restina af spilunum úr borðinu og fær þar að auki 1 stig.
  • Fleiri spaðar í loks pils gefa 1 stig (spaðarnir)
  • Fleiri ásar í lok spils gefa 1 stig (ásarnir)
  • Fleiri spil í bunkanum í lok spils gefa 1 stig (bunkinn)

Það er best að reyna að ná sem flestum spilum, spöðum og ásum í bunkann. Ef bunkarnir eru jafnstórir fær hvorugur stig. Sama gildir ef hvor spilari er með tvo ása.

Sigurvegari

Sá vinnur sem fyrr fær 21 stig. Áður en vinningstölunni er náð eru allar líkur á að spilastokkurinn klárist einu sinni eða oftar.

Arcane – hlutverkaleikjatímaritið

Ég byrjaði að spila hlutverkaleiki (roleplay, spunaspil, hugleiki) árið 1994. En það var á vormánuðum árið 1996 sem ég kíkti inn í Bókabúðina Eddu í göngugötunni á Akureyri (sem var enn göngugata) og rak augun í Arcane: The Roleplaying Magazine.

Ég veit ekki hvernig það kom til að Bókabúðin Edda ákvað að kaupa inn Arcane. Helst dettur mér í hug að búðin hafi samið við útgefendurnir um einhvern pakka. Það er erfitt að útskýra hve óvenjulegt var að finna eitthvað svona á Akureyri. Það bara gerðist ekki. Reyndar seldi Bókabúð Jónasar Magic spil nokkru seinna en fyrir nörda var eiginlega ekkert á Akureyri.

Allavega keypti ég blaðið og ég hélt áfram að heimsækja Eddu mánaðarlega þar til búðin sjálf hætti. Einhverju seinna reyndi ég að kaupa blaðið (og helst eldri eintök með) í gegnum netið og þá hafði útgáfu þess verið hætt.

Ég var að taka til í geymslunni um helgina og rakst þá á kassa sem var m.a. merktur Arcane. Ég ætlaði að grípa hann upp en í staðinn gúgglaði ég og fann öll eintökin frá 1-20 skönnuð í hárri upplausn. Þannig að ég hef verið að glugga í þessi gömlu blöð.

Fyrsta blaðið sem ég keypti var nr. 6 og mér þykir auðvitað vænst um það. Það er ekki erfitt að sjá hvers vegna ég tók eftir því, kross með eldglæringum skreytir forsíðuna.

Efni blaðsins var margskonar. Leiðarinn var skrifaður af fráfarandi ritstjóra og í kjölfar þess þurfti ég að fletta upp orðinu Xenophobia. Það var samt ekki fjallað um útlendingaandúð heldur langaði ritstjóranum að nota X sem upphafsstaf í grein áður en hann hætti.

Mikið af blaðinu er gagnrýni um ný spil eða upprifjun á gömlum og góðum. Það sést að Arcane var stofnað í safnkortaspilaæðinu sem gekk yfir á þessum tíma. Þau eru mjög áberandi og það fór mjög í taugarnar á innilegustu hlutverkaleikurunum.

Fréttatilkynning um Netrunner
Fréttatilkynning um Netrunner – Lesið endilega.

Eitt af spilunum sem fjallað var um í þessu tölublaði kallaðist Netrunner. Það var hannað af Richard Garfield sem er frægastur fyrir að hafa búið til Magic: The Gathering og næstfrægastur fyrir King of Tokyo. Sögusvið Netrunner er það sama og í Cyberpunk 2020 sem var fyrsti hlutverkaleikurinn sem ég spilaði. Spilið fékk 9/10 og ég keypti það auðvitað. En það náði sér aldrei á flug enda of mörg safnkortaspil í boði, ég held að Bjössi hafi kannski keypt það en enginn annar í kringum mig. Spilið var síðan endurgert löngu seinna sem Android: Netrunner og fleiri kannast við það þaðan.

Þarna er líka fjallað um GURPS: Goblins. Hlutverkaleikur þar sem spilarar eru þessi andstyggilegu og heimsku kvikyndi. Bjössi keypti það en mig minnir að varla hafi verið hægt að spila það vegna þess að það fór bara út í kjánalæti.

Ein eftirminnileg grein fjallaði um það þegar spilapersónur deyja, mismunandi sjónarhorn spilara og stjórnenda. Alveg bráðnauðsynlegar pælingar. Það voru líka greinar um að búa til eigin leik, fróðleg yfirferð um gufupönk (ég held ég hafi ekki heyrt á gufupönk fyrren að ég las um það þarna.) og  ævintýri sem hægt var að nota í ótal spilum

Smellið á myndina til að lesa ruglið í heild sinni.

Forsíðugreinin fjallaði um andúð kristilegra afturhaldsafla í Bandaríkjunum á hlutverkaleikjum. Það er í sjálfu sér alveg stóráhugaverð saga. Þegar ég las hana aftur núna tók ég eftir því að vitnað er í Neil Gaiman þarna (og dómur um eina Sandman bók!) en ég hef örugglega ekkert vitað hver það var. Eftirminnilegast er auðvitað teiknimyndasaga eftir Jack Chick (mjög ruglaður kristilegur afturhaldsseggur) sem fjallar um að hlutverkaleikir leiði til svartagaldurs og sjálfsmorða – en Jesús bjargar auðvitað sínu fólki (það var víst gerð mynd eftir þessu – líklega í háði).

Samkvæmt því sem ég hef lesið hætti Arcane útgáfu vegna þess að auglýsingatekjur drógust saman. Það gerðist aðallega vegna þess að stærsti auglýsandinn – TSR sem gaf út Dungeons & Dragons – fór á hausinn. Þar töldu menn að safnkortaspil bæru helst ábyrgðina vegna þess að spilarar hefðu ekki efni á að kaupa bæði bækur Magic spil. Leifarnar af TSR síðan voru keyptar af Wizards of the Coasts sem hafði einmitt gefið út Magic: The Gathering.

En ég er allavega þakklátur fyrir að hafa fengið svona innsýn inn í stærri heim hlutverkaleikja um hríð. Ég man ekki eftir því að hafa, fyrr eða síðar, mætt í hverjum mánuði í bókabúð til að kaupa tímarit. Endilega kíkið á það ef þið hafið áhuga á hlutverkaleikjum.

Frá MtG til Pokémon

Það að hjálpa drengjunum að setja saman Pokémon-bunka í gær kallaði fram margar minningar um það þegar við keyptum okkar fyrstu Magic: The Gathering spil. Var það 1995? Líklega. Við höfðum allavega verið að spila hlutverkaleiki í einhvern tíma áður og það náði hápunkti í kennaraverkfallinu 1995. Þetta voru allavega ég, Starri, Bjössi og Þórður.

Við fengum senda bunka og boostera frá Fáfni (Nexus) og fórum síðan að ákveða hvernig bunkarnir okkar yrðu samsettir og um leið hvað liti við myndum leggja áherslu á. Síðan gátum við fara að skiptast á spilum. Ég valdi grænan og rauðan, eld og jörð.

Við fengum m.a. spil úr Fallen Empires línunni. Ég veit ekki hvort það var á tilboði eða hvað. Allavega eru þessi spjöld ekki hátt skrifuð í sögu MtG, líklega af því að það var framleitt alltof mikið af þeim. Við vissum það ekkert og ég var allavega hrifinn af mörgum FE spilunum sem ég fékk. Þá höfðuðu teikningarnar til mín.
Fljótlega eftir þetta kom Ice Age viðbótin og það litaði stokkana okkar töluvert. Ég safnaði í einhvern tíma en hætti síðan alveg. Aðallega kannski af því að ég nennti ekki að læra endalaust af nýjum reglum sem var bætt við með nýjum spilum.

En ég var kominn með ákaflega góðan stokk, allavega á okkar akureyska mælikvarða. Ég lagði áherslu á spjöld sem höfðu ekki háan kostnað. Þannig að ég var með eldingar og lítil dýr og álfa sem hægt var að setja út fljótt og örugglega áður en andstæðingurinn  hafði komið sér af stað. Þetta þýddi reyndar að ég notaði ekki spilið sem hafði verið miðpunkturinn í stokknum mínum til að byrja með, sem ég fékk í fyrstu pökkunum mínum, Force of Nature.

Á þessum árum tók maður reglulegar reisur til Reykjavíkur til að fara í bíó, skreppa í safnarabúðir að kaupa vídeóspólur og síðast, en ekki síst, til að fara í Fáfni og Míþríl.

Ég man að ég var einhvern tímann í Míþríl að kaupa spil. Ég fékk Icy Manipulator og um leið þá kom annar viðskiptavinur, sem vissi greinilega mikið meira en ég um Magic, og vildi skipta til að fá spjaldið. Ég var ekki alveg viss hvað ég ætti að gera af því að ég var vanur að skipta bara við vini mína. En hann hélt áfram að bjóða mér fleiri og fleiri spjöld. Að lokum gaf ég eftir þegar ég fékk einhvern dreka. En mér leið alltaf svo óþægilega af því að ég vissi ekki nógu mikið um verðgildi spila. Ég sá eiginlega eftir þessu og leið ekki einu sinni betur eftir að hafa flett upp verðgildunum löngu seinna og komist að því að ég hafði grætt vel og vandlega samkvæmt þeim.

Ég reyndi fyrir nokkrum árum að kaupa tvo einvígisstokka af MtG en þá kom einmitt upp að það hafði endalaust verið bætt við reglum og ég nennti varla að læra þær. En það kemur fiðringur að sjá drengina prufa.

 

Látbragð verður til

Mér finnst þetta fyndin mynd.Ég er þá búinn að gefa út mitt annað spil. Það heitir Látbragð og er, eins og hið frumlega nafn gefur til kynna, látbragðsleikur. Ég held að hugmyndin hafi fyrst kviknað þegar ég fór að velta fyrir mér hvort það væri í raun og veru til spil sem héti Actionary.

Þetta hefur væntanlega verið árið 2009 og ég var niðursokkinn í leiki því ég var að klára meistararitgerð mína í þjóðfræði sem fjallaði um leiki. Ég er í raun skemmtilega týpan af leikjafræðingi, sumsé ekki hagfræðingur.

Fyrir þá sem ekki vita þá er Actionary bara Pictionary þar sem orðin eru leikin í stað þess að teikna þau. Ég hafði oft heyrt því haldið fram að málið væri ekki svo einfalt og þetta væri alveg sérstakt spil. Google leiddi í ljós að Actionary var ekki til.

En ég fór að hugsa hvort það þyrfti ekki alvöru látbragðsleik. Spil sem væri búið til í kringum hugmyndina að leika. Þannig að ég fór að setja upp lista með kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, leikritum, bókum, fólki og málsháttum.

Árið 2009 gáfu tveir fyrrverandi vinnufélagar mínir af Stöð 2, þeir Steini og Ölli, út spilið Spurt að leikslokum. Ég fylgdist með útgáfunni og árið 2010 fórum við í umræður um að gefa út látbragðsspil. Það varð ekkert úr því en það var gott að spjalla við þá og ráðin frá þeim komu sér vel seinna meir.

Árið 2015 ákvað ég nefnilega að gefa út spil í gegnum söfnun á Karolina Fund. Það varð #Kommentakerfið en mögulega hefði Látbragð getað komið út þá strax.

Í ár var spurningin hvort ég ætti að gefa út #Kommentakerfið 2016 eða Látbragð. Ég endaði með að fara í gegnum listana mína og ákvarða hvaða flokkar yrðu notaðir – leikritin duttu út enda oft sömu titlar bæði í bókum og kvikmyndum. Ég sleppti því að safna á Karolina Fund í þetta skipti enda ekki jafn stór grunnfjárfesting núna.

Núna á miðvikudaginn í síðustu viku fékk ég síðan upplagið af spilinu í hendur. Á fimmtudaginn kom ég spilinu í Spilavini, Nexus og Heimkaup. Núna er bara að sjá hvernig markaðsherferðin gengur.

#Kommentakerfið – Lokametrarnir á Karolina Fund

samsaeriNú er söfnunin mín a Karolina Fund á lokametrunum. #Kommentakerfið hefur náð lágmarkinu. Það mun koma út. Nú er augljóslega tíminn til að velta fyrir sér hvað ég hefði getað gert betur og velta mér upp úr því.

Stóra erfiða spurningin er auðvitað grunnmarkið. Ég var lengst af að velta fyrir mér að hafa það 6000 evrur en lækkaði það í 5000. Nú er ég kominn vel yfir það og fólk gæti sagt að ég hefði átt að hafa hærra mark. Ég er ekki viss. Ég setti markið og bjóst við að ná því ekki bara heldur fara yfir það. Það er ekkert sem segir að sami skriður hefði komist á söfnunina ef ég hefði sett hærra mark. Kannski hefði ég bara skriðið yfir lágmarkið.

Næst stærsta spurningin var síðan hve hátt verð ég ætti að rukka fyrir hvert spil. Ég setti frekar hógvært mark. Ég græði líklega ekkert strax en get gert það með sölu í búðir. Ég veit ekkert hvað það verður mikið en það verða líklega þolanleg mánaðarlaun miðað við hve verkefnið hefur verið skemmtilegt.

Ég setti aukamarkmið, annars vegar 15.000 evrur og hins vegar 30.000 evrur, ef þau hefðu náðst þá hefði ég fjölgað spilunum í kassanum. Það lítur út fyrir að þau muni ekki nást. Í mínum huga er enginn spurning að ég hefði ekki getað haft þau mörk lægri. Það var bara stærðfræði. Allir hefðu grætt ef þetta hefði náðst en lægri mörk hefðu mögulega komið í bakið á mér.

Almennt held ég að kynningarmálin hafi tekist vel. Margir fjölluðu um spilið. Það eina sem pirraði mig var að Facebook var með leiðindi með auglýsingarnar. Tvisvar var ég búinn að fá samþykkta auglýsingu, sem átti að byrja á miðnætti, sem síðan var hafnað seinna (fyrir of mikinn texta).

Það sem ég gerði verulega rétt var að fá góða hugmynd. Það er ekkert sem er betra en það.

Yfir heildina er ég sumsé bara sáttur við allt en ég mun samt vaka til miðnættis og endurhlaða síðunni eins og ég gerði við Ugluna þegar ég var að bíða eftir einkunn sem réð hvort maður fengi námslán.

#Kommentakerfið – Síðasti dagurinn runninn upp!

KommentakerfiðÞá er runninn upp síðasti dagurinn í söfnun minni á Karolina Fund. Það er ljóst að spilið verður gefið út en óvíst hve stórt upplagið verður. Það ræðst töluvert af því hve góður dagurinn í dag verður. Auðvitað er séns á að spjalla bara við mig ef þið treystið ykkur ekki til að kaupa í gegnum Karolina Fund. En dagurinn í dag er helgaður söfnuninni þar.

Endilega farið þangað. Endilega deilið tengli á söfnunina. Endilega hvetjið fólk til að kaupa.

Það er hægt að kaupa fleiri en eitt spil í einu. Bara með því að hækka upphæðina sem kemur á greiðslusíðunni. Eitt spil kostar 30 evrur, tvö spil 55 evrur, þrjú spil 80 evrur, fjögur spil 105 evrur og fimm spil á 130 evrur. Þið getið alltaf bætt við 25 evrum til að fá aukaspil.

#Kommentakerfið á síðasta séns

timinn-memeÁ morgun er síðasti dagurinn til að kaupa #Kommentakerfið í forsölu á Karolina Fund. Það er rétt að benda á að spilið verður varla á betra verði í bráð. Verslanir þyrftu líklega að spilið þetta með tapi til að það yrði á svona góðu verði.

Endilega drífið í þessu. Þetta er ógeðslega skemmtilegt spil. Þið getið meira að segja séð það spilað hérna í Ísland í dag.

#Kommentakerfið og fundin ljóð

illska-memeÞegar ég hef verið að safna kommentum fyrir #Kommentakerfið hefur mér ítrekað komið til hugar hugmyndin um fundin ljóð.

Ef þið vitið ekki hvað fundin ljóð eru þá er ég örugglega ekki maðurinn til að útskýra það. En í stuttu máli eru það ljóð sem eru byggð á texta eftir einhvern annan og settur í nýtt samhengi til að búa til ljóð.

Þegar maður tekur komment og fyrirsögn úr sínu rétta samhengi til þess að búa til eitthvað glænýtt þá er það, að einhverju leyti, sambærilegt við fundið ljóð.

Kommentið á myndinni hér er kannski frábært dæmi um þetta. Þarna er kommentari að hrósa bók Eiríks Arnar sem heitir Illska. Ég er hins vegar orðinn svo vanur að sjá útúrsnúninga möguleika að mér datt strax í hug að þetta væri frábært komment við alveg ótal fréttum, bæði fréttir um eitthvað sem er slæmt og einnig það sem er gott. Hið síðarnefnda er í raun fyndara. En hér er ég kannski búinn að eyðileggja brandarann.

Mér finnst þessi skilgreining Lomma á fundnum ljóðum ágæt.

fundin ljóð er þegar ma’ kemur að verki einhvers og segir:
nei, þetta fann ég. ég á.

uppnefnir upprunalega höfundinn frumbyggja og ósiðmenntaðan.

eignar sér öll læk.

ég prufaði svoleiðis í dag.

Nú er ég kannski einmitt á mörkunum að kalla höfunda athugasemdanna „ósiðmenntaða“ eða allavega eru einhverjir sem gera það. Þetta rímar líka ágætlega við ýmislegt úr þjóðfræðinni. Við höldum á lofti nafni Jóns Árnasonar sem safnaði saman þjóðsögum hálf-siðmenntaðrar þjóðar en við gleymum öll hverjir það voru sem sögðu og sendu honum sögurnar. Ég er alveg nægilega sjálfsgagnrýninn til þess að sjá sjálfan mig í því hlutverki.

En er þá spilið #Kommentakerfið listrænn gjörningur? Ekki nema í einhverjum póstmódernískum skilningi þar sem allt er list. Í mínum huga er þetta aðallega bara brandari og leið til að hlæja með vinum sínum.

#Kommentakerfið í Grapevine

krutt-memeUm daginn fékk blaðamaður Grapevine lánað #Kommentakerfið till að prufuspila það. Nú er grein hans komin á netið og hún er, merkilegt nokk, mjög jákvæð.

Söfnunin klárast annars á miðnætti á mánudagskvöld þannig að þið ættuð að drífa ykkur að kaupa.

Þið getið lesið umfjöllunina eða bara það sem blaðamaðurinn tvítaði.