Arcane – hlutverkaleikjatímaritið

Ég byrjaði að spila hlutverkaleiki (roleplay, spunaspil, hugleiki) árið 1994. En það var á vormánuðum árið 1996 sem ég kíkti inn í Bókabúðina Eddu í göngugötunni á Akureyri (sem var enn göngugata) og rak augun í Arcane: The Roleplaying Magazine.

Ég veit ekki hvernig það kom til að Bókabúðin Edda ákvað að kaupa inn Arcane. Helst dettur mér í hug að búðin hafi samið við útgefendurnir um einhvern pakka. Það er erfitt að útskýra hve óvenjulegt var að finna eitthvað svona á Akureyri. Það bara gerðist ekki. Reyndar seldi Bókabúð Jónasar Magic spil nokkru seinna en fyrir nörda var eiginlega ekkert á Akureyri.

Allavega keypti ég blaðið og ég hélt áfram að heimsækja Eddu mánaðarlega þar til búðin sjálf hætti. Einhverju seinna reyndi ég að kaupa blaðið (og helst eldri eintök með) í gegnum netið og þá hafði útgáfu þess verið hætt.

Ég var að taka til í geymslunni um helgina og rakst þá á kassa sem var m.a. merktur Arcane. Ég ætlaði að grípa hann upp en í staðinn gúgglaði ég og fann öll eintökin frá 1-20 skönnuð í hárri upplausn. Þannig að ég hef verið að glugga í þessi gömlu blöð.

Fyrsta blaðið sem ég keypti var nr. 6 og mér þykir auðvitað vænst um það. Það er ekki erfitt að sjá hvers vegna ég tók eftir því, kross með eldglæringum skreytir forsíðuna.

Efni blaðsins var margskonar. Leiðarinn var skrifaður af fráfarandi ritstjóra og í kjölfar þess þurfti ég að fletta upp orðinu Xenophobia. Það var samt ekki fjallað um útlendingaandúð heldur langaði ritstjóranum að nota X sem upphafsstaf í grein áður en hann hætti.

Mikið af blaðinu er gagnrýni um ný spil eða upprifjun á gömlum og góðum. Það sést að Arcane var stofnað í safnkortaspilaæðinu sem gekk yfir á þessum tíma. Þau eru mjög áberandi og það fór mjög í taugarnar á innilegustu hlutverkaleikurunum.

Fréttatilkynning um Netrunner
Fréttatilkynning um Netrunner – Lesið endilega.

Eitt af spilunum sem fjallað var um í þessu tölublaði kallaðist Netrunner. Það var hannað af Richard Garfield sem er frægastur fyrir að hafa búið til Magic: The Gathering og næstfrægastur fyrir King of Tokyo. Sögusvið Netrunner er það sama og í Cyberpunk 2020 sem var fyrsti hlutverkaleikurinn sem ég spilaði. Spilið fékk 9/10 og ég keypti það auðvitað. En það náði sér aldrei á flug enda of mörg safnkortaspil í boði, ég held að Bjössi hafi kannski keypt það en enginn annar í kringum mig. Spilið var síðan endurgert löngu seinna sem Android: Netrunner og fleiri kannast við það þaðan.

Þarna er líka fjallað um GURPS: Goblins. Hlutverkaleikur þar sem spilarar eru þessi andstyggilegu og heimsku kvikyndi. Bjössi keypti það en mig minnir að varla hafi verið hægt að spila það vegna þess að það fór bara út í kjánalæti.

Ein eftirminnileg grein fjallaði um það þegar spilapersónur deyja, mismunandi sjónarhorn spilara og stjórnenda. Alveg bráðnauðsynlegar pælingar. Það voru líka greinar um að búa til eigin leik, fróðleg yfirferð um gufupönk (ég held ég hafi ekki heyrt á gufupönk fyrren að ég las um það þarna.) og  ævintýri sem hægt var að nota í ótal spilum

Smellið á myndina til að lesa ruglið í heild sinni.

Forsíðugreinin fjallaði um andúð kristilegra afturhaldsafla í Bandaríkjunum á hlutverkaleikjum. Það er í sjálfu sér alveg stóráhugaverð saga. Þegar ég las hana aftur núna tók ég eftir því að vitnað er í Neil Gaiman þarna (og dómur um eina Sandman bók!) en ég hef örugglega ekkert vitað hver það var. Eftirminnilegast er auðvitað teiknimyndasaga eftir Jack Chick (mjög ruglaður kristilegur afturhaldsseggur) sem fjallar um að hlutverkaleikir leiði til svartagaldurs og sjálfsmorða – en Jesús bjargar auðvitað sínu fólki (það var víst gerð mynd eftir þessu – líklega í háði).

Samkvæmt því sem ég hef lesið hætti Arcane útgáfu vegna þess að auglýsingatekjur drógust saman. Það gerðist aðallega vegna þess að stærsti auglýsandinn – TSR sem gaf út Dungeons & Dragons – fór á hausinn. Þar töldu menn að safnkortaspil bæru helst ábyrgðina vegna þess að spilarar hefðu ekki efni á að kaupa bæði bækur Magic spil. Leifarnar af TSR síðan voru keyptar af Wizards of the Coasts sem hafði einmitt gefið út Magic: The Gathering.

En ég er allavega þakklátur fyrir að hafa fengið svona innsýn inn í stærri heim hlutverkaleikja um hríð. Ég man ekki eftir því að hafa, fyrr eða síðar, mætt í hverjum mánuði í bókabúð til að kaupa tímarit. Endilega kíkið á það ef þið hafið áhuga á hlutverkaleikjum.

Hlutverkaleikir og kennaraverkfallið 1995

Það er líklega ekkert skrýtið en allt þetta tal um kennaraverkfall vekur upp hjá mér minningar um kennaraverkfallið 1995. Það náði bæði til grunn- og framhaldsskóla. Þá var ég í tíunda bekk. Það sem ég afrekaði helst var að spila hlutverkaleiki.

Ég held að það hafi verið á haustmánuðum 1994 þegar Gunnlaugur Starri frændi minn dró mig í að spila. Þegar hann nefndi þetta fyrst hugsaði ég helst til lélegra sjónvarpsmynda frá níunda áratugnum um hve hættulegt Dungeons and Dragons væri en ég lét til leiðast. Það var Þórður Rafn sem stjórnaði spilamennskunni og spilið var Cyberpunk 2020. Ég man ekki nákvæmlega hverjir voru fyrst þegar við vorum að spila – fyrir utan okkur frændurna og Tóta. Líklega var Ásgeir þar en hann datt fljótlega út. Hann hefur aldrei verið svona nörd. Kannski var Svavar með frá upphafi – ég veit ekki. Hemmi datt inn í spilamennskuna fljótlega með sinn ofur-karakter sem var með grunsamlega mikið hæfileikum og vopnum. Eva, sem var þá kærastan hans, spilaði síðan aðeins með okkur.

Um jólin 1994 kom út íslenska “spunaspilið” Askur Yggdrasils. Ég fékk ekki spilið en einhverjir okkar eignuðust það. Það var því spilað um og uppúr jólum ásamt öðrum kerfum. Mér skilst reyndar að margir sem fengu spilið að gjöf hafi gefist upp á því enda vissu þeir ekkert hvernig það virkaði þar sem ekkert spilaborð fylgdi.

Kennaraverkfallið hófst 17. febrúar sem hentaði ágætlega fyrir okkur. Í minningunni þá var þetta eiginlega spilamennska upp á hvern einasta dag. Bjössi bættist við á einhverjum tímapunkti og þar spiluðum við Werewolf: The Apocalypse (sem ég keypti að lokum af honum).

Verkfallinu lauk og þegar kom að útskriftarferðinni til Reykjavíkur var ég ekki bara með það á dagskránni að fara ótal sinnum í bíó og heimsækja safnarabúðir heldur ætlaði ég að heimsækja búðina Goðsögn á Rauðárstíg. Þegar ég kom þar var miði á glugganum þar sem tilkynnt var um lokun hennar en vísað á búðina Fáfni.

Ég skoðaði hitt og þetta í Fáfni en ég var nokkurn veginn búinn að ákveða að kaupa bækur í Vampire: The Masquerade. Það vildi svo vel til að á sama tíma og ég þá var annar að velta sér fyrir sér að kaupa Vampire. Sá var reyndar líka Akureyringur ef ég man rétt. Hann fékk allar sínar upplýsingar frá ákaflega fróðum (og duglegum) sölumanni í búðinni. Hinn Akureyringurinn keypti nær allt sem stungið var upp á. Ég tók í kjölfarið og keypti kjarnabókina og eitt ævintýri (Dark Colony).

Ég átti eftir að versla oft í Fáfni þó hún hafi nokkrum árum seinna breytt um nafn og orðið Nexus. Sölumaðurinn duglegi er ennþá duglegur og í einhverri heimsókn þarna lærði ég að hann heitir Gísli. Ég átti að lokum hillu af bókum tengdum Vampire og hinum svokallaða World of Darkness. Ekki allt keypt hjá Gísla en þó flest. Mig minnir þó að ég hafi fengið heilmargt þegar verslunin Míþríl hætti á sínum tíma. Ég keypti eiginlega ekkert af bókum eftir að Vampire fór í þriðju útgáfu (ég spilaði aðra útgáfu) þar sem mér fannst sú útgáfa taka sig full alvarlega. Þegar ég stjórnaði spilum þá var ég að stjórna World of Darkness.

Bækurnar eru núna flestar ofan í kjallara en satt best að segja fæ ég ennþá svona kitl og langar að spila en ég hef ekki gert það í árafjöld.