Kommentakerfið: Fréttahugmyndir um spil og spilahönnuð

icehot-memeNú er rétt rúm vika í að söfnunin mín klárist. Eitt sem ég hef ekki enn notað í kynningu á Kommentakerfinu er sú staðreynd að ég er leikjafræðingur. Ekki leiðinlega hagfræðitýpan (reyndar er þetta væntanlega skemmtilegasta hagfræðin) heldur þjóðfræðitýpan. Ég hef raunverulega eytt gríðarlegum tíma í að lesa mér til um leiki. Ég hef velt fyrir mér hver sé munurinn á spili og leik. Hvað er íþrótt? Hvað er keppni? Hvernig er töfrahringurinn einangraður. Ég hef ekki öll svörin en ég get talað endalaust um þetta. Hápunktur leikjafræði minnar er örugglega meistararitgerð mín um Eve Online en ég hef líka afrekað að gera útvarpsþátt um fyrstu útgáfuna af Monopoly/Matador sem kom út á Íslandi.

Síðan er augljóslega þessi skrýtna staðreynd að ég er með fjórar háskólagráður. Það var auðvitað óvart sem það gerðist en ég held að það séu ekki margir spilahönnuðir með svona margar gráður. Allavega ekki á Íslandi.

Ég hef ekki endilega komið til skila áliti mínu á kommentakerfum almennt. Auðvitað er hægt að lesa það út úr spilinu en það er líka hægt að mistúlka það. Í sjálfu sér pirrar það mig ekki mest að fólk sé dónalegt eða reitt. Ég eyddi nokkrum árum í að vinna verkamannavinnu og menn voru ekki mjög penir í kaffistofuspjallinu. Það sem pirrar mig sérstaklega við kommentakerfin er innihaldsleysið. Við erum hérna með tól sem gæti verið bæði aðhald með valdhöfum og fjölmiðlum en það er ákaflega sjaldan vel nýtt. Góð komment hverfa í ólguna frá þeim sem afrekuðu aldrei neitt meira en að lesa fyrirsögnina. Það er dapurlegt.

Síðan er náttúrulega hin óneitanlega staðreynd að ég hef náttúrulega sjálfur tjáð reiði mína í kommentakerfum (og stafsetningar- og prentvillur eru víða til eftir mig). Ekkert alvarlegt þó eitthvað sem hægt er að taka úr samhengi (og ég hef sett þannig komment eftir sjálfan mig í Kommentakerfið). En ég er vanari að reyna að vera gagnrýninn eða fyndinn í mínum kommentum. Ég reyni nú held ég aldrei að vera fyndinn í alvöru fréttum en aðrar fréttir, og komment við þær, kalla nú á að maður reyni sig við hnyttni.

Kommentakerfið og slagurinn við Bryndísi

BryndísSíðustu vikur hafa verið skrýtnar. Ég hef verið reglulega í fjölmiðlum en það sem er skrýtnara er að Bryndís vinkona mín er á sama tíma á fullu. Hún stendur fyrir málefnið sem ég hef samviskubit fyrir að vera ekki að helga mér af því að ég er upptekinn við að auglýsa #Kommentakerfið.

Sumsé, rétt eftir að #Kommentakerfið fór af stað og Svarthöfðagötunafnið fór út um allan heim þá fer Bryndís af stað með átak að vekja athygli á nauðsyn þess að taka við fleiri flóttamönnum til landsins. Þá er skondin tilviljun að myndin sem birtist hve oftast af henni var tekin af mér um daginn þegar hún fékk að prufa #Kommentakerfið. Stuttu eftir birtist líka tilvitnun í mig, víða um heim, af flóttamannaviðburðinum hennar Bryndísar.

Um daginn spjallaði ég við blaðamann Grapevine um Kommentakerfið og í gær hafði hann samband við mig, hálfmiður sín, og sagði mér að ég hefði ekki komist í blaðið sem var að koma út. Þetta fer á netið þannig að ég er ekkert miður mín. En ég hló þegar ég sá að Bryndís er framan á Grapevine. Ekki af því að mér finnist málefnið hlægilegt enda erum við Bryndís á sömu línu. En Bryndís og flóttamennirnir bömpuðu mér úr prentútgáfunni. Sem er auðvitað fínt af því að það er miklu mikilvægara efni.

Maður hefur þá tilfinningu að Ísland sé pínulítið. Ekki hverfur sú tilfinning þegar maður sér Vilborgu og Emil Hjörvar saman á Bókmenntahátíð að tala við David Mitchell.

En fræga vinkona mín á athugasemd í Kommentakerfinu. Hún dúndraði henni á mig, óvart, þegar ég var að segja henni frá hugmynd minni um spilið. Ég held að hún hafi meiraðsegja náð að setja sína athugasemd út þegar við vorum að spila um daginn.

Ef þið hafið áhyggjur af því að ég sé ekki nóg í fjölmiðlum þá komst ég í viðskiptafréttir Mbl í dag. Það er í fyrsta skipti sem ég er í viðskiptunum.

Kommentakerfið – útgáfa tryggð

100-klipptÍ gær fór söfnunin fyrir Kommentakerfinu á Karolina Fund yfir 5000 evru markið. Það voru ekki liðnar tvær vikur frá því söfnunin fór af stað. Það þýðir að spilið verður gefið út. Það eru 19 dagar eftir af söfnuninni. Það þýðir að það er enn möguleiki á að stækka pakkann. Það verða sumsé fleiri spil í kassanum ef ég safna 15 þúsund evrum.Ég þarf líka að ganga frá öllu því sem snertir „verðlaunin“ í sölunni. Ég er sumsé ekki að hlaupa í prentsmiðjuna. Það geri ég ekki fyrren söfnunin er búin. Ég þarf líka að hafa samband við búðir varðandi forsölu. Sumsé, bjóða þeim búðum betri kjör sem kaupa fyrirfram. Kannski er allt það erfiðasta eftir. Sérstaklega endalaust reikningur.En samkvæmt öllu ætti spilið að vera komið úr prentun í byrjun nóvember. Ég held að ég ætti auðveldlega að geta staðið við það (ef ekkert mikið kemur á óvart).Þetta er allavega alvöru.

Kommentakerfið komið í 90%

samsaeriÉg er kominn upp í 90% í söfnun minni á Karolina Fund. Það er því eiginlega óhugsandi annað en að spilið verði framleitt. Ég þarf þá væntanlega ekki að naga neglurnar eftir þrjár vikur þegar söfnunin klárast.

Það virðist hafa komið kippur með mánaðarmótunum. Hvað ætli það taki langan tíma að komast alla leið?

Kommentakerfið – hálfur sigur

50%Í gær fór ég af stað með söfnun fyrir spilinu Kommentakerfið. Rétt áðan fór ég yfir 50% markið. Reyndar námundar kerfið upp á við en ég neitaði að telja það gilt fyrren það væri í alvöru búið að rjúfa múrinn.

Ég er því farinn að hugsa aðeins um aukatakmörkin sem verða að alvöru ef ég safna hærri upphæðum.

Nútíminn þefaði þetta strax uppi.

Í gær fór ég í stutt viðtal í Síðdegisútvarpinu …Síðdegisútvarpinu …og á miðvikudaginn var ég í Harmageddon Harmageddon.

Kommentakerfið í forsölu

PrufueintakÞá er stóri dagurinn runninn upp. Ég er að láta gamlan draum rætast með því að gefa út spil.

Kommentakerfið á Karolina Fund.

Eftir að ég gaf Eygló spilið Cards Against Humanity þá datt mér í hug að þýða það. Ekki til útgáfu. Bara til að setja á netið. En það reyndist óþýðanlegt. Nokkru seinna datt mér í hug að hægt væri að aðlaga hugmyndina að íslenskum aðstæðum. Í raun með því að gerbreyta því en halda þeim grunni sem Cards Against Humanity hefur frá spilum eins og Apples to Apples.

Hugmyndin sem ég fékk var að nota þemað „kommentakerfi vefmiðlana“. Það virkar sumsé þannig að einn spilari tekur að sér hlutverk ritstjóra í hverri umferð og leggur út spjald með fyrirsögn. Hinir spilararnir geta valið úr þeim tíu kommentaspjöldum sem þeir hafa á hendi. Þegar allir hafa lagt út spil þá velur ritstjórinn hvaða komment honum þótti fyndnast í samhenginu. Sá sem átti fyndnasta spilið fær stig. Þá tekur næsti spilari við hlutverki ritstjórans.

Ég prufaði að prenta spilið út á venjulegan pappír og það svínvirkaði. Fólk hló og hló. Ég tók þá næsta skref og lét prenta fyrir mig prufuútgáfu. Það virkaði enn betur. Fólk grét úr hlátri. Ég ákvað þá að nota Karolina Fund til að safna fyrir prentun með forsölu.

Fyrir þá sem vita ekki hvernig Karolina Fund virkar
Ég er með ákveðið grunntakmark á Karolina Fund, 5000 evrur, og ef mér tekst að safna þeim pening þá eru allir sem tóku þátt rukkaðir um áheitið sitt. Ef það tekst ekki þá er öllu skilað og ég fæ engan pening. Það tryggir það að ég hafi nægan pening til að gefa spilið út. Það er því engin áhætta fyrir kaupanda eða framleiðanda.

Ég gef mér október í að láta prenta spilið og stefni á afhendingu í nóvember.

Kommentakerfið á Karolina Fund.

Til að hjálpa væntanlegum kaupendum fór ég með frumtýpur af spilinu, reyndar með færri spjöldum en lokaútgáfan er með, í verslanirnar Nexus og Spilavini.

Hlutverkaleikir og kennaraverkfallið 1995

Það er líklega ekkert skrýtið en allt þetta tal um kennaraverkfall vekur upp hjá mér minningar um kennaraverkfallið 1995. Það náði bæði til grunn- og framhaldsskóla. Þá var ég í tíunda bekk. Það sem ég afrekaði helst var að spila hlutverkaleiki.

Ég held að það hafi verið á haustmánuðum 1994 þegar Gunnlaugur Starri frændi minn dró mig í að spila. Þegar hann nefndi þetta fyrst hugsaði ég helst til lélegra sjónvarpsmynda frá níunda áratugnum um hve hættulegt Dungeons and Dragons væri en ég lét til leiðast. Það var Þórður Rafn sem stjórnaði spilamennskunni og spilið var Cyberpunk 2020. Ég man ekki nákvæmlega hverjir voru fyrst þegar við vorum að spila – fyrir utan okkur frændurna og Tóta. Líklega var Ásgeir þar en hann datt fljótlega út. Hann hefur aldrei verið svona nörd. Kannski var Svavar með frá upphafi – ég veit ekki. Hemmi datt inn í spilamennskuna fljótlega með sinn ofur-karakter sem var með grunsamlega mikið hæfileikum og vopnum. Eva, sem var þá kærastan hans, spilaði síðan aðeins með okkur.

Um jólin 1994 kom út íslenska „spunaspilið“ Askur Yggdrasils. Ég fékk ekki spilið en einhverjir okkar eignuðust það. Það var því spilað um og uppúr jólum ásamt öðrum kerfum. Mér skilst reyndar að margir sem fengu spilið að gjöf hafi gefist upp á því enda vissu þeir ekkert hvernig það virkaði þar sem ekkert spilaborð fylgdi.

Kennaraverkfallið hófst 17. febrúar sem hentaði ágætlega fyrir okkur. Í minningunni þá var þetta eiginlega spilamennska upp á hvern einasta dag. Bjössi bættist við á einhverjum tímapunkti og þar spiluðum við Werewolf: The Apocalypse (sem ég keypti að lokum af honum).

Verkfallinu lauk og þegar kom að útskriftarferðinni til Reykjavíkur var ég ekki bara með það á dagskránni að fara ótal sinnum í bíó og heimsækja safnarabúðir heldur ætlaði ég að heimsækja búðina Goðsögn á Rauðárstíg. Þegar ég kom þar var miði á glugganum þar sem tilkynnt var um lokun hennar en vísað á búðina Fáfni.

Ég skoðaði hitt og þetta í Fáfni en ég var nokkurn veginn búinn að ákveða að kaupa bækur í Vampire: The Masquerade. Það vildi svo vel til að á sama tíma og ég þá var annar að velta sér fyrir sér að kaupa Vampire. Sá var reyndar líka Akureyringur ef ég man rétt. Hann fékk allar sínar upplýsingar frá ákaflega fróðum (og duglegum) sölumanni í búðinni. Hinn Akureyringurinn keypti nær allt sem stungið var upp á. Ég tók í kjölfarið og keypti kjarnabókina og eitt ævintýri (Dark Colony).

Ég átti eftir að versla oft í Fáfni þó hún hafi nokkrum árum seinna breytt um nafn og orðið Nexus. Sölumaðurinn duglegi er ennþá duglegur og í einhverri heimsókn þarna lærði ég að hann heitir Gísli. Ég átti að lokum hillu af bókum tengdum Vampire og hinum svokallaða World of Darkness. Ekki allt keypt hjá Gísla en þó flest. Mig minnir þó að ég hafi fengið heilmargt þegar verslunin Míþríl hætti á sínum tíma. Ég keypti eiginlega ekkert af bókum eftir að Vampire fór í þriðju útgáfu (ég spilaði aðra útgáfu) þar sem mér fannst sú útgáfa taka sig full alvarlega. Þegar ég stjórnaði spilum þá var ég að stjórna World of Darkness.

Bækurnar eru núna flestar ofan í kjallara en satt best að segja fæ ég ennþá svona kitl og langar að spila en ég hef ekki gert það í árafjöld.

Netrunner spilaspilið

Ég meina Netrunner kortaspilið eða ccg (collectible card game).

Á þeim tíma sem ég var nörd sem spilaði kortaspilið Magic: The Gathering kom út annað slíkt spil sem hét Netrunner. Það byggði á Cyperpunk heiminum sem var einmitt fyrsti hlutverkaleikurinn sem ég spilaði. Þannig að ég var svolítið spenntur og keypti það. Mig minnir hins vegar að það hafi enginn annar keypt það nema mögulega Bjössi (kannski spilaði hann þó bara með mitt eintak). Það féll alveg í skuggann af Magic og við spiluðum það ekki oft.

Það er eftirminnilegt hve skemmtilegt þetta spil var. Það var líka óvenjulegt að því leyti að í pakkanum sem maður keypti voru stokkar fyrir tvo leikmenn þannig að, ólík t.d. Magic, þá gat maður spilað þetta án þess að kaupa nokkuð meira.

Þrátt fyrir að almennt hafi gagnrýnendur verið á sama máli og ég varðandi gæði Netrunner sökk spilið fljótt og örugglega.

Ég verð að játa að það var ekki fyrren í síðustu heimsókn minni í Nexus sem ég tók eftir því að búið er að endurútgefa spilið í örlítið breyttri mynd. Það kemur núna í kassa eins og borðspil. Það virðist fá jafngóða ef ekki betri dóma en fyrsta útgáfan. Hverjir hafa prufað þetta og hvað finnst ykkur? Og hefur einhver prófað þetta sem hafði líka prufað upprunalega spilið.

Spiluðum Pit

Við spiluðum Pit í fyrsta skipti í gær en ég gaf Eygló það í afmælisgjöf. Það var keypt í Spilavinum. Ég hef raunar gefið þetta spil allavega tvisvar áður enda hafði ég lesið mér til um að það væri skemmtilegt. Það passaði líka. Spilið snýst um að reyna að safna öllum spilum af einni tegund með því að skiptast á spilum við aðra. Enginn veit hvaða spil þeir eru að fá – þeir bara samþykkja tilboð. Við vorum fljót að ná upp hraða og í síðasta spilinu vorum við öll að skiptast á fjórum spilum eins hratt og við gátum til þess að reyna að fá níu eins og það var þá ekki auðvelt að reyna að giska á hvar spilin sem maður þurfti væru stödd. Mjög gaman ef maður vill smá hraða.

Mesta úrval landsins af borðspilum

Ég var að skoða bækling frá Toys’r’us í gær og rakst á þá staðhæfingu að þar væri mesta úrval landsins af borðspilum. Mér fannst það stórkostlega ólíklegt. Ég taldi allar líkur á að til dæmis Nexus hafi meira úrval en Spilavinir hafi miklu meira úrval. Þær hjá Spilavinum sáu líka auglýsinguna og fóru að telja úrvalið í Toys’r’us. Samkvæmt þeim er fjórfalt meira úrval af borðspilum í Spilavinum heldur en í Toys’r’us. Það kemur ekki á óvart.