Þödd

Ég keypti Discworldspilið Thud í Stokkhólmi á góðu verði. Það virðist vera skemmtilegt. Leikurinn skiptist í tvær umferðir, spilarar skiptast á að stjórna tröllunum og dvergunum. Tröllin eru bara 8 en dvergarnir 32. Spilið vísar töluvert í hnefatafl.

Þó spilið vísi í Discworld þá er óþarfi að þekkja heiminn til að spila það.

Dé og Dé

Dungeons & Dragons 30 ára um þessar mundir. Ég verð nú að játa að mér þykir AD&D með leiðinlegri hugleikjum sem ég prufað, reglurnar voru meira og minna einhverjar stærðfræðiformúlur og allt snerist um að ná á hærra level, lítil dýpt í því. En ég var alltaf White Wolf maður og slíkir menn eru hálfsnobbaðir, því verður ekki neitað.

Íslandsspilið

Við keyptum Íslandsspilið áðan í Bónus á 1999 krónur og prufuðum að taka snöggt spil við Evu og Heiðu. Spilið virðist vera skemmtilegt en hefur einn pirrandi galla, það er að það er fullt af stafsetningar-, málfars- og prentvillum. Systurnar voru sérstaklega ósáttar við að nafn bæjarins þeirra var vitlaust stafsett, Burstarfell í staðinn fyrir Bustarfell, það ætti nú að vera grundvallaratriði að hafa staðarnöfnin á leikspjaldinu rétt stafsett.

Lord of the Rings Risk

Ég er að fíla LotR Risk, við keyptum það í gær í Nexus á 5990 krónur, það hefði kostað aðeins minna að fá það frá Bandaríkjunum en það er alveg þess virði að styrkja nördabúðina. Sú útgáfa sem við keyptum er ekki fyrsta útgáfan af spilinu sem hefur verið gefin út, í þeirri fyrstu var nefnilega Gondor og Mordor nefnilega sleppt af því því þá hefði sést hvar hringurinn eini endaði. Spilið er töluvert breytt, athyglisverðasta breytingin er væntanlega það að því fylgja hálfgerð Magic: The Gathering spil sem hafa töluverð áhrif á það hvernig leikurinn þróast.

Við prufuðum spilið síðan í fær og ég burstaði Eygló, ég var góður en Eygló vond. Í raun tapaði Eygló mestu á því að hafa ekki náð yfirtökum á öllu Mordor í fyrstu umferðunum, þar var nefnilega eitt land sem hlutlaus her réð yfir og teningarnir voru vondir við vondu Eygló.

Trivial Pursuit 80s

Eygló gaf mér Trivial Pursuit 80s á föstudaginn (kostaði 2000 kall) og í gær prufuðum við það með Árnýju og Hjörvari. Það var stuð, fullt af spurningum sem maður hafði ekki neitt vit á og síðan spurningar sem urðu til þess að maður rifjaði upp hitt og þetta.

Eygló var ekki alveg að ná þess enda alltof ung í þetta, reyndar er ég eiginlega of ungur þar sem spilið er ætlað 25 ára og eldri miðað við árið 2000 þegar ég var 21 árs. Við Árný vorum saman í liði og rúlluðum þessu upp þó Hjörvar og Eygló hafi rænt einni kökunni okkar tímabundið (við náðum henni aftur).

Það er sérregla í þessu spili að það má ræna kökum af andstæðingum undir ákveðnum kringumstæðum, í gærkvöldi var það bara til þess að gera spilið meira spennandi. Reyndar tók spilamennskan töluvert langan tíma, mun lengri en venjulegt Trivial en það kom ekki að sök.

Ef við höldum aftur systkinabarnamót þá er spurning um liðakeppni í 80s Trivial, ef Anna systir verður á staðnum þá eigum við Sóleyjarbörn góðan séns á að sigra.

Þetta er önnur sérútgáfan af Trivial sem ég hef prufað, hin var Star Wars Trivial þar sem ég tapaði glæsilega fyrir mönnum sem hafa horft á myndirnar töluvert oftar en ég. Nú er bara spurningin með LotR Trivial… það miðast að vísu bara við myndirnar sem er nú hálfgert svindl.

Frægasti maðurinn

Ég eyddi stórum hluta dagsins í að hlusta á Queen, lesandi textana um leið og njótandi þess. Heiða kom síðan í heimsókn og kvartaði yfir systur sinni.

Við fórum út í vonda, vonda veðrið til að hitta Árnýju og Hjörvar, horfa á Popppunkt með þeim og spila. Breytingarnar á Popppunkti lofa góða, leiðinlegt að hafa ekki fengið að heyra öfuguggann.

Við spiluðum fyrst Mr & Mrs þannig að pörin voru saman, við Eygló náðum betri árangri yfir heildina. Síðan voru strákar á móti stelpum og við Hjörvar vorum ekki að dansa í því.

Ég þurfti að svara spurningunni hver væri frægasti maðurinn sem ég hefði hitt, Hjörvar giskaði á Ármann Jakobsson. Ef Ármann les dagbókina mína ennþá getur hann glaðst yfir því að hann er, í huga Hjörvars, frægari en til að mynda Rúnni Júl og Heri Joensen (söngvari/gítarleikari Týs). Ég samþykkti þó ekki Ármann því ég er á því að Mattias Eklundh gítarleikari/söngvari Freak Kitchen sé frægasti maðurinn sem ég hef talað við. Ég byggi þetta á því að Mattias er mjög frægur á sínu sviði og heldur námskeið um allan heim. Í leiðinni gat ég mér þess til að Kenneth Peterson sé valdamesti maður sem ég hef hitt. Hjörvar sló mér náttúrulega alveg við með því að hafa hitt Bono.

Ég þurfti líka að svara hvort ég vildi fara á stefnumót með Britney Spears, Tinu Turner, Cher eða Kylie. Umhugsun leiddi til þess að ég valdi Britney, skýringin er sú að Britney hefur hitt bæði Brian og Roger úr Queen og unnið smá með þeim, ég myndi reyna að fá einhverjar sögur af þeim.

Á morgun birtist eftir mig hugvekja á Vantrú, ég held að hún sé góð.

Gettu Betur spilið endurbætt

Við Eygló spiluðum Gettu Betur spilið við Hafdísi, Mumma og Helga bróður hans í gær. Í stað þess að spila það einsog reglurnar segja til um og hafa einn fastan spyril þá stakk ég upp á því að það væri alltaf sá sem væri hægra megin við þann sem var að gera sem ætti að spyrja. Þetta gerði spilið töluvert skemmtilegra en það hefur verið til þess.

Þetta minnti mig á annað: Hvers vegna fær Ármann sérstakar þakkir í bæklingnum með Séð og Heyrt spilinu? Ég vill fá svar!