Steypt um nótt

Sit enn og aftur í myrkrinu og get ekki sofnað. Nakinn og fjarri heimahögum. Ekki beint samt. *I’m naked and I’m far from home*. Hvað á maður að gera á svona stundum? Liggja í rúminu og berjast við að sofna? Eða að reyna að þreyta sig fyrir framan tölvuskjáinn? Lesa? Vona að andvökutímabilið gangi fljótlega yfir.

Hugsanlega væri góð hugmynd að taka netpróf. Eða ekki. Ég varð Loki. Þetta var ekkert sérstaklega gott próf. Terry búinn að eyðileggja þetta fyrir mér. Sem er væntanlega gott.


Hver eldaði síðustu kvöldmáltíðina?
Ég bara spyr. Var þetta samt ekki aðallega brauð og vín? Eða sveppir og afurðir þeirra?
*Lying in my bed I hear the clock tick*

Herinn stöðvar landsbyggðarflóttann

Þór skrifar:
Fyrirsögn dagsins:
Brottför flughersins myndi raska jafnvægi Íslands
Ég sé fyrir mér hvernig landið sporðreisist.

Þetta minnir mig á mynd sem ég sá einu sinni þar sem landsbyggðarflóttinn var sýndur þannig að þyngdin var öll komin á suðvesturhornið og þar af leiðandi væri landsbyggðarfólk að renna í áttina að Reykjavík. Ef kenning Þórs er rétt þá gæti brottför flughersins orðið til þess að stöðva landsbyggðarflóttann.

Steypt fréttamennska

Áðan var frétt á RÚV um sölu á Sementsverksmiðjunni, ekki ætla ég að tala um það undarlega mál heldur um fréttina sjálfa. Fréttin byrjaði á þessa leið:”talsmaður Flemmbýs segir að salan á Sementsverksmiðjunni sé algjör steypa”. Í lok fréttarinnar var síðan talað við þennan talsmann og þá var hann spurður hvort mæti segja að þetta mál væri tóm steypa, hann sagði að í löngu máli að það gæti nú passað. Þá var hann spurður aftur og þá sagði hann að þetta væri steypa. Gat fréttamaðurinn ekki bara rétt manninum miða með því sem hann átti að segja til að hægt væri að gera svona skemmtilega fyrirsögn. Aum fréttamennska vissulega.

Hvers vegna eru ekki til faxtæki fyrir fólk?

Ármann veltir fyrir sér hvers vegna sé ekki hægt að búa til tæki þar sem manni er faxað milli landa. Svarið við þessu gæti komið fólki í opna skjöldu. Þessi tækni er vissulega til en henni er haldið frá almenningi með viðamiklu samsæri. Fyrst og fremst eru það Flugleiðir sem standa á bak við þetta enda vilja þeir ekki missa meiri viðskipti.

Þetta nær samt mun dýpra. Einsog flestir vita þá virka faxtæki þannig að upprunalega blaðið fer ekki til áfangastaðarins heldur fer nákvæmt afrit af því þangað. Upprunalega blaðið er ennþá til nema að þú ákveðir að láta það í tætarann.

Ef við hugsum okkur að þetta gerist með fólk þá sjáum við strax hvað er óhentugt að ferðast svona. Annað hvort verða til tvö eintök af fólki eða þá að upprunilegi einstaklingurinn verður settur í tætara. Öll erum við vön sársauka í ferðalögum (sérstaklega við sem erum hávaxinn) en tilhugsunin um að vera settur í tætara meðan afrit af sjálfum mér er að skemmta sér í útlöndum er aðeins of mikill fórnarkostnaður (svo maður noti hugtak úr hag- og stríðsfræði).

En þessi tækni er vissulega notuð. Aðallega til að fjöldaframleiða einstaklinga sem ráðandi völd vilja hafa fleiri eintök af. Hvers vegna eru ungliðar Sjálfstæðisflokksins flestallir einsog úr sama móti? Af því þeir eru það. Hugsanlega er hárið á þeim litað, nokkrir þeirra fá að klæða sig frjálslega og sumir þeirra breyta útlitinu með öðrum ráðum.

Ekki haldið þið að allir kjósendur Sjálfstæðisflokksins verði til af náttúrunnar hendi? Fáránleg hugmynd, það er nógu erfitt að skilja að nokkur myndi kjósa þá, hvað þá allur þessi fjöldi.

Að lokum verð ég síðan að benda Ármanni á einn enn annmarka á þessari tækni. Ef ske skyldi að þú gætir ferðast svona án hræðilegs dauðdaga í tætara væri það nokkuð þess virði? Er ekki nóg að hafa einn tvífara í gangi sem gerir fólk pirrað út í þig og veldur því að ókunnugir angra þig á almannafæri?