Af póstlistum og stjórnlagaþingsframbjóðendum

Í dag hafa komið um 40 gagnslausir póstar í innhólfið mitt frá frambjóðendum til stjórnlagaþings, póstþjónum þeirra og sjálfvirkum out-of-office stillingum þeirra. Einn frambjóðendanna, Baldvin Björgvinsson (sem er bjáni dagsins), spammaði okkur öll með slóð á IceSave undirskriftalista. Af stað fór fyrirsjáanleg keðja, sem fór reyndar líka af stað í nóvember meðal frambjóðenda, þar sem fólk bað um að láta taka sig af þessum “póstlista”.

Þegar ég hafði fengið tvo pósta í hólfið sendi ég ábendingu til allra um að senda ekki póst á alla heldur bara frumsendandann. Það virkaði ekki og allt fylltist af rusli. Smávægilegur pirringur hefur margfaldast.

Hér vantar greinilega þörf á tölvupóstkennslu.

  • Ef þú sendir fjölpóst á marga ótengda aðila þá er lágmarkskurteisi að láta póstföngin í línuna BCC. Þá sér fólk ekki netföngin hjá hvert öðru og getur ekki sent þeim óvart svarpóst.
  • Aldrei nota “reply-to-all” nema að þú viljir alveg endilega örugglega senda svar til nákvæmlega allra sem fengu póstinn sem þú ert að svara. Gott er að athuga hvort það séu mörg tölvupóstföng í viðtakaendalistum áður en svona póstar eru sendir.
  • Ef þetta hefði í raun verið póstlisti (í þeirri merkingu sem við notum orðið oftast í) en ekki einfaldur fjölpóstur þá hefðu verið röng viðbrögð að senda póst þar sem þú biður um að láta taka þig af póstlistanum. Allir alvöru umræðu- og tilkynningapóstlistar senda alltaf upplýsingar um hvernig á að skrá sig af þeim neðst í skeytunum. Vissulega eru margir umsjónarmenn sem taka að sér að afskrá slíkt fólk en það er dæmi um meðvirkni (ég held ég hafi aldrei í lífinu notað þetta orð áður) og við umsjónarmenn póstlista ættum að hætta slíku. Fólk verður að læra þetta sjálft. Svarið þeim frekar og bendið þeim á hið augljósa.

Stjórnlagaþing – Hve marga valdi fólk?

Ég er ekki enn hættur að leika mér að tölunum úr stjórnlagaþingskosningunni. Hér sjáum við hve mörg gild atkvæði voru í hvert sæti. Við sjáum að rétt um 24 þúsund manns, tæp 30% af þeim sem voru með gild atkvæði, nýttu þann möguleika að velja í öll sætin.

  1. 82.141 – 100%
  2. 79.343 – 96,6%
  3. 76.762 – 93,45
  4. 73.984 – 90,1%
  5. 70.963 – 86,4%
  6. 67.318 – 82%
  7. 63.905 – 77,8%
  8. 60.736 – 73,9%
  9. 57.697 – 70,2%
  10. 55.154 – 67,1%
  11. 50.847 – 61,9%
  12. 47.929 – 58,3%
  13. 44.901 – 54,7%
  14. 42.721 – 52%
  15. 40.439 – 49,2%
  16. 37.861 – 46,1%
  17. 35.746 – 43,6%
  18. 33.940 – 41,3%
  19. 32.246 – 39,3%
  20. 30.838 – 37,6%
  21. 28.897 – 35,2%
  22. 27.616 – 33,6%
  23. 26.346 – 32,1%
  24. 25.254 – 30,8%
  25. 24.126 – 29,4%

Ólöglegar kosningar og Vigdís Hauksdóttir

Fyndnasta frétt síðustu viku var án efa sú að Vigdís Hauksdóttir hélt að kosningarnar væru hneyksli vegna þess að hún hlustaði ekki á það sem formaður landskjörstjórnar sagði áður en hann las upp þá sem komust inn á stjórnlagaþing. Það var hilaríus.

Í dag heldur hún því fram að landskjörstjórn hafi misskilið kosningalögin. Ég fór svona snöggt yfir lögin  og það sem ég held að Vigdís hafi ekki áttað sig á því að þar er ekki bara ákvarðað hvernig skal útdeila efstu sætunum heldur líka þeim neðstu. Sumsé, ekki bara ofan frá heldur líka neðan frá. Við sjáum það ferli í stóra pdf skjalinu frá landskjörstjórn. Þar sjáum við að niðurstaðan er ljós þegar búið er að útdeila 26. sætinu. Þá var búið að útdeila öllum sætum fyrir neðan þau sem gefa sæti á stjórnlagaþing og þar að auki efstu 11 sætunum. Þeir sem voru eftir á þeim punkti komust þá inn. Ég sé ekkert í lögunum um að frambjóðendur þurfi að ná umræddum sætishluti til að ná kjöri heldur er sú tala fyrst og fremst notuð til að senda umfram atkvæði á frambjóðendur sem eru fyrir neðan.

En það gæti verið að ég sé að misskilja misskilning Vigdísar. Ég er þó nokkuð viss um að frummisskilningurinn sé frá henni kominn.

Frambjóðendum raðað eftir vægi

Í framhaldi af síðustu færslu fer ég aftur í að leika mér að niðurstöðum kosninganna. Ég tek aftur fram að mér fannst niðurstaðan sanngjörn miðað við forsendurnar.

Ein leið sem margir hafa talið rökréttari en þá sem var notuð er sú að hvert sæti hafi ákveðið gildi. Ég ákvað að prufa að láta Excel reikna þetta fyrir mig. Það er sumsé þannig ð 25 stig fást fyrir fyrsta sæti en einungis eitt fyrir 25 sætið.

Halda áfram að lesa: Frambjóðendum raðað eftir vægi

Ekki á meðal 25 efstu

Það er frétt inn á Eyjunni þar sem er verið að gera mikið úr því að fimm af þeim sem náðu kjöri til stjórnlagaþings hafi ekki verið með þeirra 25 sem oftast voru skrifaðir á atkvæðaseðlana. Að sjálfsögðu. Fólk forgangsraðaði á kjörseðla sína.

Ástæðan fyrir því að Jónas Kristjánsson fær ekki atkvæði í hvert skipti sem hann er nefndur á kjörseðli er að öllum líkindum sú að hann var fyrir neðan til dæmis Ómar Ragnarsson eða Salvöru Nordal. Ef allir þeir sem settu Jónas Kristjánsson á kjörseðill sinn hefðu viljað að hann kæmist inn þá hefðu þeir sett hann ofar en til dæmis Ómar eða Salvöru. Þeir kusu að setja hann neðar og þar af leiðandi nýtti einhver sem var ofar atkvæði hans.

Þó það hafi ekki allir skilið kosningakerfið algjörlega þá er erfitt að skilja hvernig það hefði átt að fara framhjá mönnum að eftir því sem einstaklingur væri ofar á seðli þá væri vægi hans meira. Ég get ekki séð að það sé nokkuð ósanngjarnt við að þessir fimm einstaklingar hafi komist inn án þess að hafa komið oftast fyrir á kjörseðlum þó ég hefði reyndar alveg viljað koma til dæmis Þorgeiri, sem var á mínum seðli, inn. Kerfið var sanngjarnt.

Ferill atkvæðis míns

Það sem er skemmtilegt við að skoða útsláttarröðina í stjórnlagaþingskosningunum er að maður getur séð hvernig atkvæðið manns færðist á milli frambjóðenda.

Atkvæðið mitt var lengst af í minni þjónustu en þegar ég var sleginn út þá tók Valli við því og hélt því lengst af. Þegar hann datt út féll það í skaut Illuga.

Valli var þó ekki í öðru sæti hjá mér og Illugi ekki í því þriðja. Hjörvar hefði fengið atkvæðið mitt ef ég hefði dottið út á undan honum en Valli var þar á eftir. Á undan Illuga voru síðan nokkrir góðir en þó ekki mjög líklegir kostir.

1696 atkvæði

Í gær kom langþráð Excel skjal frá Landskjörstjórn um dreifingu atkvæða á sæti. Ég kíkti á og það kom í ljós að mitt númer var að finna á 1696 kjörseðlum. Mér finnst það alveg magnað og er ótrúlega kátur með þennan stuðning. Atkvæðin dreifðust nokkuð jafnt á fyrstu fimm sætin (rétt um 100 í hvert) en síðan fækkaði þeim nokkuð á hvert sæti.

Ég hlakka til þess að fræðimenn taki og hakki þetta Excel skjal fram og til baka í tölfræðigreiningu. Mig langar að sjá áhrif aldurs, frægðar (erfið breyta), menntunar, búsetu, framboðskostnaðar og hvaðeina á atkvæðafjölda. Það ætti að vera fjör.

Þakkir

Ég er sáttur við útkomu mína í gær. Ég gerði mér alveg grein fyrir því hve ólíklegt það væri að komast að og það sást kannski vel á því að kosningabarátta var ekki mjög hátt í forgangslistanum mínum undanfarin mánuð.

En ég er mjög þakklátur fyrir þau atkvæði og þann stuðning sem ég fékk. Ég skil ekki hvernig ég ætti að vera annað en glaður eftir þessa niðurstöðu. Takk þið öll.

Sá neðsti

Rúnar Þór Jónsson virðist á yfirborðinu vera sá sem tapaði kosningunum þar sem aðeins einn lét hann í fyrsta sæti. Þegar málið er skoðað sést að hann var eiginlega hvergi nefndur í kynningarefninu þannig að lágt fylgi kemur ekki á óvart. Ég velti því fyrir mér hvort hann hafi dregið framboðið til baka. Er síðan ekki möguleiki á að einhver hafi skrifað hann inn í utankjörfundaratkvæðagreiðslu án þess að vita af því? Veit þetta einhver?

Krafa um nánari upplýsingar

Ég var að senda eftirfarandi skeyti á póstlista frambjóðenda:

Ég tek undir með Viktori [Orra Valgarðssyni] hér að ofan að ég vil endilega sjá nánari útlistun á atkvæðadreifingu því það getur sagt okkur eitthvað um hvernig kerfið virkaði. Síðan er ég bara forvitinn.

Í kosningabaráttunni var mikið rætt um aðgang að upplýsingum og því ættum við að ýta á að fá meiri upplýsingar. Um leið er nauðsynlegt að muna að hluti af því að tryggja aðgang almennings að upplýsingum er að passa að upplýsingarnar séu á formi sem auðvelt er að vinna úr. Landskjörstjórn fellur á því prófi því það þarf mikið fiff til þess að vinna úr þessu ógnarstóra pdf skjali sem sett var á vefinn.