Framboðsauglýsingar fyrir stjórnlagaþing

Það er komin áhugaverð síða á Facebook þar sem er safnað saman auglýsingum frambjóðenda til stjórnlagaþings. Ég setti like á þá síðu. Einhverjir eru farnir að kvarta þar. Umkvörtunarefnið er að þar séu ekki bara taldir þeir sem auglýsa í hefðbundnum fjölmiðlum heldur líka þeir sem auglýsa á Facebook.

Sjálfur mun ég væntanlega ekki eyða krónu í þetta framboð mitt. Ég íhugaði alveg að auglýsa á Facebook enda fór ég þá leið til að kynna báðar bækurnar mínar. Það var frekar ódýrt þá en reyndar hefur það hækkað eitthvað í verði. En ástæðan fyrir því að ég vildi ekki auglýsa á Facebook er að þó auglýsingarnar séu enn frekar ódýrar þá er hægt að eyða háum upphæðum til að tryggja að sem flestir sjái. Augljóslega geta frambjóðendur komið í veg fyrir slíkar grunsemdir með því að birta reikninginn fyrir auglýsingunum jafnóðum. Langflestir sem kaupa þessar auglýsingar eru væntnanlega að eyða vel undir tíuþúsund krónum í heildina. Sjálfum finnst mér ágætt að frambjóðendur viti að það er fylgst vel með þeim og ég treysti fólki til að gera greinarmun á dýrum og ódýrum auglýsingaherferðum.

Það sem mér þótti hins vegar ekki til fyrirmyndar á umræddri síðu er að þar er vitnað í Jónas Kristjánsson. Þar hvetur hann fólk til að reyna að skemma fyrir þeim sem auglýsa á Facebook. Hið augljósa er að Jónas á mjög auðvelt með að hafna auglýsingum enda er hann frægur fyrir og fólk les bloggið hans (þó ekki nærri jafn margir og hann heldur). Hann hefur líka, sem frambjóðandi, hag af því að skemmt sé fyrir mótframbjóðendum hans með þessum hætti. Það er frekar vafasöm framkoma.

Sjálfstæði dómstóla

Mér sýnist á öllu að sátt sé meðal frambjóðenda til stjórnlagaþings um að tryggja betur þrískiptingu valdsins. Það sem ég hef þó saknað er umræða um hvernig megi tryggja sjálfstæði dómstóla. Við höfum séð á síðustu árum hvernig vegið hefur verið að dómstólum landsins með vafasömum ráðningum. Þetta verður að laga.

Ég tel að við þurfum betri skipunarferli við héraðsdóma og hæstarétt en ég tel líka að það sé rúm fyrir eitt virkt dómstig í viðbót. Við gætum jafnvel kallað þetta dómstig Landsdóm. Ég játa að ég horfi mikið til hæstaréttar Bandaríkjanna í þessu samhengi. Landsdómur ætti ekki að taka við hvaða máli sem er frá neðri dómstigum. Dómstóllinn gæti hafnað því að taka mál fyrir ef ekki væri nægilega góður rökstuðningur fyrir áfrýjun. Það gæti líka verið skilyrði að héraðsdómur og Hæstiréttur hefðu dæmt ólíkt í máli til þess að það yrði tekið fyrir. Landsdómur gæti jafnvel haft frelsi til að taka upp mál að eigin frumkvæði. En þetta dómstig hefði þó helst það hlutverk að dæma um mál þar sem stjórnarskráin kemur að máli og hefði vald til að fella niður lög sem það teldi ekki samrýmast stjórnarskrá – stjórnlagadómstóll.

Það hvernig eigi að skipa dómara í þennan nýja dómstól og þá gömlu er stærsta málið. Bandaríkin eru þar ágæt fyrirmynd en ekki fullkomin. Tilnefning um skipan dómara gæti komið frá ráðherra en síðan þyrfti Alþingi að samþykkja tillöguna og þá jafnvel með auknum meirihluta. Væntanlegir dómarar þyrftu þá að fara í gegnum “yfirheyrslu” hjá þingnefnd áður en atkvæðagreiðsla um skipanina færi fram. Í Bandaríkjunum er vandamálið að pólitískar skoðanir dómara verða alltaf í fyrirrúmi en um leið er erfitt fyrir þingmenn að greiða atkvæði gegn skipan hæfs kandídats ef ekkert annað kemur til.

Hvort sem þessi leið eða einhver önnur verður farinn þá er ekki hægt að leggja of mikla áherslu á mikilvægi þessa málefnis.


Svör mín á Svipunni

Framboð til stjórnlagaþings – Hvað viljið þið vita?

Nú eru fjórir dagar síðan að ég skilaði inn framboðinu. Ég hef fengið staðfestingu á að kjörstjórn hafi fengið öll gögn mín en ekki fengið nein skilaboð um að þau hafi verið ófullnægjandi. Það má því segja að ég sé formlega kominn í framboð.

Ég ákvað að leggja áherslu á tvö mál þegar ég sendi frá mér upplýsingar. Annars vegar er það aðskilnaður ríkis og kirkju og hins vegar mannréttindi. Í raun og veru er þetta bara eitt stórt mál.

Ég hef áhuga á fjölmörgum öðrum málum en veit í raun ekki hvar ég ætti að byrja. Ég bið því lesendur um að spyrja mig hvað þeir vilja vita um frambjóðandann mig (en megið endilega hafa spurningarnar almennar þannig að aðrir frambjóðendur geti haft þessar spurningar til hliðsjónar). Sumu mun ég vonandi geta svarað í stuttu máli í svona “Spurt og svarað” horni en annað krefst lengri svara sem ég mun reyna að koma frá mér fyrir kosningar. Ég mun væntanlega ekki svara neinu í athugasemdakerfinu hér og nú því ég vil leyfa mér að taka mér tíma til að hugsa.

Ég hef lengi haft þá reglu að þeir sem ég þekki ekki undir stuttnefnum skrifi undir fullu nafni. Þið getið líka notað bláa “Connect to Facebook” takkann hér til hægri ef þið viljið skrá ykkur með þeim auðkennum.

Ég hvet ykkur sem styðja mig til að skrá ykkur (eða like’a) á Facebook síðuna mína og láta stuðning ykkar í ljós.

Ég er annars að leggja lokahönd á svör mín til Svipunnar og mun líklega birta það hér líka fljótlega.

Kosningum frestað eða fjölgað

Í dag hafa komið fram tvær hugmyndir varðandi kosningar til stjórnlagaþings sem ég er ósammála.

Fyrri hugmyndin er að fresta kosningunum þar til í janúar og þar með upphafi stjórnlagaþings. Frambjóðendur hafa skipulagt sig eftir ákveðnum forsendum. Reyndar myndi þetta væntanlega ekki hafa mikil áhrif á mig en sumir þurfa að hugsa um vinnu og aðrir um nám. Ég sé líka ekki að kosningabarátta í jólavertíðinni myndi verða til þess að kjósendur gætu frekar kynnt sér frambjóðendur. Það myndi held ég fyrst og fremst draga athyglina frá henni.

Sem leiðir að seinni hugmyndinni. Það væri skelfilegt að fara í kosningar um aðildarviðræður að ESB á sama tíma og kosningar verða til stjórnlagaþings. Það er nógu erfitt fyrir frambjóðendur að ná til kjósenda þó fjölmiðlar fyllist ekki um leið af ESB umræðu. Ég er því andvígur þeirri hugmynd.

Ekki í framboðsgírnum

Þessi síða er ekki í framboðsgírnum enda ætlaði ég upprunalega ekki að tilkynna neitt alveg strax. Ég mun væntanlega breyta henni nokkuð á næstu dögum til að fólk sjái hvað ég standi fyrir í stað þess handahófskennda þvaðurs sem almennt einkennir skrif mín. Það er þó kominn illa passandi kassi hér til vinstri þar sem fólk getur sett sjálft sig í hóp þeirra sem styður framboð mitt til stjórnlagaþings.