Samsæriskenningarugl og rangfærslur í Mogganum

Það virðast einhverjir enn kaupa Moggann. Ég veit ekki hvers vegna. Núna gengur um Twitter grein sem var birt þar, væntanlega í dag. Greinin er eftir Önnu Karen Jónsdóttur (BS hagfræði) og fjallar um Black Lives Matter hreyfinguna. Þessi grein fór ekki á flakk af því að hún er vel skrifuð og ígrunduð. Það er næstum erfitt að gera upp á milli hvort er verra, málfarið eða efnið.

Samkvæmt Önnu Karen þá er málflutningur BLM byggður á misskilningi eða rangfærslum. Hún segir:

Árið 2019 voru 10 svartir óvopnaðir skotnir til dauða samkvæmt gagnagrunni Washington Post.

Það er margt athugavert við þessa fullyrðingu. Í fyrsta lagi er hún röng. Það voru 14 óvopnaðar svartar manneskjur skotnar til bana af lögreglu árið 2019 skv. umræddu gagnasafni. Í öðru lagi þá er skilgreiningin á að vera “vopnaður” mjög óljós. Lögreglan skaut allavega fjóra sem voru “vopnaðir” með leikföngum. Í þriðja lagi er hérna einungis verið að tala um þá sem eru skotnir. Þið munið að t.d. George Floyd var kraminn til bana. Í fjórða lagi er hérna gert ráð fyrir að það sé alltaf réttlætanlegt að drepa fólk ef það er “vopnað”. Hérna erum við að tala um land þar sem stjórnarskráin ver réttindi fólks til að bera vopn.

Tölfræðin er mjög einföld. Svart fólk er mun líklegra til að vera drepið af lögreglu en aðrir hópar og þá sérstaklega þegar það er óvopnað.

Til samanburðar voru 48 lögreglumenn myrtir. Hver sá sem lýsir yfir stuðningi við lögregluna á þessum morðum á hins vegar á hættu að vera rekinn úr vinnu eða skóla.

Ég myndi vilja gagnrýna þetta en ég skil ekki einu sinni hvert Anna Karen er að fara hérna. “Hver sá sem lýsir yfir stuðningi við lögregluna á þessum morðum” er bara óskiljanleg rugl. Satt best að segja væri rökréttast að skilja þetta þannig að hún sé að tala um þá sem styðja að lögreglufólk sé myrt en ég held að hún meini það örugglega ekki. Ég veit ekki hvort hún er að tala stuðning við lögreglu þegar lögreglumenn eru drepnir eða stuðning við morð lögreglu á óvopnuðu svörtu fólki. Ef hún meinar það fyrrnefnda þá er það án efa rugl. Allavega væri ég til í að fá lista yfir fólk sem hefur verið rekið fyrir að sýna samúð þegar lögreglumenn eru drepnir.

Notkun Önnu Karenar á hagtölum bendir til þess að það sé einhver brotalöm í hagfræðimenntun hennar, eins og sést hér:

Þrátt fyrir að vera bara 13,4% þjóðinnar þá eru svartir í langflestum tilfellum yfirgnæfandi meirihluti afbrotamanna. Sem dæmi voru samkvæmt ársskýrslu New York Police Department árið 2019 afbrotahlutföllin þessi:

Hérna tekur Anna Karen fjölda svarts fólks í Bandaríkjunum og yfirfærir á New York borg til að sýna glæphneigð þeirra. En vandamálið er að í New York þá er hlutfall svartra mun hærra en víða annars staðar. Þannig að tölurnar hennar eru mjög villandi. En auðvitað er það aukaatriði því staðreyndin er sú að það er ekki svart fólk sem er líklegra til að vera handtekið fyrir glæpi heldur fátækt fólk.

Þar sem efnahagskerfi Bandaríkjanna hefur verið hannað til þess að gera svart fólk fátækt (leitið að t.d. “red lining” á netinu) þá er það líklegra til þess að fremja glæpi. Af því að það er fátækt. Af því að því skortir tækifæri.

En Anna Karen telur að rasismi geti ekki verið vandamálið:

Ástæður fátæktar geta verið margar og flóknar. Rasismi er hins vegar langsótt skýring árið 2020. Ef hvíti maðurinn stjórnar efnahagnum milli kynþátta og heldur þannig efnahagsstöðu svartra niðri, ætti þá sá hvíti ekki að hafa sett sig í fyrsta launaflokk á undan Asíubúanum? Slíkt er ekki raunin en Asíubúar eru í flestum mælingum með betri afkomu en hvítir.

Hér kemur til algjör vanþekking hennar á innflytjendastefnu Bandaríkjanna. Það voru lengi miklar takmarkanir á fjölda innflytjenda frá Asíu (sérstaklega reyndar Kína sbr. The Chinese Exclusion Act). Þegar var farið að hleypa inn fleirum frá þessum heimshluta þá var lögð áhersla á að hleypa inn menntuðum einstaklingum. Vel menntað fólk er líklegra til að fá hærri laun og að eignast börn sem menntar sig vel. Þannig að góð efnahagsleg staða fólks sem rekur uppruna síns til Asíu er komin til vegna (rasískrar) innflytjendastefnu. Það er mjög fróðleg umræða um þetta í hlaðvarpinu “Whiting Wongs”.

Hún Anna Karen reynir líka að flytja inn ákveðna tegund af bandarískri íhaldspólitík:

Það eru margir þættir sem hafa áhrif á fátækt. Það má velta því fyrir sér hvort það sé út af menningu eða vegna þess að 70% af lituðum börnum í dag fæðast utan hjónabands.

Við Íslendingar sem erum vön því að börn fæðist utan hjónabands erum frekar hissa á svona málflutningi. Af hverju er hjónabandsstaða eitthvað lykilatriði? Báðir synir mínir er fæddir utan hjónabands. En er ekki líklegra að efnahagslegt umhverfi hafi áhrif á hjónabandsstöðu heldur en öfugt?

Í seinni hluta greinarinnar fer Anna Karen í samsæriskenningastuð. Hún nefnir til Bill Gates og George Soros. Hún bendir líka að Kína hafi lýst yfir stuðningi við Black Lives Matter eins og það sýni hve vafasöm samtökin eru. Það að keppinautar á alþjóðasviðinu noti mannréttindamál til að koma höggi á andstæðinga sína er ekki nýtt og það ógildir ekki mannréttindabaráttuna.

Í dramatísku útspili spyr Anna Karen:

Höfum við gleymt Tiannanmen Square 1989?

Ég játa að ég man mjög vel eftir atburðunum árið 1989 en ég man líka að á Íslandi var það kallað Torg hins himneska friðar. Það er fátt hallærislegra en að nota ensk heiti á svæði utan hins enskumælandi heims.

Þá dregur Anna Karen fram vafasamar fullyrðingar um róttæka fortíð konu sem tengist BLM.

Meðhöndlun fjármagnsins sem þessir fjársterku aðilar leggja hreyfingunni til fer í gegnum Susan Rosenberg og situr hún í fjáröflunarnefnd samtakanna BLM.

Susan þessi er dæmdur hryðjuverkamaður og ævilangur aktívisti, sem hefur leitt til dauða þó nokkurra manna.

Ég ætla ekki að reyna að tæta í sundur fyrri setninguna því að þó hún sé bókstaflega röng þá er það aðallega vegna þess að Anna Karen kann ekki að tjá sig í rituðu máli. Það hvort við ættum að kalla Susan Rosenberg hryðjuverkamann er álitamál (sjá Snopes). En það að hún hafi “til dauða þó nokkurra manna” byggir ekki á staðreyndum. Hún var ekki dæmd fyrir neitt slíkt, ekki einu sinni ákærð, en hún hefur vissulega verið sökuð um það. Ferill hennar frá því að hún var leyst úr fangelsi fyrir nær tuttugu árum er hins vegar óneitanlega laus við tengsl við ofbeldi eða ógnanir.

Anna Karen vill helst kalla BLM hryðjuverkasamtök og notar þá stórar yfirlýsingar án sannana.

Hreyfingin snýst ekki um rasisma heldur pólitísk völd. Ef þú brennir fyrirtæki, lemur, drepur eða nauðgar öðru fólki og gjörsamlega rústar heilu borgunum, ertu þá ekki hryðjaverkamaður?

Nær ekkert af þessu lýsir BLM en þetta er ágæt lýsing á því hvernig komið hefur verið fram við svart fólk í Bandaríkjunum í gegnum tíðina.

Ég verð að lokum að benda á þessa setningu sem er svo undarleg að ég hálfdáist að henni:

Fólkið sem gagnrýnir nasista Hitlers er á sama tíma búið að lýsa yfir stuðningi við samtökin á samfélagsmiðlum.

Bravó.

Þetta á ekki að vera endanleg yfirferð á greininni. Hvorki málfars- eða efnislega. Bara nokkur atriði sem var einfalt að benda á. Hlutir sem Anna Karen hefði væntanlega getað flett upp sjálf.

 

Nasistar sem styðja málfrelsi

Í morgun endaði ég inni á íslenska hægri Twitter. Sem er versti Twitterinn. Þar sá ég allskonar vitleysu. Ég sá nokkrar deilingar á myndbandi þar sem vondir andfasistar voru að ýta við manni sem var sakleysislegt skilti þess efnis að hann styddi tjáningarfrelsi. Voða vont fólk. Þessu var deilt eins og þetta væri nýskeð. Athugasemdir um hvað 2020 væri brjálað.

Mig grunaði að þarna vantaði eitthvað samhengi. Þannig að ég lagðist í margra klukkutíma rannsóknarvinnu til að komast að því sanna. Djók. Ég bara las athugasemdirnar við upprunalega myndbandið. Þar var snarleg bent á að myndbandið væri ekki nýtt og að það vantaði mikið upp á samhengið.

Ef maður hefur fylgst með öfgahægrinu þá sér maður alltaf sama bragðið sem þeir nota. Fyrst er tjáir einhver viðbjóðslega skoðun. Þessari skoðun er síðan mótmælt og í kjölfarið fara hægrimenn að tala um skoðanakúgun, árás á málfrelsið og reyna að hunsa viðbjóðinn sem var orsakaði reiði vinstra fólksins.

Í þessu tilfelli voru nýnasistar með viðburð í hverfi í London árið 2017 og fólk í hverfinu mætti til að mótmæla. Til að hafa það á hreinu, þegar ég sé nýnasistar, þá meina ég alvöru nýnasistar. Meðal annars gaur sem sagði að Anders Breivik hefði gert það sem marga bara dreymdi um. Þið munið kannski eftir Breivik. Hann drap fullt af krökkum í Útey.

Það var sumsé stuðningur við fjöldamorð sem fór fyrir brjóstið á þessum andfasísku snjókornum. Síðan mætir þessi eini gaur og segist styðja málfrelsi. Allir vita að hann meinar að hann sé nasisti en það er hægt að búa til úr þessu myndband þar sem saklaus gaur er ofsóttur af öfgavinstrimönnum.

Ef við ætlum að tala um mörk tjáningarfrelsið þá er gott að muna eftir hefðbundna dæminu. Þið vitið, þetta með að öskra eldur í troðnu leikhúsi. Ég ætla að halda statt og stöðugt fram að stuðningur við fjöldamorð falli vel og vandlega undir málfrelsi sem má takmarka. Allavega styð ég að fólk safnist saman og mótmæli svona fólki.

Það er áhugavert að það eru ekki svartklæddu anarkistarnir sem ganga þarna harðast fram. Það er kona, væntanlega á mínum aldri eða eldri, sem stuggar við nasistanum. Ég skil hana vel. Þegar ég sé nasista þá fer hnefinn minn að kreppast. Hún bara ýti við honum. Ég myndi ekki vilja fá svona pakk í hverfið mitt.

Ég tek fram að ég skil alveg að fólk sé algjörlega á móti jafnvel sakleysislegum ýtingum eins og sjást í myndbandinu. En það að deila þessu myndbandi í röngu, eða án, samhengi(s) er bara áróðursbrella sem við þurfum að verjast.

Síðan getum við séð hverjir voru að deila myndbandinu. Það var til dæmis Toby Young. Ég ætla ekki að kalla hann nasista. Hann styður reyndar kynbætur á mönnum. Hann er líka í forsvari við einhver samtök sem kenna sig við málfrelsi.

Athugasemdirnar við myndbandið segja líka sitt. Þær voru margar hverjar rasískar. Ábending: Ef þú ert að deila einhverju og sérð að fullt af rasistum eru hrifnir af því þá ættirðu kannski ekki að deila því.

Hvernig ætli fólki líði ef það kemst að því að það var að deila nasistaáróðri? Ætli það hugsi: “Oj, nei. Verð að passa mig á þessum nasistum”? Eða ætli það hugsi: “Æ, nei. Það komst næstum upp um mig”?

Það eru ótrúlega öflugar áróðursvélar í gangi. Helsta vopn okkar gegn þeim er að hafa fólk á okkar bandi sem efast ekki bara um það sem andstæðingarnar hafa fram að færa (sem er það sem ég er að gera hér) heldur samherjarnir sem leyfa sér að spyrja félaga sína hvort það sem þeir eru að deila sé raunverulega satt.

Ef þú átt ekki vin sem leyfir sér að efast um það sem þú segir þá ertu illa staddur.

Að lokum vil ég benda á að samkvæmt röksemdarfærslu hægri manna er öll gagnrýni á þessi skrif mín árás á málfrelsi mitt.

Framhaldsskólar með skuldahala

Fyrir nokkrum árum vann ég í framhaldsskóla. Þar sem mínir kjarasamningar gerðu enga kröfu um að mér væri borgað sérstaklega fyrir fundarsetu endaði ég með því að stunda slíkt töluvert (ekki af eigin áhuga). Ég fékk því að fylgjast sérstaklega vel með fjármálum skólans.

Þessi ríkisskóli skuldaði ríkinu peninga. Árin áður hafði skólinn farið fram úr fjárhagsheimildum og þurfti því að skera niður í hinu og þessu næstu árin. Ég mátti t.d. ekki kaupa nema mjög takmarkað af bókum. Á nær öllum fundum sem ég sótti þurfti líka að finna leiðir til að spara. Það var mjög niðurdrepandi. Ég var þó ekki nálægt þegar erfiðustu ákvarðanirnar voru teknar og varð því mjög bylt við þegar ég komst að því að hópi af samstarfsfólki mínu hafði verið óvænt sagt upp.

Í raun þýddi þetta að þeir sem voru í skólanum á þessum árum fengu skerta þjónustu. Ég skil ekki hvernig er hægt að réttlæta slíkt. Þessir nemendur “græddu” ekki á því að skólinn notaði of mikið af peningum árin áður. Það er ekki eins og þessi yfirkeyrsla hafi verið fjárfesting til framtíðar.

Framhaldsskólar eru auðvitað fastir í neti reiknilíkana þar sem Excel segir til hvað hlutirnir mega kosta – hvort sem forsendurnar séu réttar eða rangar. Sveiflur í nemendafjölda milli ára breyta öllu og það er ekki alltaf hægt að skera niður með litlum fyrirvara. Það er stundum óumflýjanlegt að lenda í mínus.

En hvað á að gera þegar skólar lenda í mínus? Kerfið sem ég sá refsaði nemendum og starfsmönnum. En hefði ekki verið rökréttara að fara yfir fjármál skólans, athuga hvað fór úrskeiðis og sjá hvort þetta var í raun óumflýjanlegt eða jafnvel vegna mistaka og vanrækslu? Ef um væri að ræða lélega fjármálastjórn skólans þá ætti einfaldlega að segja upp þeim stjórnendum sem bera ábyrgð. Ekki refsa nemendum sem hvergi komu nálægt ákvörðunum.

Ég veit ekki hvernig er brugðist við svona málum í dag. Ég hóf auðvitað störf í kjölfar hrunsins en jafnvel þegar birti til í ríkisfjármálum var bág staða skólans notuð í klassískri árás frjálshyggjunnar á opinbera þjónustu. Niðurskurður gerði fólk að lokum sátt við að einkaframtakið tæki við. Þar var hægt að fá peninga.

Fórnarlambamenning Sigmundar Davíðs

Sigmundur Davíð birti nú um helgina langa og heimskulega grein um menningarbyltingu. Það væri hægt að taka hana fyrir lið fyrir lið og benda á rangfærslur og útúrsnúninga (og arfaslakar hugtakaþýðingar). Kannski að einhver nenni því. Það sem mér finnst mikilvægara er að velta fyrir mér hvers vegna Sigmundur er að skrifa þessa grein.

Þó Sigmundur eyði töluverðu púðri í að fordæma svokallaða fórnarlambamenningu þeirra sem berjast fyrir réttindum minnihlutahópa þá snýst grein hans að miklu leyti í að mála valdamikla aðila sem sem fórnarlömb.

Kröfulisti starfsmanna Stanford háskólans til stjórnenda sem átti að kosta 25 milljónir dollara “slær þó líklega flest met” að mati Sigmundar. Verst er auðvitað að “Stanford-háskóli er sem stendur í miklum fjárhagsþrengingum” að sögn Sigmundar. Samkvæmt tölum háskólans sjálfs þá átti hann um 28 milljarða dollara í fyrra. Það gerir Stanford fjórða ríkasta háskóla Bandaríkjanna.

Sú hugmynd að eyða einum tíunda úr einu prósenti auðæfa skólans til þess að bæta fyrir og koma í veg fyrir kerfisbundna mismunun er að mati Sigmundar hið raunverulega hneyksli.

Hvers vegna er Sigmundi svona í mun að mála hina ríku og valdamiklu sem fórnarlömb? Er það kannski fyrst og fremst stéttarvitund hans sjálfs? Er það vegna þess að jafnrétti er ógn við forréttindi hans sjálfs? Auðvitað, en ekki bara það.

Greinin er hluti af almennu menningarstríði hægri manna. Það snýst um að blása upp ákveðin mál, snúa út úr þeim og reyna að koma í veg fyrir samstöðu almennings.

Sigmundur er alveg miður sín yfir því að svört líf skipti máli. Öll líf skipta máli. Ég geri fastlega ráð fyrir að þegar minning sjómanna er heiðruð þá mæti Sigmundur með mótmælaskilti til að benda á að það séu ekki bara sjómenn sem drukkna.

Kynþáttahyggja hefur í gegnum tíðina verið eitt helsta tól valdastéttarinnar til að koma í veg fyrir samstöðu almennings og það sést einna best í Bandaríkjunum. Þetta er gert með því að hræða hina hvítu með því að svartir eða “Mexíkanar” (af hinum ýmsustu þjóðernum) séu að koma til að stela frá þeim vinnunni eða nota velferðarþjónustu ætlaða þeim. Í stað þess að mynda samfylkingu hinna lægra settu þá fara þessir hópar er að berjast – á meðan “arðræninginn situr og hlær”.

Við þurfum að skilja að réttindabarátta minnihlutahópa er barátta okkar allra. Samstaðan er eina leiðin til að tryggja okkur öllum betra líf þannig að við þurfum að gefa skít í fórnarlambamenningu hinna ríku og valdamiklu.

Verðskuldandi fólk (um borgaralaun og fleira)

Ég hef mjög blendnar skoðanir á borgaralaunum. Mér vissulega þægilegt að fá svoleiðis. Þá gæti ég einblínt á að koma í verk öllu því sem mig langar að gera en er ekki gróðavænlegt. Ég gæti farið á fullt t.d. í Rafbókavefnum. Ég gæti klárað heimildamyndina mína. Allskonar sniðugt. Ég gæti líka tekið mér tíma til að byggja upp spilaútgáfuna mína og haft grunn til að græða alvöru peninga.

Mér finnst það líka góð hugmynd að losa fólk undan þeim kvöðum sem felst í því að skrá sig atvinnulaust eða berjast við að fá örorku viðurkennda – hvað þá að fá einhvern styrk í gegnum t.d. sveitarfélögin. Þú værir með einhvern ákveðinn punkt sem tryggir grunnframfærslu.

En við vitum að það er nógu erfitt að ákvarða hvað t.d. atvinnulausir og öryrkjar eiga að fá til að lifa af. Um leið kemur spurningin hvað fólk “verðskuldar”. Verðskulda allir atvinnuleysisbætur? Svarið sem kerfið gefur er nei. Ef þú hefur t.d. ekki unnið nógu marga mánuði á ákveðnu tímabili þá færðu ekkert eða skertar greiðslur.

Það sama gildir um öryrkja. Kerfið setur fólk í reiknilíkan og segir þeim að það verðskuldi ákveðið hlutfall af hæstu upphæð. En ef einhver er metinn 50% öryrki þá þýðir það ekki þú getir gengið inn í hálft starf sem hentar þér á móti. Hvorki markaðurinn né hið opinbera tryggir slíkt. Ferðu þá á atvinnuleysisbætur á móti? En þegar þær renna út? Færðu þá styrk frá sveitarfélaginu? Fólk rúllar á milli í kerfinu sem reynir að meta hvort það verðskuldi eitthvað.

Sú hugmynd að það sé hægt að meta hvort fólk verðskuldi eitthvað, hvort sem það sé vegna atvinnuleysis, örorku eða bara fátæktar er gölluð. Vissulega getum við alltaf fundið fólk sem allir geta verið sammála um að séu verðskuldandi en við missum um leið í sprungurnar fólk sem vissulega þarf á hjálp að halda.

En hverjir verðskulda ekki hjálp? Þeir sem eiga pening? Þeir sem eiga bakland? Þeir sem þurfa ekki mikið? Glæpamenn? Þeir sem eru ungir? Þeir sem eru gamlir? Á sama hátt og við getum fundið þá sem verðskulda hjálp okkar þá getum við fundið þá sem verðskulda hana ekki.

Grunnvandamálið við hugmyndina um þá sem verðskulda hjálp og þá sem verðskulda ekkert er að við getum aldrei búið til kerfi sem reiknar slíkt út. Þú getur búið til dæmi, og fundið þau, en einstaklingar eru miklu flóknari en að við getum stillt einhverjar breytur og fundið réttu lausnina.

Við getum yfirfært sömu hugmynd á menntun og heilbrigðisþjónusta. Við getum ekki reiknað út hverjir séu “verðskuldandi”. Ættu lugnalæknar að spyrja fólk hvort það hafi reykt áður en þeir ákveða hvort meðferðin verði ókeypis? Mér finnst einfalt að segja nei við þessari spurningu en ég veit að það er til fólk sem myndi segja já.

Það er kannski ágætt að nota reykingar sem dæmi sem upplýsir allt hitt. Ef við viljum úrskurða að reykingafólk verðskuldi ekki meðferð við lungnasjúkdómum þá erum við í mörgum tilfellum að segja að heimskuleg ákvörðun ósjálfráða barns eigi að móta líf þess. Ef vinir þínir byrjuðu að reykja og þú hermdir eftir af því að þú vildir ekki vera útundan þá skaltu borga fyrir þau mistök það sem eftir er ævi þinnar – ekki bara með lélegum lungum heldur beinhörðum peningum.

Við erum auðvitað á hverjum degi að refsa fullt af fólki fyrir heimskulegar ákvarðanir sem það tók á barnsaldri. Ef þú ákveður 16 ára að sleppa framhaldsskóla og fara að vinna þá áttu skilið lægri laun það sem eftir er ævi þinnar. Það skiptir engu máli hvort þetta var ákvörðun eða nauðung. Ef þú hafðir tök á því að halda áfram menntun þinni þá færðu sama dóm og þeir sem vildu bara hafa efni á að hella sig fulla um hverja helgi.

Ég vil taka fram að ég tel líka ósanngjarnt að þeir sem ákváðu að drekka sig fulla um hverja helgi sextán ára þurfi að gjalda þess alla ævi. Við vitum að það geta verið allskyns ástæður á bak við slíkt. Kannski var áfengi eina þunglyndislyfið sem þú hafðir aðgang að. Ég hef líka verið í þeirri stöðu að hjálpa námsfólki sem hafði kannski tekið slæma ákvörðun varðandi menntun sína þegar það var sextán ára. Síðan ákvað menntamálaráðherra að ef þetta fólk væri orðið 25 ára verðskuldaði það ekki annað tækifæri til menntunar. Ég er ennþá reiður yfir því.

Borgaralaun eru sú hugmynd af við verðskuldum öll grunnframfærslu. Ég er hrifinn af þeirri hugmynd en ég á erfitt með að trúa að slíkt gangi í gegn. Ég held að reynslan sýni líka að þar sem þetta hefur verið reynt hefur hugmyndin verið svo útvötnuð að hún hefur orðið t.d. að verri útgáfu af örorkutryggingum. Margir halda að það sé fyrsta skrefið að almennum borgaralaunum en ég sé það ekki gerast með slíkum hænuskrefum. Ég held að þetta sé frekar tækifæri til að gera ómanneskjulegt kerfi verra.

Ónáttúruleg náttúra Guðmundar Franklín

Fyrirsjáanlegasti forsetaframbjóðandinn er kominn fram. Það er Guðmundur Franklín. Hann er lengi búinn að vera auglýsa hálfsamhengislausar færslur sínar á Facebook. Hann hefur líka gert margar mislukkaðar tilraunir til að koma sér á framfæri í stjórnmálum.

Ég hef auðvitað engar áhyggjur af því að Guðmundur Franklín nái kjöri. Getur hann náð nægilega mörgum undirskriftum? Hver veit? Sprellararnir skrifa væntanlega frekar undir hjá falskaflaggsmanninum. Trump hefur þó sýnt að peningar geta fleytt manni langt í stjórnmálum en ekki tókst Bloomberg að kaupa sér fylgi í forkosningunum núna. Það má nefnilega ekki gleymast að Trump var sjónvarpsstjarna. Guðmundur Franklín er það ekki.

Ef ég leyfi mér að fara í hlutverk “álitsgjafa” eða hvað maður getur kallað svoleiðis þá verða möguleg áhrif Guðmundar helst þau að aðrir sem hafa gælt við forsetadrauminn sjá sér færi á að koma í kjölfarið. Það er nefnilega auðveldara að kúka stökkva í laugina þegar einhver er á undan manni.

Spurningin er þá hvort einhver getur raunverulega haggað Guðna. Ég held ekki. Ekki núna. Ef Guðmundur nær undirskriftunum og verður einn í framboði gegn Guðna þá nær hann í mesta falli óánægjuatkvæðunum og þau eru ekki nægilega mörg.

Í mér blunda tvær skoðanir. Annars vegar tel ég lýðræðið ákaflega mikilvægt. Hins vegar langar mig bara ekkert að fara í forsetakosningavesen í þessum aðstæðum bara til þess að Guðmundur Franklín geti barist við vindmyllurnar sínar. Hann segir m.a. “að ESB verði aldrei samþykkt án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.” Ég veit ekki til þess að nokkur vilji að við göngum í ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu.

Allt þetta er þá fyrst og fremst afsökun fyrir því að tala um myndina sem Guðmundur Franklín hefur sett á hausinn á Facebook-síðunni sinni. Hún er mikið afrek. Tæknilega séð er hún auðvitað illa unnin. Ég hélt að Guðmundur ætti næga peninga til að fá einhverja í myndvinnslu fyrir sig. Kannski er hann bara nískur. Allavega er þetta í ætt við það sem Ástþór gerði á sínum tíma en myndvinnslu hefur fleygt fram í millitíðinni.

Grunnmyndin er í raun flott. Fallegt fall, fallegir litir. En þegar ég sá hana hlaðast inn líktist hún helvíti. Fyrsta vandamálið er að litir bakgrunnsins passa alls ekki við myndina af Guðmundi. Hann passar ekki þarna. Þetta verður ýktara þegar myndin er skoðuð betur. Hún er illa klippt. Útlína Guðmundar er alveg rosalega pixluð. Það er bókstaflega eins og að gamli bakgrunnur myndarinnar sé þarna ennþá. Það er ótrúlega létt að gera þetta betur, meira að segja ég get það. En Guðmundur er líka bara kjánalegur á myndinni. Þetta á væntanlega að tákna að hann sé að horfa til framtíðar. Það er ekki það sem ég sé. Ég sé mann sem er utangátta. Hann veit ekkert hvað er að gerast. Kannski er hann að horfa á vörubílinn nálgast en hann áttar sig ekkert á því að hann ætti að fara af veginum. Hann er í raun voðalega Ástþórslegur.

Ef ég væri betur að mér í letri þá myndi ég væntanlega geta komið með einhverja útskýringu á því af hverju mér líkar ekki við hvernig textanum hefur verið komið þarna fyrir. Staðsetningin er auðvitað ekki frábær en það er ýmislegt meira að.

Fólksfjölgunarvandamálið

Þegar loftslagshamfarir eru í umræðunni þá koma alltaf reglulega athugasemdir um að raunverulega vandamálið sé fólksfjölgun. Nú er ég alveg á því að það væri gott að koma jafnvægi á fjölda jarðarbúa, jafnvel þannig að þeim fækki í framtíðinni. Samt er ég á því að þeir sem tala um þetta sem lausn á útblæstri gróðurhúsalofttegunda séu að misskilja eða mistúlka.

Með því að líta framhjá öllu samhengi þá er hægt að líta svo á að fjölgun fólks í “þriðja heiminum” (eða hvaða hugtak við notum til öðrunar á fátækari hlutum heims) sé vandamálið. En ef við athugum hverjir það eru sem eru að nota auðlindirnar þá sjáum við að það er gríðarleg rangtúlkun.

Við sem búum í hinum vestræna heimi erum að ganga á auðlindir jarðar. Við erum eins og sníkjudýr á jörðinni. Við tökum til okkar endalaust, hvort sem það er orka, matur eða bara hvers konar dót og drasl. En það er ekki nóg með að við tökum þetta til okkar heldur hendum við þessu frá okkur nærri því jafn hratt og við kaupum það.

Þegar bent er á þessar staðreyndir eru alltaf einhverjir sem svara með því að segja að mengun sé mest í fátækari löndum. En hvers vegna er verið að menga svo mikið þar? Jú, vegna þess að það er verið að framleiða allskonar fyrir okkur sem höfum efni á að kaupa.

Þegar ég segi “við” þá á ég vissulega m.a. við sjálfan mig. En auðvitað þá er ríkasta prósentið sem er helsta vandamálið. Í raun stigversnar það eftir því sem prósentubrotið minnkar. Fólk sem á peninga til brenna notar þau völd til þess að brenna framtíð okkar allra.

Ég trúi ekki á illsku, allavega ekki Illsku eða hið Illa, en ég veit að græðgi er til og græðgi er líklega það sem kemst næst því að vera Illska. Fátækt fólk sem eignast börn er ekki byrði á heiminum, það er fólkið sem á 600m² sjávarvillur sem er að skemma heiminn.

Morð frá sjónarhorni

Það væri áhugavert að búa til tvær myndir. Í annarri myndinni væru löggur sem eru sannfærðar um að morðingi sé að sleppa og telja sig tilneyddar að búa til sönnunargögn gegn honum. Í hinni myndinni er saklaus maður að verja sig gegn spilltum löggum sem eru að reyna að búa til sönnunargögn gegn honum.
 
Þetta væru nákvæmlega sömu persónur og leikarar og mörg atriðin gætu verið alveg eins. Það þyrfti bara að bæta við nokkrum atriðum sem gefa áhorfendum leið til að kynnast þeim persónum sem eru í aðalhlutverki og að sjá eitthvað sem gefur til kynna að staðreyndir séu aðeins öðruvísi en í hinni útgáfunni.
 
En auðvitað þá eru ótal svona kvikmyndir og sjónvarpsþættir. Kannski ekki nákvæmlega sömu persónur og leikarar en mjög svipaðar aðstæður. Val handritshöfunda og leikstjóra stjórna síðan því hvernig áhorfandinn bregst við. Sami áhorfandinn, ég til dæmis, get stutt lögguna sem er bara að reyna að koma morðingja í fangelsi en um leið hneykslast á því hvernig löggan kemur fram við saklausan mann ef ég sé þetta frá því sjónarhorni.
 
Þetta snýst náttúrulega ekki bara um glæpamál, uppdiktuð eða raunverulega, heldur öll mál sem fólk sér frá mismunandi sjónarhornum.

Afsagnarkrafa til Sigmundar Davíðs

Ég er ekki meðal þeirra sem hafa krafist afsagnar Sigmundar Davíðs vegna Klausturfokksins. Ástæðan er auðvitað sú að ég er bara almennur stuðningsmaður þess að Sigmundur láti sig hverfa út opinberri þjónustu vegna almennrar vanhæfni og óheiðarleika. Það væri því bölvuð hræsni hjá mér að láta eins og þessi uppákoma hafi breytt einhverju um álit mitt á honum.

Kjósum betur

Í dag kjósum við. Ég ætla að kjósa VG – enda er ég í framboði í Reykjavíkurkjördæmi suður. Ég treysti VG best fyrir menntamálum, heilbrigðismálum, velferðarmálum og, síðast en ekki síst, loftslagsmálum.

VG er ekki fullkominn flokkur. Ég játa það alveg. En mér finnst samt valið mjög skýrt. Fólk segir að slagorðið “Gerum betur” segi ekki nóg en ég hef allavega mínar eigin skýringar á því. VG getur gert betur en núverandi ríkisstjórn en VG getur líka gert betur en í ríkisstjórninni 2009-2013. Allavega ef flokkurinn fær nægan stuðning. Í þeirri ríkisstjórn þurfti að takast á við ótrúlega mörg og erfið mál en það tókst nægilega vel til þess að leggja grunn að uppgangi síðustu ára.

Sá uppgangur hefur ekki verið nýttur í neitt af viti. Það er einkavæðing í mennta- og heilbrigðiskerfinu og niðurskurður í velferðarmálum. Það er grátlegt.

VG þarf tækifæri til að stjórna í uppsveiflu og byggja upp menntakerfið, heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið. Ég treysti engum betur í það verkefni.

Ég vona að VG leiði ríkisstjórn með Pírötum og Samfylkingu. Það væri óskastaða. Það væri langbest ef þú myndir kjósa VG. En ef þú ert heitur ESB-sinni þá geturðu kosið Samfylkinguna. Ef þér finnst VG ekki nógu dugleg í stjórnarskrármálum þá geturðu kosið Pírata.

Ef þú kýst Sjálfstæðisflokkinn þá skil ég þig ekki – nema að þú sért milljónamæringur sem hatar fátækt fólk. Ef þú ætlar að kjósa Miðflokkinn þá bið ég þig um að finna leið til að gera atkvæðið þitt ógilt eða bara kjósa Framsókn í staðinn. Ef þú vilt Viðreisn þá ættirðu eiginlega frekar að kjósa Bjarta framtíð (sami flokkur með færri milljónamæringum).

Eða kjóstu bara VG. Það er langbesti kosturinn.