Verðskuldandi fólk (um borgaralaun og fleira)

Ég hef mjög blendnar skoðanir á borgaralaunum. Mér vissulega þægilegt að fá svoleiðis. Þá gæti ég einblínt á að koma í verk öllu því sem mig langar að gera en er ekki gróðavænlegt. Ég gæti farið á fullt t.d. í Rafbókavefnum. Ég gæti klárað heimildamyndina mína. Allskonar sniðugt. Ég gæti líka tekið mér tíma til að byggja upp spilaútgáfuna mína og haft grunn til að græða alvöru peninga.

Mér finnst það líka góð hugmynd að losa fólk undan þeim kvöðum sem felst í því að skrá sig atvinnulaust eða berjast við að fá örorku viðurkennda – hvað þá að fá einhvern styrk í gegnum t.d. sveitarfélögin. Þú værir með einhvern ákveðinn punkt sem tryggir grunnframfærslu.

En við vitum að það er nógu erfitt að ákvarða hvað t.d. atvinnulausir og öryrkjar eiga að fá til að lifa af. Um leið kemur spurningin hvað fólk „verðskuldar“. Verðskulda allir atvinnuleysisbætur? Svarið sem kerfið gefur er nei. Ef þú hefur t.d. ekki unnið nógu marga mánuði á ákveðnu tímabili þá færðu ekkert eða skertar greiðslur.

Það sama gildir um öryrkja. Kerfið setur fólk í reiknilíkan og segir þeim að það verðskuldi ákveðið hlutfall af hæstu upphæð. En ef einhver er metinn 50% öryrki þá þýðir það ekki þú getir gengið inn í hálft starf sem hentar þér á móti. Hvorki markaðurinn né hið opinbera tryggir slíkt. Ferðu þá á atvinnuleysisbætur á móti? En þegar þær renna út? Færðu þá styrk frá sveitarfélaginu? Fólk rúllar á milli í kerfinu sem reynir að meta hvort það verðskuldi eitthvað.

Sú hugmynd að það sé hægt að meta hvort fólk verðskuldi eitthvað, hvort sem það sé vegna atvinnuleysis, örorku eða bara fátæktar er gölluð. Vissulega getum við alltaf fundið fólk sem allir geta verið sammála um að séu verðskuldandi en við missum um leið í sprungurnar fólk sem vissulega þarf á hjálp að halda.

En hverjir verðskulda ekki hjálp? Þeir sem eiga pening? Þeir sem eiga bakland? Þeir sem þurfa ekki mikið? Glæpamenn? Þeir sem eru ungir? Þeir sem eru gamlir? Á sama hátt og við getum fundið þá sem verðskulda hjálp okkar þá getum við fundið þá sem verðskulda hana ekki.

Grunnvandamálið við hugmyndina um þá sem verðskulda hjálp og þá sem verðskulda ekkert er að við getum aldrei búið til kerfi sem reiknar slíkt út. Þú getur búið til dæmi, og fundið þau, en einstaklingar eru miklu flóknari en að við getum stillt einhverjar breytur og fundið réttu lausnina.

Við getum yfirfært sömu hugmynd á menntun og heilbrigðisþjónusta. Við getum ekki reiknað út hverjir séu „verðskuldandi“. Ættu lugnalæknar að spyrja fólk hvort það hafi reykt áður en þeir ákveða hvort meðferðin verði ókeypis? Mér finnst einfalt að segja nei við þessari spurningu en ég veit að það er til fólk sem myndi segja já.

Það er kannski ágætt að nota reykingar sem dæmi sem upplýsir allt hitt. Ef við viljum úrskurða að reykingafólk verðskuldi ekki meðferð við lungnasjúkdómum þá erum við í mörgum tilfellum að segja að heimskuleg ákvörðun ósjálfráða barns eigi að móta líf þess. Ef vinir þínir byrjuðu að reykja og þú hermdir eftir af því að þú vildir ekki vera útundan þá skaltu borga fyrir þau mistök það sem eftir er ævi þinnar – ekki bara með lélegum lungum heldur beinhörðum peningum.

Við erum auðvitað á hverjum degi að refsa fullt af fólki fyrir heimskulegar ákvarðanir sem það tók á barnsaldri. Ef þú ákveður 16 ára að sleppa framhaldsskóla og fara að vinna þá áttu skilið lægri laun það sem eftir er ævi þinnar. Það skiptir engu máli hvort þetta var ákvörðun eða nauðung. Ef þú hafðir tök á því að halda áfram menntun þinni þá færðu sama dóm og þeir sem vildu bara hafa efni á að hella sig fulla um hverja helgi.

Ég vil taka fram að ég tel líka ósanngjarnt að þeir sem ákváðu að drekka sig fulla um hverja helgi sextán ára þurfi að gjalda þess alla ævi. Við vitum að það geta verið allskyns ástæður á bak við slíkt. Kannski var áfengi eina þunglyndislyfið sem þú hafðir aðgang að. Ég hef líka verið í þeirri stöðu að hjálpa námsfólki sem hafði kannski tekið slæma ákvörðun varðandi menntun sína þegar það var sextán ára. Síðan ákvað menntamálaráðherra að ef þetta fólk væri orðið 25 ára verðskuldaði það ekki annað tækifæri til menntunar. Ég er ennþá reiður yfir því.

Borgaralaun eru sú hugmynd af við verðskuldum öll grunnframfærslu. Ég er hrifinn af þeirri hugmynd en ég á erfitt með að trúa að slíkt gangi í gegn. Ég held að reynslan sýni líka að þar sem þetta hefur verið reynt hefur hugmyndin verið svo útvötnuð að hún hefur orðið t.d. að verri útgáfu af örorkutryggingum. Margir halda að það sé fyrsta skrefið að almennum borgaralaunum en ég sé það ekki gerast með slíkum hænuskrefum. Ég held að þetta sé frekar tækifæri til að gera ómanneskjulegt kerfi verra.

Ónáttúruleg náttúra Guðmundar Franklín

Fyrirsjáanlegasti forsetaframbjóðandinn er kominn fram. Það er Guðmundur Franklín. Hann er lengi búinn að vera auglýsa hálfsamhengislausar færslur sínar á Facebook. Hann hefur líka gert margar mislukkaðar tilraunir til að koma sér á framfæri í stjórnmálum.

Ég hef auðvitað engar áhyggjur af því að Guðmundur Franklín nái kjöri. Getur hann náð nægilega mörgum undirskriftum? Hver veit? Sprellararnir skrifa væntanlega frekar undir hjá falskaflaggsmanninum. Trump hefur þó sýnt að peningar geta fleytt manni langt í stjórnmálum en ekki tókst Bloomberg að kaupa sér fylgi í forkosningunum núna. Það má nefnilega ekki gleymast að Trump var sjónvarpsstjarna. Guðmundur Franklín er það ekki.

Ef ég leyfi mér að fara í hlutverk „álitsgjafa“ eða hvað maður getur kallað svoleiðis þá verða möguleg áhrif Guðmundar helst þau að aðrir sem hafa gælt við forsetadrauminn sjá sér færi á að koma í kjölfarið. Það er nefnilega auðveldara að kúka stökkva í laugina þegar einhver er á undan manni.

Spurningin er þá hvort einhver getur raunverulega haggað Guðna. Ég held ekki. Ekki núna. Ef Guðmundur nær undirskriftunum og verður einn í framboði gegn Guðna þá nær hann í mesta falli óánægjuatkvæðunum og þau eru ekki nægilega mörg.

Í mér blunda tvær skoðanir. Annars vegar tel ég lýðræðið ákaflega mikilvægt. Hins vegar langar mig bara ekkert að fara í forsetakosningavesen í þessum aðstæðum bara til þess að Guðmundur Franklín geti barist við vindmyllurnar sínar. Hann segir m.a. „að ESB verði aldrei samþykkt án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Ég veit ekki til þess að nokkur vilji að við göngum í ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu.

Allt þetta er þá fyrst og fremst afsökun fyrir því að tala um myndina sem Guðmundur Franklín hefur sett á hausinn á Facebook-síðunni sinni. Hún er mikið afrek. Tæknilega séð er hún auðvitað illa unnin. Ég hélt að Guðmundur ætti næga peninga til að fá einhverja í myndvinnslu fyrir sig. Kannski er hann bara nískur. Allavega er þetta í ætt við það sem Ástþór gerði á sínum tíma en myndvinnslu hefur fleygt fram í millitíðinni.

Grunnmyndin er í raun flott. Fallegt fall, fallegir litir. En þegar ég sá hana hlaðast inn líktist hún helvíti. Fyrsta vandamálið er að litir bakgrunnsins passa alls ekki við myndina af Guðmundi. Hann passar ekki þarna. Þetta verður ýktara þegar myndin er skoðuð betur. Hún er illa klippt. Útlína Guðmundar er alveg rosalega pixluð. Það er bókstaflega eins og að gamli bakgrunnur myndarinnar sé þarna ennþá. Það er ótrúlega létt að gera þetta betur, meira að segja ég get það. En Guðmundur er líka bara kjánalegur á myndinni. Þetta á væntanlega að tákna að hann sé að horfa til framtíðar. Það er ekki það sem ég sé. Ég sé mann sem er utangátta. Hann veit ekkert hvað er að gerast. Kannski er hann að horfa á vörubílinn nálgast en hann áttar sig ekkert á því að hann ætti að fara af veginum. Hann er í raun voðalega Ástþórslegur.

Ef ég væri betur að mér í letri þá myndi ég væntanlega geta komið með einhverja útskýringu á því af hverju mér líkar ekki við hvernig textanum hefur verið komið þarna fyrir. Staðsetningin er auðvitað ekki frábær en það er ýmislegt meira að.

Fólksfjölgunarvandamálið

Þegar loftslagshamfarir eru í umræðunni þá koma alltaf reglulega athugasemdir um að raunverulega vandamálið sé fólksfjölgun. Nú er ég alveg á því að það væri gott að koma jafnvægi á fjölda jarðarbúa, jafnvel þannig að þeim fækki í framtíðinni. Samt er ég á því að þeir sem tala um þetta sem lausn á útblæstri gróðurhúsalofttegunda séu að misskilja eða mistúlka.

Með því að líta framhjá öllu samhengi þá er hægt að líta svo á að fjölgun fólks í „þriðja heiminum“ (eða hvaða hugtak við notum til öðrunar á fátækari hlutum heims) sé vandamálið. En ef við athugum hverjir það eru sem eru að nota auðlindirnar þá sjáum við að það er gríðarleg rangtúlkun.

Við sem búum í hinum vestræna heimi erum að ganga á auðlindir jarðar. Við erum eins og sníkjudýr á jörðinni. Við tökum til okkar endalaust, hvort sem það er orka, matur eða bara hvers konar dót og drasl. En það er ekki nóg með að við tökum þetta til okkar heldur hendum við þessu frá okkur nærri því jafn hratt og við kaupum það.

Þegar bent er á þessar staðreyndir eru alltaf einhverjir sem svara með því að segja að mengun sé mest í fátækari löndum. En hvers vegna er verið að menga svo mikið þar? Jú, vegna þess að það er verið að framleiða allskonar fyrir okkur sem höfum efni á að kaupa.

Þegar ég segi „við“ þá á ég vissulega m.a. við sjálfan mig. En auðvitað þá er ríkasta prósentið sem er helsta vandamálið. Í raun stigversnar það eftir því sem prósentubrotið minnkar. Fólk sem á peninga til brenna notar þau völd til þess að brenna framtíð okkar allra.

Ég trúi ekki á illsku, allavega ekki Illsku eða hið Illa, en ég veit að græðgi er til og græðgi er líklega það sem kemst næst því að vera Illska. Fátækt fólk sem eignast börn er ekki byrði á heiminum, það er fólkið sem á 600m² sjávarvillur sem er að skemma heiminn.

Morð frá sjónarhorni

Það væri áhugavert að búa til tvær myndir. Í annarri myndinni væru löggur sem eru sannfærðar um að morðingi sé að sleppa og telja sig tilneyddar að búa til sönnunargögn gegn honum. Í hinni myndinni er saklaus maður að verja sig gegn spilltum löggum sem eru að reyna að búa til sönnunargögn gegn honum.
 
Þetta væru nákvæmlega sömu persónur og leikarar og mörg atriðin gætu verið alveg eins. Það þyrfti bara að bæta við nokkrum atriðum sem gefa áhorfendum leið til að kynnast þeim persónum sem eru í aðalhlutverki og að sjá eitthvað sem gefur til kynna að staðreyndir séu aðeins öðruvísi en í hinni útgáfunni.
 
En auðvitað þá eru ótal svona kvikmyndir og sjónvarpsþættir. Kannski ekki nákvæmlega sömu persónur og leikarar en mjög svipaðar aðstæður. Val handritshöfunda og leikstjóra stjórna síðan því hvernig áhorfandinn bregst við. Sami áhorfandinn, ég til dæmis, get stutt lögguna sem er bara að reyna að koma morðingja í fangelsi en um leið hneykslast á því hvernig löggan kemur fram við saklausan mann ef ég sé þetta frá því sjónarhorni.
 
Þetta snýst náttúrulega ekki bara um glæpamál, uppdiktuð eða raunverulega, heldur öll mál sem fólk sér frá mismunandi sjónarhornum.

Afsagnarkrafa til Sigmundar Davíðs

Ég er ekki meðal þeirra sem hafa krafist afsagnar Sigmundar Davíðs vegna Klausturfokksins. Ástæðan er auðvitað sú að ég er bara almennur stuðningsmaður þess að Sigmundur láti sig hverfa út opinberri þjónustu vegna almennrar vanhæfni og óheiðarleika. Það væri því bölvuð hræsni hjá mér að láta eins og þessi uppákoma hafi breytt einhverju um álit mitt á honum.

Kjósum betur

Í dag kjósum við. Ég ætla að kjósa VG – enda er ég í framboði í Reykjavíkurkjördæmi suður. Ég treysti VG best fyrir menntamálum, heilbrigðismálum, velferðarmálum og, síðast en ekki síst, loftslagsmálum.

VG er ekki fullkominn flokkur. Ég játa það alveg. En mér finnst samt valið mjög skýrt. Fólk segir að slagorðið „Gerum betur“ segi ekki nóg en ég hef allavega mínar eigin skýringar á því. VG getur gert betur en núverandi ríkisstjórn en VG getur líka gert betur en í ríkisstjórninni 2009-2013. Allavega ef flokkurinn fær nægan stuðning. Í þeirri ríkisstjórn þurfti að takast á við ótrúlega mörg og erfið mál en það tókst nægilega vel til þess að leggja grunn að uppgangi síðustu ára.

Sá uppgangur hefur ekki verið nýttur í neitt af viti. Það er einkavæðing í mennta- og heilbrigðiskerfinu og niðurskurður í velferðarmálum. Það er grátlegt.

VG þarf tækifæri til að stjórna í uppsveiflu og byggja upp menntakerfið, heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið. Ég treysti engum betur í það verkefni.

Ég vona að VG leiði ríkisstjórn með Pírötum og Samfylkingu. Það væri óskastaða. Það væri langbest ef þú myndir kjósa VG. En ef þú ert heitur ESB-sinni þá geturðu kosið Samfylkinguna. Ef þér finnst VG ekki nógu dugleg í stjórnarskrármálum þá geturðu kosið Pírata.

Ef þú kýst Sjálfstæðisflokkinn þá skil ég þig ekki – nema að þú sért milljónamæringur sem hatar fátækt fólk. Ef þú ætlar að kjósa Miðflokkinn þá bið ég þig um að finna leið til að gera atkvæðið þitt ógilt eða bara kjósa Framsókn í staðinn. Ef þú vilt Viðreisn þá ættirðu eiginlega frekar að kjósa Bjarta framtíð (sami flokkur með færri milljónamæringum).

Eða kjóstu bara VG. Það er langbesti kosturinn.

Sigmundur Davíð skrópgemlingur


Sigmundur Davíð hefur verið gagnrýndur fyrir að mæta sjaldan í vinnuna. Ég hef heyrt af því að hann segist sjálfur í raun tekið þátt í um 90% af starfi þingsins. Skoðum þau gögn sem eru til staðar.

Á Alþingisvefnum kemur fram hve oft hann hefur tekið þátt í atkvæðagreiðslum.

Fjöldi já-atkvæða: 192
Fjöldi nei-atkvæða: 14
Greiðir ekki atkvæði: 43
Fjarverandi: 206
Hann var sumsé fjarverandi í rúmlega 45% atkvæðagreiðslna. En það segir ekki alla söguna. Ástæðan fyrir því að hann er með svona góða prósentu er að hann mætti á þingfundi þar sem voru mjög margar atkvæðagreiðslur. Hann mætti 22. desember til að greiða atkvæði í sumum málum. Hann var næst mættur í atkvæðagreiðslu þann 16 maí. Þarna er hálft ár þar sem hann mætir aldrei til að kjósa. Hann er síðan duglegur, á sinn mælikvarða, að mæta til að kjósa næsta hálfa mánuðinn.

En það sem er áhugaverðara er að skoða mætingu hans á fundi Utanríkismálanefndar. Það voru 29 fundir á árinu og Sigmundur mætti tíu sinnum. Af þessum tíu fundum sem hann mætti voru fjórir í maí sem var greinilega langbesti mánuðurinn hans.

Það vekur líka athygli að Sigmundur mætti aldrei á réttum tíma. Tvisvar var hann innan við tíu mínútum of seinn sem er afsakanlegt (á íslenskan mælikvarða). Yfirleitt var hann svo seinn að nemandi í grunn- eða framhaldsskóla hefði fengið skróp í kladdann. Einu sinni náði hann að vera 101 mínútu of seinn á fund og var viðstaddur síðustu nítján mínúturnar.

Þá er rétt að benda á að hér er ekki um fjarveru sem er afsökuð á einhvern hátt. Þarna hefur hann ekki kallað inn varamann. Hann var ekki að erindast erlendis.

1. fundur: Fjarverandi
2. fundur: Fjarverandi
3. fundur: 45 mínútum of seinn. 30 mínútur á fundinum.

4. fundur: Fjarverandi
5. fundur: 56 mínútu of seinn. 64 mínútur á fundinum.

6. fundur: Fjarverandi
7. fundur: 101 mínútum of seinn. 19 mínútur á fundinum.

8. fundur: Fjarverandi
9. fundur: Fjarverandi
10. fundur: Fjarverandi
11. fundur: 20 mínútum of seinn. 67 mínútur á fundinum.

12. fundur: Fjarverandi
13. fundur: Fjarverandi
14. fundur: Fjarverandi
15. fundur: Fjarverandi
16. fundur: Fjarverandi
17. fundur: Á réttum tíma. 37 mínútur á fundinum.

18. Fjarverandi
19. Fjarverandi
20. fundur: 28 mínútum of seinn. 32 mínútur á fundinum.

21. fundur: 17 mínútum of seinn. 73 mínútur á fundinum.

22. fundur: 13 mínútum of seinn. 122 mínútur á fundinum.

23. fundur: Fjarverandi
24. fundur: Fjarverandi
25. fundur: 4 mínútum of seinn. 26 mínútur á fundinum.

26. fundur: Fjarverandi
27. fundur: Fjarverandi
28. fundur: Fjarverandi
29. fundur: 8 mínútum of seinn. 52 mínútur á fundinum.

Russell Brand – Slaktivistabylting hirðfíflsins

Ég held ég sé búinn að fylgjast með Russell Brand lengur en flestir Íslendingar. Ég hef lesið tvær ævisögur hans og þótti önnur þeirra stórskemmtileg. Ég fór á uppistandið hans í fyrra og skemmti mér vel. Mér þykir Brand líka oft skemmtilegur þegar hann er með uppsteyt, t.d. þegar hann skaut á Hugo Boss.

En Russell Brand er ekki pólitískur hugsuður. Hann er hirðfífl. Hann getur stundum afhjúpað valdamenn og er ekki laus við innsæi. Hann skrifaði t.d. ákaflega vel um óeirðirnar í Bretlandi fyrir nokkrum árum enda þekkir hann vel þær aðstæður sem sköpuðu þær.

Bókin Revolution er ekki laus við góðar hugmyndir – hún er bara laus við góðar nýjar hugmyndir. Og hún er uppfull af slæmum hugmyndum. Góðu hugmyndirnar koma aðallega frá hugsuðum eins og Chomsky og Brand viðurkennir það yfirleitt. Vondu hugmyndirnar koma flestar úr nýaldarspekinni sem Brand aðhyllist svo mjög.

Bókin virðist illa rannsökuð. Til dæmis heldur Brand því fram að Júpíter hafi fjögur tungl sem er alveg afskaplega rangt. Síðan eru líka nokkrar vafasamar tilvitnanir í Einstein og ég hef einmitt þá stefnu að álíta allar slíkar tilvitnanir falsaðar ef ekki fylgir vísun í heimildir. Þegar Brand talar um spænska borgarastríðið þá virðist hann ekki skilja neitt um það, ekki bakgrunn þess eða eftirmál.

Það sem ég hef lesið um bókina til þessa hefur verið á þá leið að Brand komi ekki með neinar hugmyndir um að koma „byltingunni“ af stað. Það er reyndar rangt. Hann er með eina hugmynd um að koma byltingunni af stað og það er að hugleiða.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég hef ekkert á móti hugleiðslu og hef alveg velt fyrir mér að prufa. Hins vegar veit ég vel að þó hugleiðslan myndi kannski koma sér vel fyrir mig þá hefur hún engin áhrif á neitt annað. Það er sama og um aðrar athafnir sem róa hugann, hvort sem það eru bænir eða að horfa á heimskulegar gamanmyndir. Það hefur ekki áhrif nema á og í gegnum mann sjálfan.

Brand vitnar oft í tilraun sem fylgjendur Maharishi Mahesh Yogi gerðu. Þeir hugleiddu tvisvar á dag saman í von um að lækka glæpatíðnina í Washington DC í Bandaríkjunum. Brand heldur að þessi tilraun hafi virkað þannig að glæpatíðnin hafi lækkað um 20%. Vandinn er að það gerðist ekki. Sér í lagi hefur verið bent á að morðtíðni í borginni hækkaði en sá sem gerði tilraunina svaraði þannig að „hrottalegum“ morðum hafi fækkað. Það að tala um gagnsemi hugleiðslu til að hafa áhrif á samfélagið er helsta tilraun Brand til að koma með aðferðir til að bylta samfélaginu. Brand má eiga það að hann hæðist að tilraunum þessa sama hóps, sem hann sjálfur tilheyrir, til jógaflugs. Vonandi er hægt að nota tölfræði til að sýna honum að hugleiðslutilraunin er af sama sauðahúsi.

Brand talar nokkrum sinnum illa um vísindin en á sama tíma er honum mikið í mun að reyna að nota skammtafræði til að réttlæta nýaldarspeki sína. Á þeim köflum gretti ég mig töluvert í framan og í heilanum. Mjög vafasöm túlkun.

Versta hugmyndin í bókinni er auðvitað að fólk ætti ekki að kjósa en hún er ekki ný. Það er barnaleg hugmynd sem dæmir fólk einfaldlega úr leik. Stjórnmálamenn eltast ekki við fólk sem kýs ekki. Auðvelt dæmi á Íslandi er auðvitað hvernig lág kosningaþátttaka ungs fólks varð til þess að Píratar fengu ekki það fylgi sem þeir hefðu getað fengið. Auðvitað eru aðstæður aðrar í Bretlandi en þar væri til dæmis miklu betri hugmynd að kjósa Græna flokkinn þar heldur en að sleppa því að kjósa. UKip fólkið kýs. Gamla fólkið kýs. Ef þú kýst ekki þá ertu ekki með og öllum er sama um þig. Flokkarnir reyna frekar að færa sig til þeirra sem munu kjósa (sem er auðvitað ein helst ástæðan fyrir því að í Bandaríkjunum eru tvær hægri flokkar sem öllu ráða). Það þarf auðvitað meiri pistil til að ræða mikilvægi þess að kjósa en ég vil samt segja að það er mikilvægt að reyna að velja skásta kostinn og sætta sig við að stundum líði manni svoltið eins og maður sé skítugur fyrir að taka þátt í þessu.

Það hefði líka verið sterkara hjá Brand að segja fólki að skila auðu eða gera ógilt heldur en að sitja heima. Enginn sér mun á þeim sem sitja heima af því að þeir eru latir og þeim sem sitja heima af því að þeir eru reiðir.

Auðvitað hefði verið gagnlegast ef Brand hefði hvatt fólk til að taka þátt í pólitísku starfi eða hópum sem eru berjast fyrir samfélagslegum breytingum. En það hefði ekki verið nógu einfalt til að ná til fólks sem vill helst láta réttlæta ákvörðun sína um að kjósa ekki.

Bókin er samhengislítil og frekar ófyndin, dáltið eins og seinni ævisaga hans. Brand fer oft á tíðum út um víða völl þannig að lesendur hljóta að hafa misst þráðinn þegar hann snýr aftur að því sem hann var að tala um. Verst er froðuspekin þar sem Brand talar í löngu og flóknu máli til að fela að hann hefur ekkert að segja.

Russell Brand segist hafa farið að ráðum grínistans Robert Webb og lesið smá Orwell en það hefur ekki gagnast mikið því Brand virðist ekki skilja neitt. Það er annars gagnlegt að bera Brand saman við annan breskan grínista, Frankie Boyle, sem talar mikið um stjórnmál. Sá er alltaf tilbúinn að benda lesendum sínum á að hann sé bara grínisti og að hann sé ekki skarpasti hugsuðurinn þó hann sé auðvitað miklu mun skarpari en Brand.

Bókin er líklega hápunktur „slaktivismans“ því hún hvetur fólk til að breyta samfélaginu með því að sitja heima á kjördag og sitja á rassinum að hugleiða. Kannski virkar Brand best sem hirðfífl vinstrimennskunnar sem minnir okkur á að lýðræði er fyrir þá sem taka þátt.

Sóley Tómasdóttir er lélegur stjórnmálamaður

Fyrirsögnin mín er held ég rétt. Sóley er lélegur stjórnmálamaður. Ef hún væri góður stjórnmálamaður myndi fólk átta sig á því að hún er besti borgarfulltrúinn sem við höfum haft undanfarin ár. Þegar kemur að menntamálum, velferðarmálum, andspyrnu við einkavæðingu og allt annað sem ég man eftir þá hefur hún staðið sig betur í baráttunni en nokkur annar og oft er hún ein að halda uppi andstöðu frá vinstri.

En hún er lélegur stjórnmálamaður. Góðir stjórnmálamenn hafa vit á að tjá sig ekki um umdeild málefni ef þeir komast hjá því. Sóley hefur ekki vit á því. Við vitum nákvæmlega hvar hún stendur af því að hún segir okkur það. Hún er sumsé svona stjórnmálamaður eins og fólk þykist vilja en vill ekki í raun. Fólk segist vilja einlægni en fellur síðan fyrir fagurgala.

Í vor mun margt vinstra fólk kjósa til hægri við VG af því að það er ósammála skoðunum Sóleyjar í málum sem aldrei koma inn á borð borgarstjórnar. Það er galið. Það er líka galið af því að Sóley er örugg inn en með smá aukastyrk þá gæti Líf (sem er í öðru sætinu) komist inn í borgarstjórn.

Ég hef lesið það að ýmsir vinstri menn segja að þeir hefðu kosið VG ef Líf hefði verið í efsta sætinu. Það er galið því atkvæði til VG er mun frekar til stuðnings henni heldur en Sóleyju. Fólk heldur að það sé að kjósa efsta sætið en í raun snýst kosningin um baráttusætið – og það er Líf.

Nokkur atriði um stjórnarskrármálið

Það myndaðist hérna ákaflega erfið stemming í kringum stjórnarskrármálið sem gerði erfitt að ræða það. Það þarf eiginlega að nefna nokkur atriði um það.

  • Stjórnlagaráð fór í alltof veigamiklar breytingar á stjórnarskránni. Ef ráðið hefði bara lagt áherslu á nokkur lykilatriði þá stæðum við í dag uppi með stórbætta stjórnarskrá. Í staðinn var lögð fram stjórnarskrá sem var alveg fyrirsjáanlegt að yrði aldrei samþykkt af Alþingi.
  • Kosningarnar um stjórnarskrána höfðu ekkert stjórnskipulagslegt gildi (ekki frekar en kosningarnar um hvort Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera í Vatnsmýrinni). Það vissu menn fyrirfram og sumir kjósendur nefndu það sem afsökun fyrir að taka ekki þátt í þeim. Það að tala um að það sé valdarán að fara ekki eftir niðurstöðum kosningana er út í hött. Þingið hefur löggjafavald og þá skiptir engu hvaða álit menn hafa á þingræðinu.
  • Þingmenn sækja umboð sitt til kjósenda í þingkosningum. Höfuðskylda þeirra er að breyta eftir eigin sannfæringu. Þar af leiðandi var galið að ætlast til þess t.d. að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu að kjósa gegn eigin sannfæringu út frá niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána.
  • Ef gömlu þingmenn Borgarahreyfingarinnar hefðu verið til í að hjálpa þá hefði mögulega verið hægt að ná fram ágætum breytingum á stjórnarskránni á lokametrunum. En hér gildir að vilja heldur þann versta en þann næstbesta. Síðan gæti líka verið að sumir hafa áttað sig á að það væri gott fyrir komandi kosningabaráttu að slá sig til riddara.
  • Það var aldrei hægt að nota 71. gr. þingskaparlaga því andstæðingar frumvarpsins hefðu einungis þurft að yfirgefa þingsal til að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu (helmingur þingmanna þarf að vera viðstaddur atkvæðagreiðslu). Ég tel líka beitingu 71. greinarinnar almennt ólýðræðislega. Hér og í næsta atriði á undan gef ég mér reyndar að það hafi leynst andstæðingar frumvarpsins í þingliði stjórnarflokkana sem ég er ekki alveg viss um að sé rétt.
  • Þau sem unnu harðast að því að bjarga leifunum af stjórnarskrárfrumvarpinu voru Katrín Jakobsdóttir og Árni Páll Árnason og fengu engar þakkir fyrir.
  • Það að keyra stjórnarskrármálið af krafti í þrot og þar með koma í veg fyrir að nokkrar breytingar yrðu hefði komið miklu betur út fyrir ríkisstjórnina. Þá hefði orðið endalaust málþóf, ekki bara um þetta mál heldur öll önnur mál sem átti eftir að samþykkja. Það hefði líka náð afhjúpa þá þingmenn ríkisstjórnarinnar sem voru mótfallnir breytingunum sem hefði verið gott.
  • Allar málamiðlanir um breytingar á stjórnarskrárfrumvarpinu þurftu að vera á þann veg að öruggur meirihluti yrði fyrir þeim eftir kosningar. Það var löngu fyrirsjáanlegt að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur yrðu með meirihluta og ef málið hefði verið þvingað í gegn í heild sinni gegn vilja þeirra þá hefðu þeir flokkar einfaldlega fellt breytingarnar á næsta þingi.