Sigmundur Davíð skrópgemlingur


Sigmundur Davíð hefur verið gagnrýndur fyrir að mæta sjaldan í vinnuna. Ég hef heyrt af því að hann segist sjálfur í raun tekið þátt í um 90% af starfi þingsins. Skoðum þau gögn sem eru til staðar.

Á Alþingisvefnum kemur fram hve oft hann hefur tekið þátt í atkvæðagreiðslum.

Fjöldi já-atkvæða: 192
Fjöldi nei-atkvæða: 14
Greiðir ekki atkvæði: 43
Fjarverandi: 206
Hann var sumsé fjarverandi í rúmlega 45% atkvæðagreiðslna. En það segir ekki alla söguna. Ástæðan fyrir því að hann er með svona góða prósentu er að hann mætti á þingfundi þar sem voru mjög margar atkvæðagreiðslur. Hann mætti 22. desember til að greiða atkvæði í sumum málum. Hann var næst mættur í atkvæðagreiðslu þann 16 maí. Þarna er hálft ár þar sem hann mætir aldrei til að kjósa. Hann er síðan duglegur, á sinn mælikvarða, að mæta til að kjósa næsta hálfa mánuðinn.

En það sem er áhugaverðara er að skoða mætingu hans á fundi Utanríkismálanefndar. Það voru 29 fundir á árinu og Sigmundur mætti tíu sinnum. Af þessum tíu fundum sem hann mætti voru fjórir í maí sem var greinilega langbesti mánuðurinn hans.

Það vekur líka athygli að Sigmundur mætti aldrei á réttum tíma. Tvisvar var hann innan við tíu mínútum of seinn sem er afsakanlegt (á íslenskan mælikvarða). Yfirleitt var hann svo seinn að nemandi í grunn- eða framhaldsskóla hefði fengið skróp í kladdann. Einu sinni náði hann að vera 101 mínútu of seinn á fund og var viðstaddur síðustu nítján mínúturnar.

Þá er rétt að benda á að hér er ekki um fjarveru sem er afsökuð á einhvern hátt. Þarna hefur hann ekki kallað inn varamann. Hann var ekki að erindast erlendis.

1. fundur: Fjarverandi
2. fundur: Fjarverandi
3. fundur: 45 mínútum of seinn. 30 mínútur á fundinum.

4. fundur: Fjarverandi
5. fundur: 56 mínútu of seinn. 64 mínútur á fundinum.

6. fundur: Fjarverandi
7. fundur: 101 mínútum of seinn. 19 mínútur á fundinum.

8. fundur: Fjarverandi
9. fundur: Fjarverandi
10. fundur: Fjarverandi
11. fundur: 20 mínútum of seinn. 67 mínútur á fundinum.

12. fundur: Fjarverandi
13. fundur: Fjarverandi
14. fundur: Fjarverandi
15. fundur: Fjarverandi
16. fundur: Fjarverandi
17. fundur: Á réttum tíma. 37 mínútur á fundinum.

18. Fjarverandi
19. Fjarverandi
20. fundur: 28 mínútum of seinn. 32 mínútur á fundinum.

21. fundur: 17 mínútum of seinn. 73 mínútur á fundinum.

22. fundur: 13 mínútum of seinn. 122 mínútur á fundinum.

23. fundur: Fjarverandi
24. fundur: Fjarverandi
25. fundur: 4 mínútum of seinn. 26 mínútur á fundinum.

26. fundur: Fjarverandi
27. fundur: Fjarverandi
28. fundur: Fjarverandi
29. fundur: 8 mínútum of seinn. 52 mínútur á fundinum.

Russell Brand – Slaktivistabylting hirðfíflsins

Ég held ég sé búinn að fylgjast með Russell Brand lengur en flestir Íslendingar. Ég hef lesið tvær ævisögur hans og þótti önnur þeirra stórskemmtileg. Ég fór á uppistandið hans í fyrra og skemmti mér vel. Mér þykir Brand líka oft skemmtilegur þegar hann er með uppsteyt, t.d. þegar hann skaut á Hugo Boss.

En Russell Brand er ekki pólitískur hugsuður. Hann er hirðfífl. Hann getur stundum afhjúpað valdamenn og er ekki laus við innsæi. Hann skrifaði t.d. ákaflega vel um óeirðirnar í Bretlandi fyrir nokkrum árum enda þekkir hann vel þær aðstæður sem sköpuðu þær.

Bókin Revolution er ekki laus við góðar hugmyndir – hún er bara laus við góðar nýjar hugmyndir. Og hún er uppfull af slæmum hugmyndum. Góðu hugmyndirnar koma aðallega frá hugsuðum eins og Chomsky og Brand viðurkennir það yfirleitt. Vondu hugmyndirnar koma flestar úr nýaldarspekinni sem Brand aðhyllist svo mjög.

Bókin virðist illa rannsökuð. Til dæmis heldur Brand því fram að Júpíter hafi fjögur tungl sem er alveg afskaplega rangt. Síðan eru líka nokkrar vafasamar tilvitnanir í Einstein og ég hef einmitt þá stefnu að álíta allar slíkar tilvitnanir falsaðar ef ekki fylgir vísun í heimildir. Þegar Brand talar um spænska borgarastríðið þá virðist hann ekki skilja neitt um það, ekki bakgrunn þess eða eftirmál.

Það sem ég hef lesið um bókina til þessa hefur verið á þá leið að Brand komi ekki með neinar hugmyndir um að koma “byltingunni” af stað. Það er reyndar rangt. Hann er með eina hugmynd um að koma byltingunni af stað og það er að hugleiða.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég hef ekkert á móti hugleiðslu og hef alveg velt fyrir mér að prufa. Hins vegar veit ég vel að þó hugleiðslan myndi kannski koma sér vel fyrir mig þá hefur hún engin áhrif á neitt annað. Það er sama og um aðrar athafnir sem róa hugann, hvort sem það eru bænir eða að horfa á heimskulegar gamanmyndir. Það hefur ekki áhrif nema á og í gegnum mann sjálfan.

Brand vitnar oft í tilraun sem fylgjendur Maharishi Mahesh Yogi gerðu. Þeir hugleiddu tvisvar á dag saman í von um að lækka glæpatíðnina í Washington DC í Bandaríkjunum. Brand heldur að þessi tilraun hafi virkað þannig að glæpatíðnin hafi lækkað um 20%. Vandinn er að það gerðist ekki. Sér í lagi hefur verið bent á að morðtíðni í borginni hækkaði en sá sem gerði tilraunina svaraði þannig að “hrottalegum” morðum hafi fækkað. Það að tala um gagnsemi hugleiðslu til að hafa áhrif á samfélagið er helsta tilraun Brand til að koma með aðferðir til að bylta samfélaginu. Brand má eiga það að hann hæðist að tilraunum þessa sama hóps, sem hann sjálfur tilheyrir, til jógaflugs. Vonandi er hægt að nota tölfræði til að sýna honum að hugleiðslutilraunin er af sama sauðahúsi.

Brand talar nokkrum sinnum illa um vísindin en á sama tíma er honum mikið í mun að reyna að nota skammtafræði til að réttlæta nýaldarspeki sína. Á þeim köflum gretti ég mig töluvert í framan og í heilanum. Mjög vafasöm túlkun.

Versta hugmyndin í bókinni er auðvitað að fólk ætti ekki að kjósa en hún er ekki ný. Það er barnaleg hugmynd sem dæmir fólk einfaldlega úr leik. Stjórnmálamenn eltast ekki við fólk sem kýs ekki. Auðvelt dæmi á Íslandi er auðvitað hvernig lág kosningaþátttaka ungs fólks varð til þess að Píratar fengu ekki það fylgi sem þeir hefðu getað fengið. Auðvitað eru aðstæður aðrar í Bretlandi en þar væri til dæmis miklu betri hugmynd að kjósa Græna flokkinn þar heldur en að sleppa því að kjósa. UKip fólkið kýs. Gamla fólkið kýs. Ef þú kýst ekki þá ertu ekki með og öllum er sama um þig. Flokkarnir reyna frekar að færa sig til þeirra sem munu kjósa (sem er auðvitað ein helst ástæðan fyrir því að í Bandaríkjunum eru tvær hægri flokkar sem öllu ráða). Það þarf auðvitað meiri pistil til að ræða mikilvægi þess að kjósa en ég vil samt segja að það er mikilvægt að reyna að velja skásta kostinn og sætta sig við að stundum líði manni svoltið eins og maður sé skítugur fyrir að taka þátt í þessu.

Það hefði líka verið sterkara hjá Brand að segja fólki að skila auðu eða gera ógilt heldur en að sitja heima. Enginn sér mun á þeim sem sitja heima af því að þeir eru latir og þeim sem sitja heima af því að þeir eru reiðir.

Auðvitað hefði verið gagnlegast ef Brand hefði hvatt fólk til að taka þátt í pólitísku starfi eða hópum sem eru berjast fyrir samfélagslegum breytingum. En það hefði ekki verið nógu einfalt til að ná til fólks sem vill helst láta réttlæta ákvörðun sína um að kjósa ekki.

Bókin er samhengislítil og frekar ófyndin, dáltið eins og seinni ævisaga hans. Brand fer oft á tíðum út um víða völl þannig að lesendur hljóta að hafa misst þráðinn þegar hann snýr aftur að því sem hann var að tala um. Verst er froðuspekin þar sem Brand talar í löngu og flóknu máli til að fela að hann hefur ekkert að segja.

Russell Brand segist hafa farið að ráðum grínistans Robert Webb og lesið smá Orwell en það hefur ekki gagnast mikið því Brand virðist ekki skilja neitt. Það er annars gagnlegt að bera Brand saman við annan breskan grínista, Frankie Boyle, sem talar mikið um stjórnmál. Sá er alltaf tilbúinn að benda lesendum sínum á að hann sé bara grínisti og að hann sé ekki skarpasti hugsuðurinn þó hann sé auðvitað miklu mun skarpari en Brand.

Bókin er líklega hápunktur “slaktivismans” því hún hvetur fólk til að breyta samfélaginu með því að sitja heima á kjördag og sitja á rassinum að hugleiða. Kannski virkar Brand best sem hirðfífl vinstrimennskunnar sem minnir okkur á að lýðræði er fyrir þá sem taka þátt.

Sóley Tómasdóttir er lélegur stjórnmálamaður

Fyrirsögnin mín er held ég rétt. Sóley er lélegur stjórnmálamaður. Ef hún væri góður stjórnmálamaður myndi fólk átta sig á því að hún er besti borgarfulltrúinn sem við höfum haft undanfarin ár. Þegar kemur að menntamálum, velferðarmálum, andspyrnu við einkavæðingu og allt annað sem ég man eftir þá hefur hún staðið sig betur í baráttunni en nokkur annar og oft er hún ein að halda uppi andstöðu frá vinstri.

En hún er lélegur stjórnmálamaður. Góðir stjórnmálamenn hafa vit á að tjá sig ekki um umdeild málefni ef þeir komast hjá því. Sóley hefur ekki vit á því. Við vitum nákvæmlega hvar hún stendur af því að hún segir okkur það. Hún er sumsé svona stjórnmálamaður eins og fólk þykist vilja en vill ekki í raun. Fólk segist vilja einlægni en fellur síðan fyrir fagurgala.

Í vor mun margt vinstra fólk kjósa til hægri við VG af því að það er ósammála skoðunum Sóleyjar í málum sem aldrei koma inn á borð borgarstjórnar. Það er galið. Það er líka galið af því að Sóley er örugg inn en með smá aukastyrk þá gæti Líf (sem er í öðru sætinu) komist inn í borgarstjórn.

Ég hef lesið það að ýmsir vinstri menn segja að þeir hefðu kosið VG ef Líf hefði verið í efsta sætinu. Það er galið því atkvæði til VG er mun frekar til stuðnings henni heldur en Sóleyju. Fólk heldur að það sé að kjósa efsta sætið en í raun snýst kosningin um baráttusætið – og það er Líf.

Nokkur atriði um stjórnarskrármálið

Það myndaðist hérna ákaflega erfið stemming í kringum stjórnarskrármálið sem gerði erfitt að ræða það. Það þarf eiginlega að nefna nokkur atriði um það.

  • Stjórnlagaráð fór í alltof veigamiklar breytingar á stjórnarskránni. Ef ráðið hefði bara lagt áherslu á nokkur lykilatriði þá stæðum við í dag uppi með stórbætta stjórnarskrá. Í staðinn var lögð fram stjórnarskrá sem var alveg fyrirsjáanlegt að yrði aldrei samþykkt af Alþingi.
  • Kosningarnar um stjórnarskrána höfðu ekkert stjórnskipulagslegt gildi (ekki frekar en kosningarnar um hvort Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera í Vatnsmýrinni). Það vissu menn fyrirfram og sumir kjósendur nefndu það sem afsökun fyrir að taka ekki þátt í þeim. Það að tala um að það sé valdarán að fara ekki eftir niðurstöðum kosningana er út í hött. Þingið hefur löggjafavald og þá skiptir engu hvaða álit menn hafa á þingræðinu.
  • Þingmenn sækja umboð sitt til kjósenda í þingkosningum. Höfuðskylda þeirra er að breyta eftir eigin sannfæringu. Þar af leiðandi var galið að ætlast til þess t.d. að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu að kjósa gegn eigin sannfæringu út frá niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána.
  • Ef gömlu þingmenn Borgarahreyfingarinnar hefðu verið til í að hjálpa þá hefði mögulega verið hægt að ná fram ágætum breytingum á stjórnarskránni á lokametrunum. En hér gildir að vilja heldur þann versta en þann næstbesta. Síðan gæti líka verið að sumir hafa áttað sig á að það væri gott fyrir komandi kosningabaráttu að slá sig til riddara.
  • Það var aldrei hægt að nota 71. gr. þingskaparlaga því andstæðingar frumvarpsins hefðu einungis þurft að yfirgefa þingsal til að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu (helmingur þingmanna þarf að vera viðstaddur atkvæðagreiðslu). Ég tel líka beitingu 71. greinarinnar almennt ólýðræðislega. Hér og í næsta atriði á undan gef ég mér reyndar að það hafi leynst andstæðingar frumvarpsins í þingliði stjórnarflokkana sem ég er ekki alveg viss um að sé rétt.
  • Þau sem unnu harðast að því að bjarga leifunum af stjórnarskrárfrumvarpinu voru Katrín Jakobsdóttir og Árni Páll Árnason og fengu engar þakkir fyrir.
  • Það að keyra stjórnarskrármálið af krafti í þrot og þar með koma í veg fyrir að nokkrar breytingar yrðu hefði komið miklu betur út fyrir ríkisstjórnina. Þá hefði orðið endalaust málþóf, ekki bara um þetta mál heldur öll önnur mál sem átti eftir að samþykkja. Það hefði líka náð afhjúpa þá þingmenn ríkisstjórnarinnar sem voru mótfallnir breytingunum sem hefði verið gott.
  • Allar málamiðlanir um breytingar á stjórnarskrárfrumvarpinu þurftu að vera á þann veg að öruggur meirihluti yrði fyrir þeim eftir kosningar. Það var löngu fyrirsjáanlegt að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur yrðu með meirihluta og ef málið hefði verið þvingað í gegn í heild sinni gegn vilja þeirra þá hefðu þeir flokkar einfaldlega fellt breytingarnar á næsta þingi.

Ruglið um 5% regluna

Enn eru rugludallar að kenna 5% reglunni um vandamál kjördæmakerfisins. Sérstaklega er sársaukafullt að heyra menn halda því fram að hún sé sett til þess að níðast á litlu flokkunum.

Fyrst verð ég að útskýra eitt sem margir sem þvaðra um 5% regluna virðast ekki vita. Þessi regla snýst um úthlutun jöfnunarþingsæta og ekkert annað. Áður en 5% reglan var sett gátu engin framboð fengið jöfnunarþingsæti án þess að hafa fengið kjördæmakjörinn þingmann. Þarna var sumsé litlum framboðum auðveldað til muna að komast á þing. Þetta var í raun stórkostleg framför fyrir lítil framboð og án 5% reglunnar væru t.d. Píratar ekki með neinn þingmann.

Það sem fólk hunsar í umræðunni er að jöfnunarþingsætin, sem eru takmörkuð auðlind, eru plástur á atkvæða ójafnvægið sem fylgir kjördæmaskipaninni. Ef landið væri eitt kjördæmi þá væri engin þörf á jöfnunarþingsætum og þaðan af síður reglum um hvernig þeim er úthlutað.

Í raun tel ég að jöfnunarþingsætin séu það versta við kjördæmakerfið af því að það minnkar gagnsæi. Þegar ég greiddi atkvæði Reykjavík suður í síðustu kosningum þá varð atkvæði mitt til þess að hjálpa Ásmundi Daða inn á þing í Norðvesturkjördæmi. Ég gat fyrirfram ekkert vitað um það. Það eru flóknar stærðfræðiformúlur sem liggja þar að baki. Ég hafði ekki neinn möguleika á að strika út Ásmund Daða og koma þannig í veg fyrir að hann gæti grætt á atkvæði mínu.

Þegar fólk gagnrýnir 5% regluna þá nefnir það aldrei hve flókið það væri í raun að lækka þröskuldinn eða afnema hann. Það eitt og sér er ekki nóg því það þarf fleiri jöfnunarþingsæti til að tryggja að framboðin sem þá komast í pottinn geti fengið slík þingsæti.

Ef við myndum fjölga jöfnunarþingsætum myndi gagnsæi kosningakerfisins minnka til muna. Atkvæðin sem við greiddum í okkar kjördæmum til þess að styðja frambjóðendur þar færu mun oftar til að styðja frambjóðendur í öðrum kjördæmum. Við værum sumsé frekar að kjósa flokka en einstaklinga. Þetta yrði sérstaklega absúrd þegar um er að ræða lítil framboð sem ganga oft á persónufylgi einstakra frambjóðenda.

Ef við ætluðum að halda í kjördæmaskiptinguna án þess að hafa þröskuld fyrir að fá jöfnunarþingsæti og jafnframt að tryggja að allir sem fái 1/63 af atkvæðum á landsvísu fái þingmann þá þyrftum við einfaldlega að hafa 63 jöfnunarþingsæti tiltæk. Í slíku kerfi hefðum við nákvæmlega enga stjórn á því hvert atkvæði okkar færi. Þá er í raun búið að afmá alla kosti kjördæmaskiptingarinnar. Svoleiðis er í raun það kerfi sem þeir sem segjast vilja afnema alla þröskulda við úthlutun jöfnunarþingsæta eru að biðja um.

Ég bið því alla sem eru að gagnrýna 5% regluna að pæla aðeins í málinu og beina kröftum ykkar síðan í að berjast gegn kjördæmaskiptingunni sem er raunverulega vandamálið. Í slíku kerfi myndi 1/63 af atkvæðum sjálfkrafa gefa einn þingmann og menn gætu haft nær fullkomna stjórn á því hvert atkvæði manns færi.

Mistökin í stjórnarskrármálinu

Mistök ríkisstjórnarinnar í stjórnarskrármálinu eru augljós og ég hef áður bent á þau. Í stað þess að keyra málið í atkvæðagreiðslu og láta fella það þannig reyndi stjórnin að bjarga einhverju og uppskar ekkert nema vanþakklæti. Það hvort ríkisstjórnin hélt að almenningur myndi skilja hvað gerðist eða hvort þau voru einfaldlega svona heit fyrir nýju stjórnarskránni að þau gátu ekki hugsað sér að drepa hana er eitthvað sem ég get ekki svarað.

Skoðanakannanir og niðurstöður kosninga

Enginn fjölmiðill fylgdi fordæmi N.Y. Times og fékk einhvern til að halda almennilega utan um skoðanakannanir sem gerðar hafa verið fyrir þessar kosningar. Morgunblaðið hefur þó staðið sig áberandi best. Maður getur skoðað kökurit yfir kannanir langt aftur í tímann og þar að auki hafa þeir safnað þessum niðurstöðum í CSV skrá sem klárara fólk en ég gæti gert eitthvað með.

Það sem sést í þessum könnunum er að það eru bara sex flokkar sem hafa möguleika á að ná þingmönnum (Píratar eru líklega óöruggastir). Enginn af hinum framboðunum hafa nokkru sinni náð yfir 4%. Það eina sem gæti breytt þessu er ef að eitthvað framboðið hafi óvenjumikið fylgi í einu kjördæmi og þannig ná kjördæmakjörnum þingmanni. Það er frekar ólíklegt en mögulega gæti persónufylgi einstakra frambjóðenda haft áhrif.

Ég verð að játa að ég get varla fengið af mér að reyna að sannfæra fólk ekki um að kjósa þessi framboð. Ég tel einfaldlega að kjósendur þeirra séu bara svo sannfærðir um ágæti þeirra (eða hafi slíka andúð á “fjórflokknum” sem heitir núna stundum “fimmflokkurinn”) að þeim er sama hvaða áhrif atkvæði þeirra hafa á heildarniðurstöðuna. Ég er nær vonlaus um að næsta ríkisstjórn verði nokkuð annað en hræðilegt afturhvarf til þeirrar stefnu sem leiddi til hrunsins.

Stóri vandinn er ekki litlu framboðin heldur einfaldlega hve margir ætla að kjósa Framsókn og Sjálfstæðisflokk. Niðurstaðan er sú að vinstristjórn sem var rétt komin af stað nær ekki skriðþunga til að draga kerfið almennilega til vinstri.

Draumakosningakerfið

Ég held að ég hafi hvergi nefnt að ég ætla ekki að kjósa besta oddvitann í mínu kjördæmi. Það er nefnilega hann Vésteinn Valgarðsson hjá Alþýðufylkingunni. Ef ég héldi að hann hefði einhvern séns á að komast inn myndi ég kjósa hann.

En það leiðir mig að kosningakerfinu. Ég er ekkert rosalega spenntur fyrir hreinum einstaklingskosningum. Ég held að við höfum séð það í stjórnlagaþingskosningunum að það komst tvenns konar fólk að, þeir sem voru frægir fyrir og þeir sem eyddu nægilega miklu í kosningabaráttuna. Við sáum líka að íslenskir fjölmiðlar réðu ekkert við verkefnið.

En hvað sem því líður þá myndi ég samt vilja kjósa einstaklinga og ég held að það þyrfti ekki að henda út flokkakerfinu til að opna á einstaklingskosningar. Það mætti bjóða upp á þann möguleika að maður gæti gefið frambjóðendum úr fleiri en einum flokki atkvæði sitt. Þetta væri líka jákvæðara kerfi en það sem við búum við með útstrikunum. Augljóslega væri maður líka voðalega til í að gefa frambjóðendum úr öðrum kjördæmum atkvæði sitt.

Man einhver hvernig tillögur Vilmundar Gylfasonar þessi mál voru?

Nöldur um kosningaáttavita

Ég er núna búinn að taka kosningaáttavitaprófið tvisvar og hef í bæði skiptið rekið mig á spurningar sem ég hef verið ósáttur við og hef jafnvel ekki getað svarað. Margir sem lesa þetta telja örugglega ýmsar athugasemdir mínar smásmugulegt nöldur en mér finnst nauðsynlegt að huga að smáatriðum í svona könnunum. Athugasemdir mínar eru líka misalvarlegar og yfir heildina er ég bara mjög glaður að fólk sé að gera svona tilraunir. Fölsk orðsifjafræði segir okkur að það að gagnrýna sé að rýna til gagns og það má alveg taka athugasemdum mínum þannig.

Til upplýsingar fyrir þá sem ekki vita til þá eru þetta fullyrðingar sem maður getur verið mjög sammála, sammála, hvorki né, ósammála eða mjög ósammála.

Séreignarrétt má ekki skerða nema í algerum undantekningatilvikum

Hér held ég að menn geti bæði verið með ólíkar skoðanir á hvað telst séreignarréttur og hvað telst skerðing. Ég reyndi að finna einfalda og góða skilgreiningu en fann ekki. Ég er viss um að það finnast hægri menn sem telja skatta vera skerðingu á séreign.

Leyfa ætti frjálsa sölu léttvíns og bjórs í íslenskum matvöruverslunum

Mér finnst tal um “frjálsa” sölu óþarft nema að menn eigi raunverulega við að engar reglur ættu að gilda um söluna.

Einstaklingum ætti að vera frjálst að neyta hvers kyns vímuefna svo fremi sem þeir skaða ekki aðra

Þessi setning er fullkomlega órökrétt. Í raun gæti maður sagt mjög sammála við þessu en þó verið á því að banna ætti nær öll vímuefni því þau geta nær öll valdið því að neytandinn skaði aðra. Ef það væri spurt hvort maður teldi að glæpavæðing vímuefna geri illt verra þá er kannski komið eitthvað sem maður getur svarað.

Leyfa ætti starfsemi á borð við vændi, svo lengi sem komið er í veg fyrir mansal og þvinganir

Hér er algjörlega litið framhjá hinu raunverulega ágreiningsefni sem er hvort það sé yfirhöfuð hægt að koma í veg fyrir þvinganir og mansal. Þetta er svipað og með vímuefnin. Það mætti hafa fullyrðingu á borð við þess sem hægt er að vera sammála eða ekki: “Ef vændi er löglegt og á yfirborðinu þá er hægt að koma í veg fyrir mansal og þvinganir”.

Stjórnvöld ættu að láta siðferðisleg úrlausnarefni einstaklinga afskiptalaus

Það hvort það megi stela er siðferðislegt úrlausnarefni sem sýnir hve fráleit fullyrðingin er. Mögulega er átt við eitthvað á þá leið að stjórnvöld eigi ekki að skipta sér að hegðun fólks sem 1) skaðar engan nema það sjálft eða 2) er með fullu og upplýstu samþykki allra sem koma að.

Öllum ætti að vera frjálst að tjá pólitískar skoðanir sínar opinberlega, jafnvel þótt þær séu hatursfullar

Þetta er kannski ekki sérgalli við þessa könnun heldur bara almenn. Mörk tjáningarfrelsis eru almennt, og eiga að vera, á grundvelli sannleiksgildis en ekki meintra tilfinninga þeirra sem tjá þær. Vandinn við það sem er oft kallaðar “hatursfullar” skoðanir er almennt að alhæft er um stóra hópa fólks, sem eru í raun ákaflega fjölbreyttir, á grundvelli vafasamra upplýsinga.

Sigmundur Davíð

Sigmundur Davíð kom sem frelsari inn í Framsóknarflokkinn sem maður breytinga. Hann náði engum árangri þannig. Fjórum árum síðar er hann kominn í klassískan Framsóknarham og hefur aldrei verið vinsælli. Hann kom einhvern veginn inn í pólitík með ágætis pælingar um borgarskipulag og endar sem formaður Framsóknarflokks.

Nú verð ég að byrja að segja að ég hef ekkert álit á Sigmundi Davíð. Einhver sagði að maður ætti allavega að gefa honum að hann væri snjall en ég bara sé það ekki.

Augljósa ástæðan sem er merkilega Icesave. Ef við hefðum tapað Icesave málinu þá væri Framsókn fylgislaus. Mér er eftirminnilegt fréttirnar kvöldið þegar Icesave dómurinn kom og Sigmundur Davíð tók fram að hann hefði nú ekki verið viss um að við myndum vinna. Ástæðan var sú að hann taldi alþjóðadómstóla, sérstaklega evrópska, mjög vafasama (man ekki orðrétt). Ég man að ég spurði hvar í ósköpunum maður gæti fundið betri alþjóðadómstóla en í Evrópu en því miður heyrði Sigmundur Davíð ekki í mér í gegnum sjónvarpið.

Sigmundur hefur einu sinni tekið gríðarlega áhættu með því að veðja á Icesave málið og hann græddi á því. Núna er hann aftur að fara að veðja með draumkenndum kosningaloforðum og 30% þjóðarinnar ætlar að styðja hann í því. Ég vildi að ég gæti veðjað gegn honum en mögulega verð ég neyddur til að fjármagna veðmálið. Ég tek fram að ég er með verðtryggt íbúðalán og yrði rosalega glaður ef ég gæti trúað því að þetta gengi upp hjá honum. Ég geri ráð fyrir að það séu margir, mögulega verr settir en ég, sem hafa ákveðið að leyfa sér að trúa honum þvert á betri dómgreind.

Núna er spurt um menntun Sigmundar og það er látið eins og það sé voða ósanngjarnt. Ég veit ekki hvort það sé af því mönnum yfirsést hvers vegna er spurt. Það er ekki af því að það skipti máli hvort hann sé í raun búin með allt sem hann segist vera búinn með heldur hvort hann hafi sagt satt. Þegar ég les svörin hans frá því fyrir tveimur árum þá get ég ekki látið þau ganga upp. Ég sé einfaldlega ekki að hann hafi haft yfirhöfuð tíma fyrir öll þessi ár í háskóla frá því að hann útskrifaðist úr Háskóla Íslands árið 2005.

Það er skrýtið þegar menn tala um að ósamlyndi í ríkisstjórnarflokkunum, sérstaklega VG, sé að koma þeim í koll þegar Sigmundur Davíð náði á sama tíma að splundra flokknum sínum og þingflokknum þó hann væri í stjórnarandstöðu. Ef ekki væri fyrir aukið persónufylgi hans vegna Icesave dómsins þá myndum við í dag sjá klofinn Framsóknarflokk en vegna dómsins hafa menn fylgt sér á bak við Sigmund. Hvernig mun þessum manni ganga að stýra ríkisstjórn miðað við þetta? Forystu- og samvinnuhæfileikar eru ekki til staðar.