Það að sjá frjálshyggjugaura, sjálfstæðismenn og aðra leiðindaskarfa væla yfir hinum og þessum sem er nýorðinn ríkur er óborganlega fyndið. Einhvern veginn fara þeir menn sem hafa farið leið kapítalismans á toppinn ægilega í taugarnar á þessum hægri mönnum. Ég veit ekki alveg af hverju það er verra að hafa beitt fólk fantabrögðum til þess að verða ríkur heldur en að hafa erft peninga frá pabba sínum (afa eða hvað sem er) sem eignaðist peninga með því að beita fólk fantabrögðum. Sérstaklega er lítill munur þegar erfinginn heldur áfram að nota svipuð fantabrögð en er bara betur falinn.
Category: Stjórnmál
Bara til að vera á móti
Ægilega fúlir sjálfstæðismenn vegna auglýsinga símafyrirtækisins með heimskulega nafnið. Þeir eru svo ótrúverðugir þegar þeir hjóla í svona mál sem þeir ættu að styðja hugmyndafræðinnar vegna.
Tunga.is
Þetta er undarleg “frétt” sem ég var að lesa á Vísi:
Fréttamiðilinn tunga.is sem undanfarna mánuði hefur flutt fréttir og fréttatengt efni á netinu er hættur starfsemi. Segir í orðsendingu á heimasíðu miðilsins að hann hafi orðið að gefast upp í samkeppni við Ríkisútvarpið. Gagnrýna forráðamenn tunga.is menntamálaráðuneytið og RÚV fyrir að halda úti niðurgreiddum fréttavef (ruv.is) og segja að þessi starfsemi komi í veg fyrir að fjárhagsgrundvöllur skapist fyrir óháða fréttamiðla á netinu.
Ég hef einu sinni áður heyrt um tunga.is og þá var einhver þarna að gagnrýna RÚV. Aldrei hef ég farið þangað og snöggt yfirlit á síðunni sýndi fram á það að þessi “fréttamiðill” væri til að mynda með svipaða uppfærslutíðni og þessi dagbók. Yfirleitt er efnið á síðunni fengið annars staðar frá, til að mynda vísað í greinar á stjórnmálavefritunum. Vefurinn er síðan einstaklega ljótur. Ekkert lagt í útlitið, fyrirsagnirnar virðast hafa verið prentaðar yfir “fréttamyndirnar” í Paint af einhverjum sem er nýbúinn að læra á það forrit. Þetta var semsagt svona bloggsíða með fréttaívafi, illa gerð bloggsíða.
Snögg rannsókn á þessari síðu leiddi mig til heimilis Ágústs Einarssonar og þá er það víst sonur hans (ekki Ágúst Ólafur þó heldur Einar) sem hefur séð um þessa síðu. Þetta kom mér á óvart enda bjóst ég satt best að segja eindregið við að finna nafn Benedikts Jóhannessonar (Bensi frændi Eyglóar) þarna. Þarna er allavega kominn sonur mannsins sem finnst fólk ekki fórna nógu miklu fyrir menntun sína, ég veit lítið um soninn.
Mín hugmynd um tilkomu þessarar síðu er á þá leið að einhver andstæðingur (eða einhverjir andstæðingar) RÚV hafi þarna komið og ákveðið að koma höggi á RÚV. Þeir hafa peninga til að henda í ruslið (ekki það að þetta sé í raun mjög dýrt, ýmis vefrit eru rekin í sjálfboðastarfi án peningamanns á bak við) og stofna þessa síðu með það að markmiði að leggja hana síðan niður í framtíðinni og kenna RÚV um.
Ég tel mig ágætlega vel að mér í netheimum, les blogg þar sem fólk er alltaf að vísa á áhugaverðar síður, aldrei man ég eftir að hafa lesið um þessa síðu (nema varðandi gagnrýnina á RÚV). Þessi síða virðist almennt ekki hafa verið rekin á þann hátt að ætlast væri til þess að fólk tæki eftir henni, hún fór nær huldu höfðu fyrir utan að gagnrýna RÚV en sendir síðan út fréttatilkynningu þegar þeir ákveða að “gefast upp fyrir RÚV”.
Það að segjast vera að gefast upp fyrir RÚV er náttúrulega út í hött, RÚV er almennt lítið notaður fréttamiðill, Morgunblaðið er augljóslega sterki samkeppnisaðilinn sem ekki er við ráðið á þessum markaði. Forráðamenn Tunga.is þykjast ekki vita það eða bara hreinlega vita það ekki enda voru þeir aldrei í alvörunni á veffréttamarkaðinum, þetta var bara show.
Ef ég myndi leggja niður þessa dagbókarsíðu og halda því fram að ég hafi gefist upp á samkeppninni við RÚV þá væri það álíka sannfærandi og þvaður forráðamanns Tunga.is.
Lofthaus og her
Mér þykir að vissu leyti afar ánægjulegt að Sigurður Kári skuli hafa komist að sem Alþingismaður, maðurinn á hægt rólega eftir að niðurlægja flokkinn sinn með framgöngu sinni, er í raun þegar byrjaður á því. Þessa daganna er hann sendur í fjölmiðla að tala um varnarsamninginn og stendur sig í samræmi við andlega burði.
Að vísu sé ég ekki hvernig hægt er að verja það hvernig ríkisstjórnir Davíðs hafa staðið sig í þessu máli, í stað þess að bregðast við því að herinn sé á leiðinni burt hafa þeir hunsað málið og vonað að þeir geti betlað aðeins meiri tíma.
Það sem er stórundarlegt er að fjölmiðlar skuli í alvörunni fjalla um hugmyndir Björns Bjarnasonar um íslenskan her í stað þess að spyrja spurningarinnar: “Hvernig komst maður með svona geggjaðar hugmyndir í ráðherrastól?”
Almennilegur sjálfstæðismaður
Ég var að ná í Eygló á bókasafnið þar sem hún vinnur (furðuleg þessi árátta að vanhelga bókasöfn með að byggja kirkjur oná þau). Þar rakst ég á bók sem ég kíkti strax í, hún heitir Þeir máluðu bæinn rauðann og fjallar um vinstri hreyfinguna á Norðfirði. Ég gluggaði í nafnaskránna og fann Reyni Zoëga sem er afi Eyglóar.
Reynir er ekki í bókinni af því hann deilir stjórnmálaskoðunum okkar Eyglóar heldur af því að hann var í bæjarstjórn á Norðfirði í mörg ár fyrir Sjálfsstæðisflokkinn. Þar sem minnst er á hann er sagt að hann hafi verið einstaklega samkvæmur sjálfum sér að því leyti að hann studdi mál meirihlutans ef honum þótti málið gott. Hann var víst ekki vinsæll fyrir þetta meðal flokksfélaga sinna og jafnvel kallaður sjötti maður Alþýðubandalagsins í bæjarstjórn. Þetta er afskaplega skemmtilegt og mjög ólíkt stjórnarandstöðustílnum sem Davíð Oddsson þróaði með sér í borgarstjórn og Guðlaugur Þór (Sori) hefur notað mikið, það er vera á móti öllu sem kemur frá meirihlutanum.
Annars má geta þess að Reynir sá einu sinni mynd af mér í Chebolnum mínum og lét þess getið að honum finndist Che enginn hetja og frekar væri við hæfi að ganga í bol með mynd af Ólafi Thors. Það er einmitt á stefnunni hjá okkur Eygló að gefa Reyni bol með mynd af Ólafi.
Samsærið Ónýtt
Hjörvar virðist ekki hafa vitað að í mörg ár hef verið í gangi viðamikið samsæri meðal vinstri manna um að reyna að sannfæra Davíð Oddsson um að hann sé góður rithöfundur. Augljóslega hefur þetta verið gert til þess að fá einræðisherra krúnunnar til að afsala sér völdum með það í huga að nota tímann í skriftirnar. Afleiðing þessa yrði að sjálfsögðu allsherjar stríð meðal kjölturakka hans sem hingað til hafa verið þægir og ánægðir með það sem hrekkur af borði meistarans.
Vonum að Davíð lesi ekki blogg né að Hannes lesi þau ekki fyrir hann.
Falun Gong
Augljóst er að það væri gott að koma saman til að minnast mótmælanna í fyrra, umræðan um atburðina er að komast af stað aftur og góður tími til að taka þetta til endurskoðunnar.