Kvennastríðið

Ég var á tímabili mikill aðdáandi Cracked. Þegar vefritið var upp á sitt besta birti það ákaflega skemmtilega listafærslur. „Topp tíu…“, „Fimm dæmi um…“ og svo framvegis. Margt stórfyndið. Síðan var Cracked selt og fór í ruglið eftir að Facebook plataði þau, og marga fleiri vefi, í að leggja áherslu á myndbönd. Það endaði með að fólk var sagt upp og allir hlekkir sem Facebook-síðan þeirra dældi út hlekkjum á voru gamlar greinar með örlítið breyttum fyrirsögnum. Þannig gafst maður upp á þeim.

En áður en allt fór til fjandans kom Cracked verulega skemmtilega á óvart með því að birta alvöru fréttamennsku frá Írak um baráttunni við ISIS.

Svo liðu nokkur ár og ég var að hlusta á hlaðvarpið Harmontown, sem var mitt uppáhalds. Þá kom gestur að nafni Robert Evans. Ég þekkti ekki nafnið – nema sem kvikmyndaframleiðandann sem frægur er fyrir allskonar fleira en bara kvikmyndaframleiðslu. Þessi Robert Evans var að tala um ferð sína til Rojava (sjálfstjórnarsvæði, eða ríki, Kúrda í Sýrlandi). Þetta var stuttu eftir að fréttir bárust af því að félagi Haukur hefði fallið í bardaga á svæðinu þannig að ég sperrti upp eyrun. Síðan nefndi Evans að hann hefði unnið hjá Cracked og ég fattaði strax að þetta væri sá sem hafði skrifað þessar frábæru greinar á sínum tíma.

Þar sem hann hafði í spjallinu nefnt að hann væri að gera hlaðvörp sjálfur stökk ég til og fann þau. Ég hlustaði fyrst á hljóðbók/hlaðvarp hans um bandaríska fasista – þar sem „Íslandsvinurinn“ George Lincoln Rockwell var í aðalhlutverki. Þetta birtist sem hluti af hlaðvarpinu Behind The Bastards þar sem Robert fjallar um ýmsa illvirkja sögunnar með oft skemmtilegum vinkli. Með honum eru ýmsir félagar hans, margir fyrrverandi starfsmenn Cracked en nýlega poppaði hann Spencer Crittenden úr Harmontown líka upp. Robert les handrit og gestirnir spyrja hann út úr ef eitthvað er óskýrt. Síðan er upptökustjórinn Sophie skemmtileg í sínu aukahlutverki að ótaldri henni Anderson.

Fyrir utan BtB er Robert með hlaðvarpið Worst Year Ever með Katy Stoll og Cody Johnston (sem eru líka reglulegir gestir fyrrnefnda varpsins). Þegar þau gáfu þáttunum nafnið var það vísun í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum en augljóslega kom í ljós að þetta var best heppnaða hlaðvarpsnafn allra tíma.

Ég mæli með öllu þessu sem ég hef nefnt hér að ofan en ég vil sérstaklega nefna The Women’s War sem er nýlega byrjað. Hlaðvarpið byggir á ferð Robert Evans til Rojava. Það er auðvitað gjörólíkt hinum sem byggja að mestu á húmor sem hefði alveg getað birst á Cracked.

Í The Women’s War er Robert að sem vinstri maður, jafnvel anarkisti ef maður vill flokka hann nánar, að reyna að nálgast tilraunina í Rojave á gagnrýnin hátt. Hans efasemdir minna mig verulega á hvernig ég sjálfur hef hugsað um svæðið. Það er að mörgu leyti eins og draumsýn vinstri manna um möguleikann á minnkaðs vægi kapítalista og jafnréttis, sérstaklega kynjajafnréttis en líka milli Araba og Kúrda.

Ég ætla ekki að greina sérstaklega mínar skoðanir á Rojava – geri það kannski þegar þáttaröðin hefur lokið göngu sinni – en ég ætla að mæla sterklega með þeim. Þetta er áhugaverðasta hlaðvarp sem ég veit af í dag.

Fyrir frægðina

Ég er búinn að vera að skoða þessa „bók“ sem hryðjuverkamaðurinn skrifaði. Þó það sé sagt að þetta sé að einhverju leyti stolið er margt frá honum sjálfum. Ég skoðaði meðal annars ótal blaðsíður af viðtali hans við sjálfan sig.  Þar spyr hann sjálfan sig spurninga og svarar þeim. Hann upplýsir lesendur meðal annars um uppáhalds rakspírann sinn. Þetta er svo nákvæmt. Óhugnanlegast er þó líklega að lesa nákvæmar lýsingar á vinum sínum og fjölskyldu. Hann fjallar um samband sitt við þau og skoðanir þeirra.

Hann er mjög upptekinn af því hve hann sé sjálfur merkilegur fyrir að gera það sem hann er að gera. Hann virðist helst af öllu hafa þráð aðdáun, jafnvel þó hún væri blandin andstyggð á verkum hans. Ég verð að segja að mér hefur fólk einmitt gert full mikið úr því hve vel þetta hafi verið undirbúið hjá honum. Ég held til dæmis að það bendi ekkert til þess að sprengingin hafi átt að vera minni verknaður en skotárásin. Ég held að hann hafi vonað að hann myndi ná að drepa forsætisráðherrann. Eins ætlaði hann sér greinilega meira eins og nú hefur komið fram. Hann vildi drepa Brundtland.

Af skoðunum hans er margt af því sem endurómar einfaldlega hluti sem maður hefur heyrt múslimahatandi  kristilega hægri menn segja áður. Hann hefði örugglega haft gaman af því að spjalla við hann Skúla Skúlason frænda minn (og Skúli játar sviklaust aðdáun sína á stuttmynd hryðjuverkamannsins). Það þarf vissulega að skoða þennan rotna afkima samfélags okkar því svona fólk getur verið stórhættulegt.

Hann fer út í miklar lýsingar á þessum endurvöktu Musterisriddurum sem hann þykist tilheyra. Ég verð að játa að ég fékk það frekar sterkt á tilfinningunni að þessi samtök væru uppspuni hjá honum. Allavega virðist það vera í ósamræmi við markmið leynisamtaka að upplýsa um tilvist þeirra og segja frá skipulagi þeirra. Vissulega þarf að rannsaka hvort þetta fyrirbæri er til en ég hef ekki mikla trú á því. Ég held að þetta hafi verið draumórar hjá honum. Að endurvekja kristilega riddarareglu sem berjast á við vondu múslimana. Hann vonar líklega að einhverjir geri alvöru úr þessum hugmyndum hans og stofni þetta fyrirbæri og hann verði dáður af meðlimunum. Hann gæti þá að lokum orðið einhvers konar þjóðardýrlingur endurreistrar kristilegrar Evrópu í þessari fantasíu sinni.

Það er líka það sem kemur aftur og aftur fram. Verknaðurinn var sjálfum honum til dýrðar. Hann vildi vera frægur þó hann væri fyrirlitin um leið. Hann vildi að fólk plægði í gegnum samhengislausu ruglbókina hans til þess að skilja hann betur en ég held að hann hafi talið að þarna gætu menn fundið manninn á bak við mikilmennið. Í staðinn sést einstaklingur sem er svo aumkunarverður og ómerkilegur að hann drap eins marga og hann gat til þess að verða frægur.

Svipan: Írski lýðveldisherinn og RIRA

Það er svolítið undarleg frétt á Svipunni um Írska lýðveldisherinn. Það er greinilegt að sá sem tók að sér að þýða frétt af Guardian þekkir ekkert til sögunnar á Norður Írlandi. Í fréttinni er sagt að IRA ætli að ráðast á banka. Þar stendur líka:

IRA var í raun lagt niður, með samningaviðræðum, en þeir hundrað baráttumenn sem enn eru í hópnum hafa ekki getað tekið við öllum þeim sem nú vilja ganga til liðs við samtökin aftur.

Í fréttinni á Guardian er tekið fram að samtökin sem eru að hóta árásum á banka er ekki það sem við köllum IRA heldur klofningshópur frá árinu 1997 sem kallast Real IRA. Þessi hópur varð alræmdur árið 1998 þegar hann sprengdi bíl í Omagh með þeim afleiðingum að 29 manns létust. Reiðin sem varð í kjölfarið fór langt með að tryggja að friðarsamkomulagið hélt. Þegar RIRA og Provisional IRA er ruglað saman eins og Svipunni þá kemur bara vitleysa út. Þarna er látið eins og RIRA hafi sömu stöðu PIRA hafði meðal lýðveldissinna en það er langt frá því. Þarna eru líka rangfærslur um aðgerðir Breta á Norður-Írlandi.

En það sem er náttúrulega verst í greininni er aðdáunin sem virðist skína undir á starfsemi RIRA. Þetta er bara hrottar og morðingjar og þeir batna ekkert við það að þeir vilji ráðast á banka.

Lockerbie

Það hefur verið undarlegt að fylgjast með umfjöllun um lausn Lockerbie sprengjumannsins dæmda. Skrýtnast var að sjá fréttaflutning af fögnuðinum þegar hann sneri heim. Ég sá engan fjölmiðil reyna að láta þetta út öðruvísi en þarna væru trylltir múslímar að fagna því að fjöldamorðingi og hryðjuverkamaður hafi verið látinn laus. Ég er nokkuð viss um að þeir sem fögnuðu, utan hugsanlega þeirra sem ráða þarna, hafi verið að gleðjast yfir því að maður sem þeir töldu saklausan hafi verið látinn laus eftir að hafa dvalið lengi ranglega dæmdur í erlendu fangelsi. Kannski er maðurinn sekur og kannski vita allir á toppnum það en það er líklega ekki það sem almenningur hugsar.

Um leið er umræðan um ástæðu lausnarinnar leiðinleg. Ótal margir hafa hneykslast á því, aðallega bandaríkjamenn. Ég get ekki ímyndað mér betri skilaboð til múslímaheimsins en þau að leysa mann úr fangelsi vegna þess að hann er veikur. Það er til þess fallið að laga samkomulagið milli menningarheima. Það að stjórnvöld í Líbíu vilji að almenningur þar í landi trúi því að þetta hafi verið einhver bakherbergissamningur um olíu sýnir fyrst og fremst að þetta er rétt mat hjá mér. Þar mega þeir ekki við því að missa góða óþokka. Ekkert sameinar fólk betur en sameiginlegur óvinur og stjórnvöld græða á því (svo lengi sem þau eru ekki umræddur óvinur).

Danir bjarga okkur

Dönsku orrustuþoturnar náðu í dag að bægja frá rússneskum sprengjuflugvélum. Sjúkkit. Ég geri fastlega ráð fyrir að ef Danirnir hefðu ekki verið til staðar hefðu Rússarnir ráðist á okkur. Það er eins gott að Rússarnir lásu ekki fréttatilkynningar um það hvenær þessar herþotur eru á landinu.

Þetta er ótttalegur brandari. Voru Rússarnir ekki fyrst og fremst að kíkja til að sjá hvað Danirnir gerðu við þessar aðstæður?
Við látum alla vita hvenær þessar þotur eru á landinu. Þær þjóna engum tilgangi. Engum. Það er ekkert gagn af þeim. Ef Rússar vilja ráðast á okkur geta þeir gert það annað hvort þegar engar þotur eru  eða bara senda nógu helvíti mikið af þotum og sprengjuflugvélum til skjóta niður þessar vélar.

RIRA og CIRA

Ég hef reynt að hafa á hreinu sem flestar af þessum hreyfingum á Írlandi en það er bara til svo fjandi mikið af þeim. Sumar eru bara einfaldlega glæpasamtök sem eru til dæmis í dópsölu.

RIRA, Real Irish Republican Army, klauf sig út úr PIRA (sem er það sem flestir hugsa um sem IRA) eftir friðarsamningana. Þetta er sú hreyfing sem ber ábyrgð á morðunum á hermönnum er sama hreyfing og stóð fyrir sprengjuárásinni í Omagh árið 1998. Sú árás markaði ákveðinn endapunkt á ofbeldinu, þó ekki algerlega enda hafa menn verið drepnir síðan, sem hafði staðið yfir síðan í lok sjöunda áratugarins. Í Derry var mikið um krot þar sem stóð RIRA og oft á mjög áberandi stöðum.

CIRA, Continuity Irish Republican Army, klauf sig frá PIRA árið 1986 ber ábyrgð á morðinu á lögreglumanninum. Þeir fengu á sínum tíma viðurkenningu annars eftirlifandi þingmannsins sem var kosinn fyrir Sinn Fein árið 1921. Sá hafði árið 1969 veitt PIRA, Provisional Irish Republican Army, umboð þegar klofningurinn frá Official IRA átti sér stað.

Þetta er mjög mikilvægt í hugum sumra því að þeir sem voru kosnir 1921 fyrir Sinn Fein, og mynduðu annað írska þingið (Dail), töldust enn hafa umboð þar sem andstæðingar Ensk-írska sáttmálans frá 1921-22 viðurkenna ekki þingkosningar sem hafa farið fram síðan.

Það er væntanlega engin tilviljun að þessar aðgerðir fóru fram með svona stuttu millibili. Ég get ekki sagt að það komi mér á óvart að enn sé fólk sem lítur á ofbeldi sem lausn miðað við það  sem ég sá í Derry og skrifaði um í greininni Fölnuð málning og friðardúfur í tímaritinu Ský. Maður vonar samt að þessi samtök séu ekki nógu öflug til að fylgja þessu eftir.

Of erfitt

Ég hef ekki mikið skrifað um Gaza hér og það er einföld ástæða fyrir því, ég bara höndla svona hluti ákaflega illa. Ég verð of reiður og of sorgmæddur. Ég get því lítið tjáð mig. Sjálfur held ég að það gagnlegasta sem maður getur gert sé ekki að skrifa undir undirskriftalista eða mótmæla heldur einfaldlega að kjósa eftir því hvernig stjórnmálaflokkar snúa sér í þessum málum. Það er bara einn flokkur sem ég treysti til þess, það er bara einn flokkur sem hefur sýnt að friðarstefna á þar heima. Í raun skipta engin önnur mál nær engu máli í samanburðinum.

Verjumst stríði, vopnumst

Það er sorglegt að fylgjast með kjánum sem halda að stríðið í Suður-Ossetíu og Georgíu sýni fram á það að við þurfum að fara að byggja upp her. Hið augljósa er að þó fæstir kannist við það þá hefur þetta svæði verið eldfimt lengi. Við bara einfaldlega búum ekki við svoleiðis aðstæður. Við höfum ekki nágranna sem hafa áhuga á að skipta sér að okkur með vopnavaldi. Mér sýnist líka á þessu svæði að það séu bara Rússar sem séu að græða eitthvað á því að hafa her. Suður-Ossetar hafa her en hann er svo mikið minni en her Georgíu og um leið er her Georgíu mikið minni en her Rússa.

Í stuttu máli þá er þetta ekki aðstæður sem við getum samsamað okkur við á nokkurn hátt.