Vodafone stelur af mér

Nú í vikunni fékk ég tilkynningu frá Vodafone um að “Risafrelsið” sem ég keypti mér væri að renna út. Ég var hissa af því að ég hef aldrei keypt svoleiðis af því að það er ógeðslega vont tilboð og gagnamagnið rennur út á mánuði. Ég keypti hins vegar 5 gígabæta skammt af venjulegu frelsi sem rennur út á hálfu ári. Ég sendi þeim harðorða kvörtun, enda þá er þetta ekki í fyrsta skiptið sem fyrirtækið rukkar mig vitlaust og ég efast mjög um að það sé óvart. Allavega hef ég aldrei verið óvart rukkaður um of lítið.

Í gær fékk ég síðan þetta svar:

Þetta er bara ósatt. Ég athugaði í heimabankanum og þar sést, svart á hvítu (eða öllu held í þessum ömurlega ljósgráa lit sem fólk heldur í alvörunni að sé boðlegt að nota í staðinn fyrir svart), að ég borgaði 2980 sem er verðið fyrir venjulegt 5 gígabæta niðurhalsfrelsi (og 2000 kr. fyrir símafrelsi). Þarna var ég að undirbúa mig fyrir ferðalag um landið.


Það sem meira er þá var ég líka búinn að kíkja í Vodafone appið og þar stendur greinilega að ég fékk bara 5 gígabæta niðurhal og átti nóg eftir.


Ég sendi þeim þessi tvö skjáskot en fékk ekkert svar. Í staðinn fékk ég símtal sem ég svaraði ekki af því að ég var í vinnunni og líka bara af því að mér líkar betur að hafa alla svona hluti skriflega (sérstaklega ef ég fer lengra með málið).

Í dag kíkti ég síðan á Vodafone-appið og sá að ég á engan niðurhalskvóta eftir þar. Vodafone stal honum.

Það sem mér finnst skrýtnast í öllum mínum samskiptum við Vodafone í gegnum árin er að þeir virðast halda að þeir geti grætt á því að svindla á viðskiptavinum sínum. Þeir virðast ekki telja neins virði að gera viðskiptavini sína ánægða og koma vel fram við þá.

Ég tók það hamingjuskref fyrir nokkru að færa ljósleiðaratenginguna mína til Hringdu. En ég hélt áfram að vera með símann hjá Vodafone (Voðafón) af því að það hentaði að ýmsu leyti vel og mér líkar einfaldleikinn að vera með frelsi. Ætli þetta hafi verið lokahnykkurinn?
Ég hef tvær spurningar fyrir þá sem lásu þetta:

  • Hvaða kæruleiðir eru í boði?
  • Hvar er gott að vera með farsíma þegar maður notar síma alveg voðalega lítið?

Nýi rafbókalesarinn minn (Boyue T61)

Ég átti í þrjú ár Kindle Keyboard. Hann dó í vor og ég hef verið að leita mér að nýjum í staðinn.

Rafbókalesarinn sem mig hefur dreymt um:

  • Rafblek (það er grundvöllur þess að geta lesið lengi án þess að þreytast í augunum)
  • Alvöru Android stýrikerfi (svo maður sé ekki háður t.d. Amazon og geti um leið sett inn önnur gagnleg forrit)
  • Flettihnappar báðum megin (mér þykir verra að fletta á snertiskjám)
  • Ekki of stór eða þungur
  • Framlýsing sem hægt er að kveikja á eftir þörfum (fann það t.d. á ferðalögum í vor og sumar að maður getur ekki treyst því að hafa vel staðsetta lampa þar sem maður er að gista)
  • Tekur minniskort

Það hafa komið fram nokkrir Android lesarar en flestir hafa fallið á einhverju prófi. Þeir hafa oftast verið hægvirkir. Það er erfitt að setja upp forrit í þeim og sum virka bara ekki (auðvitað mun aldrei virka að nota forrit sem þurfa virka myndvinnslu). Síðan hefur oftast vantað flettihnappana eða þá að það hafa bara verið flettihnappar öðrum megin.

Fyrir um mánuði síðan byrjaði fólk að tala um nýjan rafbókalesara sem gæti allt sem ég bað um. Hann heitir Icarus Illumina e653. Hann fékk ákaflega góða dóma og fólk var voðalega spennt. Síðan kom í ljós að þetta var bara evrópska útgáfan af rafbókalesara sem hefur verið á markaði síðan í júní í Kína. Sá heitir Boyue T61 og er mun ódýrari. Hann fellur hins vegar ekki undir ábyrgðarreglur ESB (en mig grunar að svoleiðis sé hvort eð er vesen þegar enginn þjónustuaðili er á Íslandi).

Ég fann Boyue T61 til sölu á Ali Express á 117$ með ókeypis sendingu til Íslands. Það er hræódýrt. Það átti líka að fylgja með hulstur sem kom raunar ekki. Allavega stökk ég á þetta. Það er rétt að nefna að það er hægt að fá mjög svipaðan lesara, Boyue T62, á svipuðu verði. Sá er með meira geymslupláss (sem skiptir mig engu máli þegar ég er með 32 gb minniskort), stærra batterí (sem gæti skipt máli), er með hljóðúttaki (ég notaði það örsjaldan á Kindlinum) og er örlítið stærri og þyngri (sem mér þykir verra).

Á meðan ég beið las ég mér til um lesarann. Sumir tóku Boyue lesara og settu upp Icarus hugbúnaðan sem þeim þótti af einhverjum ástæðum betra. Ég ætlaði að gera það en áttaði mig fljótlega á að það skipti líklega engu máli. Menn kvörtuðu yfir því að það var ekki hægt að setja inn Google Play en það var auðvelt að setja upp Amazon App Store og Good-E-Reader Store. Síðan fóru menn að ná rótarréttindum á lesaranum til að setja upp Google forritin. Sumir voru mjög ósáttir við endinguna á rafhlöðunni sem er mun minni en á hefðbundnum rafbókalesurum enda þarf tæki sem er að keyra alvöru Android og öflugan örgjörva meiri orku en tæki sem á bara að þjóna einu hlutverki. Það komu góð ráð við þessu vandamáli. Í fyrsta lagi þarf að slökkva alveg á lesaranum í stað þess að láta hann bara “hvílast” og síðan er hægt að láta inn forrit eins og Deep Sleep sem drepur á forritum sem eru að sjúga til sín orku. En batteríið mun aldrei endast eins og á t.d. Kindle. Við erum væntanlega að tala um að nota tækið án þess að hlaða það í viku í staðinn fyrir vikur.

Tækið var akkúrat þrjár vikur á leiðinni. Maður biður ekki um meira þegar sendingarkostnaðurinn er enginn. Heildarverðið var rétt rúmar 18.000 krónur þegar Tollurinn hafði bætt við skatti og umsýslugjöldum (c. 4100 kr.).

Lesarinn er á kínversku til að byrja með. Með því að bera stillingarvalmyndina saman við þá sem er í símanum mínum gat ég auðveldlega fundið enskuna.

Ég prufaði að setja inn nokkur forrit. Amazon App Store og Good-E-Reader Store fóru vandræðalaust inn og ég gat notað þau. Ég setti líka inn forrit eins og Facebook. Allt sem ég prufaði gekk (mér skilst að það sé jafnvel hægt að setja inn YouTube þó auðvitað sé ekki hægt að spila myndbönd).

Næst ákvað ég að hætta mér út í erfiða verkefnið sem er að ná rótarréttindum (root) á tækinu til þess að geta sett inn Google forritin. Ég fór eftir leiðbeiningum sem eru tilbúnar á Mobile Read spjallborðinu (þurfti reyndar að setja inn Superuser handvirkt). Ég mæli ekki með þessu fyrir hvern sem er en þetta er auðveldari aðferð en þegar maður þarf að nota minniskort. Það er líka ekki beint þörf á þessu nema maður vilji setja inn forrit sem eru annað hvort bara til í Google Play eða ef maður vill setja inn forrit sem maður hefur keypt hjá Google.

Þarna kom ég Google Play inn og gat þá sett inn forrit þaðan. Reyndar var vandamál til að byrja með þegar ég átti að velja einhvern valkost en gat það ekki af því að hnappurinn til að staðfesta valið sást ekki (vegna þess að þetta er ekki hannað fyrir rafbleksskjá). Ég reddaði því með því að pota í skjáinn þar til ég virtist finna ósýnilega hnappinn. Ég byrjaði að setja inn Moon+ Reader Pro sem er, að flestra sögn, besta rafbókarlestrarforritið. Forritið er líka það vel hannað að það vinnur með flettihnöppunum á Boyue lesaranum ólíkt t.d. Kindle appinu. Ég setti líka inn Dropbox sem vinnur með Moon+ Reader Pro í að samhæfa lesturinn milli tækja. Ég get þá farið í símann minn og látið Moon+ Reader lesa fyrir mig þar sem ég var síðast kominn í bókinni.

Heimavalmynd lesarans er stillanleg þannig að ég tók til þar og setti t.a.m. Moon+ Reader sem flýtihnapp.

Ég notaði síðan lesarann til að lesa. Ég þurfti að fikta dálítið í stillingunum þar til ég var ánægður. Ég dekkti stafina og valdi font sem heitir Calluna (en mér skilst að maður geti notað allar stafagerðir sem maður vill). Ég prufaði að lesa með framljósinu og þótti það ekkert rosalega frábært. Það dugar þó alveg. Þeir sem þekkja til líkja þessu við fyrstu kynslóð af Kindle Paperwhite.

Ég get ekki dæmt endanlega strax. Þetta er óneitanlega skemmtilegt tæki með marga möguleika. En þetta er lítið þekktur framleiðandi og engin ábyrgð. Batteríið stoppar örugglega marga. Vesenið við að setja inn Google forrit stoppar aðra. En mér finnst ég í fyrsta skiptið vera með rafbókalesara eins og þeir hljóta að verða í framtíðinni.

Chromecast sjónvarp

Ég keypti Chromecast í Svíþjóð og hef verið að prufa það aðeins. Þetta kemur ekkert í staðinn fyrir Raspberry Pi en alveg sniðugt.

Í stuttu máli er Chromecast pínulítið tæki sem maður singur inn í HDMI rauf á sjónvarpi. Tækið tengist þráðlausu neti og með því getur maður sent efni frá tölvum og snjalltækjum yfir í sjónvarpið. Það eru ýmsar leiðir til að hafa samskipti við tækið. Chromevafrinn er besta leiðin til að tengja því úr hefbundnum tölvum en í snjalltækjum eru til ýmis forrit sem geta tengst.

Ég gat tengt tækið nokkuð auðveldlega við sjónvarpið. Það fær rafmagn í gegnum USB snúru sem ég gat tengt í USB port á sjónvarpinu sjálfu.

Af forritum í snjalltæki má helst nefna YouTube forritið. Sum önnur forrit, s.s. Hulu og Netflix, gera lítið fyrir Íslendinga án þess að setja upp landamæraplat. En YouTube eitt og sér er voðalega sniðugt. Þetta er væntanlega auðveldasta leiðin til að horfa á YouTube í sjónvarpi.

Ég prufaði að senda myndbönd af símanum mínum í sjónvarpið. Ég fann forrit sem heitir BubbleUPnP sem get reddað því á mjög einfaldan hátt. Maður þarf líklega að setja upp einhverja viðbót fyrir Chrome til að gera þetta vel í gegnum vafra því ef maður spilar þau beint í Chrome þá þarf að spila þau bæði þar og í sjónvarpinu sem hægir á allri spilun.

Skrýtnast þykir mér að Chromecast skuli ekki virka með sjónvarpsfjarstýringum eins og t.d. Raspmbc. Það væri oft þægilegt.

En allavega er þetta skemmtilegt leikfang og þá sérstaklega fyrir þá sem eru ekki með sjónvarpstölvur fyrir eða vilja losna við að tengja tölvur beint við beint við sjónvarp.

Mitt eintak kostaði um 5500 krónur í Svíþjóð (raun eilítið minna með Tax Free) en þetta kostar 8-9000 krónur hérna.

Kindle, Apple TV og önnur raftækjasvindl

Fyrir nokkrum árum keypti ég mér nýtt sjónvarp. Það fyrsta sem ég gerði var að nota “hakk” (svo ég sleppi tækilegum atriðum) á sjónvarpið. Með þessu breyttist sjónvarpið úr 90 þúsund krónu módeli í 120 þúsund króna módel. Það var sumsé enginn munur á þessum sjónvörpum annar en hugbúnaðurinn sem var hlaðið inn á hann. Hugbúnaðurinn á ódýra módelinu var einungis til þess að takmarka möguleika vélbúnaðarins. Þessar tvær tegundir af sjónvörpum kosta nákvæmlega sama í framleiðslu. Eini aukakostnaðurinn er að búa til þennan takmarkandi hugbúnað.

Mér sýnist þetta vera frekar algengt í framleiðslu á raftækjum.

Fyrir nokkrum vikum kallaði Richard Stallman Kindle rafbókalesarann Swindle. Ég játa að ég fæ kjánahroll af svona uppnefnum en ég tel þetta ekki óviðeigandi lýsingu. Allavega út frá mínu gildismati. Það sem fer mest í taugarnar á mér er að Kindle opnar ekki svokallaðar Epub rafbókaskrár. Það er opið form sem Amazon þyrfti ekkert að borga fyrir að nota. Ég geri enga kröfu um að þeir leyfi manni að opna Epub bækur með afritunarvörnum frá öðrum (ég tel reyndar afritunarvarnirnar sem Amazon notar líka vera svindl og líka það að þeir nota aðallega sitt eigið lokaða skráarform). Það væri bara voðalega hagræðing fyrir eigendur Kindle að leyfa svona. Amason er viljandi að takmarka möguleika tækisins.

Annað sem fer í taugarnar á mér við Kindle er að ég get ekki stjórnað hvaða myndir birtast á tækinu þegar það er í biðstöðu. Ég get engan veginn skilið hvers vegna ég má ekki skipta þeim út. Þetta “Dead Poets Society” er ekki samansafn af mínum eftirlætishöfundum. Ég vildi að ég gæti stillt þetta þannig að kápan af þeirri bók sem ég er að lesa myndi vera á Kindlinum í biðstöðu. Ég hef reynt að nota “hakk” til að breyta þessu þannig að mínir uppáhaldshöfundar birtist þarna. Það virkar hjá mörgum en ekki hjá mér
Ástæðan fyrir því að þetta ergir mig er að þetta er ekki einu sinni Amazon í hag. Þeir græða ekkert á því að takmarka tækið svona. Ég get bara ekki skilið hvers vegna Amazon er að takmarka tækið á þennan hátt. Engan veginn.

Í gær notaði ég “hakk” á símann minn. Þó minniskortið sem ég nota sé nógu stórt fyrir hvað sem mér dytti í hug að nota þá þarf að treysta á innbyggt geymslupláss símans fyrir forrit. Stóra vandamálið er að ákveðin forrit sem fylgdu með símanum taka mikið pláss þó ég noti þau ekki. Stýrikerfið er stillt þannig að ég má ekki taka þau út. Ég notaði “hakk” til að virkja ofurnotanda möguleika sem er falinn í kerfinu. Þá gat ég eytt forritunum.

Ég las mér annars til um Apple TV í gær. Það virðist í fljótu bragði vera sniðugt tæki. Þegar maður skoðar það betur sér maður að þarna er Apple að vanda sig við að fjarlægja möguleika tækisins. Það er enginn harður diskur, það er ekki hægt að tengja neitt tæki við og maður getur bara nálgast efni frá þeim stöðum sem Apple leyfir manni að nota.

Í þessum sjó takmarkandi tækja er Raspberry Pi paradísareyja. Það eru allir möguleikar til staðar. Þúsundir tölvunörda stukku til þegar tækið kom á markað og nýttu möguleika þess. Þeir bjuggu til ótal stýrikerfi sem hver sem er getur notað ókeypis (eða borgað þeim í þakkarskini í gegnum t.d. PayPal).

Flestir sem nota Raspberry Pi nota hana sem sjónvarpstölvu – eins og ég. Hún keyrir útgáfu af XBMC sem er frjálst stýrikerfi (stundum bara forrit) til að halda utan um og spila mynd- og tónefni. Fyrir utan að vera gott í því sem það gerir opnar hið frjálsa eðli þess fyrir að bæta við möguleikum. Einhverjir Íslendingar hafa búið til viðbætur sem gera manni kleyft að nálgast Sarpinn á RÚV og Veftíví Vísis (sumt takmarkað við Ísland). Ótal slíkar viðbætur eru til fyrir erlendar stöðvar. Einnig fyrir YouTube og aðra vefi sem bjóða upp á myndefni.

Ég sé framtíðina fyrir mér þannig að flestir raftækjaframleiðendur munu halda áfram að takmarka möguleika tækjanna sem þeir búa til. Það má þó vona að einhverjir muni reyna að opna tækin sín og að neytendur verðlauni þá með því að velja möguleika frekar en takmarkanir. Ekki láta svindla á þér.

Þessi færsla er stolin (bókarýni)

Ég veit ekki hvers vegna það fór framhjá mér að Eiríkur Örn Norðdahl setti á netið bókina Ást er þjófnaður nú í vor. Bókin fjallar um höfundarétt nú á síðustu og verstu tímum en þó sérstaklega um rafbækur. Það er einfalt að stela henni en EÖN býður líka upp á að fólk borgi honum fyrir.

Engir kaupa síðan jafn mikið af tómum geisladiskum og sjálfstæðir indí tónlistarmenn í grasrótinni – þeir sem taka upp eigin músík heima hjá sér eða úti í bílskúr, brenna hana í tölvunum sínum og selja hana eða gefa. Þeir greiða 35 krónur fyrir hvern geisladisk sem þeir kaupa og peningarnir renna til STEF – og þar sem grasrótin er í sjálfu sér ólíkleg til þess að komast í spilun, fá þeir sennilega ekkert til baka. Þess í stað er peningunum skipt á milli Bubba Morthens og Bó Hall. Sem allir sjá auðvitað undireins að er mjög sanngjarnt.

Ég hef áður lesið bloggfærslur Eiríks um höfundaréttarmál og verið nokkuð ánægður með þær enda spegluðu þær mínar eigin hugmyndir og pælingar nokkuð vel. Hið sama má segja um bókina.

Í hvert einasta sinn sem þú spilar lag af Youtube fyrir vini þína deyr einn tónlistarmaður úr hungri.

Opinber umfjöllun um höfundaréttarmál í nútímanum er mest á forsendum hagsmunaaðila og þessir hagsmunaaðilar eru þá yfirleitt ekki höfundarnir heldur útgefendurnir. Þess vegna getur þessi bók verið ákaflega mikilvæg fyrir umræðuna.

Það hvort ég greiði fyrir plötu Ólafs Arnalds eða skáldsöguna Freedom er núna siðferðisleg spurning. Þannig var það ekki fyrir 30 árum, en þannig er það í dag – ég bjó ekki til veruleikann, ég er bara að segja að við verðum að horfast í augu við hann.

Þetta er raunveruleikinn sem Eiríkur fjallar um í bókinni. Við getum farið á torrentsíðu og tekið inn átta þúsund bækur fyrir rafbókalesarann okkar án þess að höfundurinn fái nokkuð fyrir sinn snúð.

Ég reikna ekki með því að það hafi nokkur grætt pening á að prenta ljóð Dags Sigurðarsonar og fari ég með fleipur eru það áreiðanlega fjarska litlar og ómerkilegar upphæðir.

Rafbókalesarar hafa á síðustu árum allt í einu gert rafræna útgáfu bóka mögulega. Við vissum að þetta hlyti að vera á leiðinni því þetta liggur svo beint við þegar við erum hvort eð er alltaf að lesa texta af skjá. Hins vegar nenna fáir að lesa texta af hefðbundnum tölvuskjám.

Tölvan mín er full af stolnum bókum. Þó hef ég engan svipt neinni bók; þvert á móti hef ég hugsanlega fjölgað bókum í (ólöglegri) eigu annarra.

Eiríkur játar líka á sig alvöru bókaþjófnað. Af bókasafni meira að segja – sem er versti glæpur sem hægt er að hugsa sér. Hann tekur þó fram að þetta hafi hvílt á samvisku hans. Ef það hefði hins vegar verið leið fyrir hann að eignast bækurnar án þess að svipta bókasafnið eintökunum þá hefði hann “aldrei hikað og aldrei litið um öxl.”
En óttinn við að fólk steli bókum í stað þess að kaupa þær er bara smá hluti af myndinni. Allt í einu er möguleiki fyrir höfunda að koma ritverkum sínum til almennings án þess að þurfa annað hvort að kosta sjálft prentun eða að fara bónarleið til útgefanda.

Ljóðskáld hafa yfirleitt meiri áhyggjur af því að einhver fáist til að prenta verkin þeirra (án þess að þeir þurfi sjálfir að greiða prentunina) en að það sé svo stórkostleg eftirspurn eftir bókum þeirra

Það eru ekki bara ljóðskáld sem (nær) aldrei sjá peninga fyrir útgefnar bækur. Hvað ætli séu margir fræðibókahöfundar sem græða á útgáfu? Ég man eftir prófessor í þjóðfræði sem sagði mér að háskólinn hans, sem er einn af þeim stærri í heiminum (ofarlega á topp 100), hefði samið forlag um útgáfurétt á bókum kennara skólans. Í samningnum kom fram að ef bókin seldist í yfir 500 eintökum þá fengi höfundurinn borgað. Frábær díll. Það voru aldrei prentuð nema rúmlega 400 eintök af bókunum.

Ég held að það hafi verið í fyrra sem ritröðin “Rannsóknir í félagsvísindum” kom fyrst út rafrænt og á svipuðum tíma voru eldri bindin líka sett á netið. Þarna eru greinar eftir fjölmarga fræðimenn, til dæmis mig, sem hafa skrifað um rannsóknir sínar á sviði félagsvísinda síðustu fimmtán ár eða svo. Frábært framtak en dáltið gamaldags því þetta var á PDF formi. PDF er leiðinlegt form sem virkar ekkert sérstaklega vel fyrir rafbókalesara. Þetta verður alvöru útgáfa þegar ég get farið inn á síðu hjá Háskólanum þar sem er yfirlit yfir þessar greinar, merkt við þær sem ég vil lesa og að lokum valið á hvaða formi ég fæ þær (mobi, epub etc.). Það væri nútímalegt. Sjálfur tel ég reyndar að það ætti einfaldlega að vera regla að greinaskrif Háskólakennara séu opnar öllum.

Vandamálið er ekki að höfundarréttur sé í sjálfu sér rangur. Vandamálið er að fyrir sakir alþekktra valdahlutfalla í heiminum (sjá t.d.: „auðvaldið“, „aðallinn“ og „stjórnmálastéttin“) er hann sífellt meira og meira hugsaður út frá þörfum rétthafa frekar en höfunda, út frá þörfum útgefenda, dreifingaraðila og framleiðenda frekar en samfélagsins alls eða einstakra neytenda.

Hverjir eiga að vera fulltrúar almennings í umræðunni – eða stríðinu – um höfundarétt? Svar sem ég get nefnt er bókasöfn, bókasafnsfræðingar og bókaverðir. Ég man ekki hvernig þetta er orðað en alþjóðasamtökin IFLA skilgreina þetta alveg örugglega sem markmið sitt. Það er meira að segja stefnan að berjast fyrir því að höfundaréttur eftir andlát höfundar verði styttur. Því miður erum við ekki nógu áberandi í umræðunni.

Rafbækur eiga að vera á opnu, samræmdu og ólæstu formatti; og skýr lög þarf að setja um að engin megi fylgjast með því hvað er inni á tölvunum okkar, að meðtöldum rafbókalesurum. Bókaverslanir mega ekki vera lokaðar öllum nema eigendum ákveðinna tækja og bókum má ekki læsa með afritunarvörnum eða annarri neyslustýringu.

Bókasöfnin eru ekki heldur alveg nógu dugleg þegar kemur að rafbókum. Ég kíkti á Gegni og sá þar hvergi neitt minnst á bókina hans Eiríks Arnar. Ekkert safn virðist hafa keypt prentað eintak af henni – en það ættu þau öll að gera – enginn hefur gert tilraun til að skrá bókina í kerfið. Enginn hefur gert tilraun til að skrá bókina í kerfið. Það er tóm þar sem bókin ætti að vera.

Að lokum
Ef það er ekki ljóst af því sem ég hef þegar skrifað þá skal ég segja það hreint út: Farið og náið í bókina hans Eiríks Arnar og lesið hana – hvort sem þið borgið fyrir hana eða ekki. Sjálfur splæsti ég lágmarksupphæð á höfundinn þrátt fyrir að ég hefði getað réttlætt mig frá því þar sem ég er að skrifa um hana. Hún er einfaldlega nauðsynlegt innlegg í umræðuna um höfundaréttamál í dag og þeir sem hunsa hana eru viljandi að velja þann kost að vera óupplýstir.

Sjálfur þarf ég endilega að koma hugsunum mínum um þessi mál á eitthvað form þó ég efist um að það verði heil rafbók.

p.s.

(allir góðir bókabéusar lesa í baði, eigi þeir bað, en þeir gera það ekki með rafmagnstæki í höndunum).

Víst Eiríkur. Sjá næstu færslu á undan þessari.

Um Kindle, frá Kyndli til baðlesturs

Það er búið að staðfesta orðróminn um að næsta útgáfa af Kindle, sem kallast Kindle Fire, verði spjaldtölva en ekki alvöru rafbókalesari með rafbleki. Þar með er áhugaleysi mitt algjört.

Ég keypti Kindle (þriðju útgáfu) í vor í Dixons á Heathrow. Ég held að ég hafi notað hann daglega síðan þá. Frábært tæki.

En það var eitt sem ég hafði fyrirfram áhyggjur af og það var að ég gæti ekki lengur lesið í baði. Það leið þó ekki á löngu þar til ég fór að skoða það betur. Það fást ýmis hulstur utan um tækið hjá Amazon en ég ákvað að prufa eitthvað minna sérhannað.


Ég fór í IKEA og keypti mér poka sem hægt er að innsigla og síðan þá hef ég lesið í baði. Maður verður samt að passa sig að snúa tækinu rétt því annars getur maður lent í þessum í vandræðum.


Þetta gengur ekki upp.

Símaves

Á mánudaginn vorum við Eygló í miklum pælingum um hvernig við ættum að skipuleggja okkur meðan við værum að þvælast í sitt hvoru lagi. Hún þurfti að hitta Svenna en ég þurfti að fara niður í ráðhús á fund. Við ákváðum að lokum að ég skutlaði henni og Gunnsteini í Kringluna þar sem Svenni myndi síðan koma. Ég kæmi síðan til baka og myndi yfirgefa fundinn ef hann liti út fyrir að standa full lengi. Þegar á leið fundinn sendi ég skilaboð til Eyglóar um stöðuna og bjóst við að fá sms ef hún vildi að ég drifi mig. Þegar fundurinn var búinn sé ég hins vegar að skilaboðin fóru ekki neitt. Ég reyndi þá allt til að koma símanum í gang en ekkert gekk. Hann náði engri tengingu.

Ég var því orðinn, eftir því sem ég vissi best, seinn að pikka þau upp í Kringlunni og hafði enga einfalda leið til að ná á þeim (allir sem voru með mér á fundi voru þá líklega farnir og ég kominn dáltið áleiðis). Þetta var svoltið óþægilegt. Ég keyrði upp í Kringlu og tók með mér smámynt í peningasímann til vonar og vara ef ég sæi þau ekki. Sem betur fer voru þau bara á Stjörnutorgi að versla handa okkur mat í Serrano þannig að ég hitti beint á þau. Eygló hafði víst sent mér einhver skilaboð um að vera ekkert að flýta mér. Ég hef alveg sérstakt óþol fyrir að láta fólk bíða eftir mér þannig að þetta reyndi á mig. Voðalega er maður háður símanum.

Ég kom símanum í gang seinna um kvöldið en í dag tók ég eftir að hann var aftur orðinn sambandslaus og hafði þar að auki hafði hann misst hleðsluna mjög snöggt og er því að klikka á fleiri sviðum. Ég hef ekki enn komið honum í gang þannig að ég þarf væntanlega að kaupa mér nýjan síma. Bömmer.

Þannig að ef þið hafið verið að reyna að ná á mér undanfarið þá gæti það hafa klúðrast út af símavesi.

Myndavélar

Gamla Fuji vélin virðist hafa gefist upp. Það er bögg. Það er ljóst að við Eygló þurfum að eiga tvær stafrænar vélar þannig að við neyðumst til að kaupa nýja. Ég á inneign í Hans Petersen þannig að það liggur eiginlega beint við að kaupa þar en ég finn enga sem ég er hrifinn af. Eitt grunnatriði sem mér þykir mikilvægt er að myndavélin noti venjuleg AA batterí, það er ekki mikið af slíkum myndavélum. Gæti líka beðið með þetta þar til að komið er í fríhöfnina en það er vont að treysta á slíkt.

Banna ljósaperur? Eða…

Það er ákveðin tegund brandara sem treystir á að sá sem heyrir hann viti ekki nóg um efnið.  Þetta er svona “hvers vegna eru flugvélar ekki úr sama efni á svarti kassinn” brandarar.  Ég sá vísað á svona brandara af vef ungra Framsóknarmanna um daginn.  Textinn var eitthvað á þá leið að þarna væru umhverfisverndarsinnar sem væru á móti ljósaperunni (merkt haha).  Þarna var vísað á mynd þar sem fólk hélt á borða sem á var glóðarpera sem búið að vera að setja bannmerki yfir.

Þarna kemur í ljós hvers vegna er gott að vita örlítið meira nema að maður hafi bara einungis áhuga á að hlæja að brandaranum.  Það eru nefnilega til ótal tegundir af ljósaperum.  Sú sem við hugsum almennt um þegar talað er um ljósaperu er einmitt glóðarpera.  Þessi tegund af perum er í raun ákaflega lík fyrstu perunum sem gerðar voru.

Það er helst tvennt sem gerir glóðarperuna slaka í samanburði við aðrar perur.  Í fyrra lagi þá endist hún mjög stutt.  Í seinna lagi þá notar hún skelfilega mikið rafmagn.  Þetta er grunurinn fyrir því að sumir umhverfisverndarsinnar vilja banna glóðarperuna.  Nýlega var frétt um bann á glóðarperum í Ontario í Kanada.  Það er líka í raun þannig að glóðarperan er meira og minna tæknilega úrelt.

En það hefur ekki tekist að skipta glóðarperunni út.  Það eru óendanlega margar ástæður fyrir því. Kannski fyrst og fremst sú að fólk er ekkert hrifið af nýjungum.  Einnig eru til kenningar um samráð rafmagns- og glóðarperuframleiðenda.  En það heyrir hins vegar til undantekninga að glóðarperur séu notaðar í atvinnuhúsnæði.

Sparperur eru í raun flúrperur sem er hægt að skrúfa í ljósastæði ætlar glóðarperum. Afi minn var ákaflega hrifinn af sparperum.  Ef hann hefði lifað nokkur ár í viðbót hefði hann án efa glaðst yfir því hve ódýrar þær eru orðnar og hve auðvelt er að nálgast þær.  Ég var aðeins lengur að taka við mér, greinilega ekki jafn nýjungagjarn og sá gamli. Ég byrjaði nýlega að nota þær.  Ég var bara einfaldlega búinn að fá leið á að skipta svona reglulega um perur og finn strax fyrir mun.

Ef ég er rétt upplýstur þá er annar kostur við sparperur.  Á Íslandi á að vera 230 volta spenna í húsarafmagni.  Raunin er sú að spennan flöktir mikið.  Þetta er mjög slæmt fyrir glóðarperur sem jafnvel hvellspringa ef flökt kemur í rafmagnið.  Það eru því líkur á því að meðalending á glóðarperum sé lægri á Íslandi en annars staðar.  Sparperur (og flúrperur almennt) eru ekki jafn næmar fyrir svona spennuflökti.  Ég tek fram að hér er ég að treysta á orð rafvirkja án þess að hafa fengið þetta vel staðfest.

Varðandi umhverfisvernd þá var ég að lesa mér til og málið er ekki alveg skýrt. Vandinn er að þær innihalda kvikasilfur. Ég sé ekki upplýsingar um málið á heimasíðu Sorpa en ég er búinn að senda þeim fyrirspurn um málið.

Það má hins vegar gera ráð fyrir að það sé alls ekki langt í betri lausnir heldur en þessar sparperur sem við þekkjum í dag.  Ég neita samt að spá um tíma.  Fyrir rúmum fjórum árum var frétt í Mogganum þar sem var spáð að díóður tækju við af hefðbundnum perum eftir…. giskiði nú… fjögur ár.