Þrívíddarprentarauppfærslur og prentun

Það hefur verið svo mikið vesen með Ender 3 Pro þrívíddarprentarann minn undanfarið að ég var næstum búinn að gefast upp. Það eru komnir fram hraðvirkari prentarar og ég far næstum búinn að falla fyrir þeim. Þegar ég las mér betur til kom í ljós að nýju prentararnir nota lokaðan hugbúnað sem er slæmt, sérstaklega þegar það þarf að stjórna þeim í gegnum síma. Þeir geta því orðið eins og öll þessi sniðugu leikföng sem hægt er að stjórna með appi sem úreldist þannig að þau verða ónothæf.

Ég endurnýjaði þann hluta prentarans sem sér um að hita upp og skammta út plastinu sem notað er við prentun. Um leið uppfærði ég hugbúnaðinn úr Marlin í Klipper, sumsé úr hefðbundna í þann sem getur aukið hraðann. Síðan fiktaði ég og lærði. Þetta er allt að koma.

Hérna er myndband af nýlegri prentun. Hún er ekki sýnd á raunhraða. Þetta eru 150 mínútur sem er miklu hraðara en prentarinn réði áður við.

Þetta myndband sýnir hvernig ég prentaði box sem hægt er að loka með því að snúa (irisbox). Þetta er vinsælt í þrívíddarprentun og til í mörgum útgáfum. Ég valdi það af því að það sýnir mér hvort hægt sé að prenta tiltölulega flókið módel á hröðu stillingunni.

Það sem ég vildi sýna í þessu myndbandi er hvernig þvívíddarprentarar (allavega þessi flokkur af þeim) vinna. Prenthausinn ýtir út bræddu plasti á meðan hann færist fram og til baka. Næst hækkar hann sig aðeins og bætir við. Lag eftir lag.

Það er magnað hvað hægt er að gera með svona prentara. Ef þið hugsið um mekaníkina sem er fólginn í þessu boxi getið þið vonandi séð fyrir ykkur allavega sex mismunandi parta sem þurfa að vinna saman.

Hvernig er hægt að gera slíkt þegar prentarinn vinnur bara með þessi lög. Það er ekki hægt að prenta eitthvað án þess að það sé tengt einhverju öðru og því er erfitt að skilja hvernig hægt er að hreyfa þessa alla þess mismunandi parta saman.

Bragðið er að tengingarnar á milli hluta eru örsmáar. Þegar boxið kemur af prentaranum þarf að stinga einhverju þarna á milli til að brjóta þessar tengingar. í kjölfarið er hægt að hreyfa allt.

Ég dáist endalaust að hugmyndaauðgi þeirra sem hanna svona módel og er fullur af þakklæti til þeirra fyrir að deila þeim með okkur.

Símastandur á hljómborð (þrívíddarprent)

Eldri sonurinn er að æfa sig á hljómborðinu sínu með forriti sem heitir Simply Piano. Hann þarf því að hafa símann sinn þar sem hann getur séð hann. En hvernig á að gera það? Lukkulega var ég rétt að klára uppfærslu á þrívíddarprentaranum mínum.

Á Thingiverse fann ég hlut sem hægt er að smella á svipuð hljómborð til þess að styðja við nótnablöð. Ég prentaði hlutinn út til að sjá hvort þetta passaði á hljómborðið, sem hann gerði. En stykkið var alltof lítið til að halda símanum.

Ég opnaði því hlutinn í hönnunartóli og setti lengra bak. Ég breikkaði stykkið líka en til þess að væri auðveldara að smella því á hljómborðið breytti ég því þannig að það væri í laginu eins og keila á hvolfi. Mjótt neðst og breitt efst. Ég “klippti” líka tvö op á stykkið til að spara plastið.

Síminn á standinum.

Standurinn sjálfur.

Svona smellfestist standurinn á hljómborðið.

Virkar mjög vel.

Hægt er að finna standinn á Thingiverse.

Gagnlegir þrívíddarprentaðir hlutir

Ég hef átt þrívíddarprentara í eitt og hálft ár eða svo. Mér finnst einna skemmtilegast að prenta einfalda gagnlega hluti. Þetta eru nokkur dæmi um það. Sumt kemur af Thingiverse, sumu hef ég breytt til að það passi og síðan er sumt ég hef teiknað upp frá grunni.

Pennahaldari á teikniborðið mitt
Pennahaldari á teikniborðið mitt (upphaflega stykkið rifnaði af). Beint af Thingiverse.
Hnappar á vekjaraklukku
Hnapparnir á þessari gömlu vekjaraklukku voru brotnir þannig að ég mældi og teiknaði upp nýja hnappa (svarti hringurinn). Hræódýr klukka auðvitað en mér leiðist að henda hlutum.
Sturtusápuhaldari
Þessi sápuskammtari er of þungur fyrir aðrar hillur í sturtunni þannig að ég hannaði og prentaði haldara sem smellur á rörið.
Snjallsímahaldari á þrífót
Gunnsteinn hefur gaman af því að taka upp myndbönd og þarf stundum að gera það núna í staðinn fyrir að mæta á flautuæfingar. Ég þarf reyndar að finna góðan bolta sem er auðveldara að herða og losa.
Wii-U festing aftan á sjónvarpið
Til þess að spara pláss tók ég Wii-U festingar sem voru til á Thingiverse og breytti þeim þannig að þær myndu smella á sjónvarpsfestinguna.
Sama festing frá öðru sjónarhorni.
Sama festing frá öðru sjónarhorni.
Uppþvottavélamerking
Það er gott að geta séð og merkt hvort það sé hreint eða óhreint eða í uppþvottavélinni. Þetta er byggt á enskri hönnun á Thingiverse. Ég er reyndar ekki ánægður með þetta prent. Ég notaði “strauja” fídusinn og það var bara ekki að virka. Ég skipti um lit í miðju prenti til að hafa textann skýran.
Núna hreint!
Núna hreint!
Kassi utan um skjá og stýringu á þrívíddaraprentaranum.
Þrívíddarprentarinn kemur svolítið hrár og meðal þess sem ég gerði var að prenta þetta stykki af Thingiverse sem hýsir líka Raspberry Pi 4 tölvu sem stýrir prentaranum.
Skúffur á prentarann
Það er nauðsynlegt að geyma ýmislegt smádót og verkfæri fyrir þrívíddarprentarann. Þessi skúffa kemur beint af Thingiverse.
Kefli fyrir plastrúllur
Til að spara plast þá kaupi ég áfyllingar án rúllu. Þetta kefli passar nákvæmlega þannig að ég get fært nýjar rúllur beint á.
Snúrudóterí
Ég fann þetta á Thingiverse fyrir upptökuborðið í Kistunni.
Hirsla fyrir breytistykki
Ég vildi fela þetta breytistykki undir upptökuborðinu þannig að ég teiknaði upp þetta litla “hólf”. Stykkið fellur þarna inn og snúran kemur út um gat á endann og það haggast ekkert.
Fjöltengjahengi
Mjög einfalt Thingiverse stykki til að festa fjöltengi. Ég hef prentað þónokkur svona.
Valslöngva
Það er líklega ekkert gagn að þessari valslöngvu en hún er skemmtileg.

Gráskallakastalateningaturn

Ég á þrívíddarprentara. Ég prenta mest af hagnýtum hlutum, festingum og slíku. Stundum hanna ég eitthvað en oftast snýst það bara um að sameina tvö módel í eitt.

Áhugaverðasti vefurinn fyrir eigendur þrívíddarprentara er Thingiverse. Þar getur maður fundið ótal módel til prentunar. Ég hef prentað ýmislegt þaðan og það á líka við um teningaturninn (turn/gríparabrú) sem ég var að búa til.

Þegar ég varð sex ára fékk ég Gráskallakastala (Grayskull) í afmælisgjöf. Hann er löngu glataður eins og flest dót sem ég átti í æsku. Þannig að þegar ég sá að hægt var að búa til teningaturn sem byggður var á þessum kastala sló ég auðvitað til.

Ég var ekki alveg viss um hvernig ég ætlaði að hafa tilbúna módelið en endaði með að prenta það í silfurgráum lit. Þá tók ég þessa mynd. Ég var frekar ánægður með þetta þó ekki hafi allt virkað fullkomlega. Mig langaði samt örlítið að gera aðeins betur. Þannig að ég ákvað að kaupa mér málningarprey og prufa að fá smá lit á turninn.

Gráskallakastali var ekki einlitur og, það sem meira er, þá voru öll leikföngin í aðeins mismunandi litum. Ég ákvað því að prufa að grunna með svörtum og spreyja síðan aðeins með dökkgrænum. Ég var bara töluvert sátur við útkomuna. Ég er ekki viss um að ég hefði getað keypt mér mikið flottari teningaturn.