Facebook óvinátta mín

Hatursamband mitt við Facebook virðist stundum var algengasta umræðuefni mitt hér. Mér fannst Facebook sniðugt fyrirbæri á sínum tíma. Það var sumarið 2007. Ég var í sumarskóla í Árósum og á leið í skiptinám í Cork. Facebook virtist frábær leið til að halda sambandi við samnemendur mína. Síðan var ég bara að samþykkja og bæta við fullt af fólki. Ég man að ég var á tímabili sá sem átti hvað flesta Facebook vini.

Ég veit ekki hvað breyttist. Ég eignaðist börn og vildi ekki endilega deila sögum af þeim með fólki sem ég þekkti lítið – eða þekkti ekki lengur. Ég tók tarnir við að henda út fólki af vinalistanum mínum. Þær voru misgáfulegar. Ég sé eftir sumum en hef gleymt öðrum. Í dag bæti ég varla neinum við og samþykki ekki nærri alla sem óska eftir tengslum.

Facebook náði líka að mestu leyti að drepa bloggið. Ókei, ekki eitt sín liðs. Þegar bloggið komst í tísku hoppuðu allskyns aðilar inn. Annars vegar voru þeir sem buðu öllu fólki að setja á einfaldan hátt upp bloggsíður og bjuggu um leið til bloggsamfélög sem voru að mörgu leyti lokuð fyrir utanaðkomandi. Hins vegar tóku ýmsir miðlar sig til og soguðu upp vinsæla bloggara. Þeir fengu loforð um græna skóga – og örfáir fengu gull – en síðan dóu þessir miðlar, sameinuðust eða voru keyptir af vafasömum aðilum. Um leið og þessi „rjómi“ af bloggurum hvarf þá vorum við hin eftir og urðum svolítið útundan. Gleymdumst þegar við höfðum ekki lengur virkt samfélag í kringum okkur.

Við héldum að Facebook gæti komið í staðinn fyrir gáttirnar og veiturnar. Við skráðum okkur og deildum efninu okkar þar. Það gekk vel til að byrja með. Facebook sýndi öllum „vinum“ okkar bloggfærslurnar okkar. Það var hvati til að fjölga vinum. Ef við leyfðum hverjum sem er að tengjast okkur gátum við tryggt okkur dreifingu til þeirra. Það sama gilti t.d. um vefrit.

En Facebook þurfti auðvitað að græða peninga. Það voru „læk“ síðurnar sem fengu fyrstar að finna fyrir þessu. Allt í einu hætti fólk að koma af Facebook í sama mæli og áður. Við veltum þessu fyrir okkur og áttuðum okkur fljótt á skýringunni. Facebook var hætt að sýna öllum „lækurunum“ efnið okkar. Þá fórum við að deila efninu kerfisbundið á persónulegu síðum okkar, til vina. En Facebook sá fljótt við því. Einhver algóryþmi á bak við tjöldin reiknaði út að ákveðnir tenglar, ákveðnir vefir, væru verðmætir í huga okkar og hætti að sýna vinum okkar þessar deilingar nema í mjög takmörkuðu lagi.

Við héldum að við værum að nota Facebook en auðvitað var Facebook bara að nota okkur.

Blogg- og vefritaveita

Ég hef ekki leynt þeirri skoðun minni að Facebook sé ömurlegt fyrirbæri sem eyðileggur allt. Ég sakna gömlu tímanna þegar það voru blogg og vefrit út um allt. Ein ástæðan fyrir því að það gekk allt saman var að við höfðum veitur sem söfnuðu og deildu hlekkjum á öll þessi skrif.

Ég man fyrst eftir rss.molar.is sem var veita sem Bjarni R. Einarsson hélt utan um. Síðan var Mikki Vefur. Að lokum var Blogggáttin. Þegar síðastnefnda veitan hætti störfum var ekkert eftir.

Ég var að vona að eitthvað annað myndi spretta upp en það gerðist ekki. Ég ákvað því að keyra af stað sjálfur BloggKistuna. Þetta er örlítið öðruvísi en forverarnir. Ekki svona yfirlit í töflu heldur er útlitið meira eins og fréttasíða eða vefrit (útlitið mun þó líklega breytast eitthvað þegar á líður). Yfirlitið vísar síðan beint á upprunalegu færslurnar – hvar sem þær eru.

Ég ætla að vona að þetta hvetji fólk til að halda virkni í bloggum og vefritum. Ég vona líka að fólkið sem er hrifið af hugmyndinni verði duglegt að benda á þessa veitu.

Ef þið viljið benda mér á vefrit eða blogg sem ætti heima þarna þá má endilega setja komment hér eða senda línu á blogg@kistan.is.

Tvær Truflanir í viðbót

Ég er þá búinn að bæta við tveimur bloggurum í viðbót á Truflun.

Sá fyrri er Arngrímur Vídalín, fræðimaður og skáld. Hann bloggar um veginn og þurfti ég að standast freistinguna að breyta því þannig að hann bloggaði um vegginn.

Sá seinni er hvorki meira né minna en frægasti og besti bloggarinn Stefán Pálsson.

Báðir koma þeir af Kaninkunni sem var áður mitt bloggheimili. Mér skilst að hún sé að líða undir lok sem er nú frekar dapurlegt.

Spammað á íslensku

Ég er með vörn sem á að koma í veg fyrir að fólk geti sett inn rusl í athugasemdakerfið hér. Limalengingar og pillur eru algengastar. Einstaka sinnum er kerfið þó of öflugt og hirðir athugasemdir sem eiga að komast í gegn. Ég tek því stundum og skoða hvað sían hefur veitt.

Núna ákvað ég að prufa að leita að algengu íslensku orði í athugasemdum sem hafa verið merkt sem rusl. Það sem ég fann kom mér á óvart. Þarna voru sex athugasemdir á íslensku sem voru þó augljóst rusl þegar ég skoðaði þau.

Eitt var greinilega vélarþýdd auglýsing um einhverja pillu en hin fimm voru öðruvísi. Ein var einfaldlega afritaður texti úr færslunni sem hún var skrifuð við. Hinar fjórar voru textar teknir að því er virðist handahófskennt af bloggsíðum og spjallborðum.

Hérna eru tvö dæmi um þessa texta:

Það gera lífeyrissjóðir landsins með hundruð milljarða afskriftum vegna veðmála sem stjórnendur þeirra í vanhæfi sínu bókuðu á framtíðarvæntingar skýjaborganna. Og til að breiða yfir þau mistök og fleiri, þá berjast þeir með öllum ráðum gegn því að fyrirtækin sem peningarnir runnu í, fari í gjaldþrot. Enda kæmust almennir borgarar þá í bækurnar, og það má ekki.

Þú verður að fyrirgefa. Ég veit að það er dónaskapur að klippa út setningar úr innleggjum fólks en ég stóðst ekki mátið. Ég hef nefnilega heyrt þetta svo oft. Í fyrsta lagi vil ég benda á að þarna er rétt orðnotkun. Þetta heita vímuefni. En áfengi er líka vímuefni. Í öðru lagi langar mig að varpa fram þeirri spurningu hvort vímuefni séu slæm, svona í sjálfu sér. Hvort fólk sé almennt á þeirri skoðun að það sé vont að fólk fari í vímu?

Lukkulega sér ruslsían mín í gegnum þetta.

Ég fann síðan reyndar eitt gamalt komment frá Dagbjörtu sem ég ákvað að hleypa í gegn. Betra seint en aldrei.

Viðbót, þetta þótti mér fyndið:

Ég ráðleggja þér að virkilega the bestur staður :
эротические знакомства фото парни
Sem reglu , deita auglýsingastofu notuð af Internetinu.

Ég vildi að ég vísi hvernig þetta kom til.

Áratugur í bloggi – brot af bloggsögu

Í dag eru tíu ár síðan ég hóf blogg af alvöru – raunar hafði ég fiktað með svipað form árið 1999 en það gekk stutt. Ég bloggaði fyrst einn og yfirgefinn. Rúmu ári síðar fór ég á Kaninkuna í boði Palla Hilmars. Að lokum langaði mig að sjá um eigin vef og setti truflun.net af stað með bloggum fyrir vini og ættingja.

Þegar hæst stóð bloggaði ég upp á hvern dag, áleit það sérstakt markmið í sjálfu sér, og var með lengi með fastan lestur upp á mörg hundruð manns á dag. Ef færslunni var deilt á einhverjum góðum stað fóru heimsóknirnar upp í þúsundir. Það var á tímabili reglulega vitnað í bloggið mitt á síðum dagblaða. Það var ekki óalgengt að fólk byrjaði að spjalla við mig af því að það hafði lesið bloggið mitt.

Þegar ég byrjaði að blogga þá tók ég viljandi ákvörðun um að reyna að komast inn í ákveðið bloggsamfélag sem var líklega það mest áberandi á sínum tíma. Þetta tókst mér. Kjarni þess á þeim tíma var rss-mola síðan hans Bjarna þar sem maður gat fylgst með uppfærslum hjá þessu fólki (og reyndar ýmsum sem voru aldrei beinlínis hluti af því). Þetta bloggsamfélag hafði nokkra undirhópa og ég datt, merkilegt nokk, inn í vinstrimannahópinn.

Á þessum tíma höfðu fæstir athugasemdakerfi og því var umræðan dreifð og lifandi yfir samfélagið. Í stað þess að umræða skapaðist við bloggfærslu einhvers eins manns þá tóku margir þátt í því á mörgum bloggum. Þannig fór til dæmis umræða um teiknimyndaþáttinn Gullborgirnar vítt og breytt um bloggheima. Ég nefni þetta dæmi sérstaklega af því að bloggið var ekki jafn pólitískt og það varð síðan. Þetta var ekki vettvangur til að ræða landsmálin heldur vettvangur þar sem meðal annars var fjallað um þau.

Það var á sínum tíma skrifuð fræg grein á vefritið Kreml (munið þið eftir pólitísku vefritunum?) um blogg. Þar var hneykslast á því að á bloggum væri fólk að tala um uppáhalds teiknimyndasögurnar sínar, hvaða fræga fólk það hefði hitt og hvað heimilistæki voru biluð heima hjá því. Mig hefur alltaf grunað að þessi greinahöfundur hafi verið að lesa mitt blogg áður en hún skrifaði þessa færslu. En bloggheimar svöruðu greininni með því að skrifa færslur um uppáhalds teiknimyndasögurnar sínar, fræga fólkið sem það hafði hitt og hvaða heimilistæki væru biluð hjá þeim.

Það sem mér þykir eftir á hafa einkennt þetta bloggsamfélag er að það hafði rætur meðal fólks sem hafði lengi verið á netinu. Fólk sem fór eftir ákveðnum siðareglum og hugmyndum sem voru líklegast aldrei skráðar og sjaldan yrtar. Þetta hvarf síðan að einhverju leyti þegar íslenskar bloggþjónustur fóru að taka við. Sérstaklega Moggabloggið. Þar fór fólk að blogga sem hafði litla reynslu af netinu og hafði ekkert fylgst með því bloggsamfélagi sem var til fyrir.

Það var annað sem ég tel að hafi farið fyrir brjóstið á gömlu bloggurum og það er að Moggabloggið var tilraun til þess að taka yfir eitthvað sem var frjálst og óháð og stofnanavæða það. Í stað óformlegs nets af bloggurum varð til stór blokk af bloggurum sem tengdust hver öðrum vegna fjárhagslegra hagsmuna Morgunblaðsins. Fréttatengingin á Moggablogginu varð líka til þess að bloggin yrðu oft frekar einhæfar umsagnir um það sem skrifað var á Mogganum. Ég tek fram að það voru vissulega ýmsir skemmtilegir bloggarar þarna og eru enn. Hins vegar hurfu þeir dálítið í fjöldann.

Ég hef það á tilfinningunni að það hafi verið fyrir kosningarnar 2007 sem bloggið varð undirlagt pólitík í fyrsta skipti og hið hversdagslega hvarf. Um svipað leyti, eða aðeins seinna, fóru vefmiðlar að hampa ákveðnum bloggurum og setja þá í aðalhlutverk til að lokka gesti að. Slík blogg urðu einmitt mjög áberandi mikið um landsmálin eða allavega mjög þematengd. Aðdragandi og eftirmál bankahrunsins eru líka sýking sem bloggið hefur ekki losað sig við.

Fólk hætti ekkert endilega að vilja að tala um hið hversdagslega en það færðist á annan miðil: Facebook. Á sama hátt og Moggabloggið bjó til sitt samfélag í eigin þágu þá gerði Zuckerberger það líka. Hann gekk skrefinu lengra og lokaði það algjörlega af. Að vissu leyti er það þægilegt. Ég hef engan sérstakan áhuga á að deila með heiminum því sem ég hef að segja um son minn (ólíkt Barnalandsbloggurunum sælla minninga). Það er hins vegar verra að þessi lokun veldur því að maður finnur ekki lengur veitingahúsarýni með gúggli. Flestir sem vilja deila því hvernig reynsla það var að fara út að borða á ákveðnum stöðum er farið að deila slíkri rýni á lokuðum svæðum og þó tímalínan opni fortíðina á Facebook þá hverfa þessar umsagnir fljótt niður.

Það er stofnanavæðingin á netinu sem ég hræðist og veggirnir sem fylgja því. Þó það sé gott að fólk geti reist veggi utan um sín einkamál þá er verra þegar veggir eru reistir á forsendum fyrirtækja sem vilja loka fólk inni í þeirra kerfi. Þetta verður alltaf verra og verra. Núna eru ýmsir vefmiðlar byrjaðir að heimta, jafnvel krefjast, að til þess að maður geti opnað hlekki á fréttir þeirra á Facebook þá skrái maður sig hjá þeim. Hér gæti ég talað um Michel de Certeau, strategíu og taktík en ég bíð með það þar til ég skrifa fræðilega um efnið.

Andúð mín á stofnanavæðingu netsins er væntanlega ástæðan fyrir því að ég er ennþá með þetta blogg í gangi. Bloggsamfélagið sem ég tilheyrði er að mestu horfið og með því hverfur að miklu leyti hvatinn til þess að skrifa. Ég reyni þó.

Það er annars skrýtið að hafa fortíð svona aðgengilega á netinu. Það er sumt þarna sem maður sér eftir. Ég finn líka að ég er orðinn ósammála sumu sem ég sagði hér áður fyrr. Þetta er hins vegar ómetanleg heimild um síðasta áratug sem ég á – þó hún sé ekki jafn ítarleg síðustu árin. Blogg mín um utanlandsferðir og sérstaklega Corkdvölina eru reglulega lesin þegar mig langar að rifja eitthvað upp. Kannski að tímalínan á Facebook muni bjarga einhverju þegar ég fer að rifja upp síðustu fimm árin en það verður aldrei jafn ítarlegt.

Síðast en ekki síst þá hef ég kynnst ótalmörgum í gegnum bloggið og er þakklátur fyrir það. Sumir eru löngu hættir að blogga en eru þó enn góðir vinir mínir. Aðrir voru upprunalega bara lesendur mínir sem ég síðan kynntist. Það hefði verið verst að missa af því.

Facebook kommentin

Mér þykir miklu skemmtilegra umræður skapast við bloggfærslurnar mínar sjálfar heldur en við hlekkina á færslurnar inn á Facebook. Því miður er Facebook umræðan orðin miklu algengari. Það þýðir um leið að góðir punktar um skrif mín verða fljótt og örugglega óaðgengilegir – jafnvel þó ég endi einhvern tímann með tímalínuna. Maður endar líka með því að taka þátt í tvöfaldri umræðu, á bloggi annars vegar og Facebook hins vegar. Það er bara óþarfi.

Spambloggarinn séra Baldur

Spamblogg fer dáltið í taugarnar á mér. Með því á ég við það þegar einstaklingar setja inn sömu bloggfærslurnar á mörgum stöðum. Ég er nokkuð sannfærður um að ef fólk hefur áhuga á að lesa það sem ég hef að segja þá getur það nokkuð auðveldlega fundið þessa síðu.

Ástæðan fyrir því að ég er að pæla í þessu er að ég hef undanfarið  þurft að svara nokkrum bloggfærslum hjá séra Baldri Kristjánssyni. Þegar ég skoðaði málið sá ég að hann birtir sömu bloggfærsluna á allt að þremur síðum og sendir hana síðan jafnvel á einhvern vefmiðil eða blað sem aðsenda grein. Það þýðir að það geta verið í ganga þrjár eða fjórar umræður um bloggfærslurnar. Um leið gerist það að fólk þarf að hrekja vitleysuna í honum á þremur mismunandi stöðum.

Það sem ég á erfiðast með að skilja í þessu er hvers vegna þeir sem sjá um bloggið á Eyjunni leyfa séra Baldri að gera þetta. Þeir hafa lagt í að fá hann þarna inn til að auka umferð hjá sér (væntanlega til að fá heimsóknir frá trúleysingjum sem eru svara honum) en það er til lítils gagns ef vefráfarar geta lesið sömu færslu á tveimur eða þremur öðrum stöðum án þess að hafa yfirhöfuð hugmynd um að hann bloggi á Eyjunni.

En fyrst og fremst er þetta náttúrulega dónaskapur eins og allt spam.

Kannski les hún bloggið þitt

Í dag fékk ég hringingu sem varðaði það að ég fékk ofgreidd laun í desember. Það hafði víst gleymst að draga frá mér allt sem ég fékk ofgreitt þannig að ég er í mínus og fæ því ekkert næst. Ég sagði að ég hefði nú eiginlega verið búinn að reikna þetta út sjálfur og alltaf ætlað að hringja til að fá þetta leiðrétt. Konunni í símanum léttir mjög hvernig ég bregst við og trúir mér fyrir því að sú sem gerði mistökin hafi ekki þorað að hringja sjálf.

Ég segi síðan Eygló þessa sögu þegar hún kemur heim og ekki er hún lengi að koma með kenningu um hvers vegna konan þorði ekki að hringja: „Kannski les hún bloggið þitt“. Mér þótti þetta skondið enda leyfi mér stundum að hrauna hérna til dæmis yfir fyrirtæki sem hafa náð að ergja mig sérstaklega mikið (en það er náttúrulega fyrst og fremst gert til að hvetja þau til að bæta þjónustu sína).