Takandi í rss

„Það eru nokkrir vefbókhaldarar hérlendir sem ég les til viðbótar, en þeir eiga velflestir sameiginlegt að vera teknir í rss af Gneistanum, sem ég óska til lukku með nýja heimilið á tölvuöld.“ sagði Hjörvar í gær. Mér fannst þetta vel orðað, teknir í rss, ég þurfti að lesa þetta tvisvar til að skilja að það var ekkert dónalegt á ferðinni (og olli það vonbrigðum).

Leið til paranoju

Ég er búinn að fatta hvernig maður getur valdið paranoju hjá bloggurum sem þú veist að eru með teljara. Þú byrjar á að skrifa færslu með tilvísun í bloggarann, þú smellir á hlekkinn (á aðalsíðunni en ekki sérsíðu færslunnar ef henni er fyrir að fara) og ferð síðan og eyðir strax færslunni. Bloggarinn skoðar teljarann og fer síðan að reyna sjá hvað var sagt um hann en finnur ekkert. Þú gætir líka birt færsluna alltaf aftur og aftur í skamman tíma og eytt henni síðan, jafnvel fengið vini þína til að fara gera þetta líka svo fleiri IP-addressur sjáist.

Notið þessa vitneskju vel.

Hlekkjandi ekkibloggandi

Sverrir var snöggur að uppfæra hlekkinn á mig. Ég vona að Molarnir uppfærist bráðum svo Sverrir komist aftur inn á listann hér við hliðina, vona að þetta uppfærist líka þannig að fólk geti séð þegar ég uppfæri.

Allir glaðir.

Annars var Eygló að halda því fram að vegna þess að ég er að nota MT þá sé ég farinn að blogga. Ég benti henni á að MT sé meðal annars notað af fréttasíðum og tólið segi því ekkert um hvort um blogg sé að ræða. Ég er því enn að halda dagbók á netinu en ekki að blogga.

Óli ekkibloggari