Átta ár af bloggi

Ég átti bloggafmæli í fyrradag og mundi ekki eftir því. Reyndar bloggaði ég fyrst í nóvember-desember 1999 en tel það ekki með af því að það entist ekki. Þá vissi ég svosem ekki að það væri til eitthvað sem héti blogg.

Fyrst bloggaði ég á heimasvæðinu mínu hjá Símanum og handuppfærði allt. Það byrjaði 26. febrúar 2002. Rúmu ári seinna fékk inni á Kaninkunni og bloggaði þar í einhvern tíma áður en ég keypti Truflun.net og byrjaði að blogga hér.

Síðasta ár hefur væntanlega verið lélegasta árið mitt í bloggi. Ég blogga sjaldan og hef lítið verið spenntur. Ástæðan er augljóslega aðallega sú að bloggið var samfélag hér áður fyrr þar sem menn skiptust á skoðunum og það hélt þessu svoltið gangandi. Facebook hefur tekið svo margt yfir. Ég sendi núna bloggfærslur sjálfkrafa á Facebook sem ýtir kannski aðeins við mér. Maður skrifar kannski frekar stutta færslu en uppfærslu á status.

Ég hef ekkert í hyggju að hætta að blogga. Ég geri fastlega ráð fyrir að Facebook sé bara bóla og bloggið snúi aftur enda er það miklu skemmtilegra form.

Ég blogga fyrst og fremst fyrir sjálfan mig og það hefur oft verið ómetanlegt að geta flett upp í því til að komast að því hvenær eitthvað gerðist eða hvað gerðist. Ég er líka með alvöru blogg en ekki eitthvað „málefnablogg“. Ég blogga um mig og mig og fólkið í kringum mig þó ég röfli stundum um eitthvað annað. Það er langbest.

Annars hitti ég Unu Margréti Jónsdóttur frægu konu í vikunni. Harðadisksflakkarinn sem ég keypti fyrir jól virðist vera að klikka. Goðheimar eru uppáhaldsteiknimyndasögurnar mínar eða allavega þær sem hafa haft mest áhrif á mig. Og Kreml.is er löngu dautt og grafið.

Metnaðarleysi í bloggi

Ég var áðan að skoða blogg á Eyjunni. Þar hafa menn safnað saman ýmsum bloggurum sem þeir telja að séu merkilegir eða spennandi eða allavega vinsælir. Ég kannaðist ekkert við vitleysinginn sem var að skrifa og ætlaði að komast að því hver þetta væri en það eina sem kom fram þarna var nafnið hans. Þegar ég smelli á hlekkinn „Um“ þá fann ég ekkert. Ég skil ekki í því að menn séu að þykjast reka eitthvað ofurbloggarasamfélag og hafa síðan ekki fyrir því að kynna bloggarana.

Facebook tilraunin

Nú er Facebook nálægt því að drepa allt skemmtilegt blogg og skilja okkur eftir í eyðilandi þar sem pólitískir bloggarar halda ræður úr turnum sínum öllum til leiðinda. Ég tók núna eftir því að ég get tengt rss-yfirlitið mitt við Facebook reikninginn minn. Það þýðir að þessi færsla ætti að poppa upp á Facebook hjá öllum vinum mínum sem eru ekki löngu búnir að fela mig. Það ætti allavega að færa minn fókus aftur hér á bloggið.

Ekkibloggin á BloggGáttinni

Nú þegar ég er í harðri baráttu um að komast á toppinn á vinsældarlista BloggGáttarinnar velti ég fyrir mér óeðlilegri samkeppni þarna. Eftirfarandi titlar eru þarna á topp 25 án þess að ég sjái ástæðu til þess að það sé flokkað sem blogg:
Sandkorn DV
AMX Fuglahvísl
Baggalútur
Kaffistofan
Herðubreið
Ég held að það væri vel til fundið að stilla kerfið einhvern veginn þannig að þessi ekkiblogg hætti í samkeppni við okkur bloggarana á topplistanum.

Moggabloggsritskoðunin

Mér þætti áhugavert ef einhver frá Morgunblaðinu myndi útlista það á hvaða forsendum þeir stunda sína ritskoðun. Það er nefnilega algjör bilun að þeir skuli leyfa manni sem hvetur til manndrápa á þeirra síðum að vera áfram þar en hendi út þeim sem fremja þann glæp að gagnrýna rangt fólk.

Í stuttu máli: Hvað er að ykkur?

Íslenskir stafir og wordpress slóðir

Þeir sem fylgjast ákaflega vel með hafa væntanlega séð að ég hef verið að gera tilraunir með bloggið. Tilgangurinn er að fá sjálfvirka leið til að taka út íslenska stafi í wordpress slóðum. Mér hefur lengi þótt þetta pirrandi en eftir að deiling á Facebook kom til er þetta óþolandi. Vandinn er ð og þ. WordPress ræður við að breyta öllum broddstöfum en ekki þessum félögum.

Ég hef verið að prufa nokkur plugin. Sum virka ekkert en önnur virka með erfiðum aukaverkunum. Eitt tólið breytti sjálfkrafa slóðum á nýjum færslum sem komu bara fínt út en um leið breytti hún gömlum færslum og gerði þar með fullt síðum munaðarlausum innan bloggkerfisins (semsagt að mánaðaryfirlitin vísuðu til dæmis ekki lengur á færslur með gömlum nöfnum). Það hlýtur að vera til lausn á þessu.

Ég tek fram að ég vil hafa nöfnin á færslunum í urlinu. Ef svo væri ekki gæti ég kannski bara notað númerakerfi á slóðirnar.

En já, hefur einhver prufað þetta og leyst?

Undarlegt vandamál með Facebook share (leyst!)

Eftir breytingarnar á blogginu mínu hefur komið upp vandamál með það að senda færslur á Facebook. Það virðist vera allt í lagi að deila öllum færslum nema þeirri nýjustu. Kannski að ég sjái hvert vandamálið er núna með nýrri færslu.

Uppfært:
Sem gekk upp. Vandamálið var ákaflega einfalt og hefur væntanlega verið lengi til staðar. Facebook fílar ekki íslenska stafi – ð allavega. Ætli sé leið til að fá WordPress til að hætta að nota íslensku stafina alveg í slóðum?