Hvers vegna Mastodon?

Í stuttu máli: Notaðu Mastodon. Það virðist vera flókið en það er bara öðruvísi. Flest lærist með því að nota kerfið í smá tíma. Það er góður kostur fyrir Íslendinga að skrá sig á loðfíll.is.

Nú þegar Twitter er farið að molna vegna stjórnarhátta og stefnu Elon Musk eru margir að huga að flutningum. Hvert? Algengasta svarið er Mastodon. Hvers vegna?

Segjum að þú sért á Twitter og þig langi að fylgjast með einhverjum á Facebook. Þú getur það ekki. Þú þarft að skrá þig sérstaklega á Facebook til að fylgjast með fólki á Facebook. Þú ættir að spyrja þig hvers vegna það er.

Facebook, Twitter og aðrir stórir samfélagsmiðlar hafa ákveðið að reisa girðingu í kringum efnið sem notendur þeirra skapa. Þessi stórfyrirtæki vilja loka notendur sína inni til þess að græða á þeim, aðallega með auglýsingasölu.

Er þessi girðing nauðsynleg? Nei, alls ekki. Það var ekki einu sinni alltaf svona slæmt. Á tímabili var tiltölulega auðvelt að deila efni milli Facebook og Twitter. Það hentaði ekki hagsmunum þeirra þannig að múrarnir voru hækkaðir.

Við erum orðin vön því að efni á samfélagsmiðlum sé dreift í formi mynda, skjáskotum af upprunalegu færslunni deilt án þess að tengt sé á milli. Þetta verður til þess að samhengi glatast. Bröndurum er deilt og gefið til kynna að hér sé fullkomin alvara á ferð. Þú getur kannski grafið upp hvaðan efnið er komið en það eru ekki einfaldir smellir.

Nú þegar Twitter virðist vera að hruni komið sjáum við versta galla núverandi samfélagsmiðla. Það er engin einföld leið að flytjast frá einum miðli til annars án þess að glata öllum tengingum sem voru til staðar.

Þetta er samhengið sem við þurfum til að skilja hver sé besti kosturinn. Mastodon er byggt á stöðlum sem rífa niður þessar girðingar.

Ef þú lest leiðbeiningar á ensku gæti það hljómað flókið að skrá sig á Mastodon. Það er mikið talað um hvaða vefþjónn þú ættir að velja. Lukkulega hafa Íslendingar mjög skýran valkost sem er loðfíll.is.

Það mikilvægasta við vefþjóninn er að hann er heimilisfangið þitt. Ég er t.d. @oligneisti@kommentakerfid.is (minn eigin vefþjónn en ekki enn opið fyrir skráningar) en þið getið líka kíkt á @matti@loðfíll.is.

Mikilvægt er að muna að þú getur skipt um vefþjón. Ef þér líkar ekki við þann sem þú ert á færir þú þig bara eitthvað annað. Þú tapar engu á því að flytja, fylgjendalistar koma með þér á nýja staðinn.

Í raun þurfa notendur lítið að hugsa um vefþjóna. Þó þið séuð skráð á ákveðinn vefþjónn getið þið fylgt fólk af öðrum vefþjónum. Efni frá fólkinu sem þið fylgið birtist á ykkar tímalínu.

Einn munur á Mastodon og Twitter er að við erum ekki mötuð. Notendur knýja allt áfram. Á þinni persónulegu tímalínu birtist það sem fólkið sem þú fylgir birtir eða endurbirtir (álíka og retweet á Twitter).

Það að endurbirta færslur sem þér líkar við er mikilvægt. Það hjálpar fleirum að finna efnið. Það er líka valkostur kallast “eftirlæti” sem hefur engin áhrif á hvort fleiri sjái efnið.

Annar munur er að við höfum þrjár tímalínur á Mastodon. Ég nefnt þá persónulegu en við höfum líka “staðværa” tímalínu sem sýnir hvað aðrir á sama vefþjónn eru að birta.

Þriðja tímalínan er sú stóra sameiginlega. Hún byggir á öllu því efni sem vefþjónninn þinn safnar saman, bæði í gegnum notendur en líka með endurvarpskerfum (sem þú þarf ekki að skilja eða pæla í).

Stjórnendur þurfa að passa upp á vefþjóninn sinn. Ef notendur eru til vandræða á öðrum svæðum Mastodon ber stjórnandinn ábyrgð á því að stoppa það.

Ef stjórnendur bregðast ekki við kvörtunum eru allar líkur á að vefþjónninn verði bannaður. Stjórnendur dreifa listum yfir þá vefþjóna sem hafa verið bannaðir til að hjálpa hver öðrum.

Er þetta aðför að málfrelsi? Nei, allir hafa rétt á að nota samfélagsmiðla án þess að verða fyrir hatursáróðri, ofbeldishótunum eða öðrum óþverra.

Það eru einhverjir sem segja að Mastodon sé ekki notendavænt kerfi. Ég er ekki sammála því. Kerfið er aðallega öðruvísi. Fólk þarf bara að nota þetta nokkrum sinnum til að læra.

Við höfum einblínt á Mastodon í þessari umræðu af því þetta er samfélagsmiðill sem er keimlíkur Twitter. Það eru til fleiri miðlar sem byggja á sömu stöðlum, þar á meðal Pixelfed, Friendica og PeerTube.

Ef þú ákveður að fylgja einhverjum á Pixelfed mun efni þeirra birtast á tímalínu þinni á Mastodon. Þú þarft ekki að skipta á milli. Auðvitað hafa Facebook og Snapchat ekki þennan möguleika en við getum sýnt hvað við viljum með því að velja Mastodon.

Kaup Elon Musk á Twitter sýndi okkur veikleika núverandi kerfis. Þú finnur þér svæði sem þér líkar við og allt í einu ertu fangi milljarðamærings sem vill ganga í augun á þrettán ára strákum.

Mastodon byggir á opnum og frjálsum hugbúnaði og á opnum stöðlum. Enginn getur keypt Mastodon. Hvaða kerfi sem er má tengjast Mastodon. Þú getur valið um hvaða forrit nú velur til að tengjast Mastodon.

Verður Mastodon næsti stóri samfélagsmiðillinn? Eftir aldarfjórðung á netinu veit ég það eitt að ég veit ekki neitt … um hvað verður vinsælt.

Mín skoðun er sú að Mastodon sé besta mögulega kerfi sem við getum notað eins og er. Það er ekki fullkomið en það losar okkur við margar óþarfar girðingar. Ef betra kerfi birtist hjálpar Mastodon okkur að flytja.

Ef þú ákveður að flytja frá Twitter á Mastodon er hægt að mæla með tóli sem heitir Debirdify. Notendur (þú vonandi líka) sem Mastodon-heimilisfangið sitt í notendaupplýsingar Twitter og þannig er hægt að finna hverjir af þeim sem þú fylgir eru komnir á Mastodon.

Facebook skemmir PNG myndir

Eitt af því sem fer mest í taugarnar á mér á Facebook, og það er margt sem pirrar mig við Facebook, er hvernig vefurinn misþyrmir myndum. Ég veit að mörgum finnst JPG myndir sjálfgefið form á myndum í öllum tilfellum. En það er bara ekki svo einfalt. Augljósa dæmið er að JPG myndir bjóða ekki upp á jafn mikla möguleika og t.d. PNG.

Ein helsta ástæðan fyrir því að maður notar PNG myndir er að það er hægt að gera bakgrunninn ósýnilegan.

Ef maður tekur sömu mynd og vistar sem JPG þá er hún….

Ég vona að þið sjáið einhvern mun. En JPG verður ekkert mikið betra en þetta af því að bakgrunnurinn á myndinni passar ágætlega við síðuna hérna. Ef maður breytir litnum á síðunni verður þetta verra.

Þannig að JPG myndin treystir á að þú setjir inn bakgrunn sem er nákvæmlega eins og bakgrunnur vefsíðunnar. PNG-myndin getur alltaf aðlagast nær öllu – nema að meginefni hennar sé samlitað bakgrunninum.

Þegar kemur að Facebook þá breytir kerfið öllum myndum í JPG þannig að það skiptir ekki máli ef þú hefur búið til fallega PNG mynd með ósýnilegum bakgrunni. Facebook bara breytir því einhvern veginn.

Síðustu daga hefur Krambúðin verið að auglýsa grimmt hjá mér á Facebook og með henni fylgir þessi mynd.

Skjáskot af auglýsingunni.

Væntanlega skilja fæstir hvers vegna Krambúðin er að nota svona asnalega mynd í auglýsingum. En málið er að á vef Krambúðarinnar finnur maður myndina í upprunalegri PNG útgáfu.

Þessi mynd er notuð á gulum bakgrunni á síðunni og þó ég hafi séð betri klippimyndir þá er þetta alveg þolanlegt. Vandinn er að þegar Facebook fær myndina þá tekur kerfið sig til og breytir í JPG. Af einhverjum ástæðum notar Facebook ekki sjálfkrafa hvítan bakgrunn sem passar við þeirra vef. Nei, þeir setja inn svartan bakgrunn sem skemmir allt. Myndin er líka klippt og skorin einhvern veginn.

Ég veit ekki til þess að hægt sé að stjórna hvernig Facebook breytir PNG myndum en það á að vera hægt að stjórna því hvaða mynd Facebook velur. Þannig að Krambúðin gæti tekið PNG myndina, sett á hana hvítan bakgrunn, vista sem JPG og skrá Open Graph lýsigögn þannig að Facebook velji hana en ekki PNG myndina.

Það þyrfti líklega líka að skera hana til af því að Facebook misþyrmir líka JPG myndum sem kerfið hleður upp. Lexían er kannski aðallega, notið PNG myndir en ekki Facebook.

WordPress í snjalltækjaheimi

Þegar maður hefur vanist að nota Facebook þá er auðvelt að gleyma að WordPress hefur alveg verið að þróast líka síðustu ár. Núna getur maður bara náð í WordPress-forrit í símanum sem gerir manni kleift að deila myndum beint eða einfaldlega skrifa færslur. Það er gott að muna ef maður vill losna undan Facebook-ruslinu. Það er ekkert endilega erfiðara að blogga.

Stjórnarráðið: Hvað er spunnið í opinbera vefi?

Stjórnarráðið var að opna nýjan vef. Í þeirri aðgerð var framinn helsti glæpur sem hægt er að fremja í vefbreytingum. Öllum vefslóðum var breytt og almennt er engin sjálfkrafa aðgerð sem sendir fólk áfram á rétta síðu. Allir hlekkir sem vísuðu á ákveðnar síður hjá íslenskum ráðuneytum eru núna ónýtir.

Ég var ekki hissa þegar ég sá að Sjá, sem hefur séð um “Hvað er spunnið í opinbera vefi?”, segist hafa séð um “að framkvæma notendaprófanir á honum í þróunarferlinu og eins aðgengisúttekt”. Ástæðan er sú að verkefnið “Hvað er spunnið í opinbera vefi?” er að miklu leyti gagnslaust.

Ég var nefnilega örlítið í þessum málum fyrir nokkrum árum og fór meira að segja á einhverja fyrirlestra hjá þessu fólki. Það sem ég sá var að röðunin á topplistann þeirra var algjörlega galin. Vefir sem uppfylltu yfirborðskennd skilyrði gátu fengið háa einkunn þrátt fyrir að þeir væru illa uppfærðir og illa skipulagðir. Síðan átti þetta að teljast einhver gæðastimpill.

Ég var aðeins að skoða vefinn hjá “Sjá” og tók hérna skjáskot af einni síðu. Þarna eru margt að. Byrjum á titlinum, sumsé á flipanum. Þar stendur bara Pistlar. Það hjálpar ekki þeim sem er með ótal flipa opna í vafranum sínum. Það hjálpar ekki þegar þú ert að leita í niðurstöðum leitarvéla (Google bjargar þessu reyndar en aðrar leitarvélar sýna bara “Pistlar”).

Ef þið lítið á dagsetninguna þá er hún DESEMBER 1, 2015 (sem sýnir vanvirkni vefsins). Þarna hefur mánaðarheitið verið þýtt en dagsetningin er sýnd á bandvitlausan hátt. Þetta ætti auðvitað að vera 1. desember 2015. Það er ótrúlega einfalt að gera þetta rétt í WordPress sem er vefumsjónarkerfið sem þarna er notað.

Neðst á skjáskotinu sjáið þið síðan að ef þið viljið lesa meira þá smellið þið bara á “Continue reading”. Ég get ekki sagt að það sé til fyrirmyndar. Neðst á síðunni er svo hægt að smella á “Older posts”. Það er ákaflega einfalt að laga svona. Ótrúlega einfalt raunar.

Það sem ég meina er: Hvernig ætti fólk sem getur ekki einu sinni séð um eigin vef sagt öðrum til verka? Annars þá var svolítið kaldhæðnislegt að ég lenti í svolitlum vandræðum með að finna upplýsingar um verkefnið “Hvað er spunnið í opinbera vefi?” af því að það er búið að henda öllum síðunum, eða allavega slóðunum. En þá er auðvitað hægt að kíkja á Vefsafnið.

PDF er vont – Issuu er verst

PDF skjöl eru góð ef maður vill búa til skjal í einu tölvu og tryggja að það sé hægt að prenta það óbreytt út í annarri tölvu. Ef þú ætlar að gera eitthvað annað við skjalið þá ættirðu ekki að nota PDF. En þó PDF skjöl séu óþolandi ein og sér þá ná ýmsir að gera hlutina verri með því að reyna að búa til þá tilfinningu hjá mér sé að fletta bók/blaði/matseðli á tölvuskjá. Versti brotamaðurinn er þetta fyrirbæri sem heitir Issuu.

Ef maður notar Issuu þá kann maður ekki á vefinn. Ef þú vilt setja eitthvað upp í PDF skjali og setja á netið þá skaltu leyfa notendum sjálfum að velja leið til að skoða skjalið. Ekki neyða þá til að “fletta” af því þér finnst það flott. Síðurnar passa ekki í vafragluggann og maður þarf að nota einhverjar bjánaleiðir til að stækka og minnka það sem maður vill skoða. Á vefnum þá flettir maður ekki síðum, maður smellir á hlekki til að opna þær. Ef textinn kemst ekki allur fyrir þá er hægt að renna síðunum upp og niður. Þetta virkar allt alveg rosalega vel og fólk er vant þessu.

Ég skrifa þetta af því að mig langar á veitingastað sem hefur ákveðið að setja matseðilinn sinn upp í Issuu. Af hverju? Það er ekki þægilegt að nota það. Það er ekki þægilegt að uppfæra það. Finnst fólki þetta í alvörunni flott? Búið frekar til heildstæðan og fallegan vef.

Truflun rís á ný

Fyrir stuttu var ég spurður hvort ég hefði pláss fyrir blogg á Truflun. Það varð til þess að ég ákvað loksins að þrífa til hérna og færa bloggin á annan hýsingaraðila.

Til að byrja með er rétt að taka fram að mér þykir ennþá vera pláss fyrir blogg í Facebook veröld. Ég tel líka þörf á bloggum sem eru ekki í umsjá fyrirtækja. Ég er mjög glaður að hafa allt mitt á minni eigin könnu. Facebook er lokaður heimur, blogg eins og hér eru hluti af hinum opna vef. Það er ennþá pláss hérna fyrir fólk sem vill vera með.

En já, yfirfærslan.

Tvö blogg voru með gagnagrunnsvillu sem ég þurfti að laga. Merkilegt nokk næ ég alltaf að fikta mig framúr gagnagrunnveseni þó ég segist aldrei kunna neitt í því.

Fjögur blogg voru með ruglaða íslenska stafi. Því var reddað að mestu með find/replace en bloggeigendur ættu endilega að lesa yfir til þess að sjá hvort eitthvað stafabrengl leynist þar enn.

Ég henti út ótal ruslpóstkommentum og lokaði á athugasemdir á færslur sem eru meira en tveggja vikna á öllum bloggum sem eru hér.

Mögulega hefur eitthvað efni týnst í flutningum en það ætti allt að vera einhvers staðar til. Ég er með afrit af gagnagrunnum og öllum möppum þannig að það ætti að vera hægt að finna allt.

Ég endurskipulagði forsíðuna út frá því hve líklegt mér þykir fólk til að blogga á ný. Þið sem eruð í neðri línunum megið endilega koma mér óvart. Sá sem er á leiðinni inn er með spurningamerki en mun vonandi detta inn sem virkasti bloggarinn á svæðinu.

Það eru líklega meira en sjö ár síðan þetta lén var fyrst skráð og ég hef lært heilmikið af þessu bralli og ég sé ekki fyrir mér að ég fari að hætta í bráð.

Spammað fyrir Gogoyoko

Ég var að þrífa út ruslathugasemdir á Rafbókavefnum og ég rakst á svolítið sem fór meira en lítið í taugarnar á mér. Þarna er spam frá einhverjum sem er að reyna að senda fólk á vef Gogoyoko. Ég hef ekki skoðað hvernig þetta virkar hjá Gogoyoko en almennt virkar þetta þannig að sá sem er að dreifa svona spami fær borgað fyrir hverja heimsókn sem kemur inn á hans sérstöku slóð inn á vef fyrirtækisins.

Kannast fleiri við að hafa fengið svona spam merkt Gogoyoko?
Gogoyoko spam

Wikipediuspam

Til þess að dreifa hlekkjum sem víðast á vefinn nota menn merkilegustu aðferðir. Áðan reyndi einhver að senda inn athugasemd sem innihélt eftirfarandi texta:

Í skjali AM 987 4:to, sem er varðveitt hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum , eru tvö basnesk-íslensk orðasöfn með nöfnunum Vocabula Gallica (‘frönsk orð’) og Vocabula Biscaica (‘ Biskaja-orð ‘). Í lok Vocabula Biscaica, sem samtals inniheldur 278 orð, setningar og töluorð, eru sumar beskneskar setningar blandaðar með ensku , frönsku , hollensku , spænsku og þýsku orði. Basknesk-íslenskt blendingsmál er sem sé ekki blanda af basknesku og íslensku, heldur af basknesku og öðrum málum. Nafn sitt hefur það af því að það var skrifað niður á Íslandi og þýtt í íslensku.

Ég gúgglaði textann og fann á íslensku Wikipediu. Væntanlega eru menn að afrita handahófskenndan texta þaðan til þess að hafa athugasemdirnar meira sannfærandi.

Frjáls klám frá Íran

Frjáls klám
Frjáls klám

Fyrir rétt rúmlega þremur árum fékk ég heimsókn frá einhverjum sem var að leita að ókeypis klámi með hjálpi orðabókar eða tölvuþýðingar. Ég skrifaði bloggfærslu um það.

Í kjölfarið hef ég oft fengið álíka heimsóknir þar sem bloggfærslan sem ég skrifaði skoraði hátt á Google.

Í gær var ég að skoða teljarann minn, sem ég geri ekki oft þar sem ég blogga nær ekkert núorðið og rakst á þessa heimsókn.

Ég man ekki eftir því að hafa áður fengið heimsókn frá Íran. Mig grunar að fyrsti gesturinn þaðan hafi ekki verið sérstaklega glaður með það sem hann fann.

Nú eru síðan allar líkur á að þetta skjáskot af teljaranum mínum skori mjög hátt á Google hjá þeim sem eru að leita sér að frjálsu íslensku klámi. Verði þeim að góðu.