Þegar Barnaheill var rænt af samsæriskölti

Ef þið fylgist með bandarískum stjórn- og þjóðfélagsmálum þá hafið þið væntanlega heyrt um “Q” og Q-Anon. Þetta er klikkuð samsæriskenning sem hefur náð töluverðri útbreiðslu þar í landi. Það er líka hægt að sjá Q-Anon fólk í athugasemdakerfum íslenskra vefmiðla.

Í stuttu máli er dularfullur gaur sem kallast “Q”, sem á að vera háttsettur embættismaður í Bandaríkjunum, að pósta allskyns rugli á rasistaspjallborð. Miðpunkturinn í málflutningi hans er að Trump sé að reyna að bjarga Bandaríkjunum frá allskonar samsæri Demókrata og ríks fólks. Bjánalegar athugasemdir Trump um hitt og þetta eru túlkaðar sem leynileg skilaboð. Auðvitað er “Q” ekki raunverulegur embættismaður. Mögulega er hann eigandi rasistaspjallborðsins en það er alls ekki víst.

Kenningarnar eru allskonar og sumar mjög undarlegar. John F. Kennedy yngri (ekki eldri eins og Kjarninn skrifaði) sem fórst í flugslysi fyrir rúmum 20 árum er til dæmis í lykilhlutverki og á að hafa sett slysið á svið til að geta unnið á bak við tjöldin til að upplýsa samsæri.

Q-Anon er költið sem trúir á kenningar “Q”. Það er allskonar fólk en margir hafa nefnt að eldra fólk sé oft líklegra til að falla fyrir þessu. Kenningarnar sem Q-Anon fólk dreifir eru ekki eingöngu komnar frá “Q”. Hópurinn fann til dæmis ekki upp á “Pizzagate” samsærinu (meintur barnaníðshringur á pizzastað sem Demókratar sóttu töluvert) en var duglegur að dreifa því. Q-Anon finnur líka allsstaðar vísbendingar um samsærin. Tónlistarmyndband Justin Bieber var til dæmis fullt af vísunum í “Pizzagate” – segir költið.

Q-Anon fólk hefur komist að því að barnaníðsásakanirnar eru líklegar til að fá dreifingar. Í ágúst náði þessi hópur að ræna #savethechildren myllumerkinu. Fullt af fólk deildi óafvitandi áróðri þeirra og mætti jafnvel á mótmæli sem voru ætluð til að vekja athygli á Q-Anon kenningum. Ég sá svoleiðis pósta frá Íslendingum en ég vissi bara ekki hvernig maður ætti að útskýra fyrir fólki að #savethechildren snerist í raun um eitthvað allt annað. Þetta er svona eins og þegar rasistarnar rændu ókeimerkinu og fólk brást við með að úthúða þeim sem bentu á það.

Annars virðist þetta #savethechildren dæmi hafa fjarað að mestu út, m. a. annars vegna þess að Q-Anon komst að því að Bill Gates hafði gefið mikið af peningum til Barnaheilla (Save the Children) og brjálaða samsæriskenningaköltið vildi enga tengingu við Bill Gates. Þetta fólk hatar Bill Gates ekki vegna vafasamra viðskiptahátta heldur vegna þess að það telur að Gates sé að reyna að drepa fólk hægri vinstri með góðgerðarstarfi sínu.

Þó það sé erfitt þá erum við víst á þeim stað að við þurfum að fara að tala um Q-bullið við fólk sem er óafvitandi að falla fyrir samsæriskenningum þeirra. Þetta er ekki bara einhver heimskulegur brandari. Þetta er að dreifast um heiminn og þetta getur verið stórskaðlegt.

Miðaldaraus um múslima

Það þarf eiginlega að svara bloggfærslu Jónasar lið fyrir lið.

1. Ekkert svigrúm verður fyrir halal eða kosher í opinberum mötuneytum.

Slátranir eiga að fara fram þannig að dýrið þurfi að kveljast minnst. Annars þá fatta ég ekki málið. Sonur minn var á leikskóla með stúlku sem borðaði ekki nautakjöt og ég held að það hafi aldrei verið neitt vesen (af hverju er enginn hræddur við matarvenjur hindúa?). Ætli stúlkan hafi ekki bara fengið stærri skammt af grænmetinu? Í stærri mötuneytum ætti síðan hvorteðer að reyna að bjóða upp á fjölbreytni.

2. Ekkert svigrúm verður fyrir bænir og föstur á skólatíma og vinnutíma.

Ég er á því að hlé á vinnu- eða skólatíma sé af hinu góða og ef fólk vill nýta það í trúarbrögðin sín þá ergir það mig lítið. Auðvitað mætti samt ekki t.d. læknir hætta í miðri aðgerð til að fara að biðja eða fangavörður hætta að gæta fanga en einhvern veginn efast ég um að svoleiðis sé raunverulegt vandamál.

3. Ekkert svigrúm verður fyrir trúarlög, sharia, gagnvart landslögum.

Ég átta mig ekki alveg á orðalaginu. Almennt á fólk að fá frelsi til að vera laust undan þeim áhrifum trúarbragða sem það vill ekki. Það minnir mann á að það ætti að aðskilja ríki og kirkju. Allavega erum við laus við guðlastslögin.

4. Ekkert svigrúm verður fyrir feðraveldi, karlrembu og heiðursglæpi.

Flott, nýtum tækifærið til að losa íslenskt samfélag við þessi fyrirbæri líka. Við köllum reyndar heiðursmorðin okkar ástríðuglæpi.

5. Ekkert svigrúm verður fyrir frávik frá vestrænum mannréttindum.

Einn grunnþáttur mannréttinda hlýtur að vera sá að mismuna ekki fólki vegna trúarbragða. Það þýðir að við getum bannað ákveðna hluti en ef okkar boð og bönn eru ekki almennar reglur heldur miðaðar að einhverjum sérstökum þá erum við á rangri leið. Þannig að ef við myndum t.d. banna trúartákn hjá opinberum starfsmönnum þá væri ekki rétt að semja reglur sem hleypa krossum framhjá banninu.

Þetta verður útskýrt fyrir flóttafólki. Við munum hindra, að fólk, sem flýr miðaldir, reyni að koma hér upp þeim sömu miðöldum.

Ef við ætlum að kalla þetta miðaldir þá ríktu nú miðaldir svoltið lengi á Íslandi. Maður gæti líka kallað það miðaldalegt hve langan tíma það tók múslima að fá leyfi til að byggja mosku. En maður er auðvitað að gengisfella miðaldahugtakið töluvert.

Annars hef ég skrifað um íslamófóbíu áður.

Oddvitund Framsóknar

Ég verð að skrifa nokkur orð um þessa frétt þar sem oddviti Framsóknar, hún Sveinbjörg Birna, tjáir sig um moskur og múslima.

Fyrst tekur hún fram að við sem tilheyrum ekki Þjóðkirkjunni ættum að niðurgreiða starfssemi hennar en ekki annarra trúfélaga.

„Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna,“

Hún er sumsé á móti trúfrelsi en segist auðvitað hlynnt því, væntanlega í einhverjum newspeak skilningi.

„Ég hef búið í um eitt ár í Sádí Arabíu og byggi þessa skoðun mína ekki á fordómum, heldur reynslu.“

Ef við notum sömu rök þá gæti múslimi sem hefur búið í landi þar sem kristni er ríkjandi ekki verið með neina fordóma gagnvart kristni og gæti alhæft um allt kristið fólk í krafti þessarar búsetu sinnar.

„…margir múslimar koma frá gömlum frönskum nýlendum og því þurfa Frakkar að taka allskonar hluti inn í landið.“

“allskonar”, það hljómar ekkert rasískt.

„Það myndu koma peningar að utan ef moska yrði byggð hérna. Ekki spurning. Þeir byrja að streyma inn um leið leyfið fyrir moskunni fæst. Alveg eins og ef kaþólsk kirkja yrði byggð í Sádí Arabíu; þá kæmu peningar frá Vatíkaninu,“

Væntanlega eru þetta rök fyrir því að banna kaþólsku kirkjuna hér á landi.

Hér tekur Sveinbjörg ekki tillit til þess að Félag múslima á Íslandi, sem fékk umrædda lóð, hefur einmitt verið gagnrýnið á það hvernig Íslam er ástundað í Sádí Arabíu og því ekkert voðalega líklegt að fá þaðan peninga. Það er sumsé grundvallaratriði að átta sig á að Íslam er ekki eitthvað eitt og múslimar eru ekki allir eins.

„Við erum búin að búa hér í sátt og samlyndi frá landnámi. Fyrst var það Ásatrú, síðan komu siðaskiptin – allir þekkja þessa sögu.“

Ja, Sveinbjörg virðist ekki þekkja þessa sögu. Fyrst var nokkurn veginn trúfrelsi, síðan var það afnumið. Síðan gerði kirkjan ýmsa slæma hluti. Siðaskiptin komu jú víst og voru eiginlega borgarastyrjöld. Síðan kúgaði kirkjan dáltið meira. Síðan neyddu Danir einhverjum votti af trúfrelsi á okkur en ennþá var hægt að kúga þá sem voru annarar trúar.

„Það er ekki eins og þessi skoðun sé byggð á fordómum. Ég dæmi bara eftir minni reynslu. Ég er til dæmis nýkomin úr stærstu mosku í heimi í Abú Dabí. Það er engin kirkja þar, eðli málsins samkvæmt. Ég virði siði annarra landa. Ég hyl mig alla eins og tíðkast í þeim löndum og finnst það bara sjálfsagt mál,“

Það eru bara víst kirkjur í Abú Dabí. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru nefnilega merkilega góð í trúfrelsi (á mælikvarða mið-austurlanda). En samt sem áður eru rökin “múslimar hafa ekki trúfrelsi og þess vegna ættum við ekki heldur að hafa trúfrelsi” afskaplega léleg. Annars vil ég taka fram að mér finnst ekkert eðlilegt að virða siði annarra landa ef þeir eru kúgandi.

„Ég er örugglega eini frambjóðandinn í Reykjavík sem hefur búið annars staðar en á Íslandi. Ég bjó í Sádí Arabíu í um það bil ár. Ég hef ferðast mikið um Arabalöndin. Eins og ég segi þetta eru ekki fordómar, heldur reynslan mín sem útskýrir þessa afstöðu.“

Þetta er sérstaklega vel af sér vikið að alhæfa um gríðarlega stóran hóp frambjóðanda án þess að hafa nokkuð skoðað málið. Ég geri ráð fyrir að það séu ótal frambjóðendur sem hafa meiri reynslu af því að búa erlendis en Sveinbjörg.

Auðvitað á Sveinbjörg eftir að græða einhver atkvæði á þessu en ætlar Framsóknarflokkurinn að leyfa henni að komast upp með að tala svona?

Var Jesús hommi?

Jón Gnarr stingur upp á því að Jesús hafi verið samkynhneigður. Þegar ég tók árið 2006 kúrs í Guðfræðideild Háskóla Íslands kom til tals hið svokallaða Leyndarguðspjall Markúsar. Þar er ýjað að því að Jesús hafi nú eitthvað verið að dúlla sér með einhverjum gaur. Uppúr þessu spruttu nokkrar deilur milli mín og kennarans um hvort umrætt skjal væri falsað eða ekki. Sjálfur var ég, og er enn, nokkuð sannfærður um að skjalið er falsað. Prófessorinn var meira á því að það væri ekta. Hann Jón Ma. var líka ólíkt hressari gaur en flestir aðrir sem eru þarna innanhúss.

Óspennandi kosningar

Áhugi minn á nýafstöðnum kosningum endurspeglast í því að ég hef ekkert skrifað um þær nema einstaka stöðuuppfærslur á Facebook. Það endurspeglast fyrst og fremst í því að mér fannst stjórnlagaráð skila óspennandi tillögum og þá fyrst fremst varðandi kirkjuákvæði. Þar var engin raunveruleg breyting – enginn aðskilnaður í boði.

Reyndar má segja að hluti vandans hafi verið að stjórnlagaráðsfólk vissi síðan ekki hvernig kosið yrði um tillögurnar. Ýmsir þar inni virðast hafa bakkað með aðskilnað vegna þess að þeir héldu að þeir þyrftu að sannfæra fólk um að kjósa heila pakkann. Þannig endum við með kosningu þar sem spurt er hvort maður vilji sama þjóðkirkjuákvæðið eða öðruvísi þjóðkirkjuákvæði og manni er eiginlega sama um niðurstöðuna.

Ég geri fastlega ráð fyrir því að ef stjórnlagaráð hefði vitað að kosið yrði um hvert atriði fyrir sig þá hefðu tillögurnar gert ráð fyrir að hægt væri að kjósa um raunverulegan aðskilnað. Þeir stjórnlagaráðsliðar sem bökkuðu þarna með sannfæringar sínar til þess að búa til þennan pakka verða að eiga það við sjálfan sig. Í þeirra hópi var meirihluti fyrir aðskilnaði en þeir seldu þá sannfæringu sína.

Í dag var ekkert annað í boði en að samþykkt hefði verið stjórnarskrá þar sem sum dýrin væru jafnari en önnur í trúmálum og því er engin ástæða til þess að ergja sig sérstaklega á því.

Trúfrelsi fyrir suma

Ég verð að játa að fatta ekki hvað í ósköpunum formaður skipulagsráðs Reykjavíkur er að meina með ummælum sínum í Fréttablaðinu í dag.

„Við erum náttúrlega ekki að fara að úthluta tveimur lóðum fyrir moskur strax og finnst eðlilegt að þeir geti sameinast um að byggja sér mosku,” segir Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur.

Allir einsAllir hljóta að átta sig á að enginn myndi detta í hug að segja til dæmis kaþólikkum að þeir geti bara deilt húsnæði með Fríkirkjunni. En um leið þá er voðalega skrýtið að setja félag sem er búið að bíða eftir lóð í ár og aldir með félagi sem er nýstofnað (eða nýklofnað kannski frekar).

„Það hefur verið alls kyns tregða á því. Hluti af vandanum er að Reykjavíkurborg liggur ekki á mörgum lóðum sem henta fyrir moskur og þannig er enn þó að það sé verið að höggva á þann hnút,” segir Páll,

Ég velti dálítið fyrir mér hvað Páli þyki hentugar lóðir. Eru það lóðir sem eru í þægilegri fjarlægð frá almennilegu fólki sem þarf þá ekki að búa við múslima í hverfinu sínu? Ég bara spyr.

En þessir múslimar eru líka allir eins líkt og sést á myndskreytingunni við fréttina á Vísi og hvers vegna ættum við þá að gera greinarmun á Félagi múslima, Menningarsetri múslima eða Al kaída?

Ríkiskirkjufurstinn Ögmundur

Mér þótti annars skondið á fundinum hjá Stjórnarskrárfélaginu í gær að Pétur Pétursson talaði með velþóknun um Ögmund Jónasson sem “fursta”. Þetta virðist tilkomið vegna ánægju Péturs með ræðu Ögmundar við setningu kirkjuþings. Það var ekki alveg að heyra að þar væri á ferð sami maður og talaði fyrir ályktun á landsfundi VG, sem var samþykkt, um að stefna bæri að aðskilnaði ríkis og kirkju.

Tvö andlit prestsins

Örn Bárður á grein sem hefur slegið í gegn meðal fylgismanna tillögu Mannréttindaráðs Reykjavíkur um bann við trúboð af því að hann afhjúpar sig algjörlega. Þar stendur meðal annars:

Þú spyrð: „Er það mismunun að allir nema tveir fari í kirkjuferð? Er það rétt, með velferð barnanna í huga, að skilja þau frá hópnum?”
Svar mitt er: Það hefur alltaf haft kostnað í för með sér að tilheyra minnihlutahópi. Þessi nálgun, „vesalings ég og börnin mín”, virkar ekki sannfærandi. Þú verður bara að kyngja því að börnin þín uppgötvi að þau tilheyri minnihlutahópi ef þú hefur valið sjálfum þér og þeim lífsskoðanir minnihlutans.

Berum þetta saman við það sem hann skrifar til að kynna sig sem frambjóðanda til stjórnlagaþings:

Ég vil nýta fjölþætta reynslu mína til að móta nýja stjórnarskrá þar sem byggt er á hinu liðna en horft í von fram á veginn, í bjartsýni og virðingu fyrir fólki með ólíkar skoðanir, litarhátt, þjóðerni, kynferði og trú.

Einhverjir myndu segja að þarna sjáist tvö ákaflega ólík andlit prestsins. Mig grunar að fyrri tilvitnunin gefi sannari mynd af honum.

Gáttaðir ríkiskirkjusinnar

Fyrir nokkru var mér bent á áhugaverða umræðu á Facebook eða Moggablogginu þar sem Vantrú var gagnrýnd. Það sem fór fyrir brjóstið á þeim sem þar ræddu var að á vefritinu væru bæði gagnrýnd sérréttindi ríkiskirkjunnar sem og mismunun gegn múslimum. Þetta þótti þeim ákaflega grunsamleg stefna. Hvernig er bæði hægt að vera á móti sérréttindum og mismunun?

Sama lygin – ólík niðurstaða

Það er töluvert deja’vu í gangi þessa daganna. Taktík kirkjunnar til að koma í veg fyrir mannréttindabætur í skólum borgarinnar er nákvæmlega sú sama og hún var þegar átti að gera sjálfsagðar og eðlilegar breytingar á grunnskólalögunum fyrir um þremur árum. Í stað þess að tala um það sem raunverulega átti að gera er farið að þvæla um ótrúlegustu hluti sem ekki koma málinu við. Maður sér fólk tala um að Mannréttindaráð sé eitthvað að ráðast á kristinfræðifræðikennslu þó það sé fjarri öllu lagi.

Sem betur fer það ekki Þorgerður Katrín sem stendur núna í ströngu. Taktíkin sem virkaði svo vel til á hana þannig að hún lyppaðist niður og gafst upp virðist einfaldlega ekki ætla að virka á það góða fólk sem núna er ráðist á. Mikið er það notaleg tilhugsun að það verði ekki komið fram við son minn sem annars flokks þegar hann fer í leikskóla.