Vinkona Björns og önnur bandarísk fífl

Björn Bjarnason opinberar aðdáun sína á konu að nafni Ann Coulter, hugsanlega ekki það gáfulegasta sem hann hefur látið fara frá sér. Jói og Einar hafa bent á hvernig þessi kona er í raun:
We should invade their countries, kill their leaders and convert them to Christianity. We weren’t punctilious about locating and punishing only Hitler and his top officers. We carpet-bombed German cities; we killed civilians. That’s war. And this is war.
Þetta er náttúrulega augljóslega sturluð kona, sannfærð um yfirburði sinnar eigin menningar (hinnar hvítu, kristnu, íhaldsömu Ameríku). Segir alveg skammlaust, við ættum að drepa óbreytta borgara einsog við gerðum í seinni heimsstyrjöldinni. Augljóslega engin iðrun vegna þeirra stríðsglæpa sem Bandamenn frömdu í því stríði. Drepum leiðtoga þeirra og kristnum þá, einmitt leiðin að friði.

Í þessari grein sá ég Björn þýða orðið „liberal“ sem „vinstrisinni“, það man ég ekki eftir að hafa séð áður, hélt að „liberal“ væri frjálslyndur maður. Kannski að maður geti haldið áfram á þessari braut og þýtt „conservative“ sem „hægrisinni“.

En þetta mál minnir mig á aðra bandaríska rugludalla sem ég var að lesa um í The Week (sem ég rakst á í Skerjafirðinum), þar var fréttamaður í hóp bandarískra frelsaðra nöttara sem eru komnir til Ísraels til að skoða Biblíuslóðir. Hugsanlega var það ótrúlegasta í þessari grein hvernig aðalfríkið reyndi að rökstyðja að Bush væri anti-kristur vegna þess að hann væri að reyna að stuðla að friði milli Araba og gyðinga.

Þetta fólk vill að það verði ægilegt stríð þarna, það telur að Biblían hafi spáð fyrir um slíkt stríð, að Múslímar séu á bandi Satans og gyðingar á bandi guðs (svo lengi sem þeir átti sig á því hve vitlausir þeir voru að fatta ekki að Jesú væri Messías). Þetta stríð myndi náttúrulega þýða heimsendi og allt góða kristna fólkið verði geislað upp til himna einsog um Star Trek þátt væri að ræða.

Má síðan ekki gleyma því að aðalfríkið hélt því fram að 55% Frakka væru Múslímar.

!!! Uppfært !!!
Hefði verið fljótari að setja inn hlekkinn á Einar ef ég vissi hve vinsæl þessi færsla yrði, það koma hér fjölmargir af Málefnin.com að skoða færsluna og ég verð að benda á að Jói og Einar fjalla ítarlegar um málið.

Trú eða trúarbrögð

Hér neðar er athugasemd við færslu minni um trúlausa danska prestinn þar sem því er haldið fram að það geti verið að trúarbrögð séu slæm en trú sé það ekki. Ég get ekki samþykkt það. Vissulega eru skipulögð trúarbrögð mun verri en það er aðallega vegna fjöldans. Nú er kannski réttast að útskýra hvernig ég skilgreini trú.

Trú er það að telja að eitthvað sem telst yfirnáttúrulegt sé raunverulega til (þetta gæti þurft að útskýrast nánar). Trú getur verið trú á guð, trú á drauga, trú á jólasveininn og trú á álfa. Kannski að einhverjir séu ósáttir við hvernig ég flokka þetta en mér er sama.

Mér finnst reyndar rétt að taka fram að trú barna á jólasveininn er ekki jafn heimskuleg og trú á guð enda fá börnin reglulega sannanir fyrir tilvist jólasveinsins og þau eru yfirleitt of heimsk til að skilja að það er verið að ljúga að þeim. Þeir sem trúa á guð hafa engar afsakanir. Hugsanlega er rétt að benda á hvað er sameiginlegt með trú á guð og jólasveininn (því í raun er jólasveininn bara birtingarmynd guðs). Guð og jólasveininn eru hvíthærðir, hvítskeggjaðir kallar (föðurímynd) sem refsa okkur ef við erum vond en verðlauna okkur ef við erum góð. Hver er raunverulega munurinn?
Hvað er síðan slæmt við trú á jólasveininn? Trú á jólasveininn er slæm á mjög svipað hátt og trú á guð. Þessi trú gefur okkur rangar hugmyndir um hvers vegna við ættum að vera góð (til að fá verðlaun). Jólasveininn og guð eru báðir notaðir sem stjórntæki yfirvalda (foreldra) á almúganum (barna, kannski heimskulegt að taka þetta fram). Það að gera hið rétta og að vera „góður“ á ekki vera byggt á ótta við refsingu eða von um verðlaun. Góðverk kristinna manna eru að mínu mati ekki jafn mikils virði og góðverk þeirra sem eru trúlausir vegna þess að ég efast ekki um tilgang hinna trúlausu.

Hvað er þá að því að einhver einn maður hafi sínar einkahugmyndir um guð sem ekki eru í raun hluti af skipulögðum trúarbrögðum? Nú kemur hugsanlega upp í hugann ímynd af geðsjúklingi sem heldur að hann hafi beina línu til guðs og guð sé að skipa honum að drepa John Lennon. Það er náttúrulega ekki satt að allir (né stór minnihluti) þeirra hafa sínar eigin trúarhugmyndir taki upp á svona rugli. Það þýðir þó ekki að svona trú sé meinlaus því hún fellur í raun undir jólasveinadæmið. Eini munurinn er að þú ert að setja sjálfur upp eigin hindranir og eigið verðlaunakerfi (þó það sé varla þitt eigið því í raun er það byggt á þeim trúarbrögðum sem þú hefur kynnst).

Ef einhver er að spyrja sig hvers vegna trú á álfa sé slæm þá er það einfalt. Svoleiðis fólk er alltaf að trufla vegagerðarmenn á röngum forsendum. Síðan væri náttúrulega sá möguleiki til í dæminum, ef einhver tryði raunverulega á allar þessar álfasögu, þá er gott að minnast á umskiptinga. Það álfar kæmu reglulega og skiptu út mennskum börnum fyrir álfabörn er grundvallaratriði í álfatrú. Ef einhver sem trúir á álfa myndi „sjá eitthvað illt“ við barn þá væri sá hinn sami líklegur til að valda barninu skaða.

Og hvers vegna ekki trúa á drauga? Aðallega vegna þess að þá geta miðlar haft áhrif á þig með bulli sínu. Einsog ég hef áður tekið fram í skrifum mínum þá tel ég einungis til tvenns konar miðla, þá sem eru að þykjast og þá sem eru bara geðsjúkir. Síðan getur trú á drauga valdið myrkfælni sem er nú heftandi fyrir fólk.

Ég hef ekki enn talað illa um Bandaríkin og því tel ég nauðsynlegt að minna á að Mark David Chapman var bandarískur (þetta er brandari sem ég fer ekki að útskýra).

Lesefni fyrir forvitna
James Randi, sá sem bíður þeim verðlaun sem getur sýnt fram á tilvist hins yfirnáttúrulega.

Hinir björtu eru þeir sem sjá heiminn einsog hann er.

Trúlausi presturinn

Trúlausi danski presturinn fær að halda embætti sínu, þetta sýnir að dauði kristinnar kirkju er ekki langt undan. Það er löngu ljóst að fólk lítur ekkert á það sem nauðsyn að vera trúaður til að vera skráð í kirkju og núna þá er kominn prestur sem má vera trúlaus. Það er nefnilega ekki hægt að ætlast til þess að fólk sem hefur alist upp á upplýstum (nokkurn veginn allavega) tímum trúi þessu rugli. Til að trúa þessu þá þarftu að snúa baki við allri skynsemi, öllum framförum mannsins í árþúsundir.

Trúarbrögð voru eðlileg þegar þau voru notuð til að útskýra það sem var óskiljanlegt á sínum tíma. Það að halda áfram að segja „hókus pókus“ þegar brellan er löngu ljós er algerlega út í hött. Það sýkja fleiri kynslóðir af svona vitleysu er ófyrirgefanlegt, trúarbrögð alla á fordómum og misskilningi. Það að ótal hópar á jörðinni halda að þeir hafi beina línu til guðs og að þeir séu að vinna verk guðs hefur skapað ótrúlegar þjáningar. Stjórn Bandaríkjanna væri ekki svona hættuleg ef þar væri ekki um ræða menn sem halda að þeir viti hver vilji guðs er. Hvað hefur kristin trú (eða fylgismenn hennar) mörg mannslíf á samviskunni?

Almenn árás á kristni

Birgir segir sannleikann einsog hann gerir sífellt, Kristið siðferði er ekkert siðferði.

Ef einhver væri svo brjálaður að fylgja boðskapi Gamla og Nýja Testamentisins þá myndi sá hinn sami deyja úr þversögn, ef hann lifði bara eftir leiðbeiningum þess Nýja þá þyrfti að loka hann inni sjálfs síns og samfélagsins vegna.

Síðan eru þeir sem taka nærri allt úr þessu alvarlega, það er fólk einsog Gunnar í Krossinum og Snorri í Betal. Þessir menn eru almennt fyrirlitnir eða notaðir í brandara.

Við höfum fólk sem tekur örfá atriði úr Nýja Testamentinu og blandar því saman við hitt og þetta, þar fáum við út Þjóðkirkjuna. Í þjóðkirkjunni eiga hræsnarar heima.

Í dag var ég að heyra í fréttunum að Kirkjan borgar ekki allan kostnað við að halda uppi presti í Englandi, ég er reyndar ekki hissa en samt er ég hneykslaður. Viti borið fólk á ekki að þurfa að niðurgreiða klúbb fyrir fólk sem neitar að sjá raunveruleikann einsog hann er.

Miðlar og morð

Þetta er alveg ótrúlegt, danska löggan náði þessum morðingja þarna án þess að fá hjálp frá íslenska miðlinum sem flaug alla leið til Danmerkur til að hjálpa þeim. Þvílíkt tillitsleysi, miðillinn hefði getað orðið frægur! Nema náttúrulega hann hafi ekki haft rétta manninn grunaðan… Sem ég er reyndar alveg viss um. Þessi rugludallur fór allaleið til Danmerkur til að trufla lögreglurannsókn. Þetta er eitt helsta vandamálið sem kemur upp þegar er verið að rannsaka mál sem vekja mikla athygli, þetta vekur upp alla rugludalla sem vilja athygli, allir vilja verða hetjur.

Er ekki stutt síðan að einhver annar Íslendingur hélt því fram að hann hefði einhverjar upplýsingar um eitthvað svona mál (morðið á stelpunum í Bretlandi í fyrra?) sem vakti mikla athygli? Síðan hvetja íslenskir fjölmiðlar þetta fólk áfram með því að veita því athyglina sem það þráir. Ég held að í kjölfar þessa þá haldi íslenskir rugludallar áfram að trufla lögreglurannsóknir sem vekja mikla athygli og hjálpi þar með raunverulegu glæpamönnunum að sleppa.

Í gær var síðan einhver miðill á Rás 2 að tala um þetta, hann sagði að lögreglan í Svíþjóð og Bretlandi notaði miðla (takið eftir að ég nota aldrei orðið falsmiðill því ég tel að slíkt þurfi ekki að taka fram (hvort sem miðlarnir sjálfir trúa eigin rugli)) eins og hvert annað tól. Ég leyfi mér að efast. Einu skiptin sem ég hef heyrt um að lögregla hafi notað miðla er þegar ekkert gengur og allt er glatað. En umsjónarmennirnir þáttarins á Rás 2 héldu varla vatni yfir því hvað þetta var spennandi og manni fannst einsog þeir vildi að íslenska lögreglan hefði bara miðil á launaskrá hjá sér.

Síðan eru einhverjir sem halda því fram að miðlar hafi einhvern tíman getað hjálpað lögreglunni. Ég tel að það geti verið en það er ekki vegna einhverra dulrænna hæfileika. Segjum að þú vitir eitthvað um glæpamál en viljir ekki koma fram undir réttu nafni þá er einfalt að tala við einhvern miðil sem vill athygli. Miðillinn stekkur fram og upplýsir lögregluna (eða fjölmiðla) um einhverja sýn sem hann fékk um málið og Bingó! Raunverulegur árangur, falskar aðferðir. Ef miðill getur hjálpað við lögreglurannsókn þá er réttast að yfirheyra hann ítarlega um hvaðan hann fékk upplýsingarnar því það var ekki frá vasaljósinu góða í Himnaríki.

Norskir kúgarar?

Íslenski söfnuðurinn í Noregi fær borgað fyrir hvern einasta Íslending sem býr þar í landi, nú er þvílíkt uppnám því norsk yfirvöld vilja halda betur um þetta og það gæti farið svo að söfnuðurinn þurfi í raun og veru að skrá fólk í hann. Það að þurfa skrá fólk í söfnuðinn er augljóslega hræðilegt því þá þyrfti að taka mið af því hve margir aðhyllast kenningar safnaðarins, peningarnir myndu örugglega þurrkast fljótt upp.

Það væri víst hægt að fá undanþágu frá þessu ef um væri að Þjóðkirkjusöfnuð sem þetta er víst ekki. Hvers vegna í ósköpunum ættu aðrar reglur að gilda um Þjóðkirkjunasöfnuð? Þjóðkirkjan nýtur vissulega meiri verndar en þetta innan Íslands. Til eru sögur af Íslendingum sem fluttu heim frá útlöndum og voru skráðir í Þjóðkirkjuna þegar þeir komu aftur þrátt fyrir að hafa verið utan hennar áður en haldið var af landi.

Það þarf að aðskilja helvítis kirkjuna frá ríkinu og í leiðinni þyrfti að senda fólki bréf með umsókn sem það þyrfti að senda inn til að vera áfram innan þeirrar frjálsu kirkju. Hve stór hlutfall myndi nenna að gerast meðlimur í kirkjunni ef það væri ekki nærri sjálfvirk skráning í gangi með hefðum? Ekki margir. Ef þið hafið ekki gert það nú þegar þá skulið þið segja ykkur úr kirkjunni, farið á Hagstofuna og reddið þessu.

Svo maður ljúki þessu á góðum punkti þá er best að umorða trúlausa danska prestinn. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk sem lifir á svona upplýstum tímum geti trúað þessari þvælu sem finnst í Biblíunni.

Cat Stevens

Hjálpi mér hvað þetta Flaming Lips lag er stolið. Ég hafði heyrt þetta lag áður en ég heyrði af málaferlunum og ég hélt að þetta væri eitthvað remix af Father and Son, það að þeir teldu þetta vera heiðarlegar lagasmíðar kom mér aldrei til hugar. En hvað um það.

Ég skrapp aðeins á All Music Guide til að lesa um Cat Stevens. Þar komst ég að því að hann hefur haft fjölmörg nöfn um ævina, ekki bara þau tvö sem ég vissi um. Hann fæddist Steven Demetre Georgiou, tók síðan upp nafnið Steve Adams áður en Cat Stevens varð til, nú heitir hann hins vegar Yusuf Islam og hefur eitthvað gefið út undir því nafni.

Barnaplatan A Is for Allah kom út árið 2001, lítið hefur heyrst af þeim frábæru lögum sem var þar að finna. Líklegt til vinsælda eru til að mynda titillagið A: Allah, B: Bismillah (sem er hugsanlega lengd útgáfa af kafla úr Bohemian Rhapsody), Q: Qur’an og náttúrulega hið seyðandi M: Muhammad Rasul-Allah.

Cat er fínn.

Trú og matur

Ég var að lesa grein á Straight Dope um mataræði í Íslam og gyðingdómi. Afskaplega heillandi, munurinn á mataræðinu er lítill þó reglurnar séu aðeins mismunandi. Ég hafði líka gaman að því að komast að því að Múslímar sætta sig við að borða Kosher mat (sem hefur verið „afgreiddur“ samkvæmt reglum gyðinga). Síðan sér maður hvað göfugar hugsanir liggja á bak við reglur um slátrun en hins vegar er sorglegt að þessar reglur skuli halda sér þegar þær eru í raun orðnar óþarfar. Þetta sýnir hvað er hættulegt að tengja svona góðar reglur við trú, trúin tekur yfir hefðirnar og niðurlægir góða tilganginn þannig að hið góða hverfur.

Ég er annars afskaplega Kosher í mér, finnst hræðilegt að drekka mjólk með kjöti.