Óaðlaðandi hatur

Ég tók ekki þátt í nýlegum „leik“ á Facebook þar sem fólk var að tala um hluti sem það þoldi ekki að leiddist. Ég skrifaði snöggt um það færslu sem mér fannst, eftir á, líta út fyrir að ég væri að setja mig á háan hest. Það var ekki ætlunin.

Um það leyti sem ég varð fertugur ákvað ég að hætta að tala um hluti sem fara í taugarnar á mér eða mér leiðist. Lesendur þessa blogg eru án efa hissa og spyrja hvers vegna ég sé þá t.d. að tala um Facebook eða AirBnB. Það sem ég er að segja á aðallega við um menningar- og afþreyingarefni. Sömuleiðis er ég að hugsa um frægt fólk s.s. áhrifavalda og annað sem ég fatta ekki. Hins vegar er það þannig að fyrirtæki, stofnanir og kerfi á, og þarf, að gagnrýna.

Nú væri kannski eðlilegt að skilja mig þannig að ég sé bara að líta stórt á mig, að ég sé betri en aðrir. Það er ekki ætlunin. Ekki beint. Ég áttaði mig bara á að ég fékk kjánahroll þegar ég sá fólk á mínum aldri, og eldra, kommenta við fréttir um eitthvað sem unga fólkinu finnst hipp og kúl. Komment eins og: „Er þetta eitthvað merkilegt? Ég hef aldrei heyrt um x.“

Ég er ekki að segja að ég sé betri en þetta fólk. Þvert á móti er ég þetta fólk. Ég hef aldrei heyrt um „x“! Ég er bara að reyna að fela hve hallærislegur ég er. Það að fatta ekki eitthvað þegar maður er fertugur er ekki merki um að maður sé að standa gegn straumnum. Maður er þvert á móti í hringiðunni með öllum hinum sem fylgjast ekki með.

Ef ég vildi gæti ég notað „afaklausuna“ til að tala um hluti sem mér hefur lengi þótt asnalegir. Og ég geri það stundum. En ég reyni að forðast það. Það er minna tengt því að vera fertugur og meira um að átta mig á sannleikanum í línu sem Steve Martin segir í í L.A. Story:

Ég held að þú áttir þig ekki á því hve óaðlandi hatur er.

(I don’t think you understand how unattractive hate is.)

Þannig að ég er ekki að reyna að setja mig á háan hest. Ég er bara að reyna að vera minna hallærislegur og óaðlaðandi. Ókei, kannski er ég líka að vonast til þess að verða betri manneskja með tímanum.

Það má alltaf vona.

Kistan og #Kommentakerfið II

Núna í byrjun júní lauk ég störfum hjá Húsaskóla. Ég hef ekki setið auðum höndum síðan. Ég er búinn að taka á leigu húsnæði í Arnarbakka, í tveggja mínútna göngufæri frá heimili mínu. Þetta er gömul fiskbúð.

Ég er líka að fara að gefa út #Kommentakerfið II og það er hægt að kaupa það í forsölu á Karolina Fund (endilega kaupið sem fyrst). Fyrri útgáfa er uppseld fyrir nokkru.

Ég er líka búinn að standa í að stofna samlagsfélagið Kistan – Varpfélag. Það félag mun reka upptökuver í Arnarbakkanum. Við erum þar tveir í aðalhlutverki sem ætlum að taka upp okkar eigin hlaðvörp (podköst – útvarpsþætti á netinu) en við erum líka að stefna á að bjóða öðrum að taka upp eigið efni þar.

Það þarf töluverða vinnu ennþá í gömlu fiskbúðinni og við erum ekki enn búnir að kaupa tækin (erum komnir með kennitölu en vantar vsk. númer til að fara að kaupa). Ég er þó allavega búinn að setja upp skrifborð og vinnuaðstöðu fyrir sjálfan mig þar. Ég er líka búinn að safna allskonar húsgögnum þangað sem ég hef flest fengið gefins á Facebook. Mig vantar reyndar ennþá hillur og fleira (og þar sem ég er ekki á bíl þessa dagana þá er ég ekki í aðstöðu til að sækja neitt slíkt á næstunni).

En þetta eru allavega spennandi tímar.

Ég er ekki bestur í neinu – #Kommentakerfið og ég

KommentakerfiðÞannig að ef maður vill monta sig þá gerir maður það á auðmjúkan hátt.

Þegar ég var 12 ára vildi ég verða heimsmeistari í skák. Ég varð ekki heimsmeistari í skák. Ég varð ekki einu sinni Íslandsmeistari. Ekki heldur Akureyrarmeistari. En mínar einu tvær medalíur á ég úr skákinni.

Stundum er smá 12 ára strákur í mér sem vill verða bestur. En ég er ekki bestur í neinu.

En þegar ég horfi á hvað ég hef afrekað með #Kommentakerfið á síðasta hálfa árinu eða svo þá kemur í ljós að ég get heilmargt.

Ég fékk góða hugmynd um spil. Ég prufaði hana. Ég útfærði hana. Ég bætti hana. Ég hafði næga þekkingu á höfundaréttarlögum til að vita hvað ég mætti gera með hugmyndina. Fræðileg þekking mín á spilum og leikjum kom sér ákaflega vel.

Ég notaði mér þekkingu mínu á samfélagsmiðlum og netinu almennt til að safna fyrir prentun á Karolina Fund. Ég bjó til kynningarmyndband fyrir söfnunina. Ég bjó til kynningarmyndir. Ég kom mér í fjölmiðla. Ég þekkti hvaða frjálsa efni á netinu ég mætti nota (myndefni og tónlist). Ég endaði í um 150% af upphæðinni sem ég ætlaði að safna.

Ég sá sjálfur um grafíska vinnslu á spilinu og sá um öll samskipti við prentsmiðjuna. Auðvitað var öll útlitshönnun í mínímalískum stíl.

Ég setti upp vefsíðu. Ég setti upp vefverslun og er að læra á rafræna bókhaldskerfið mitt. Ég fann út hvernig maður getur tekið við greiðslukortum í vefversluninni með sem minnstum kostnaði. Þess má reyndar geta að vefverslunin og greiðslugáttin eru einu ófrjálsu hugbúnaðarlausnirnar sem ég notast við.

En það sem ég er að reyna að segja er að þó það hefðu margir getað fengið betri spilahugmyndir, hefðu getað safnað meiri peningum, hefðu getað hannað útlitið á spilinu og kynningarefninu mun betur og sett upp flottari vefverslanir þá gat ég þetta allt. #Kommentakerfið slær engin sölumet en einhvern tímann á næsta ári kemst ég í ágætan plús (sérstaklega ef þið hafið farið á vefverslunina og kaupið eintak eða farið í Spilavini eða Nexus). Síðan er ég hokinn af reynslu út af öllum mistökunum sem ég gerði.

Það er rétt að taka fram að auðvitað gerði ekki nákvæmlega allt einn. Ég fékk aðstoð og ráð. Það er líka ákaflega góður kostur að geta beðið um aðstoð. Það er síðan enn betra að hafa fólk í kringum sig sem er tilbúið að hjálpa. Takk allir.

Svarthöfði, eða: Áhrif mín á borgarlandslagið

Ég veit ekki hve mörg ár eru síðan að Mummi mágur stakk upp á því að gefa einhverri götu í Reykjavík nafnið Svarthöfði. Það festist í mér.

Fyrir rétt rúmum tveimur árum setti ég þessa hugmynd á Betri Reykjavík. Hún fékk nokkuð góðan stuðning og fór í ferli. Ég veit ekki hvers vegna ferlið tók svona langan tíma. En fyrir stuttu var þetta rifjað upp og það var potað í fólk hjá borginni. Í dag var tillagan síðan samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði. Bratthöfði verður Svarthöfði. Þegar skiltið kemur upp geri ég fastlega ráð fyrir að mæta þangað með hjálminn minn til að taka mynd. Síðan vona ég bara að þetta eigi eftir að gleðja fólk.

Hey, hef ég nefnt að ég er að gefa út stórfyndið spil og vantar stuðning? Kíkið á Kommentakerfið.

42 nördastig í sjónvarpinu og einhver rokkstig í viðbót

DonÞó ég sé ekki alveg óvanur því að mæta í sjónvarp þá er nokkuð óvenjulegt að ég birtist tvisvar sama kvöldið. Ég fór í fyrradag í upptöku fyrir Kiljuna að tala um Rafbókavefinn og rafbækur. Það var síðan í þætti gærkvöldsins (rétt fyrir 29. mínútu).

Ég vandaði mig á að koma nördatilvísun í þáttinn. Þegar ég sýndi Kindle þá sást að skjámyndin var þessi. Þetta er auðvitað vísun í Hitchhiker’s Guide to the Galaxy eftir Douglas Adams. Þetta sýnir um leið að það er búið að „roota“ tækið til að skipta út skjámyndunum. En það sem færri vita er að ég er þarna líka að vísa í XKCD brandara um Kindle.


Ég kom síðan líka nokkuð óvænt í fréttum (á 10 mínútu) þegar verkfallsverðir birtust í fylgd fréttamanna á bókasafninu mínu. Þar var ég að fara yfir bækurnar á safninu á meðan Týr hljómaði með plötuna Valkyrja (sú nýjasta – alveg æði). Þar eru rokkstigin.

Afmælisplögg

Ef þið viljið gera eitthvað fallegt fyrir mig þá sting ég upp á að þið skráið ykkur á dreifða prófarkalestursvefinn og lesið yfir nokkrar síður.

Ef þið viljið ekki ganga svo langt þá megið þið dreifa þessari færslu þar sem er kynning á og leiðbeiningar um dreifða prófarkalestursvefinn. Hvetjið um leið vini og vandamenn að taka þátt í verkefninu.

Árið 2013

Augljóslega var Ingimar Vilhelm atburður ársins.

Afrekaði eitthvað með Rafbókavefinn en eftir því sem liðið hefur á árið þá hef ég haft minni frítíma (sem er í beini samhengi við aðalatburð ársins). Vona að ég taki mig á á næsta ára.

Fór í smá aðgerð sem tókst vel.

Kenndi aðeins í Endurmenntun.

Ferðaðist aðeins um landið.

Hjólaði meira en í fyrra. Hjólaði frá Langanesi að Selárdalslaug.

Handleggsbraut mig örlítið.

Stóð mig vel í vinnunni. Mörg smá afrek sem glöddu mig.

Gerði tvo útvarpsþætti.

Tók Truflun.net í gegn.

Bloggaði ekki nóg.

Spilaði ekki nóg.

Hitti vini mína ekki nóg.

Lagði grunninn að meiri sköpun á næsta ári.

Afmælið og svoleiðis

Á laugardagskvöldið held ég upp á afmælið mitt og býð upp á einhverjar kökur, brauð og þess háttar. Allir vinir mínir eru vissulega velkomnir, bara látið mig vita ef þið viljið líta.

Viðtalið í Fréttablaðinu hefur vakið athygli, sérstaklega þær uppljóstranir sem þar er að finna. Best þótti mér að heyra um viðbrögð Sóleyjar Önnu sem er næstum sex ára. Hafdís systir mín bloggaði um þau:

Dóttir mín las viðtalið og hváði í miðjum lestri “HA, á Óli von á barni?” Við höfðum ekkert haft fyrir að tilkynna henni þetta enda eru margir mánuðir enn í júlí og erfitt fyrir litla manneskju að bíða svona lengi.

Það var semsagt búið að ákveða að upplýsa þetta um það bil um afmælið mitt og þegar Fréttablaðið hringdi ákvað ég bara að láta þetta flakka. Það er líka farið að sjást á Eygló þannig að þessu verður ekki leynt mikið lengur.

Afmælislagið

Í morgun stimplaði ég mig inn og brá þegar afmælislagið var spilað fyrir mig. Samt hefði ég alveg átt að vita þetta.

Yfir köku og muffins var sungið fyrir mig.

Það er alltaf heppilegt fyrir karlmenn sem baka að þeir fá strax hrós þó mun duglegri konur veki varla neina athygli með því.

Ég fékk síðan pakka frá samstarfsfólki, Silfursafnið, Vonarstræti, sérhannað kort og smá bónus.

Það er bara gaman að eiga afmæli.