Gleraugnaglámur #2 og safnanótt

2007_0223_222726aa.JPGÉg fór í sjónmælingu áðan og ég er með -1 á báðum, alveg eins og Eygló. Ég valdi gleraugu og fæ þau á morgun. Ég er búinn að nota önnur gleruaugun hennar Eyglóar í kvöld og finnst heimurinn allt í einu mun skarpari. Ég set inn mynd af mér með eigin gleraugu á morgun.

2007_0223_225534aa.JPGÉg hélt að ég myndi sleppa við þetta þar til að ég yrði fjarsýnn gamall maður en nei. Systur mínar hafa báðar verið með gleraugu frá unga aldri og bjóst lengi við því að ég fengi líka en aldrei kom dómurinn. Það kom mér því töluvert á óvart í gær þegar ég áttaði mig á að það væri nú eitthvað að sjóninni.

Mér þykja þetta engar hörmungafréttir. Ég nýtti mér það meiraðsegja áðan á fyrirlestri um kjarnorkuviðbúnað á Íslandi að taka niður gleraugun til að leggja áherslu á mál mitt. Áhugaverður fyrirlestur.

2007_0223_203540aa.JPGFór líka á Náttúrugripasafnið að skoða gervigeirfugl. Hann var svoltið gervilegur.2007_0224_031040aa.JPG
Á Borgarbókasafninu hittum við Unni sem ákvað að spjalla við hann Sverri Guðmunds um æsku hans í Reykjavík.

Á Þjóðminjasafninu svaraði ég ýmsum spurningum. Það var reyndar svoltið skondið að ég þekkti þrjá af þeim sex sem voru að stimpla fólk þar…

Gæti verið?

Ofan á sjónvarpinu liggur hulstur af Seinfeld diskum.  Þegar ég horfi á það þá sé ég móta fyrir Seinfeld lógóinu og síðan einhverjum hvítum texta.  Þegar ég set gleraugun hennar Eyglóar upp þá get séð stafina í lógóinu og einnig lesið að þetta er Season 5.  Gæti verið að ég þurfi gleraugu?
Þetta er voðalega skrýtið af því að ég hef ekki fundið fyrir því að ég sjái illa.  Áðan horfðum við Eygló saman á MirrorMask (sem við mælum bæði hiklaust með, Neil Gaiman klikkar ekki) og ég notaði gleraugu meiripart myndarinnar.  Ég sá allt skýrt þegar ég hafði gleraugun en fannst þetta fara í móðu þegar ég tók þau niður.  Áður en ég prufaði gleraugun þá hafði ég alls ekki þá tilfinningu að ég sæi allt í móðu.

Allavega ætla ég að panta tíma í sjónmælingu.  Er einhver sérstök ástæða fyrir því að ég ætti ekki að láta mæla sjónina mína í gleraugnabúð í stað þess að fara til augnlæknis?

28 ára

afmaeli.jpgRokkstjörnuferill minn hefst í dag. Ég hef náð því að verða 28 ára og er ekkert ósáttur við aldurinn.  Afmæli eru góð til þess að skoða það hvar maður er staddur, hvar maður hefur verið og hvert maður er að fara.

Ég er ánægður með það hvar ég er í dag.  Ég hef aldrei lifað jafn skemmtilegu lífi. Vandamál mitt er yfirleitt það að ég hef of lítinn tíma fyrir allt sem mig langar að gera. Ég umgengst dagsdaglega alveg frábært fólk. Við Eygló höfum náð aftur saman eftir erfiðleikatímabil. Ég er heppinn maður.

Fortíðin er ekki jafn frábær en ég læt hana ekki ergja mig í nútíðinni.  Reyndar má segja að síðustu fimm ár hafi verið ákaflega góð, merkilegt nokk (og líklega er það ekki tilviljun) þá er það um það bil sá tími sem ég hef búið í Reykjavík.

Framtíðin lítur vel út.  Túdú-listinn minn lengist. Ég á mjög líklega eftir að eyða meiri tíma erlendis á þessu ári en nokkru sinni fyrr. Ég mun vonandi vinna að áhugaverðri rannsókn og skrifa töluvert í minni áhugaverðu MA-ritgerð. Hugsanlega mun ég flytja eins og einn fyrirlestur. Versti hlutinn við allt þetta er að ég þarf víst að skrifa ótal umsóknir en maður verður að lifa með því.

Í dag tek ég á móti gestum að heimili mínu frá klukkan þrjú. Þetta er að sjálfssögðu fyrst og fremst afsökun fyrir því að baka. Kleinurnar eru til, skúffukakan líka en kremið á hana og möffinsið er ekki komið.

29 spurningar og svör

Valdís ákvað að láta mig svara spurningum, þakka henni þar sem ég mér finnst þeta voðalega gaman.

1. Hvað er klukkan? 23:16
2. Hvaða nafn er á fæðingarvottorðinu þínu? Nú eru margir spenntir en því miður þá er ekkert nafn á fæðingarvottorðinu mínu, allavega ekki mitt. Gamla nafnið mitt var á skírnarvottorðinu.

3. Hvað ertu kölluð/kallaður? Óli og stundum Gneistinn. Óli litli á sumum jólapökkum.

4. Hvað voru mörg kerti á síðustu afmæliskökunni þinni? Ekkert svo ég muni, hugsanlega einhver smarties.

5. Hár? Dökkt, stutt.

6. Göt? Vinstra eyra.

7. Fæðingarstaður? Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

8. Hvar býrðu? Í Bökkunum.

9. Uppáhaldsmatur? Úff, pizzurnar á Stúdentakjallaranum kannski.

10. Einhvern tíma elskað einhvern svo mikið að það fékk þig til að gráta? Já
11. Gulrót eða beikonbitar? Eiginlega hvorugt.

12. Uppáhalds vikudagur? Í augnablikinu er það þriðjudagur.

13. Uppáhalds veitingastaður? Eldsmiðjan
14. Uppáhalds blóm? Sóleyjar.

15. Uppáhalds drykkur? Kók.

16. Disney eða Warner brothers? Humm… Disney væntanlega yfir heildina.

17. Uppáhalds skyndibitastaðurinn? American Style.

18. Hvernig er teppið í svefnherberginu á litinn? Teppi? Gul motta í gestaherberginu.

19. Hver var síðastur til að senda þér tölvupóst? Hope Knútsson.

20. Í hvaða búð mundir þú vilja botna heimildina á kreditkortinu? Queenonline vefversluninni eða bara Amazon.

21. Hvað gerir þú oftast þegar þér leiðist? Les blogg, horfi á eitthvað léttmeti, hlusta á tónlist. Spila Bubbles.

22. Hvaða spurning sem þú færð fer mest í taugarnar á þér? „Er trúleysi ekki bara ein tegund trúar“ er hátt á listanum.

23. Hvenær ferðu að sofa? 23-04
24. Hver verður fyrstur til að svara þér þessu? Ásgeir
25. Hver af þeim sem þú biður um að svara þessu er líklegastur til að svara ekki? Eygló enda er hún ennþá að semja svörin við sjöulistann.

26. Uppáhalds sjónvarpsþáttur? Í augnablikinu er það My name is Earl.

27. Með hverjum fórstu síðast út að borða? Eygló.

28. Ford eða Chevy? Ford?
29. Hvað varstu lengi að klára að svara þessu? 9 mínútur.

Ég bendi á Huggu, bendi á Sigrúnu, bendi á Ásgeir, bendi á Cócó og bendi á Eygló.

Hvað er í veskinu mínu?

Í veskinu mínu er:
* Rauða kortið, gildir í mánuð í viðbót.

* Ökuskírteini, gefið út í fyrra af því að myndin á hinu var að upplitast.

* Viðskiptaspjald frá bifreiðaverkstæði.

* Afsláttarkort frá Videóheimum, ekki notað í svona ár eða svo.

* Gegnisbókasafnskort
* Bókasafnsskírteini frá Bókhlöðunni
* Félagsskírteini í Bíófélaginu 101, notað tvisvar ef ég man rétt en ég veit ekki hvað varð um félagið.

* Debetkort
* Viðskiptakort frá Bykó, fékk það sent þegar ég keypti íbúðina
* Viðskiptakort frá Húsasmiðjunni, sömuleiðis
* Afsláttarkort frá American Style, slatta notað
* Félagsskírteini í Þjóðbrók
* Mynd af Eygló og mér tekin 1. maí 1999, alveg nýbyrjuð saman
* Upplituð gömul mynd af Eygló
* Svarthvít passamynd af Eygló
* Litpassamynd af Eygló
* Miði frá Miracle tónleikunum
* Ýmsar kvittanir, sérstaklega frá Tollinum
* Bíómiðar af Wallace & Gromit
Hvað segir þetta um mig?