Orðinn að konu

Ég er hættur að vera vitrænn. Skoðaði færslu frá því í dag og hún var full af villum. Áðan horfði ég á þátt um konu Einstein og táraðist næstum í lokin yfir því hvað þetta var sorglegt. Það er ekki svo slæmt. Næst horfði ég American Dad og táraðist næstum yfir því að geimveran væri orðinn hluti af fjölskyldunni. Ég er orðinn kona í veikindum mínum.

Þetta síðasta var tilvísun í American Dad þáttinn áðan og því eiga frjálsræðisfautar ekki að skjóta mig.

Framtíðarplönin

Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hvað ég á að gera þegar ég lýk námi í bókasafns- og upplýsingafræði næsta vor, þá kominn með lögverndaða starfsheitið bókasafns- og upplýsingafræðingur. Í augnablikinu er ein hugmynd efst á blaði og það er mastersnám í þjóðfræði.

Ég játa að metnaður minn í BA-náminu hefur ekki verið mikill, í raun hef ég einungis haft það markmið að halda mér yfir 7.25 í meðaleinkunn. Þetta hefur mér tekist og það er afar ólíklegt að meðaltalið mitt lækki mikið við þessar 21 einingu sem ég á eftir.

Ég hef núna verið að taka þjóðfræði sem aukagrein og í raun verður næsta önn mín einungis innan þeirrar greinar. Ég hef fundið fyrir löngun að læra meira þarna, hef velt upp þeirri hugmynd að uppfæra í tvöfalt BA-próf en fékk þá niðurstöðu að það væri nú ekki sérstaklega spennandi. Til þess að fara í mastersnám í þjóðfræði þá þarf maður að hafa klárað 15 einingar á BA-stigi og það hef ég í raun þegar gert. Ég ætla semsagt núna í haust að fara að ræða við Terry Gunnell um möguleikann á mastersnámi og hvernig væri hægt að setja það upp. Mjög spennandi möguleiki þar á ferð.

Ég held líka að ég gæti hugsanlega reddað mér hlutastarfi við mitt hæfi með mastersnáminu, það eru til dæmis ýmis verkefni á bókasöfnum sem eru ekki háð reglulegum vinnutíma, skráning og flokkun til dæmis. Ég verð að skoða þetta þegar á líður.

Íbúðakaupin voru vissulega plönuð með það til hliðsjónar að ég gæti vel verið í námi í þrjú ár. Við höfum reiknað það út að við getum vel lifað jafnvel þó Eygló finni sér ekki vinnu strax. Reyndar er staðan hjá Eygló þannig í augnablikinu að hún á auðveldlega að geta reddað sér vinnu þegar hún útskrifast núna í október.

Ofsóttur af Doktornum?

Í tilefni flokkunartalningarinnar þá er best að fjölga í þessum. Ég er alls staðar að sjá Dr. Gunna núna. Í síðustu viku sá ég hann fyrir utan heimili mitt, náði meiraðsegja að heilsa, meðan ég klöngraðist úr bílnum með kauptilboðið sem var samþykkt. Síðan sá ég hann á vappi í Egilshöll (hvenær kemur stóri dómur um Duran?) í gær. Nú rétt áðan sýndist mér hann trítla hérna um ganginn frammi. Er Doktorinn að stalka Gneistann?

Gráu hárin eða …

…gráa *hárið* í eintölu. Ég er með grátt hár, eitt stykki. Ég held að ég hafi aldrei fengið slíkt áður (ef ég man rétt). Ég stóð áðan inn í starfsmannarými og starði í spegilinn eftir að ég sá þetta. Að sjálfssögðu kom einhver að mér, sá hefur haldið að ég væri aldeilis hégómagjarn. Ég spurði hann líka hvort að þetta væri rétt athugað hjá mér.

Það var nú gott að þetta kom ekki upp í kosningabaráttunni, við hefðum getað misst töluvert fylgi ef sést hefði í grákoll á auglýsingunum. Stóra spurningin er náttúrulega hvort ég eigi að lita hárið. Ætli tússpenni gæti ekki reddað mér? Eða á ég að plokka? Eða nota vax? Hvað get ég gert til að bjarga unggæðingslegu útliti mínu frá hrörnun? Verð ég orðinn einsog Steve Martin á næsta ári? Hvíthærður fyrir þrítugt? Hvað get ég gert?
Reyndar er það svo að hárið skiptir mig litlu máli, ég geri það sem ég get til að koma í veg fyrir að það flækist fyrir. Raka það á svona þriggja mánaða fresti. Það fer að koma að því að það fjúki allt saman, ég er of hárprúður um þessar mundir. Það væri allt í lagi að verða gráhærður en mér þetta skemmtilegast að verða náttúrulega sköllóttur, þá þyrfti ég aldrei að gera neitt fyrir hárið.

Eru þetta skemmtilegar greinar?

Ég var að spá í að vekja athygli á þeim greinum sem ég hef skrifað á Vantrúna og spyrja lesendur mína hvort eitthvað sé varið í þær. Þetta er vissulega egóthing (eða kannski er ég bara leitandi sál?) að spyrja svona að mig langar að vita. Ég ætla annars ekki að fara í rifrildi um innihald greinanna því slíkt fer fram á þeim vef er hýsir þær. Ég vill fá uppbyggilega gagnrýni svo ég geti farið í fýlu.

Loksins fræga fólkið

Ég veit að lesendur mínir hafa saknað liðsins sem í gamla daga kallaðist frægi kall dagsins. Það fjallaði um allt fræga fólkið sem kom að versla hjá mér. Núna hitti ég ekkert frægt fólk í vinnunni.

Á föstudaginn hitti ég hins vegar frægan tónlistarmann, það var Ómar úr Quarashi (ef ég hef hitt á að stafa þetta rétt þá er ég snilld). Ómar er vinur Nils og ég var snöggkynntur fyrir honum þegar við vorum heima hjá Nils bókasafns- og upplýsingafræðinördar (ég er næstum því orðinn þesskonar nörd þannig að ég get alveg kallað mig það). Nú geta allir verið glaðir fyrir mína hönd.

Annars þá er ég ekkert slæmur í þessu, það er til fólk sem er hrikalega mikið fyrir namedropping í skrifum sínum. Ég fór þarna og þá kom X og settist hjá mér því við þekkjumst og ég er svo frábær af því X þekkir mig og X er ofsalega frægur. Skrollum aðeins niður þessa síðu og finnum ég var í partíi og þar var X og við spjölluðum um allt milli himins og Jarðar.

Ég mun samt sem áður upplýsa alla um gleði mína yfir að hitta fólk sem 20+% Íslendinga vita hver er.