Opinn hugbúnaður í rekstri

Eftir að hafa skoðað Twitterþráð um kostnað fyrirtækis við hugbúnað fór ég að pæla í því hvað ég er að spara með opnum hugbúnaði.

Ég nota Nextcloud í staðinn fyrir OneDrive/Google Drive/Office 365/Trello og margt fleira. Auðvitað þarf einhverja tölvukunnáttu að setja upp Nextcloud.

Það er Linux Mint á tölvunum.

Libre Office kemur í staðinn fyrir Microsoft Office – það spilar líka rosalega vel með Nextcloud.

Gimp/Krita/Inkscape í myndvinnslu – hef aldrei notað Photoshop að neinu ráði.

Í umbroti nota ég Scribus.

Fyrir upptöku og klippingu nota ég OBS Studio, Audacity og Kdenlive.

Margir nota ekkert póstforrit en þegar ég fór af Gmail byrjaði ég að nota Thunderbird og það er dásamlegt skipulagstól sem vinnur líka frábærlega með Nextcloud.

Bókhaldið er ennþá í lokuðu kerfi en mig langar að breyta því.

Þó það sé lítill kostnaður í þessu reyni ég reglulega að gefa þessum verkefnum peninga (þó mörg þeirra séu bara mjög vel fjármögnuð nú þegar).

Vanmetið starf á Stöð 2

Þegar ég vann á filmusafninu á Stöð 2 þá þótti mér skemmtilegast þegar ég  fékk verkefni sem snerust um að grafa upp gamalt efni. Það gerðist ekki nógu oft. Mest lagði ég á mig við að finna efni fyrir þátt af Sjálfstæðu fólki um Emilíönu Torrini. Ég notaði ýmsar aðferðir við að grafa upp efni og það hjálpaði töluvert að ég var aðdáandi. Ég fann ekki bara tónlistarmyndbönd heldur til að mynda viðtalsþátt með Gísla Rúnari  þar sem hún dró stól út úr settinu.

Allavega, þegar þátturinn var loksins sýndur þá er náttúrulega ekki minnst á minn þátt í þessu. Fólk sem lagði mikið minna til þáttarins var nefnt í kredits en mitt nafn sást hvergi. Mér þótti það svoltið skítt og það minnkaði töluvert áhuga minn á þessu starfi.

Tveggja daga vinnuvikan

Í gær og í dag hefur mér fundist eins og vinnuvikan ætti bara að vera tveir dagar. Bæði er þetta út af jólafríinu og vegna þess að fyrstu tvo daga vikunnar er ég einmitt í útlegð frá skrifborðinu mínu.

En ég hyggst taka upp 2-3 daga vinnuviku frá og með febrúar. Það gefur manni færi á að skrifa eins og eina meistararitgerð, eða restina af henni.

Ég er annars frekar geispandi. Stefna kvöldsins er að sofna ekki fyrren í fyrsta lagi tíu svo ég nái heildstæðum nætursvefni.

Kíktum í Kringluna

Við ákváðum að kíkja í Kringluna á leiðinni heim. Aðalástæðan var sú að við vildum kíkja á 50% útsöluna í Skífunni. Það höfðu greinilega einhverjir kíkt á undan okkur því lítið var eftir af áhugaverðu stöffi. Við keyptum eitthvað smávægilegt. Eftir það ákváðum við að fá okkur eitthvað snarl. Við röltum á milli staða á Stjörnutorgi en mundum þá að við eigum tilboð í Kringlukránni. Við fórum því þangað og fengum okkur pizzur.

Það eru núna sex og hálft ár síðan ég hætti á Kringlukránni. Ég vann þar í hátt í ár sem uppvaskari um helgar. Það var ekki svo slæmt. Ef ekki hefði verið fyrir reykingarnar þá hefði ég kannski unnið þarna lengur. Ég held reyndar að fáir hafi enst lengur í þessu starfi þarna en ég.

Launin

Þar sem engum fannst ég nógu merkilegur til að láta mig á tekjulista þá upplýsi ég hér með að ég var með að meðaltali 0 krónur í laun á mánuði í fyrra. Ég vann mér semsagt ekki inn neinn pening með venjulegri vinnu. Staðan er allt öðruvísi í dag en í fyrra var ég bara að sinna náminu.

Í myrkrinu

Það er notalegt að mæta fyrstur í vinnuna og sjá að húsvörðurinn hefur gleymt að kveikja ljósin. Það væri ágætt að leggja sig bara fram á borðið. En ég hef stóra glugga hérna þannig að mig skortir ekki beinlínis ljós þannig að ég vinn bara. Og böggið, það er búið að kveikja.