Spínat

Ég deili ekki ást kokksins hérna á spínati. Þetta er líklegasta ein ofmetnasta matvara í heimi. Einhvern tímann á fyrrihluta aldarinnar olli gölluð rannsókn því að járninnihald spínats var ofmetið. Það varð síðan til þess að teiknimyndapersónan Stjáni blái notaði það til að styrkja sig. Í kjölfarið hafa væntanlega flestir krakkar sem lesið hafa þessar sögur eða séð teiknimyndir byggðar á þeim prufað að fá sér spínat til að verða stór og sterk. Án árangurs augljóslega.

Er ekki komin tími til að jarða spínatgoðsögnina og jafnvel spínatið sjálft?

Fólkahittingar

Það er ekki oft sem maður rekst á Hilmarssyni, þá Pál og Himma en ég sá þá báða í dag, hvorn í sínu lagi. Ég sá reyndar mjög mörg kunnugleg andlit á fyrirlestrinum hennar Unnar, mikið af þjóðfræðingum og bókasafns- og upplýsingafræðingum. Hugsanlega voru einhverjir sagnfræðingar þarna líka. Á leiðinni heim í Strætó sáum við Eygló vel dúðaðan mann hlaupa til að komast með. Þar var hann Hallgrímur Snær og hann náði að hoppa inn í. Spjölluðum við hann þar til hann hoppaði í burtu.

Ég byrjaði reyndar daginn á að rekast á ljóð eftir góða vinkonu mína í riti sem varð á vegi mínum. Eitt af því skemmtilega í starfi mínu er hvað ég sé mikið af afrekum vina minna og kunningja.

Í dag bað ég síðan um að fá Firefox í tölvuna í vinnuna og því verður væntanlega reddað. Þá verð ég glaðari og hætti að ergja mig á Explorer.

Hádegishittingur, hálfgildingsvinna og rólegheit Íra

Í dag var eiginlega fyrsti dagurinn í vinnu en þó ekki. Fór í tíma í H.Í. á vegum vinnunnar í upprifjunarskyni.  Á morgun eru síðan námskeið sem heldur áfram á miðvikudag og fimmtudag. Vinnan hefst í alvörunni á föstudag.

Í hádeginu var gaman. Bókasafns- og upplýsingafræðinördarnir hittust. Yfirleitt eru einhver afföll en við Eygló, Nils, Halli, Danni og Hjördís komumst öll. Ægilega gaman og við vorum að tala um að gera þetta reglulega. Það var rætt um margt og þá sérstaklega ritdeila síðustu viku. Mikið hlegið.

Írar eru rólegir. Ég hef ekki ennþá fengið einkunnir. Í dag fékk ég síðan upplýsingar um fasteignamiðlunin sé að bíða eftir síðasta rafmagnsreikningnum til þess að geta borgað mér það sem ég á inni af tryggingargjaldinu. Enginn flýtir sér.