Bloggkennarinn og ofurnördið (ekki sami aðilinn)

Verst að ég var ekki með áhugaverða færslu í morgun þegar ég fékk fullt af heimsóknum frá Fréttum. Hvað um það, reyni aftur.

Í dag var ég að spjalla við vinnufélaga minn (sem er reyndar að fara að hætta á morgun) og þá komst ég að því að hann hafði haft Orminnsem kennara síðasta vetur. Ég spurði hann hvað honum finndist um Orminn og hann svaraði því. Ég spurði hann síðan hvort hann stundaði að lesa bloggsíðu kennarans og hann sagði að það hefði hann gert, allavega í vetur. Hann sagði mér að honum hefði ekki liðið vel þegar Ormurinn var að tala um það á blogginu sínu að enginn hefði getað svarað ákveðinni spurningu á prófi.

En ég spjallaði síðan heilmikið við þennan náunga og kom í ljós að við eigum margt sameiginlegt, svipaðir á nördalevelinu, hann að vísu klassískari nörd enda á leiðinni í lífefnafræði.

Þetta minnir mig samt á að Mummi mágur fékk hærri einkunn en ég í nördaprófinu, hann fékk 43.3925%. Mummi er sigurvegari í bili.

Og ef einhver var að spá þá sagði hann að Ormurinn væri undarlegur.

Vesen á vinnustaðnum

Trúnaðarmaðurinn í vinnunni hjá mér var víst rekinn í gær, málið í heild sinni er mjög skrýtið en við fyrstu sýn þá grunar mig að yfirmaðurinn hafi rétt fyrir sér í þessu máli. Þetta mál kom fyrst upp fyrr í sumar en ég tek ekki eftir neinu því ég er í kælinum. Þetta mál á örugglega eftir að draga dilk á eftir sér, vesen, fundir. Þarf líka að kjósa nýjan trúnaðarmann ef uppsögnin stendur, ég hef þá líklega kosningarétt.

Kvart og kvein

Þessa daganna er ég ægilega ófrumlegur, dettur varla í hug að skrifa um annað en hvað ég hlakka til að klára þennan mánuð. Ég á eftir að vinna 12 daga (13 ef sá sem ætlar að vinna fyrir mig á laugardaginn verður ennþá veikur), þar af 8 á dagvakt og síðan 4 notalega daga á kvöldvakt. Gærdagurinn var ekki til að minnka leiðindi mín af vinnunni (vinnan er reyndar ekki svo slæm en þrír mánuðir þarna er nóg fyrir mig), ég var tekinn af notalega kælinum og látinn vera á almenna ganginum. Þetta var aðallega vegna þess að það voru sex veikir. Það er hrikalegt að hafa undirbúið sig undir rólegan þriðjudag og allt í einu er fullt að gera.

Ásgeir er víst að fara á Sauðárkrók að kenna ensku og íslensku þannig að í kvöld förum við til hans að gera húsgögn upptæk. Það eru minna en þrjár vikur þar til við flytjum og við erum ekki byrjuð að pakka í alvörunni, reyndar eru þrjár helgar þangað til við flytjum þannig að nægur er tíminn. Spóla fram í tíman.

Nú vill ég rólegar vikur í vinnunni, ekkert að gera.

Við Eygló þurfum að redda alveg haug af eyðublöðum áður en við flytjum, líka fyrir þann 23ja. Þoli ekki eyðublöð, þar af leiðandi gæti ég aldrei flutt til Bandaríkjanna.

En ég er ekki að segja neitt áhugavert, fer að klæða mig í vinnufötin.

Vinna í vetur

Ég var löngu búinn að ákveða að ég myndi ekkert sækjast eftir því að fá vinnu með skóla í vetur á þeim stað sem ég er að vinna á. Í dag kom yfirmaður minn til mín og bauð mér vinnu á laugardögum í vetur, trúr sjálfum mér hrundi ég alveg og sagði já. Of erfitt að neita sér um fastan launaseðil mánaðarlega þó launin séu lág og vinnan lítil (4 og hálfur til 5 tímar á hverjum laugardegi). Ég ætla samt að biðja hann um meðmælabréf til að hafa ef ég sæki um eitthvað fleira. Mestu meðmælin hljóta samt að vera að hann bauð mér að vera áfram.

En nokkrir tímar á laugardagsmorgnum er ekkert mál, að vísu er ég núna alltaf þreyttur eftir þessa morgna en þá koma þeir í kjölfar erfiðrar vinnuviku, allt í lagi að erfiða í nokkra tíma í hverri viku. Og síðan get ég alltaf hætt.

Sem minnir mig á að ég á alltaf fast atvinnutilboð ef ég nenni að fara í gamla hlutastarfið sem ég var í, en ég efast um nenn mitt til þess.

En ef þið viljið bjóða mér vinnu þá getið þið endilega sent mér póst á oligneisti hjá http://kaninka.net.