Samviskuframlög í lok árs

Þar sem fjárhagsárið hefur verið gott í spilaútgáfu þá tók ég mig til og lagði smá peninga fram í nokkur verkefni sem koma starfsseminni við.

Audacity er opinn hugbúnaður fyrir hljóðvinnslu.

Kdenlive er opið klippiforrit.

Internet Archive varðveitir netið að stórum hluta og ótal verk þar að auki.

Það voru nokkur önnur verkefni sem ég skoðaði en þar var oftast frekar leitað eftir vinnuframlagi heldur en peningum. Önnur vildu bara mánaðarleg framlög sem heillar mig ekkert sérstaklega af því að ég vil ekki vera að færa svona til bókar oft á ári og sérstaklega ekki þegar upphæðin flakkar til með genginu.

Auðvitað ættu allir sem nota þessi opnu verkefni í rekstri að gefa eitthvað til að halda þeim gangandi.

Síðan tók ég mig til og leitaði uppi reiknivélar til að sjá hvað ég þyrfti að gera til að kolefnisjafna spilaframleiðslu- og flutninga. Ég valdi að endurheimta votlendi af því að ég fékk útskýringu á því hvernig mýrarnar virka fyrr á þessu ári. Útreikningurinn sýndi að lokum að ég hafði ekki eyðilagt loftslagið jafn mikið og ég hélt. Ég námundaði því bara upp enda ég hef ekki gert þetta áður. Auðvitað ættu svona framlög að vera skilyrði fyrir alla sem er í rekstri og framleiðslu.

Nauðhyggja gena

Guðmundur Andri Thorsson er líklega ofmetnasti pistlahöfundur landsins (ad hominem).

Þeir tala um alkóhólistagen. Og var víst eitt af því sem átti að gera okkur rík í síðustu bólu – að hafa þessi óskaplegu gen. Ég veit það ekki. Ég er ekki nógu vel að mér í líffræði til að vita hvort til sé alkóhólistagen, þjófagen, lygagen, utanviðsig-gen eða kærleiksgen. Held samt ekki. Getur ekki verið að við höfum gert fullmikið úr því að allt okkar framferði stafi af virkni gena? Er þetta ekki hálf vonarsnauð viska og vélræn? Er þessi vísindatrú studd eitthvað meiri þekkingu – í raun og veru – en önnur trúarbrögð?

Byrjum á því fyrsta, það er „sekt sökum tengsla“ (guilt by association) rökvillan. Rannsóknir á genum eru tengdar bóluhagkerfinu til að varpa rýrð á þær. Síðan er restin eiginlega strámannsrökvillan. Það er enginn sem er vel að sér í erfðafræði sem telur vera svona nauðhyggjutengsl milli gena og hegðunar. Þetta er misskilningur fólks sem hefur ekki vit á málinu. Guðmundur Andri játar reyndar að hann skorti þekkingu en hann ákveður samt að draga ályktanir af sinni takmörkuðu þekkingu.

Það má reyndar segja að Guðmundur Andri sé meira einkenni á vandanum heldur en vandinn sjálfur. Almenningur er almennt uppfræddur um erfðafræðirannsóknir af blaðamönnum sem sjálfir skilja ekki fræðin. Síðan koma pistlahöfundur eins og Guðmundur Andri – sem hvorki skilja fræðin né hafa haft tækifæri til þess að lesa nokkuð af viti um málin – og skrifa um hve þessi fræði séu nú rugluð. Íslenska fjölmiðla skortir vísindablaðamenn.

Gen spá ekki 100% fyrir um hegðun. Það að þú hafir þetta svokallaða alkahólistagen þýðir ekki þú verðir alkóhólisti. Slíkt er samspil umhverfis og erfða. Við getum sagt að alkahólistagenið auki líkurnar á alkahólisma sem er allt annað en nauðhyggja. Ef þú hefur alkahólistagen en elst upp í fjölskyldu þar sem enginn drekkur þá minnka líkurnar væntanlega. En þú getur hins vegar líka alveg verið með alkahólistagen og alist upp í alkahólistafjölskyldu og samt sem áður sleppt því að drekka.

En hvert er þá gagnið af því að þekkja þetta alkahólistagen? Í fyrsta lagi þá gæti maður einfaldlega fengið að vita að maður sé með það og þar af leiðandi haft betri grunn til að taka upplýsta ákvörðun um að hefja drykkju. Alveg á sama hátt og þeir sem vita að þeir hafa gen sem tengjast ákveðnum sjúkdómum geta reynt að taka upplýstar ákvarðanir um að forðast allt það sem getur aukið líkurnar á því enn frekar. Í öðru lagi er, eftir því sem ég best veit, ekki útilokað að hægt sé að slökkva á virkni ákveðinna gena. Þannig myndu líkurnar á alkahólisma hjá þeim einstaklingum væntanlega minnka – en þó líklega ekki hverfa.

Mér þætti nú gaman ef einhver sem hefur vit á fræðunum geti sagt mér hvort ég hafi á einhverjum punkti fullyrt meira en ég ætti að gera á grundvelli minnar takmörkuðu þekkingar. Ég veit nefnilega að þó ég hafi yfir meðallagi gott vísindalæsi miðað við bakgrunn minn í félags- og hugvísindum þá vantar ýmislegt upp á að ég hafi fullt vit á málunum.

Sjálfleiðréttandi vísindi

Ég las þessa frétt á Vísi sem er skrifuð af Óla Tynes um mistök í skýrslu frá Loftslagsnefnd SÞ um hraða bráðnunar jökla í Himalayafjöllum. Þar sem höfundur greinarinnar er ekki þekktur fyrir vandvirkni las ég upprunalegu greinina líka á The Times.

Stóra atriðið sem vantaði hjá Óla Tynes er það sem samsæriskenningasmiðir og fylgismenn þeirra munu hunsa. Það voru nefnilega loftslagsbreytingaefasemdarmenn sem komu auga á umrædd mistök. Það var vísindamaður sem sjálfur tekur fram að þessir jöklar séu að bráðna svo hratt að það þurfi ekki að ýkja það til að sjá hve slæmt það er. Það er málið með vísindi, þau eru sjálfleiðréttandi. Þarna var innbyggða efahyggja vísindanna að verki. Þessi vísindamaður var ekki að reyna að hjálpa sínu liði heldur bara að leita sannleikans. Það er gjörólíkt þeim óheiðarleika sem sást í kringum tölvupóstmálið stóra þar sem reynt var að gera það tortryggiilegt að einhver vísindamaður notaði orðið „trick“ þó það hafi verið augljóst að hann notaði það í merkingunni „aðferð“.

Niðurstaðan er sú að það er ekki annað hægt en að fagna því þegar maður sér að kerfið virkar.

Darwin um trú

Í dag á Darwin afmæli. Hann væri 200 ára gamall ef hann hefði lifað fáránlega lengi. Ég var lesa aðeins um kallinn til að sjá hvort ég gæti skrifað eitthvað um hann og rakst þá á kafla úr sjálfsævisögu hans um trúarskoðanir þessa merka manns. Mér þótti þetta nógu áhugavert til að þýða þó langt væri. Endilega kíkið á Darwin um trú. Í gær var líka Darwin dagur þar sem ég skrifaði greinina Apinn ég. Ég tek fram að ég verð ekkert sár þó þið vísið á þetta hjá mér og segið álit ykkar.

Undarleg spurning í skoðanakönnun

Ég hjó eftir svolitlu sem mér fannst undarlegt í skoðanakönnun sem er verið að tala um á Smugunni:

Spurt var: „Telur þú að boðskapur mótmæla- og borgararafunda undanfarinna vikna endurspegli viðhorf meirihluta þjóðarinnar?“   og voru eftirtaldir svarmöguleikar gefnir: 1) Já -fundirnir endurspegla viðhorf meirihluta þjóðarinnar; 2) Nei – fundirnir endurspegla ekki viðhorf meirihluta þjóðarinnar; 3) Veit ekki (þ.e. þeir sem tóku ekki afstöðu).

Það sem mér þykir skrýtið er að hér á fólk að svara um viðhorf þjóðarinnar í heild sinni en ekki eigið viðhorf. Í raun er niðurstaðan marklaus því hér gæti bara verið um almennan misskilning að ræða. Ef við vildum vita hvað fólki finnst hefði átt að spyrja það hvort mótmælin og borgarafundirnir endurspegluðu viðhorf þess. Það er alveg makalaust hve oft það gerist að illa hugsaðar og orðaðar spurningar koma fram í skoðanakönnunum. Svo maður tali ekki um netkannanir. Fjölmiðla sem nota svoleiðis ætti að banna.

Cosmos – dásamlegir sjónvarpsþættir

Við vorum loks að klára að horfa á Cosmos. Fyrir þá sem ekki vita þá eru þetta þættir sem bandaríski vísindamaðurinn Carl Sagan gerði og voru fyrst sýndir árið 1980. Þetta eru um margt merkilegir þættir þar sem Sagan fjallar um alheiminn, þróun lífs á jörðunni og þekkingarleit mannsins. Það er stórkostlegt að svona gamlir þættir geti ennþá heillað mann þetta mikið. Mikið til er þetta náttúrulega sjarmi Sagan sjálfs. Ég verð að mæla með að þeir sem eiga kost á því panti sér dvd með þáttunum eða reddi sér þeim með öðrum leiðum.

Næsta skref er væntanlega að lesa bækurnar hans sem ég hef aldrei komið mér í.

Hvar eru raunvísindamennirnir Egill?

Í stað þess að fá raunvísindamann til að útskýra fyrir okkur hvað er rétt og rangt í umræðunni um hnattræna hlýnun þá hefur Egill Helgason náð að draga upp fyrrverandi breskan ráðherra. Sá er á þeirri skoðun að við ættum ekkert að reyna að koma í veg fyrir loftslagbreytingar heldur bara reyna að bregðast við áhrifunum. Væntanlega með því að kaupa stuttbuxur. Forsendurnar sem hann setur sér eru reyndar fyrst og fremst efnahagslegar og hafa verið mikið gagnrýndar. Gaurinn kom víst líka fram í The Great Global Warming Swindle sem Egill var voðalega hrifinn af þó að hún miklu vitlausari en bæði meintar og raunverulegar ýkjur Al Gore.

Er Egill Helgason ekki bara einfaldlega að reyna að fela skoðun raunvísindamanna?

Dómari segir Gore fara með rangt mál

Ég hef rekist á bæði teikningu og staðhæfingar þar sem vitnað er í einhvern breskan dómara sem á að hafa fundið fullt af villum í mynd Al Gore. Ég tók ekki eftir þessum villum í fyrirlestri Gore og bjóst bara við að hann hefði lagað það sem aflaga fór. En ég ákvað síðan að skoða málið og rakst á þessa síðu. Þarna er farið í þessar meintu villur og þær skoðaðar með myndina til hliðsjónar. Þarna kemur í ljós að þessi dómari, sem er raunar ekki merkilegur pappír, fer ítrekað með rangt mál. Hann ýkir og rangfærir orð Gore til þess að geta sagt að þetta séu villur.

Þarna á meðal er hin meinta villa Gore að hann hafi sagt að sjávarborð muni hækka um 6 metra. Þetta sagði Gore aldrei. Raunar er töluvert af þessu atriði sem mætti gagnrýna Gore fyrir að vera ekki nákvæmur en það er fáránlegt að gagnrýna hann fyrir það sem hann sagði ekki.

Það er spurning hvort að þeir sem hafa verið að nota þessar meintu villur til að ráðast á Gore dragi staðhæfingar sínar til baka. Mig grunar að svo verði ekki. Það er kaldhæðni fólgin í því að þetta fólk sem er að gagnrýna Gore fyrir að hafa sínar staðreyndir ekki á hreinu er sjálft að treysta á afar vafasamar fullyrðingar.

Voðalega margir vísindamenn efast

Ég var að lesa blogg (eða komment) frá Hirti sem var einu sinni formaður „flokks“ „framfarasinna“ en varð síðan íhaldsmaður og að lokum bara bloggari. Hann var að vísa í Wikipediulista þar sem eru taldir upp vísindamenn sem efast um hitt og þetta í kringum hnattræna hlýnun. Mér varð strax hugsað til skrifa hans Lalla (sem var að sækja um doktorsnám í líffræði) þar sem hann bar saman þá sem efast telja hlýnun jarðar vera svikamyllu við þá sem efast um þróunarkenninguna.

Fyrir nokkrum árum gerðist það nefnilega að sköpunarsinnar ákváðu að búa til lista með lista yfir vísindamenn sem efuðust um þróunarkenninguna. Nokkrir vísindamenn ákváðu að hæðast að þessu framtaki og settu í gang „Project Steve„. Þetta verkefni gekk semsagt út á að búa til lista yfir vísindamenn sem efast ekki um þróunarkenninguna og hétu Steve (eða eitthvað nafn sem er skylt). Skemmst er frá því að segja að Steve listinn varð ákaflega fljótt lengri en þróunarsinnalistinn, innihélt fleiri líffræðinga og mikið virtari vísindamenn.

Mig grunar að hlutföll listana væru mjög svipuð ef eins listi væri gerður yfir vísindamenn sem heita Steve og telja hnattræna hlýnun af mannavöldum. Þetta er bara staðan. Vandinn er að vísindamenn eru voðalega lélegir að koma sér á framfæri og fjölmiðlamenn eru oft ákaflega latir að leita til þeirra. Það er engin raunveruleg rökræða í gangi um málið.